Lesbók Morgunblaðsins - 14.09.1985, Blaðsíða 14
Frægasta hlutverk hennar var án efa í Útlaganum.
Með Marilyn Monroe í Gentlemen Prefer Blondes.
okkur, mér og Ijósmyndaranum, á flugvell-
inum. Hann er stór og mikill Texas-búi, og
stærð hans er núorðið farin að ná til mag-
ans. Hann er ekki árennilegur. Nef hans á
milli skeggsins og sólgleraugnanna lítur út
fyrir að hafa orðið að þola sitt af hverju,
en John Peoples er einnig líklegur til að
hafa lagað til nefið á ýmsum öðrum um
dagana. Hann mun vera á aldri við konu
sína og hafði ofurstatign í hernum, þegar
hann fór á eftirlaun.
Hann gerði hlé á vinnu sinni við hús,
sem hann er að byggja til að selja, til að ná
í okkur út á flugvöll. Hann vinnur þar með
syni sínum og Buck Waterfield, sem er eitt
hinna þriggja barna, sem fótboltakappinn
og Jane Russell ættleiddu í hjónabandi
sínu, sem stóð í 23 ár. Annar eiginmaður
hennar var leikari og bókmenntakennari,
Roger Barrett, en hann lézt úr hjartaslagi
þremur og hálfum mánuði eftir giftingu.
Jane Russell hefur haldið sér vel. Árin
hafa verið mild við andlitið og hálsinn og
hún ber sig þannig, að hún lítur út fyrir að
vera hærri en 167,5 sm, eins og stendur í
vegabréfi hennar, en augu hennar, stór og
gulbrún, eru hennar höfuðprýði.
Hún talar hratt og fjörlega þegar hún
minnist áranna í Hollywood, og lýsingar
hennar á hinum ýmsu samferðamönnum
þar eru svo glöggar að manni finnst þeir
gætu birzt þarna ljóslifandi á hverri
stundu. Og hún hefur ákveðnar skoðanir á
öllu og öllum og lætur sögur fylgja til
skýringar og skemmtunar. En við tveir,
áheyrendurnir, hlustum af mestri athygli
á það sem hún segir okkur af kynnum sín-
um af Howard Hughes og Marilyn Monroe.
Hún segir að sá Hughes sem hún þekkti
eigi ekkert skylt við þann mann sem yfir-
leitt sé lýst í bókum og kvikmyndum. Þar
væri hann alltaf hrokafullur, en „það var
hann alls ekki. Hann var mjög feiminn og
hógvær. Ég sá hann aldrei missa stjórn á
skapi sínu. Það má segja að hann hafi
verið allt að þvi riddaralegur gagnvart
konum. Það er hreinn þvættingur að hann
hafi verið á eftir kvenfólki eins og flagari
og leikið sér að því. Þær stúlkur sem voru
á samningi hjá honum, höfðu ýmist for-
eldra sína hjá sér eða rosknar konur sem
velsæmisverði. Þær höfðu bílstjóra sem
sóttu þær og skiluðu þeim heim til sín.
Þær sáu varía Howard Hughes nokkurn
tíma. Ýmsar þeirra hefðu viljað sjá hann
oftar og miklu oftar. En þær fengu ekki
tækifæri til þess.“
Og jafnvel þótt Hughes hefði verið sá
hörkuflagari, sem ætla mætti af mörgum
sögum, sem sagðar hafa verið af honum,
þá býst hún ekki við að hún hefði lent í
erfiðleikum með hann. „Það var svo sann-
arlega ekkert á milli okkar Howard Hugh-
es. Það mun koma greinilega fram í bók
minni. Karlmenn hafa aldrei verið mér
neitt vandamál. Ég ólst upp með fjórum
bræðrum, sem voru yngri en ég og ná-
frænka mín, sem ég umgekkst mikið átti
sex bræður. Ég var vön því að vera innan
um karimenn. Þeir voru aldeilis engir
Marzbúar í mínum augum. Það getur vel
verið að Howard hafi elt einhverjar stúlk-
ur á röndum en hann lét mig algerlega í
friði."
Á þeim árum sem þau höfðu samskipti,
var ekkert svo kynlegt í fari Hughes að
það benti til hugsanlegrar brjálsemi, eins
og síðar varð er hann einangraði sig frá
umheiminum. En hún tók eftir einu sem
henni fannst ganga út í öfgar, og það var
hin mikla varúð sem hann sýndi og stöð-
ugu viðvaranir í því sambandi. „Farðu ekki
yfir götuna. Þú gætir orðið fyrir bíl.“ „Þú
mátt ekki ganga í hálkunni, þú getur
fótbrotnað."
En það var tilgangslaust að reyna að
draga kjart úr Jane Russell. „Fjölskylda
mín var trúhneigð en við vorum ekki prúð-
ir krakkar með skólabækur undir hend-
inni, gleraugu á nösunum og A í öllum
fögum. Við vorum svartir sauðir í hjörð-
inni. Við gerðum allt vitlaust. Við erum
komin af ævintýramönnum langt fram í
ættir. Hvað mig snertir þá náði ævintýra-
þráin til kynlífs. Mér fannst það ekki rétt.
Ég vissi að það var rangt en það skeði nú
samt. Og það voru frekar mínar eigin
hneigðir sem ollu því að ég villtist af vegi,
en að aðrir væru að leiða mig á glapstigu."
Jane Russell minnist myndarinnar
„Gentlemen Prefer Blondes" sem hiklaust
hinnar beztu og skemmtilegustu sem hún
lék í. Þá gafst henni tækifæri til að vinna
með Howard Hawks, sem hún hélt að ekki
kæmi til greina framar, þegar Hughes rak
hann allt í einu og ákvað að stjórna „Út-
laganum" sjálfur. Hún telur Hawks meðal
bestu leikstjóra sem hún hafi kynnzt, þó
að hún meti Raoul Walsh mest. Eftir-
minnilegast frá þessari myndatöku, þegar
hún var lánuð Twentieth Century Fox, var
þó samstarfið við Marilyn Monroe. „Okkur
Marilyn kom afar vel saman. Kannski kom
það að einhverju leyti til af því að við
vorum báðar fæddar í tvíburamerkinu. Ég
var með henni á þeim tíma þegar hún var
að byrja að hljóta. réttmæta viðurkenn-
ingu. Ég var hvergi nærri síðar þegar allt
tók að fara úrskeiðis. Ég held að það sorg-
legasta við hana hafi verið, að hún gætti
ekki að gömlum vináttuböndum. Hún átti
enga trygga vini að leita til þegar á bját-
aði. Nýr leiðbeinandi og nýr stjórnandi tók
við hver á fætur öðrum og lífið varð henni
æ flóknara og erfiðara.
Þegar eitthvað hefur verið mér andsnúið
um dagana, hef ég alltaf getað leitað til
vina, sem ég hef átt lengi, farið til þeirra
og sagt: „Halló, hvað á ég að gera? Þú
verður að hjálpa mér.“ Ég á enn vini sem
ég eignaðist þegar ég var í skóla á
bernskuárunum. Marilyn átti enga slíka
vini sem hún gat leitað trausts til.
„Gentlemen Prefer Blondes" var fyrsta
myndin sem hún lék í sem stórstjarna og
hún var kvíðin og taugaóstyrk þegar til
upptökuversins kom. Hún virtist ætla að
verða svolítið sein fyrir svo að ég fór í
búningsherbergið til hennar og sagði:
„Komdu ljóska, þú ert stórkostleg. Við
skulum koma okkur." Hún svaraði: „Ha,
eru þeir tilbúnir? Ókei.“ Við urðum aldrei
seinar fyrir aftur. Það fóru sögur af því
seinna hvað hún þyrfti margar tökur en
það var alls ekki um að ræða þarna. Hún
kunni sitt hlutverk og stóð sig með prýði.
Það var enginn sem lagði sig meira fram.
Auðvitað var hún bara stelpa. Hefði hún
verið á samningi hjá Howard Hughes
hefði margt merkilegt getað gerzt. Þau
hefðu getað skemmt sér konunglega sam-
an. í myndinni vildi hún vera í klæðnaði
sem var ekkert annað en undirföt gim-
steinum skreytt. En Zanuck sagði að hún
ætti að klæðast eins og háttvís kona. En
fyrir utan kvikmyndaverið gerði hún það
sem henni sýndist. Hún kunni vel við að
láta taka eftir sér og Hughes eða Birdwell
hefðu ekki getað bætt um betur í þeim
efnum. En engu að síður vildi hún alltaf
gera alvarlega hluti.“
Svo var einnig um Jane Russell þótt hún
þráði helzt að gera það sem væri skemmti-
legt. Það angrar hana enn að henni skuli
hafa verið hafnað í ýmis hlutverk í gam-
anmyndum. „En það er ekki útséð um allt
enn,“ segir hún og grettir sig í gamni.
„Kannski ég eigi eftir að leika ömmu ein-
hvern tíma.“ En jafnvel þótt Billy the Kid
rækist á hana í hlöðu einhvern daginn
núna, ætti hann erfitt með að hugsa sér
hana sem ömmu.
llr „Observer"
Böm
fædd
fyrir
tímann
Náttúran gerir oft ráð
fyrir vandamálum,
sem við höfum ekki
hugmyndaflug til að
gera okkur grein fyrir. Gott
dæmi um hina ótrúlegu aðlögun-
arhæfni mannsins er, að konur,
sem ala börn fyrir tímann, fram-
leiða mjólk sem er sérstaklega
ætlað að þróa heila og tauga-
kerfi barns, sem kemur of
snemma í heiminn. Hún er allt
öðruvísi en sú mjólk, sem þær
konur framleiða, sem fæða á
réttum tíma.
Nýjar rannsóknir í Bandaríkj-
unum hafa leitt þetta i ljós.
Efnafræðingar þeir, sem önnuð-
ust rannsóknirnar, komust að
raun um að, mjólk frá mæðrum,
sem hafa alið börn einum til
þremur mánuðum fyrir tímann,
hefur að geyma nær helmingi
meira af fjölómettuðum fitusýr-
um en mjólk frá öðrum mæðr-
um. Þessar fitusýrur eru mjög
mikilvægar fyrir eðlilegan vöxt
heilafrumna og myndun vefjar
til verndar taugamiðstöðvum.
Þá mjólk, sem hin bráðlátu
börn fá frá mæðrum sínum, er
einnig auðveldara að melta, þar
sem hún inniheldur nær 70 af
hundraði meira af auðmeltum,
meðalstórum fitusýrusameind-
um, sem efla vöxtinn, en venju-
leg móðurmjólk.
Joel Bitman, efnafræðingur
við rannsóknastofnun landbún-
aðarráðuneytisins í Bandaríkj-
unum, segir, að rannsóknirnar
sýni, hve miklu máli það skipti,
að börn, sem fæðast fyrir tím-
ann, fái mjólk frá móður sinni
en ekki frá einhverju „móður-
mjólkursamlagi".
— Við uppgötvuðum einnig að
sá háttur, sem við nú höfum á
meðhöndlun og geymslu móð-
urmjólkur, hefur í för með sér
hættu á því, að hinir sérstöku og
góðu eiginleikar mjólkurinnar
fari forgörðum, segir Joel Bit-
man.
Það byggist á því, að fitukljúf-
urinn (lipase) klýfur hinar mik-
ilvægu fitusameindir, ef mjólkin
er kæld rétt undir frostmark.
Þessi fitukljúfur tekur venjulega
þá fyrst til starfa, þegar mjólkin
rennur niður í maga barnsins.
Mjólkina á að geyma alveg niður
við mínus 70 gráður, ef fitukljúf-
urinn á ekki að hefja starfsemi
sína, áður en barnið hefur
drukkið mjólkina.
Efnafræðingar telja að
mönnum hafi sézt yfir þessa sér-
stöku eiginleika mjólkur kvenna,
sem fæða börn fyrir tímann, af
því að allri móðurmjólk hefur að
jafnaði verið hellt saman, áður
en hún var efnagreind.
Joel Bitman og samstarfs-
menn hans efnagreindu mjólk 46
mæðra, sem ólu börn fyrir tím-
ann, og sex mæðra, sem fæddu á
réttum tíma. Niðurstöður rann-
sóknanna voru síðan lagðar
fram á fundi í bandaríska efna-
fræðifélaginu í Philadelphiu.