Lesbók Morgunblaðsins - 12.01.1985, Síða 10
á milli, greina rétt frá röngu, ef svo mætti
lli, gre
J- Eg i
Rene Magritte: Falskur spegill, 1929.
segja. Eg get verið sammála Arnóri um
það, að árangur þekkingarleitar er ekki
einhlítur mælikvarði, en ég sé ekki að rit-
stjórinn hafi haldið slíku fram, þótt Arnór
virðist þeirrar skoðunar. Ummæli ritstjór-
ans voru á þessa leið: „Mér virðist annars
að það sé nokkurt einkenni á hjáfræðum,
að þau skila aldrei neinum árangri þrátt
fyrir mikið starf — þar hjakkar allt í sama
farinu." Mér sýnist þessi athugasemd rit-
stjórans hitta nokkuð vel í mark, en hón er
ekki skilgreining á hjáfræðum og þaðan af
síður skilgreining á fræðum eða vísindum.
Ég býst ekki við, að mér takist fremur
en öðrum að skilgreina gervivísindi þannig
að allir geti sætt sig við. En ég get gjarna
sett fram skilgreiningu, sem ég tel nægi-
legan vegvísi fyrir sjálfan mig, og hún er á
þessa leið: Gervivísindi eru fræðimennska,
sem ber vísindalegt yfirbragð, en styðst í
einhverju meginatriði við staðleysur eða
hugaróra. Samkvæmt þessari skilgrein-
ingu getur viðfangsefnið verið úrslitaat-
riði engu síður en rannsóknaaðferðin eða
hugmyndafræðin, sem byggt er á. Ef ég
UM GERVI-
VISINDI
Eftir dr. Þorstein Sæmundsson stjarnfræðing
Skoðanaskipti kennara við
Háskóla Islands um dul-
ræn fræði.
Fyrsti hlutinn, greinar
þeirra Sigurðar Steinþórs-
sonar, Arnórs Hannibals-
sonar og Erlendar Haralds-
sonar, birtist í Lesbók 1.
des. sl., en upphaflega birt-
ust þessi skoðanaskipti í
fréttabréfi Háskóla íslands.
Ijúníhefti Fréttabréfs HÍ veitti rit-
stjórinn nokkrum háskólakennurum
ádrepu fyrir það að bera blak af
„gervivísindum". Taldi ritstjórinn
slíkt viðhorf vera í andstöðu við markmið
háskóla og var ekki myrkur í máli. Sem
dæmi um gervivísindi nefndi ritstjórinn
ferðir konu með svartan kassa við Kröflu,
kenningar Einars Pálssonar um rætur ís-
lenskrar menningar, kenningar Nýals-
sinna, spíritisma og dularsálfræði (dulsál-
arfræði).
Tveir háskólamenn hafa stungið niður
penna til andmæla, þeir dr. Arnór Hanni-
balsson (í desemberhefti fréttabréfsins) og
dr. Erlendur Haraldsson (í janúarheftinu).
Dr. Arnór fjallar um mörkin milli vísinda-
og „ekki-vísinda“. Er á honum að skilja, að
þessi mörk séu heldur óljós og erfitt að
finna öruggan mælikvarða til að greina
þarna á milli. Sé einn kvarðinn notaður,
lendi félagsvísindin utangarðs, en eftir
öðrum kvarða nái sagnfræðin ekki máli
sem vísindi.
Arnór segist álíta, „að það sé varla nógu
skýrt að segja að vísindi sé þekkingarleit
sem skilar árangri". Hann leggur áherslu
á, að þekking, sem aflað sé á fyrirbærum
sem gerast einu sinni í tíma, og ekki aftur,
sé ekki nauðsynlega „óvísindi" og vitnar
loks til þess, að staðfesting á tilgátum sé
aldrei endanleg í neinum vísindum.
Dr. Erlendur tekur upp vörn fyrir dul-
arsálfræðina sérstaklega og greinir hana
frá spíritisma, sem hafi aldrei verið vís-
indi, heldur fyrst og fremst kenning. Hann
getur um merka fræðimenn íslenska, sem
fengist hafi við sálarrannsóknir (dular-
sálfræði), og telur fráleitt, að rannsóknir
slfkra manna á einu sviði geti verið hjá-
fræði, ef rannsóknir þeirra með sömu að-
ferðum á öðru sviði teljist til vísinda.
„Samkvæmt þessum skilningi eru það við-
fangsefni fremur en aðferðir sem greina
sundur vísindi og gervivísindi, og mun
mörgum koma sá skilningur á óvart," segir
dr. Erlendur. Hann lýkur máli sínu með
þessum orðum: „Þegar jafnvel valinkunnir
heiðursmenn og ektavísindamenn vaða í
feni fávísi og hleypidóma á einhverju sviði,
sýnir það ekki að einmitt þar sé nauðsyn
vísindalegra rannsókna og fræðslu?"
Nú er ekki alveg Ijóst, til hverra þessi
síðustu orð Erlends eru töluð, en mig grun-
ar, að ritstjórinn eigi þar sinn skerf. Því
fer fjarri að ég vilji styggja Erlend, sem ég
tel heiðursmann í hvívetna, en ég verð að
taka þá áhættu, sem því fylgir, að styðja
við bakið á ritstjóra vorum í þessu máli.
Vissulega er það rétt, sem dr. Arnór
bendir á, að mörkin milli vísinda og gervi-
vísinda eru ekki alltaf sem skörpust. En
það breytir engu um þá skyldu hvers
manns (a.m.k. hvers háskólamanns) að
reyna eftir fremsta megni að greina þarna
ætti að nefna dæmi úr sögu þeirrar fræði-
greinar, sem ég þekki best, koma mér
strax nokkur nöfn í hug: Jóhannes Kepler,
sem fékkst við stjörnuspeki — sína eigin
útgáfu að vísu, því að hann fyrirleit venju-
lega stjörnuspáfræði (1), Piazzi Smyth,
sem lagði grundvöll að svonefndri pý-
ramídafræði (2) og Percival Lowell, sem
kortlagði „skurðina" á Mars og boðaði þá
kenningu, að þeir hlytu að vera gerðir af
vitsmunaverum (3). Þetta eru dæmi um
virta vísindamenn sem í góðri trú eyddu
kröftum sínum í gervivísindi af ýmsu tagi.
Auðvitað eru dæmin ekki alltaf svona
einföld. Það er ekki alltaf hægt að úr-
skurða afdráttarlaust, að eitthvað sé stað-
leysa eða hugarórar. En þá verður að
dæma eftir líkum, eftir þeim upplýsingum
sem fyrir liggja. Með tímanum tekst
venjulega að greiða úr slíkum málum, þeg-
ar fleiri fræðimenn hafa fjallað um við-
fangsefnið. Með þetta í huga skulum við
líta á þau dæmi um gervivísindi, sem rit-
stjóri Fréttabréfs gerði að umtalsefni í
júnígrein sinni og ég rakti hér í upphafi.
Ef við lítum yfir þann lista sjáum við fátt
eitt, sem vísindamenn myndu telja ómaks-
ins vert að rökræða á opinberum vett-
vangi, ekki vegna fávísi eða hleypidóma,
heldur vegna þess, að þeir þykjast sjá þess
greinileg merki, að grundvöllur fræðanna
sé ótraustur. Eina undantekningin, sem
vert er að taka til umræðu, er dularsál-
fræðin. í meira en hundrað ár hefur fjöldi
fræðimanna unnið óþreytandi að því að
rannsaka skipulega svonefnd yfirskilvitleg
fyrirbæri í þeirri sannfæringu eða von, að
þar leynist eitthvað, sem vert sé að rann-
saka. Það er því á nokkurri reynslu að
byggja, þegar taka skal afstöðu til þess nú,
hvort dularsálfræðin eigi fremur að teljast
til vísinda en gervivísinda.
Það eitt, að menn skuli enn vera að ræða
þessa sömu spurningu eftir þrotlaust
rannsóknarstarf í heila öld, kann að vera
nokkur ábending um svarið. Ég efast um,
að nokkurt dæmi sé til um viðurkennda
vísindagrein, sem hafi átt svo erfitt með
að vinna sér álit. Hvað er það þá sem
efasemdamennirnir setja fyrir sig? í
stuttu máli mætti svara þessu á eftirfar-
andi veg.
1. Dularsálfræðingum hefur ekki tekist,
þrátt fyrir linnulausar tilraunir, að finna
eitt einasta fyrirbæri sem unnt sé að sýna
fram á við endurtekna tilraun, þannig að
aðrir rannsóknarmenn geti gengið úr
skugga um það. Þetta á jafnt við um hugs-
anaflutning (telepathy), fjarskynjun
(clairvoyance), spádóma (precognition),
hugarafl (psychokinesis), miðilsfyrirbæri
eða nokkurt annað yfirskilvitlegt rann-
sóknarefni. Þetta vandamál er almennt
viðurkennt af dularsálfræðingum (4), en
mér vitanlega hefur enginn getað skýrt
hvernig á þessu standi. Það er t.d. alls ekki
nóg að segja, að hér sé verið að rannsaka
fyrirbæri sem gerast einu sinni í tíma og
ekki aftur. Slík fyrirbæri geta að sjálf-
sögðu verið vísindalegt rannsóknarefni, og
má þar sem dæmi nefna spurninguna um
upphaf alheimsins. En niðurstöður dular-
sálfræðinga eru iðulega tölfræðilegs eðlis.
Þeir kanna t.d. hve oft tiltekinn maður
getur giskað á spil, sem hann ekki sér, eða
haft áhrif á það, hvernig teningar lenda,
sem kastað er af handahófi, og þar fram
eftir götunum. Ef einhver sýnir sérstaka
hæfileika í þessa átt, hvers vegna skyldi þá
ekki vera hægt að endurtaka tilraunina
aftur og aftur með svipuðum árangri, eða
a.m.k. einhverjum árangri?
2. Dularsálfræðingum hefur ekki tekist að
verða ásáttir um neinar ákveðnar kenn-
ingar til að skýra þau fyrirbæri sem þeir
fást við, hver sé undirrót þeirra, með
hvaða hætti þau nái að birtast eða hvernig
þau samrýmist vitneskju sem aflað hefur
verið í öðrum vísindagreinum. I náttúru-
vísindum er ekki talið nægilegt að lýsa
Þorsteinn Sæmundsson: „Dularsálfræðingum hefur ekki tekizt,
þrátt fyrir linnulausar tilraunir, að finna eitt einasta fyrirbæri
sem unnt er að sýna fram á við endurtekna tilraun, þannig að
aðrir rannsóknarmenn geti gengið úr skugga um það.“