Lesbók Morgunblaðsins - 12.01.1985, Síða 11
„. . . ég get gjarnan sett fram skilgreiningu, sem ég tel nægi-
legan vegvísi fyrir sjálfan mig, og hún er á þessa leið: Gervivís-
indi eru fræðimennska, sem ber vísindalegt yfirbragð, en styðst í
einhverju meginatriði við staðleysur eða hugaróra.“
atburðum, heldur er markmiðið fyrst og
fremst að leita orsaka og finna reglur eða
lögmál. Þar er það talin ein helsta leiðin
til árangurs að setja fram kenningar og
prófa þær. Kenninga er vissulega þörf í
dularsálfræði, því niðurstöður tilrauna (að
svo miklu leyti sem um ákveðnar niður-
stöður er að ræða) stangast mjög á við
niðurstöður úr öðrum vísindagreinum. Til
dæmis er svo að sjá, að við hugsanaflutn-
ing skipti fjarlægð milli sendanda og við-
takanda ekki máli. Þetta var eitt af þeim
atriðum, sem Albert Einstein þótti grun-
samleg, þegar hann var beðinn að segja
álit sitt á dularsálfræði (5).
3. Þegar gagnrýnendur hafa rannsakað
vinnubrögð þekktra dularsálfræðinga, hef-
ur iðulega komið í ljós, að tilraunir þeirra
hafa ekki verið nægilega vel úr garði gerð-
ar, þeim hefur sést yfir hugsanlegar nátt-
úrlegar skýringar, varúðarráðstafanir
gegn blekkingum hafa verið ónógar, og
blekkingar hafa oft á tíðum sannast. Þetta
á m.a. við um ýmsar tilraunir sem dular-
sálfræðingar höfðu áður talið pottþéttar
og stillt í fremstu röð sem sönnunargögn-
um (6). Raunvísindamenn verða að kyngja
þeirri óþægilegu staðreynd, að ýmsir úr
þeirra hópi, virtir gáfumenn, hafa látið
blekkjast af óprúttnum svikahröppum,
sem hafa fengið þá til að staðfesta að hin
og þessi yfirskilvitleg fyrirbæri væru
ósvikin. Reynslan hefur sýnt, að skynsam-
legt sé að láta færan töframann fylgjast
með tilraunum af þessu tagi til að sjá við
hugsanlegum prettum. Margir þekktir
töframenn hafa sýnt þessu verkefni áhuga
á liðinni tíð. Má þar t.d. nefna þá John
Nevil Maskelyne og Harry Houdini. Hou-
dini var mjög afkastamikill við að fletta
ofan af starfsemi miðla, þegar hún stóð
með mestum blóma (7). Ymsir telja, að
afhjúpanir Houdinis og strangara eftirlit
með miðlum, sem fylgdi í kjölfarið, séu
skýringin á því, að áhrifamiklir miðils-
fundir með líkamningum og tilheyrandi
eru ekki lengur á dagskrá hjá dularsál-
fræðingum. Slík fyrirbæri mega nú heita
horfin af sjónarsviðinu.
Sá töframaður, sem kunnastur er nú á
dögum fyrir baráttu gegn blekkingum í
dularsálfræði, er Bandaríkjamaðurinn
James Randi. Hann átti m.a. þátt í að af-
hjúpa hinn víðfræga undramann Uri Gell-
er, sem hafði vakið mikla athygli dular-
sálfræðinga (8).
Annað frægt dæmi um blekkingar eru
tilraunir stærðfræðingsins og dularsál-
fræðingsins S.G. Soal, sem lengi þóttu frá-
bærar, eða þar til sálfræðingurinn Mark
Hansel fann örugg merki um það, að Soal
hefði haft rangt við (6, 4, 9, 5). Aðeins tíu
ár eru síðan dr. Walter Levy, fram-
kvæmdastjóri virtustu rannsóknastofnun-
ar heims í dularsálfræði (rannsóknastofn-
unar J.B. Rhines við Duke-háskólann í
North Carolina), varð uppvís að svikum og
sagði af sér. Hann hafði þá um skeið vakið
mikla athygli dularsálfræðinga vegna til-
rauna sem bentu til þess að frjóvguð
hænuegg byggju yfir hugarafli (5). Þannig
mætti lengi telja.
Blekkingar eiga sér einnig stað í hefð-
bundnum vísindum, um það eru ýmis
dæmi. Engum dettur þó í hug, að hefð-
bundnum vísindum stafi veruleg hætta af
slíkri starfsemi. Um dularsálfræðina
gegnir öðru máli, því að tilraunir hennar
fást ekki staðfestar með endurtekningu, og
því verður mjög að treysta á trúverðug-
leika hverrar heimildar.
4. Þegar einhverja réglu er að finna í þeim
yfirskilvitlegu fyrirbærum, sem dular-
sálfræðingar rannsaka, er reglan oftast á
þann veg, að hún verður vatn á myllu efa-
semdamanna. Alkunna er, að tilraunir til
að sýna fram á yfirskilvitlega hæfileika
ganga þeim mun verr, sem varúðarráð-
stafanir gegn svikum verða strangari eða
skilyrði til blekkinga eru takmarkaðri. Áð-
ur hefur verið minnst á þau stórkostlegu
miðilsfyrirbæri, sem algeng voru á seinni
hluta 19. aldar og nokkuð fram á 20. öld, en
nú mega heita úr sögunni. Þessi umskipti
þykja efasemdamönnum ofur eðlileg, en
hinir trúuðu verða að leita skýringa, sem
ekki eru auðfundnar. Annars er því haldið
fram af mörgum, sem við dularsálfræði
fást, að það hafi neikvæð áhrif á tilraunir
þeirra, ef þátttakendur nálgast þær með
gagnrýnu hugarfari eða slíkir menn eru
viðstaddir. Ég tek dæmi af handahófi úr
bók sem dr. Erlendur mælir með sem
vönduðu yfirlitsriti í janúargrein sinni
(10). Þar sem ég greip niður, er fjallað um
rannsóknir á hugarafli og sagt frá því,
hvernig borð hafi hreyfst á hinn dular-
fyllsta hátt. Höfundur segir:
„The general thesis af Batcheldor and
Brookes-Smith (þ.e. þeirra sem að tilraun-
inni stóðu) is that a lively, lighthearted
atmosphere is conducive to these effects
and that fear or „deadly doubt" destroys
them.“
Um rannsóknaraðferðina segir höfund-
ur, að hún sé „clever and theoretically
clean", eins og það er orðað. Svik hafi að
vísu ekki verið útilokuð, en það sé með
vilja gert, því að rannsóknarmennirnir
hafi þessa kenningu:
„A trickproof method might awe the
participants and therefore destroy the
mood which these experimenters consider
essential for authentic paranormal ef-
fects.“
Hér bætir höfundur við: „Por us to int-
erpret the data as paranormal, however,
demands that we have faith in the honesty
of all participants."
I yfirlitsriti um framfarir í einhverri
annarri vísindagrein myndi frásögn á borð
við þessa vekja óskipta athygli, en hún
undirstrikar hið mikla vandamál dular-
sálfræðinga.
í sömu grein er fjallað um reimleika
(poltergeists) sem eru eitt af viðfangsefn-
um dularsálfræðinga. Þeir, sem rannsakað
hafa slík fyrirbæri, hafa ótrúlega oft kom-
ist að þeirri niðurstöðu, að þau væru á
einhvern hátt tengd unglingi innan við
Sönnua eða engin sönnun? Ljósmynd af
fyrírbæri í kringum miðil í Nice íFrakkiandi
1933. Stundum er talið afog frá að brögð bafí
rerið í tafli, en allir sem eitthvað bafa komið
nærri Ijósmyndum, vita að auðrelt er að falsa
svona mynd.
tvítugt. Er þessa getið í greininni. I sum-
um tilvikum (þ. á m. hér á landi) hefur
beinlínis sannast, að um hrekkjabrögð
hafi verið að ræða, en miklu oftar hafa
rannsóknarmenn komist að þeirri niður-
stöðu, að svo geti ekki verið. En þá þarf að
skýra, hvers vegna unglingarnir tengist
atburðunum. Athuganir dularsálfræðinga
hafa leitt í ljós, að viðkomandi unglingar
eigi oft á tíðum við geðræn vandamál að
stríða. Mun sú niðurstaða síst til þess fall-
in að draga úr tortryggni efasemdamanna.
Flestir munu viðurkenna, að stórlega
hafi dregið úr reimléikum hér á landi eftir
að raflýsing varð algeng. Þetta mun tæp-
lega koma þeim á óvart, sem vantrúaðir
eru á slík fyrirbæri, en hinir trúuðu verða
að leita sérstakra skýringa.
Að endingu vildi ég minnast á atriði,
sem margir telja skipta máli, þegar hið
yfirskilvitlega er til umræðu. Menn segja
sem svo: Vel má vera, að erfitt sé að finna
nokkurt einstakt tilfelli, sem er algjörlega
sannfærandi, en tilfellin eru svo mörg, að
það hlýtur að vera einhver sannleikskjarni
á bak við allt saman. Slík röksemdafærsla
heyrist oft þegar fljúgandi furðuhlutir eru
á dagskrá, og í rauninni svipar fljúgandi
furðuhlutum um margt til fyrirbæra dul-
arsálfræðinnar: Fjölda margir sjá fyrir-
bærin, sumt er hægt að skýra á eðlilegan
hátt sem þekkt náttúrufyrirbæri, missýn-
ingar eða blekkingar en alltaf verður
eitthvað eftir sem óskýrt er. Þessar „eftir-
stöðvar" eru vissulega forvitnilegar, en fá-
ir trúa því lengur, að þar eigi eftir að
finnast lykillinn að miklum vísindalegum
uppgötvunum. Eftir meira en 30 ára rann-
sóknir á fljúgandi furðuhlutum „hjakkar
allt í sama farinu“, svo að notað sé orðalag
ritstjóra vors. Hvort sem um er að ræða
fljúgandi furðuhluti eða fyrirbæri dular-
sálfræðinnar, er aðalspurningin þessi: Er
þarna eitthvað, sem vert er að rannsaka?
Bandaríski eðlisfræðingurinn John Archi-
bald Wheeler svaraði þessu svo í ræðu sem
hann hélt á ársfundi AAAS (American
Association for the Advancement of Sci-
ence) árið 1979, þar sem hann hafnaði þvi
algjörlega, að dularsálfræði væri vísindi:
„Surely, where there is smoke there is
fire? No, where there is so much smoke,
there is smoke“ (11).
Þorsteinn Sæmundsson
1. Rudolf Thiel: „Universets erobring". Skrif-
ola, Khöfn, 1958.
2. Martin Gardner „Fads and Fallacies in the
Name of Science". Dover Publications, New
York, 1957.
3. Isaac Asimov: „Biographical Encyclopedia
of Science and Technology". Doubleday, Gard-
en City, 1964.
4. John Palmer: „ Extrasensory Perception:
Research Findings". Advances in Parapsycho-
logical Research, 2. Plenum Press, New York &
London, 1978.
5. Martin Gardner: „Science, Good, Bad and
Bogus". Prometheus Books, Buffalo, 1981.
6. C.E.M. Hansel: „ESP: A Scientific Evalua-
tion". Schribner’s, New York, 1966.
7. Harold Kellock: „Houdini". Heinemann,
London, 1928.
8. James Randi: „The Magic of Uri Geller".
Ballantine, New York, 1975.
9. C.E.M. Hansel: „ESP and Parapsychology:
A Critical Re-Evaluation“. Prometheus Books,
Buffalo, 1980.
10. Gertrude Schmeidler: „Research Findings
in Psychokinesis". Advances in Parapsycholog-
ical Research, 1. Plenum Press, New York &
London, 1977.
11. The Skeptical Inquirer. Journal of the
Committee for the Scientific Investigation of
Claims of the Paranormal. 3. árg. nr. 3, 1979.
Sönnun eða engin sönnun ? Menn takast í hendur og borðið fer á kreik eins og myndin sýnir.
En af bvaða völdum?
Vísur
Sigurður Guðmundsson
bóndi á Heiði í Göngu-
skörðum var fæddur
1795, dáinn 1869. Hann
var um sína daga eitt kunnasta
alþýðuskáld landsins. Hann orti
ljóðabréf, tækifærisstökur og
sálma. En frægastur varð hann
fyrir Varabálk sinn, sem lengi
var meðal vinsælustu ljóðabóka
landsins. Þriðja útgáfa kom út
1967. Sigurður varð ættfaðir
margra gáfumanna og kvenna.
Eru í þeim hópi fræðimenn,
listamenn í flestum greinum og
þj óðmálaskörungar.
í þessum pistli eru vísur tekn-
ar úr Varabálki.
Varast hála heimsins prjál,
hans ei táli gleymdu.
Hugsaðu um sálar heilagt mál,
hug forsjálan geymdu.
Hugrenningum haf á taum.
Holdsginningar deyddu,
tilfinningum gef að gaum,
geðshræringum eyddu.
Hrjáðu gráðið hégómans,
háð ei tjáðu smáðum,
sjáðu ráðin sannleikans,
sáðu dáð í náðum.
Reglu bundin ræktu störf,
rétt þess mundu gæta:
hvað, sem fundin heimtar þörf,
helst ástunda að bæta.
Góða siði ven þig við,
vertu iðinn tíðum.
Ávalt bið um andans lið,
untu friði blíðum.
Gætinn sért og gjör ekkert,
sem getur skert þinn heiður.
Hafna þvert því hann fær skert,
hjálpar vertu greiður.
Ef þér brjóta aðrir mót,
illskuhót ei sýndu,
sem eru Ijót, og svörin fljót
síst með blóti klíndu.
Synjaðu snauðum síst um brauð,
sért ótrauður gjafa.
Það eru gauð, sem neita í nauð,
nokkurn auð þó hafa.
Atlot sjúkura auðsýn mjúk,
ástfús lúk þá skyldu,
góðsemd brúka, grát af strjúk,
greið aðhjúkrun mildu.
Haldinorður vert, minn vin,
viti skorða máli,
alls kyn forðast yfirskin,
öndvert horfðu táli.
Huga snú að helgri trú,
hvað sem nú að bendist,
að henni bú, sem best kant þú,
blcssan sú þér endist.
Tíma naumum gef að gaum,
gakk frá straumi spilltum.
Sá er aumur, sem við glaum
sefur í draumi villtum.
Illt ei kann að orka á þann,
er í sannleiksljósi
sitt skeið rann, því svik og bann
sigrar hann með hrósi.
Mjög er bágt við margt að fást,
mót sem áttu að snúa,
en verra er fátt en ófrjáls ást,
eflaust máttu trúa.
Við hviklyndi vara þig,
varp það skyndilega
skuggum yndis oft á sig,
olli synd og trega.
Mörg eru fljóðin fróm og góð,
frama þjóðar prýða,
sumum hnjóður sarat af stóð,
sæmd og hróður níða.
Vel það skaltu varast allt:
viðmót kalt og brigðir.
Yndið snjallt svo verði ei valt,
vandlega haltu tryggðir.
J.GJ.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS 12. JANÚAR 1985 11