Lesbók Morgunblaðsins - 18.01.1986, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 18.01.1986, Blaðsíða 14
Eg var komin til Aþenu frá því að stunda grískunám á Kýpur. Hugðist ég halda námi áfram um stund í Grikklandi og fékk húsa- skjól hjá íslenskum kunn- ingjum mínum, sem stunda nám við Aþenu- háskóla og búa í Omoníahverfinu í Aþenu, sem er gamalt hverfi nærri miðborginni. Þetta er hávaðasamt borgarhverfi. Klukkan sex á morgnana hefja loftpress- urnar upp raust sína og titringur frá loft- hömrum blandast draumum þeirra, sem enn liggja í fleti. Klukkan sjö bætast við hljóð frá hvellum flautum lögregluþjón- anna, sem stjórna umferðinni við Omonía- torg og þungur dynur umferðarinnar leik- ur undir. Á morgunverðartíma íslendinga marsera venjulega um ein eða tvær mót- mælagöngur með köllum, söngvum og víg- orðum. Og þannig líður dagurinn með öllum sín- um hljóðum, umferðarhávaða, flauti, blístri, hrópum og köllum, ys og þys. En það er ekki bara að utan, sem hávað- inn berst. Húsið, sem ég bjó í, telst ei heldur neitt musteri þagnarinnar. Um það berst diskótónlist frá hæðinni fyrir ofan og háværar raddir íbúanna á 2. hæð, sem hafa alltaf dyrnar opnar fram á gang. Trú- iega er það af því að þeim þykir íbúðin of lítil. Verst er þó að hjónin í næstu íbúð við íbúðina, sem ég bjó í, skuli einatt velja ganginn sem vígvöll fyrir hjónabandserjur sínar. Enginn sími er í íbúðinni svo ekki eykur hann við hávaðamengunina, en dyrabjall- an hljómar öðru hvoru. Hún gefur frá sér hljóð líkt og kvak í fuglum og er það gott til aðgreiningar frá öllum öðrum hljóðum stórborgarinnar. Fuglasöngur er ekki á meðal þeirra hljóða, sem algeng eru í miðborg Aþenu, enda er hún ekki leik- vangur villtra fugla. Aþena er fræg að endemum fyrir meng- un andrúmsloftsins og þegar hávaðinn bætist við er ekki að furða, þótt heilsufar margra íbúanna til líkama og sálar fari úr jafnvægi. - O - Það var árla morguns, að ég stóð úti á svölum og var að hengja upp nýþvegin plögg. Að vísu kemur þvottur, sem hengd- ur er til þerris í Aþenu jafnan óhreini inn aftur en hann var fyrir þvott. Sjaldan bregður mær hins vegar vana sínum og því gerði ég enn eina tilraun til hreinlætis. Skyndilega heyrði ég hróp og köll af gangstéttinni fyrir neðan húsið. Hávaðinn reyndist koma frá einum af íbúum húss- ins. Hann virtist ærður af gleði og hrópaði stöðugt: „Ég er ríkur, ég er ríkur!“ „Bless- aður maðurinn," hugsaði ég. „Hann hefur endanlega tapað glórunni, og engan skyldi furða." Hljóðin frá nábúa mínum hljóðnuðu eft- ir nokkra stund eða blönduðust öðrum hljóðum, enda var nú loftpressukórinn mitt í stórbrotinni hljómkviðu, sem hefði getað verið samin af einhverju tónskáldi nútímans. Dagurinn leið með sín viðfangsefni og svo var komið kvöld. Loftpressukórinn þagnaði við lok vinnudags klukkan sex að kvöldi og við tók ómurinn af tónlist frá öldurhúsum götunnar. Bílflautur léku stef úr þekktum sinfóníum, börnin á 2. hæð öskruðu og neituðu að fara í háttinn og hjónabandserjur fólksins í næstu íbúð héldu áfram með nýjum tilbrigðum. í næturlífi Aþenuborgar er margt að sjá, en skemmtilegastar þykja mér krárn- ar eða Taverna, þar sem á boðstólum er matur og drykkur ásamt söng og dansi. Þetta kvöld lá einmitt leið okkar íslend- inganna á vinsæla krá í nágrenninu. Við fengum okkur sæti og litum í kringum okkur. Við næsta borð sat álútur maður og horfði á perlurnar í „stresskeðjunni" sinni, en stresskeðja — komboloiu — er periu- band, sem margir grískir karlmenn nota til þess að leika fingraleikfimi með og veita taugaóstyrk útrás. Ég þekkti manninn. Þetta var nágranni okkar, sem svo kátur hafði verið um morg- uninn. Gleðivíman var runnin af honum, höfuðið snerti bringuna og hann sagði ekki orð. Konan hans sat við hlið hans. Ég brosti til hennar og kinkaði kolli. Skyndilega var hún komin yfir til mín og sest við hlið mér. „Gott kvöld," sagði ég. „Maðurinn yðar er ekki eins hress nú og hann var í morgun." Það var eins og stífla brysti. Konan hóf mál sitt og orðin streymdu frá henni í taktfalli, sem aðeins grískar konur ráða yfir. Nei, maðúrinn var ekki hress og kátur. Það var einmitt vandinn. Hann var líka svo fljótfær. Það sem hann vildi varð hann að gera strax. Þannig var það, þegar þau hjónin giftu sig og líka þegar börnin fædd- ust. Þannig hélt frásögnin áfram og jafn- framt varð ég skilningssljórri. Ég fann ekkert samhengi milli lýsingar á eiginmanninum og hins augljósa þung- lyndis, sem yfir hann hafði komið né skýr- ingu á ofsakæti hans um morguninn. „Sjáðu til, við höfum alltaf búið í þessari íbúð í Omonía-hverfinu," sagði konan loks. „Þar er alltaf svo mikill hávaði, loftið er svo mengað og það versta er, að maður kemst aldrei leiðar sinnar fyrir bannsettri umferðinni. Það síðasttalda er kannski verst. Heilsu- bótarganga í Omonía er algjörlega óhugs- andi. Eftir 20 skref verður maður að stoppa og bíða eftir rauðu ljósi til þess eins að ganga önnur 20 skref að næsta rauða ljósi. Okkur hefur í mörg ár dreymt um að flytja í friðsælt úthverfi," hélt konan áfram. „Úthverfi, þar sem ennþá vottar fyrir óspilltri náttúrunni og þar sem sóiin nær að skína fyrir mengunarskýjum. En það er bara svo dýrt, að þetta hefur alltaf verið fjarlægur draumur. Maðurinn minn reyndi samt allt sem hann gat til þess að verða nógu efnaður, svo við gætum flutt. Hann hefur spilað í öllum happdrættum, þar sem peningar voru í vinning. Hann hefur t.d. átt 50 miða í Þjóðathappdrættinu og 100 miða í Ríkis- happdrættinu auk nokkurra í Borgarhapp- drættinu og í ýmsum smærri happ- drættum. 0 I morgun var svo dregið í Þjóðarhapp- drættinu og við fengum hæsta vinning. Maðurinn minn var frá sér numinn af gleði og ég var auðvitað glöð líka. En hann var sko uppi í sjöunda himni. Maðurinn minn sagði, að þar sem það væri 23. mars, þá væri 23. mars happadag- urinn okkar. Og talan 23 kæmi einmitt fyrir í númeri vinningsmiðans, þó það væri annars átta stafa tala. Svo sagði maðurinn minn, að við yrðum að finna nýja og betri íbúð, og hvaða dagur væri betri til þess að leita að henni en dagurinn í dag — happadagurinn okkar. Við drifum okkur af stað. Fyrst lásum viö fasteignaauglýsingarnar og fundum íbúð, sem okkur leist vel á í góðu hverfi. Maðurinn minn ákvað strax, að þessari íbúð skyldi hann ná og svo stigum við upp í bílinn, hann lagðist á flautuna og steig bensínið í botn og við komumst í gegn um hádegisumferðina á mettíma." Hér átti konan við ökulag Aþenumanna, en þegar þeim liggur á, setja þeir aðra hönd á bílflautuna og aka þannig á fullum hraða yfir gatnamót án þess að veita öðr- um bílum eða gangandi fólki minnstu at- hygli. Og konan hélt áfram: „Við fundum íbúð- ina. Hún var í litlu fjölbýlishúsi í rólegu hverfi. Alveg yndisleg íbúð. Hún er 5 her- bergi, með stórum svefnherbergjum og húsið stendur uppi á hæð, þannig að frá stofusvölunum er útsýni yfir alla Aþenu. Og hugsaðu þér! Þarna er miðstöðvar- hitun, sem virkar. Eldhúsið er með nýtísku innréttingu og baðið er alveg dásamlegt. Þarna er engin bílaumferð og ekkert nema íbúðarhús í kring. Fólkið, sem íbúð- ina bauð til kaups, fullvissaði okkur um, að þarna væri mjög hljóðlátt. Þau voru af- skaplega indæl. Maðurinn er víst arkitekt og vinnur hjá borginni, já, hjá borgar- skipulaginu held ég. En þau voru svo ind- æl. Þú veist, hvernig maðurinn minn er. Allt verður að ganga á stundinni. Og arki- tektinn var alveg jafntilbúinn til að ganga strax frá kaupunum. Reyndar skildi ég ekki hvers vegna hann vildi flytja úr svona yndislegri íbúð, en auðvitað höfðum við ekki orð á því. Við vorum svo hrædd um að hann skipti um skoðun og hætti við að selja. Já, maðurinn minn keypti íbúðina í morgun. Hann undirritaði kaupsamning- inn og alls konar önnur skjöl. Honum fannst verst að geta ekki flutt inn í dag. En við ákváðum, að eftir nákvæmlega tvo mánuði flyttum við inn. Svo var það búið og gert,. Við skáluðum í „ouzo“ og svo fórum við heim. Okkur lá sosum ekkert á, klukkan var rétt þrjú og við vildum gjarnan njóta kyrrðarinnar þarna sem lengst. Þetta er þarna í útjaðri Aþenu og hinum megin við hæðina, sem húsið stendur á, er stórt, autt svæði. Stærðar slétta. Dýrðlegt, sagði maðurinn minn. Við stöðvuðum bíl- inn og nutum útsýnisins og kyrrðarinnar. Þegar við ókum aftur af stað voru fréttir í útvarpinu. Þeir voru að segja frá því að borgarstjórinn væri að ákveða að byggja nýjan flugvöll — einmitt á fallegu slétt- unni rétt hjá íbúðinni, sem við vorum að kaupa." „Ég átti engin huggunarorð fyrir kon- una, en nikkaði aðeins kollinum eins sam- úðarfullt og mér var unnt. Þegar ég rölti heim og staðnæmdist á 20 skrefa fresti við umferðarljós og biðskyldu af ýmsu tagi, var mér undarlegur léttir að því að ganga um þetta gamla miðborg- arhverfi. Þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir hávaðann og umferðina og allt, sem að Omoníu er — þá dettur að minnsta kosti engum í hug að byggja þar nýjan flugvöll fyrir Aþenubúa. Aþenu, vorið 1984. 14

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.