Lesbók Morgunblaðsins - 16.04.1988, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 16.04.1988, Blaðsíða 8
leiðanna í kirkjugarðinum. Ég hamaðist eins og berserkur, bæði til þess að reyna að vera eins duglegur og „fullorðna fólkið" og svo var satt að segja ekki trútt um að ég væri hálfsmeykur eftir að farið var að skyggja. Eg var líka svo fjandi óheppinn að Hálf- dán gamli gat ekki verið hjá mér. Hann hafði verið lasinn í nokkra daga af hósta og mæði fyrir bijóstinu, svo hann gat ekki einu sinni staulast út að leiðinu hennar Bjargar. Mér hefði verið borgið ef hann hefði ver- ið hjá mér. Að vísu var kirkjugarðurinn skammt frá bænum, en mér fannst ég samt ekki vera allsendis öruggur. Draugasögumar, sem Hálfdán gamli hafði sagt mér, rifjuðust upp í huga mínum svo að ég svitnaði af ótta. Ég reyndi af alefli að hugsa um eitthvað annað, en tókst það ekki. Eftir því sem dimma tók varð ég smeyk- ari og smeykari. Hver vissi nema þeir dauðu kynnu að h'eimsækja mig í nótt. Ef til vill vaknaði ég við að sjá herbergið fullt af vofum sem skóku reiðulega kjúkumar framan í mig, eins og þær segðu: Ég vil fá grasið mitt! Skilaðu grasinu mínu! Ég reyndi að bægja þessum hugsunum frá mér með því að hamast sem mest ég mátti. En í hvert skifti sem ég heyrði eitt- hvert hljóð, ef ég til dæmis rak ljáinn í stein, hrökk ég við og horfði aftur fyrir mig eins og ég ætti von á að einhver draugskrumlan fálmaði til mín upp úr leið- unum. Það varð skuggsýnna og skuggsýnna og tjargaði kirkjuveggurinn fyrir framan mig varð eins og ægilegri og ægilegri. Loks gat ég ekki haldist þar lengur við og fleygði frá mér orfinu. En í því bili varð mér litið út að kirkju- • gaflinum. Sé ég þá ekki einhveija hrúku sitja á einu leiðinu, skáhallt undan kirkjugaflinum. Ég sá hana óglöggt og mér sýndist hún sitja hreyfíngarlaus og grúfa sig niður yfir leiðið. Það var eins og mér rynni kalt vatn milli skinns og hörunds og það var að mér kom- ið að reka upp óp af hræðslu. Fyrsta hugs- un mín var sú að hlaupa burt. En það var enginn hægðarleikur. Kirkjugarðurinn var svo hár að ég átti erfitt með að komast yfir hann og hliðið var framundan gaflinum, gegnt því sem draugurinn sat. Nú voru góð ráð dýr. Ég staðnæmdist augnablik og gat þá ekki að því gert að renna augunum til draugsa þótt mig hryllti við því. Það varð til þess að ég veitti honum nánari eftirtekt. En hvað var þetta! Var þetta ekki leiðið hennar Bjargar og gat þá ekki skeð að Hálfdán gamli hefði staulast þangað út og sæti þarna? Mér óx svo hugur við þá hugsun að ég þorði að ganga nær. Og þegar ég kom spölkorn nær sá ég að það var Hálfdán gamli sem sat á leiðinu. Það var eins og bylt væri af mér þungri byrði og af fögnuðinum hljóp ég til hans. Hann virtist ekki veita mér eftirtekt. Hann sat þama steinþegjandi og studdist við stafinn sinn og horfði til jarðar. Það var orðið svo dimmt að ég gat ekki vel greint andlit hans. „Ert það þú, Hálfdán?" kallaði ég til hans, því það var eins og óttinn væri ekki alveg horfinn. Hann hrökk við og leit upp. Mér sýndist eins og glampaði á tár eða eitthvað vott í hrukkunum fyrir neðan augun. „Já, Brynki minn, svo á það að heita að það sé ég,“ sagði hann lágt og eins og með hálfbrostnum málrómi. „Veistu hvað, ég var farinn að halda að þú værir draugur," sagði ég og herti upp hugann. „Manni dettur svo margt í hug þegar maður er einn úti í kirkjugarði," bætti ég við eins og til að afsaka mig. „Draugur . .. hm ... ekki er ég nú orðinn það enn og verð það vonandi aldrei... en skammt á ég eftir ólifað, drengur minn ...“ sagði hann og horfði fast á mig undan loðnu augnabrúnunum. Hann sagði þetta með svo raunalegri al- vöru að ég varð hvumsa við og hafði ég þó oft heyrt hann segja eitthvað líkt þessu áður. Mér datt í hug að eitthvað amaði að honum og fannst ég þurfa að hugga hann. „Osei, sei, sei, Hálfdán minn! Þú átt sjálf- sagt eftir að lifa í áttatíu ár enn og verða allra karla elstur!" sagði ég allborginmann- lega, bæði af því að ég hélt að það myndi hugga hann og eins af því að mér fannst þetta svo fullorðinslega sagt. Ég hafði nefni- lega heyrt móður mína segja sömu orðin við Hálfdán gamla áður. En hann virtist ekki hafa heyrt huggunar- Svona gat Hálfdán gamli setið kvöld eftir kvöld á leiðinu konunnar sinnar, alltaf í sömu stellingunum. Og hann gekk aldrei inn fyrr en sólin var hnigin til viðar og kirkjugaflinn varpaði svörtum náttskugga á leiðið, sem hann sat á. orð mín því hann hélt áfram í sama tón og sagði: „Ojæja! Þetta er nú leiðin okkar allra, og ég má verða þeirri stundinni feginn er ég fæ að leysast héðan. Ég er hvort sem er orðinn farlama skar og geri ekkert gagn í lífinu lengur. Er bara öðrum til byrði... Og svo er hana Björgu mína farið að lengja eftir mér hinum megin. Það verða nú fjöru- tíu ár í haust frá því við skildum." Málrómur hans varð eins og rólegri og fastari þegar hann sagði síðustu orðin. Hann rétti ofurlítið úr hryggnum og greip fastar um lurkinn. Hann horfði svo innilega vingjarnlega á mig, og ég sá nú glöggt að það voru tár í augum hans. „Þakka þér fyrir, Brynki minn, hvað þú hefir alltaf verið góður við mig. Það er fæfuvottur að vera góður við gamalmenni. g vona að guð umbuni þér það þessa lífs og annars. Guð launar fyrir þá voluðu ... En það skal ég segja þér að best gæti ég trúað að ég verði dauður á morgun!" Hann sagði þetta með svo mikilli sannfær- ingarvissu að mér fannst þetta hljóta að vera satt. Ég trúði honum og tárin komu fram í augun á mér þegar ég hugsaði til þess hve Hálfdán gamli hafði alltaf verið góður við mig og að nú ætti hann að deyja. Eg fann til sárs saknaðar og það var ekki laust við að gráthljóð væri í kverkunum á mér þegar ég svaraði honum: „Dauður á morgun!" Hvemig getur þú vitað það, Hálfdán minn? Hann þagði um stund og varð álútari og álútari. Ég heyrði að hann átti erfítt með að draga andann, hryglan sauð niðri í honúm. Það var eins og hann vissi ekki hveiju hann ætti að svara. Loks horfði hann beint framan í mig' og sagði: „Jú, það skal ég segja þér. Þú veist að ég er oft berdreyminn. Það er guðs gáfa sem ég, lof sé guði, aldrei hefi misbrúkað. Og í nótt dreymdi mig draum sem ég er viss um að verður fyrir dauða mínum. Vittu til, drengur minn, hvort hann kemur ekki fram!“ Hann þagnaði aftur og það var eins og hann hugsaði sig um. Síðan rétti hann mér mögru, kræklóttu höndina sína, og ég fann að hún var köld og stöm. „Tylltu þér héma hjá mér, drengur minn,“ sagði hann. „Það er kannske réttast að ég segi þér draum minn. Það verður hvort sem er í síðasta skipti sem ég segi þér drauma og þú sérð þá kannski eftir á að fleira er til en við mennimir vitum um. En þú verður að lofa mér að segja ekki hinu fólkinu frá draum mínum fyrr en ég er dauður.“ Ég tyllti mér á leiðið hjá honum og lof- aði honum að segja engum frá draum hans. Það var orðið svo dimmt í kringum okkur að ég sá ekki vel í andlit honum. Kirkjugafl- inn virtist mér vera orðinn svo hár og ógn- andi og leiðin vom áþekkust svörtum dýmm sem liggja fram á lappir sér. Ég fann hræðsluna grípa mig aftur og færði mig eins nálægt Hálfdáni gamla og ég gat. Við það sefaðist ég og allur hugur minn varð eins og að einum hlustum. Hann byijaði að segja draum sinn. „Ég þóttist standa héma úti á hlaðinu. Það var töluvert farið að skyggja en þó nokkm bjartara en nú. Ég var si svona að gæta að hvort ég sæi engan koma niður með Lóninu því mér fannst ég eiga von á einhveijum, annaðhvort blessuðum prestin- um eða einhveijum aðkomumanni. En ég gat ekki komið auga á neinn þvi það var orðið skuggsýnt frá að sjá og svo em augun í mér ekki góð eins og þú þekkir. Svona stóð ég stundarkom og varð einskis var. Þangað til mér sýndist allt í einu birta, rétt eins og þegar tungl skýst undan skýr á haustkvöldi. Og þá sé ég hvar tvennt kemur ríðandi niður Kvíavellina, karlmaður og kvenmaður. Þau riðu bæði dökkum, en karl- maðurinn hafði bleikan, söðlaðan hest í taumi. Ég sá þau miklu gleggra en ég sé þig núna þó þau væm nokkm fyrir neðan túngarðinn. Þau bar hratt yfír landið og það var eins og hestamir kæmu ekki við jörðina. Ég heyrði frísið og hófaglamrið í klámnum færast nær og nær og sá þau þeysa á harða spretti heim traðirnar. Þegar þau komu á hlaðið spratt kven- maðurinn af baki en karlmaðurinn sat kyrr á hestbaki. Hann var svartklæddur og hafði svarta grímu fyrir andlitinu. Hestarnir frísuðu og hristu sig. Kvenmaðurinn tekur þann bleika, sem grímumaður hafði í taumi, og gengur til mín og teymir hestinn á eftir sér. Ég bar ekki kennsl á hana fyrst, en þeg- ar hún kemur nær sá ég að það var engin önnur en Björg mín heitin. Ég varð si svona eins og hálfhissa því ég mundi eftir að hún var dáin, en brást þó glaður við. Hún gengur rakleitt til mín og rekur að mér rembingskoss. Ég gat ekki vel séð framan í hana því hún erúfði sig yfir mig en mér fannst eins og kuldahrollur fara um mig allan við koss- inn. Mig langaði til að segja eitthvað en gat ekki komið upp orði. Hún kyssti mig fast og lengi, rétt eins og kvöldið áður en hún dó, og þegar hún sleppti vörunum heyrð- ist mér hún hvísla að mér: „Þú kemur fram eftir til mín á laugardaginn. Ég skil þann bleika eftir.“ Ég ætlaði að svara einhveiju en varð þess þá var að hún var farin og þegar ég leit upp sá ég hvar hún þeysti niður traðim- ar við hliðina á grímumanninum. Ég sá hvemig svört töglin á klárunum slógust í loftinu og heyrði glymja í hófum þeirra eins og þegar hleypt er skaflajárnuðu yfír ís. Svo hurfu þau bak við Stekkjahamar. Þegar ég missti sjónar á þeim varð ég þess var að bleiki klárinn stóð ennþá hjá mér. Hann var afarstór vexti en svo magur að ég gat talið í honum hvert rif. Húðin var eins og gulbleik slepja utanum beinin. Hann hengdi höfuðið og skrælþurr tungan hékk út úr kjaftinum, en hann gaut á mig svo undarlegum augum að það fór hrollur um mig allan. Augun vom hvít og það glóði í þau eins og maurildi eða urðarmána. Ég hefí einu sinni séð þá bölvaða ófreskju áð- ur. Mér varð ekki um sel og ætlaði að taka út úr honum beislið og hleypa honum burt. En þá teygði hann fram makkann og ég sá augun færast nær og nær. Það glóði svo djöfullega í þau að mér fannst draga af mér allan mátt eftir því sem þau færðust nær. Svo fann ég að hann rak framan í mig vota snoppuna og þá var eins og hellt væri ísköldu vatni niður eftir bijóstinu á mér. Við það vaknaði ég.“ Hann hafði sagt mér draum sinn næstum því hvíldarlaust, eins og honum væri um að gera að segja hann sem fyrst. Líklega hefír það reynt of mikið á hann enda fékk hann ákafa hóstakviðu á eftir. Það var líka orðið hrollkalt og kvöldgolan hvein ömurlega í kirkjutuminum. Þegar hann mátti mæla fyrir mæðinni og hóstanum sagði hann við mig: „Þarna sérðu, drengur minn! Sá bleiki táknar dauðann. Og Björg mín beiddi mig að koma fram eftir á laugardaginn, en það er á morgun. Vittu nú til hvort þetta kemur ekki fram . .. En viltu nú ekki leiða mig inn, mér finnst ég vera orðinn svo máttlaus." Hann reis upp með erfiðismunum og studdi sig við öxl mína. Það tók langan tíma fyrir okkur að kom- ast heim því hann varð alltaf að stöðva við og við vegna hóstans. Hóstakviðumar urðu harðari og harðari og það var með naumind- um að við komumst inn í bæjardymar. Ég kom honum ekki lengra en á kláf sem stóð fyrir innan dymar. „Þama sérðu,“ stundi hann upp, „sá bleiki hefir sleikt bijóstið á mér.“ Ég varð að hlaupa inn eftir vinnumönnun- um, Munda og Sigga, til þess að hjálpa honum inn göngin og upp stigann. Þeir hálf báru hann upp í baðstofuna en sjálfur gat hann klætt sig úr fötunum og skreiðst upp í bólið. Hóstakviðumar héldu áfram eftir að hann var kominn í rúmið og hann hafði enga matarlyst um kvöldið. Ég sat við rúm hans mikið af kvöldinu en við þögðum báðir. Rétt fyrir háttatímann bauð ég honum góða nótt og bað hann mér þá allrar blessunar. Mér heyrðist hann vera að tauta ein- hveija bæn fyrir munni sér þegar ég gekk ofan stigann. — Mér var órótt innanbijósts þegar ég hátt- aði. Draumur Hálfdáns hafði haft djúp áhrif á mig. Ég trúði honum án nokkurs efa. Myrkrið og kirkjugarðurinn og ekki síst hóstakjöltrið höfðu læst hann djúpt inn f

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.