Lesbók Morgunblaðsins - 12.11.1983, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 12.11.1983, Blaðsíða 5
Teikning: Pétur Halldórsson Fvrirburður á Hellisheiði Smásaga eftir Önnu Maríu Þórisdóttur Hann var búinn að hlakka til allt vorið, — allt frá því hann fermdist á hvítasunnunni í Kotstrandarkirkju. Húsbænd- urnir ætluðu að gleðja hann með þessu í tilefni af fermingunni. Þessi pasturslitli munaðarleys- ingi hafði svo sem ekki gert sér neinar vonir um nokkuð af þessu tilefni. Hann hafði fermst 1 lánsfötum af Nonna á Læk og lítill dagamunur var gerður í litla kotinu, sem kúrði undir Kömbunum. Húsmóðir hans hafði nú samt bakað nokkra klatta og kandísmolinn með kaffinu var í stærra lagi. En svo hafði Guðmundur sagt: „Ég er að hugsa um að fara með ullina til Reykjavíkur þetta sumarið og leyfa þér með, geyið mitt. Það má kalla að það sé í tilefni af því að þú ert nú kom- inn í kristinna manna tölur Já, ég er að hugsa um að sleppa Bakkanum þetta sumarið og bregða mér til höfuðstaðarins og þá er gott að hafa fylgdar- svein. Mig langar líka til að sjá þessi miklu mannvirki, sem þeir hafa reist á Heiðinni. Þetta eru einar þrjátíu vörður og það ekki af minni sortinni og hlaðnar af þessum líka hagleik ..." Og Guðmundur þusaði og hafði mörg orð um hlutina, — enda ekki gripið fram í fyrir honum og hafði góða áheyrend- ur, þar sem voru eiginkonan, Vilborg, og niðursetningurinn, Láki. Síðan hafði hann hlakkað þessi ósköp til. Á hverjum degi hugsaði hann um þessa kaup- staðarferð — og það til sjálfs höfuðstaðarins. Tilhlökkunin létti honum störfin við sauð- burðinn, þegar hann rölti um bæjarlandið, húðvotur í vorrign- ingunum meðan þokukúfarnir ullu fram af brúnum Ingólfs- fjalls og huldu Kambana niður í miðjar hlíðar. Og hún gerði til- veruna bókstaflega að himna- ríki, þegar vorsólin skein yfir grænkandi sléttlendi Ölfussins og birtan endurkastaðist frá sjónum og allt varð svo ótrúlega vítt og hátt. Og þegar þreytan ætlaði að yfirbuga hann og verkirnir í grönnum handleggj- unum urðu næstum óbærilegir eftir að hafa barið úr mykju- hlössunum á túninu með klár- unni liðlangan daginn, þurfti hann ekki annað en að hugsa til Reykjavíkurferðarinnar og allt varð miklu bærilegra. Smalamennskan til rúnings var nú bara leikur og skemmtun og ekki hafði hann talið eftir sér að hlaupa upp undir Kamba- brún — langaði reyndar alla leið upp, svona til að gægjast upp á heiðina og vita hvort hann sæi ekki stóru vörðurnar, sem Guð- mundur hafði sagt honum frá, og taka þannig forskot á sæluna. En svo langt hafði hann ekki komist. Ríðandi smalamenn tóku þessar lengri leiðir að sér. Ekki hafði hann heldur talið eft- ir sér viðvikin við ullarþvottinn og þurrkunina — nú nálgaðist sú stóra stund að hægt væri að leggja af stað með ullina. Og þó nokkrar ánægjustundir átti hann úti í skemmutötrinu hjá Guðmundi meðan hann tegldi til og setti saman nýja klyfberann og lýsti fyrir honum þeim stóra stað, Reykjavík, og öllum krambúðunum, þar sem kaupmenn voru ósparir að skenkja viðskiptavinunum vín- staup. „O, ætli maður líti nú ekki inn í þær flestar, verslanirnar," sagði Guðmundur. Þá getur líka komið sér vel að hafa fylgdar- svein fyrri dagleiðina til baka, hugsaði hann með sér. Og einn góðan veðurdag var klyfberinn tilbúinn, svo og nýr torfreiðingur. „Fínt skal það vera,“ sagði Guðmundur. Tveir yrðu ullarpokarnir sitt hvoru megin og einn ofan í milli. Ein- hverstaðar yrði pláss fyrir upp- tíningsskjattann hans sjálfs, ekki skyldi hann heldur telja eftir sér að bera hann alla leið, ef þess gerðist þörf. Síðustu nóttina svaf hann varla fyrir til- hlökkun. Og svo fór þetta svona. Veður var kyrrt og skýjað, þegar þeir lögðu af stað gang- andi með burðarklárinn upp Kambana. Láki gat varla hamið sig, hann hálfhljóp upp bratt- ann og staðnæmdist svo lafmóð- ur, þegar upp var komið. Hann beið Guðmundar á brúninni og hlustaði þolinmóður á meðan hann þuldi yfir honum bæjar- nöfn og örnefni í sveitunum, sem breiddu úr sér við fætur þeirra. „Héðan er geysileg útsjón," sagði Guðmundur. „Alveg geysi- leg útsjón." Það var ekki fyrr en þeir komu lengra upp á heiðina, sem vörðurnar birtust. Og nú gaf á að líta: Kolsvartar risu þær þarna í endalausri röð og skáru sig vel úr gráu helluhrauninu og gulgrænum mosanum. „Þetta eru geysileg mann- virki," sagði Guðmundur, „alveg geysileg mannvirki. Og mikið hagræði að þeim. Varla hefði hann Grímur sálugi orðið úti í hitteðfyrra, ef hann hefði haft þetta til að rata eftir." Og Guðmundur gekk um- hverfis fyrstu vörðuna, þreifaði á henni og athugaði hleðsluna. Láki skoppaði umhverfis hann og lék sér að því að ganga að fyrstu vörðunni og láta hana bera í allar hinar. Þá sýndist þetta bara ein varða, en gengi hann dálítið til hliðar, sá hann alla röðina svo langt sem augað eygði yfir þvera heiðina. Og gíf- urleg kæti greip þennan fermda pilt. Hann hagaði sér eins og tíu ára strákur, stökk í loft upp, hoppaði og hljóp milli varðanna. Hann var bara kominn á leið út í heim, þessi lítilsigldi piltur, sem sárasjaldan hafði komið út fyrir túngarðinn á Koti og aldrei áður út fyrir sína sveit. Guð- mundur brosti í kampinn og hugsaði með sér að best væri að lofa honum að sletta úr klaufun- um. En þá skeði óhappið. í öllum hamaganginum rak Láki tána í jarðfasta hellu og hentist með höfuðið á næstu vörðu. Hann datt kylliflatur og lá þarna á gráum hraunhellun- um og hreyfði hvorki legg né lið. Guðmundur hraðaði sér til hans og fór að stumra yfir honum. „Drengræfillinn hefur stein- rotast," tautaði Guðmundur. „Hann skyldi þó ekki vera dauð- ur?“ Og hann hristi Láka, þangað til hann sýndi lífsmark og opnaði augun. Guðmundur reisti hann upp og lét hann setjast sunnanundir vörðunni. Láki deplaði augunum og strauk sér um ennið. Skyndilega glennti hann upp augun og horfði til suðurs, en rak síðan upp hræði- legt skaðræðisöskur, svo óskap- legt að Guðmundur gleymdi því aldrei síðan. Og Láki byrgði ým- ist augu sín með höndunum eða tók þær aftur frá og starði framfyrir sig, aldeilis stjarfur af hræðslu og hélt áfram að öskra og hljóða. Næst hélt hann höndunum fyrir eyrun og kreisti aftur augun, en hljóðin héldu sí- fellt áfram. Guðmundi var nú ekki orðið um sel. „Finnurðu svona voðalega til, Láki minn?“ sagði hann. En Láki svaraði engu, hélt að- eins áfram að veina og hljóða, opnaði augun við og við til hálfs, en lokaði þeim jafnskjótt aftur, hélt höndunum blýfast fyrir eyrun, lagðist loks á jörðina og hjúfraði sig saman. Guðmundur fékk engu tauti við hann komið, honum fannst hann ekki einu sinni heyra til sín, þótt hann reyndi að tala til hans. „Drengurinn skyldi þó ekki hafa sturlast við höfuðhöggið?" tautaði Guðmundur. En hann var ekki á þeim buxunum að hætta við kaupstaðarferðina og huggaði sig við að strákur myndi kannski jafna sig niðri á Kolviðarhóli, ef hann fengi þar hressingu og dálitla hvíld. Og Guðmundi tókst að hálf- bera eða draga drenginn og teyma hestinn það sem eftir var heiðarinnar og heim á Hólinn. Það var sem ögn virtist brá af honum, þegar þeir komu í fjalla- skarðið ofan við bæinn. Annars var hann í sífellu að gjóa augun- um til suðurs og jukust skælur hans og hrinur um allan helm- ing í hvert skipti sem honum varð litið upp. Ekkert einasta orð fékk Guðmundur upp úr honum. Seinustu stórhrinuna rak hann upp á leiðinni heim túnið. Á Kolviðarhóli var þeim vel tekið, þeir fengu kaffi og flóaða mjólk. Láki hafði nú linnt á hljóðunum, en kjökraði og stundi við og við og ekkert fékkst upp úr honum, þótt talað væri til hans. Húsmóðirin sagði honum að halla sér í eitt rúmið í baðstofunni og innan skamms var hann steinsofnaður. Guðmundi varð skrafdrjúgt eins og hann átti vanda til, en eftir þriðja kaffibollann sá hann Frh. á bls. 16. 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.