Lesbók Morgunblaðsins - 26.10.1991, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 26.10.1991, Blaðsíða 10
Um lögheiti Þau nafnalög sem sett voru árið 1925 hefjast á þessa k lund: „Hver maður skal H heita einu íslensku nafni " eða tveim ...” Hliðstæð ákvæði í þeim nafnalög- um sem handhafar for- setavalds staðfestu á út- mánuðum í vor eru að því leyti frábrugðin að nú verður heimilt að gefa barni þijú heiti, en á hinn bóginn leggja þau engu minni áherslu á eðli þeirra nafna sem leyfi- leg eru: „Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki bijóta í bág við íslenskt málkerfi.” Hugtak það sem fólgið er í orðunum „íslenskt eiginnafn” er engan veginn auð- skýrt og hinn kosturinn bætir ekki úr: „eða hafí unnið sér hefð í íslensku máli”. Um aldaraðir hefur þjóðin vanist ýmsum eigin- nöfnum í heilagri ritningu (svo sem Nóa, Absalon, Sál, Elía, Batsebu, Job o.s.frv.) og raunar í öðrum bókum af suðrænum uppruna (svo sem Tristram, ísönd, Bevers, Otuel, Landrés, Rollant o.s.frv.) og verður því naumast mótmælt að slík nöfn hafi unnið sé hefð í móðurmáli okkar, jafnvel þótt þau þyki illa fallin til að verða íslensk eiginnöfn. Væntanlega verður málið skýrara eftir að Hagstofan hefur gefið út þá tilteknu „skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast skv. 2. gr., og er hún nefnd mannanafna- skrá í lögum þessum”. Svo er hermt í þriðju grein laganna. Þau nöfn sem íslenskum foreldrum er heimilt að kalla börn sín mætti kalla lögheiti og skrána lögheita- skrá. Og með því að ég er Norðlendingur þá get ég ekki fellt mig við orðið manna- nafnanefnd, þar sem helsti mörgum nef- hljóðum er hrúgað saman af gáleysi, enda er það bæði langt og ljótt, fer ilia í munni. [Innan hornklofa skal þess getið að ýmsar víðfrægar málsgreinar eru gersamlega n- lausar, svo sem ummæli Jóhannesar guð- spjallaskálds í fornri þýðingu: „I upphafi var orð, og orð var með guði, og guð var orð.”] Heldur kýs ég að nota orðið nafnar- áð eða lögheitaráð um þá þremenninga sem nú er falið að stýra nafnavali þjóðar- innar. Um hlutverk þeirra og völd er fjall- að í 18. grein laganna, en hún ber vitni um það staka traust sem alþingi ber til þeirra: „Úrskurðir mannanafnanefndar eru fullnaðarúrskurðir. Nefndin skal árlega birta niðurstöður úrskurða sinna.” Æski- legt hefði verið að skylda nefndina til að birta rökstudda greinargerð með úrskurð- um sínum, en hér er það látið nægja að hún birti einungis niðurstöður þeiiTa. Nafnaráði er með lögum þessum ekki einungis gert rétt og skylt að velja þau nöfn sem þjóðin má nota uns ný lög eru sett og leiðbeina um nafngiftir, heldur er því gefið slíkt einræðisvald að það er einn- ig æðsti dómari í þeim nafnadeilum sem kynnu að spretta af vanhugsaðri löggjöf. Ýmis ákvæði laganna mætti orða langtum betur en alþingi lét sér sóma á liðnum vetri, og hlýtur það að valda Norðlending- um nokkrum vonbrigðum hve Iítinn þátt þingmenn þeirra virðast hafa átt í nafna- lögunum. Eg get ekki komið auga á eina einustu setningu sem bendi ákveðið til Eftir HERMANN PÁLSSON norðlenskrar málvenju. Hins vegar skortir ekki reykvísk auðkenni á tungutaki lög- gjafa. Þó skal ekki farið út í slíka sálma að sinni heldur víkja málinu að þeim óglöggu merkjaskilum sem verða milli lög- heita og þeirra nafna sem íslenskir foreldr- ar mega ekki velja börnum sínum. II Orðin „íslenskt lögheiti” verða ekki skil- greind til hlítar nema með því móti að höfð séu í hyggju öll þau eiginnöfn (skírnar- nöfn) sem íslendingar hafa valið börnum sínum frá því á landnámsöl og fram á þau dægur sem nú eru á hvörfum. Hér er um geysimikinn og sundurleitan nafnafjölda að ræða, en þó má skipta öllum þeim sæg í fjóra sjálfstæða hópa sem hér segir: A. Norræn heiti; B. Tökuheiti; C. Aðskota- nöfn og D. Nýnefni. Til lögheita teljast A, B og hluti af D, en ólögleg teljast öll nöfnin í C og sum sem eru í D. Sérkenni hvers flokks um sig eru þau sem nú verða rakin. A. í þessum flokki eru heiti af norrænum stofni sem hafa tíðkast hér að eiginnöfnum frá fornu fari, og raunar önnur sem hætt var að nota á fyrstu öldum landsbyggðar; þau eru meginstyrkur íslenska nafnaforð- ans í heild. Norrænu heitin eru annað tveggja einliða; Björn, Bera, Birna, Katla, ella þá tvíliða; Hall-bera, Þor-bjöm, Þor- katla, Ketil-björn. Þess er skylt að geta að ekki teljast öll norræn mannanöfn og kvenna til íslenskra löheita, enda hafa ýmis heiti tíðkast í Noregi allt frá dögum Haralds hárfagra og þó aldrei verið notuð hérlendis. í íslenskum mannanöfnum (1960) er slíkra nafna getið í svigum. B. Tökuheiti kallast þau mannanöfn og kvenna sem eru ekki af norrænum stofni en lúta þó aga íslenskrar tungu. Hér er um að ræða heiti úr írsku, ensku, þýsku og latínu, en mörg þau nöfn sem íslending- ar kynntust í kristni voru upphaflega kom- in úr hebresku eða grísku; á síðari öldum bárust hingað mörg heiti frá Danmörku. Tökunöfnin beygjast eftir sömu reglum og tiltekin norræn sérheiti í A og raunar einn- ig önnur nafnorð. Ýmis kvennanöfn af út- lcndum/rótum beygjast veikt (Lilja, Anna, Pála), en hitt er miklu algengara að þau gangi eins og ó-stofnar (Vilborg, fornt tökuheiti úr ensku; Elín). Mörg tökuheiti í karlkyni hlíta sömu breytingum og venjulegir a-stofnar (Páll, Jón, Stefán, Kjartan), og þó vantar stund- um karlkynsendingu í nefnifalli. í tökuheit- um er ekkert hljóð sem hljómar annarlega í íslenskum eyrum, og í stafsetningu þeirra bregður ekki fyrir atriðum sem koma læs- um íslendingi kynlega fyrir sjónir. III C. Aðskotanöfnum svipar til tökuheita um uppruna en eru að því leyti frábrugðin að þau hafa einhver auðkenni í beygingu (sum þeirra eru óbeygjanleg), framburði eða rit- hætti sem koma ekki heim við venjur ís- lenskrar tungu; yfirbragð þeirra er of annarlegt til að unnt sé að telja þau til lögheita. Þó getur orðið býsna örðugt að greina á milli tökuheita og aðskotanafna; smekkur manna mun ráða miklu um hvort tiltekið mannsnafn þyki hæft til notkunar hérlendis eða ekki. í fomritum bregður ekki einungis fyrir tökuheitinu Páll sem beygist eins og áll heldur einnig útlendu myndinni Paulus sem beygist að latneskum hætti. Tökuheiti eru sambærileg við töku- orð úr útlendum tungum sem náð hafa þegnrétti í móðurmálinu, en aðskotanöfn eru á borð við útlendar slettur, annarlega og óvelkomna gesti sem eiga hér ekki heima. Meginhluti þeirra aðskotanafna sem hér hafa tíðkast um nokkrar kynslóðir eiga rætur sínar að rekja til Dana, þótt ýmis nöfn af slíku tagi séu þegin úr reyfurum og öðrum bókum fremur en frá lifanda fólki. Ýmis aðskotanöfn eiga sér norrænar fyrirmyndir eða hliðstæður, t.a.m. Rúrik sem kom hingað úr dönsku, og þangað úr rússnesku, en upphaflega er þetta norræna nafnið Ilrærekur. Svipað má segja um O/gu-nafnið; það er einnig komið frá Dön- um en þ'eir sóttú þ’áð til 'Rússa'sem afbök- uðu He/gu-nafnið á þessa lund. Einsætt er að nöfn sem hafa aðra stafi en tíðkast í stafrófi okkar eða skipa stöfum saman á óíslenskan hátt geta ekki talist til töku- heita og eru því aðskotanöfn: Bachmann, Cecil, Guido, Knud; Malmquist, Nikolaj, Scheving, Walter, Edith, Milly, Thea, Zóp- hanías og mörg önnur skera sig harkalega úr frá lögheitum. IV D. Nýnefni kallast þau heiti sem eru að sumu eða öllu leyti af norrænum rótum en hvika þó frá íslenskum nafnasiðum. Hér er um býsna sundurleitan hóp að ræða. Sér í flokki eru svokallaðir blendingar, en það eru nöfn sem blanda saman norrænum og suðrænum stofnum, svo sem Krist-rún, Guð-jón, Sigur-jón. Elstu nöfnin af slíku tagi eru frá 12. öld, önnur miklu yngri, og mörg þeirra teljast vafalaust til lög- heita, þótt margar samsetningar skorti þá tign sem eiginnöfn þurfa helst að hafa: Elen-mundur, Sigur-jens, Þor-jón, Hans- fríður. Sérstöku máli gegnir um þann mikla sæg af nöfnum sem er myndaður með því móti að skeyta útlendum endingum við ís- lenska stofna: Guðrún-íus, Guðmund-ína, Guð-mon, Hákon-ía, Bárð-lína, Bjarna- sína, Katrín-us. Slík nöfn eru tvímælalaust ólögleg. Yfirleitt þykir ærið vafasamt að veita þeim nöfnum fullan þegnrétt sem fólk hefur ijálað svo við að íslenskt sér- kenni þeirra eru skert, t.a.m. með því móti að fella niður nefnifalls-endingu í karlaheitum: Hallberg, Hallvarð. Ólögleg þykja einnig þau nöfn sem eru sett saman af þrem stofnum: Gunn-þór-unn, Sigur- stein-dór, Sig-trygg-vina. Nokkur heiti eru svo úr garði gerð að ekki er leyfilegt að nota þau í samsetningum: Helga, Helgi, Gissur, Gísli, Gyða, Sturla, Tryggvi, Árni, enda eru eftirtalin nöfn ekki tæk í hóp lögheita: Sigurgissur, Sigurhelgi, Sig- ursturla, Árnibjörn. Á undanförnum árum hafa mörg sam- heiti verið gerð að mannanöfnum eða kvenna, og fer misvel á slíkum heitum. Eg felli mig ekki við hugtaksheiti á borð við kvennanöfnin Fríðsemd, Blíða, Æska, Birta, Sigurást og sum hlutstæðu heitin skortir þá reisn sem fylgir sönnum sérnöfn- um svo sem Stúlka, Brá. Mörg nýnefni eru að því leyti ólík eldri heitum að sérhljóða er brugðið: Bjargheiður > Björgheiður, Arndís > Árndís. Sumir nafnaliðir eru að verða helsti vinsælir og gætu því valið miklum usla í nafnakerfinu ef ekki er viðn- ám veitt; sól, rós, Iín eru í þeim fijósama hópi. fjöldi samsettra nýnefna frá þessari öld verður að teljast ótækur, jafnvel þótt nafnaliðirnir séu prýðilegir út af fyrir sig en eiga þó ekki heima í sambýli við þá félaga sem nafngjafar hafa fengið þeim. Lítill menningarauki þykir að nöfnum sem berast of mikið á og kveikja hugmyndir um mannlegt eðli ella þá um brigða náttúru rétt eins og hún kemur okkur fyrir sjónir þegar hún er okkur helst að skapi. Berg- dögg, Blóm-hvít, Blæ-dís, Brim-rún, Haf- lína, Hug-ljúf, Ljós-borg, Loft-veig, Vig- dögg, Vor-dís, Vor-sveinn. V Þótt orðalagið á fjórðu grein sé heldur óljóst eins og endranær í nýjum lögum, þá mun eftirfarandi klausa eiga að lúta að lögfestu eiginnafna: „Barn getur öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða í skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Hagstofu íslands, Þjóðskrár, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags.” Vita- skuld öðlast barn nafn þegar foreldrar hafa komið sér saman um hvað það eigi að heita og fara að kalla krógann því heiti; slíkt getur átt sér stað löngu fyrir skírn. Nafnalögin yrðu miklum mun einfaldari og skynsamari ef öllum foreldrum og öðr- um lögráðendum barna væri skylt að til- kynna sýslumönnum, Hafstofu eða Þjóð- skrá nýjar nafngiftir innan ákveðins tíma (þijár vikur frá fæðingu sýnist mér nægur frestur), hvort sem barn er skírt eða ósk- írt, kristið eða heiðið. Eini þátturinn í skírn- inni sem varðar lögin er nafngiftin sjálf. Vitaskuld munu kristnir foreldrar halda áfram að láta skíra börn sín, eins og raun- ar hefur tíðkast hér síðan á elleftu öld. „Barn hvert skal færa til skírnar er alið er,” segir í Grágás, en nú ríkir svo mikið trúfrelsi með þjóðinni að kristinni kirkju er ekki hlítt einni saman, heldur geta for- eldrar leitað á náðir forstöðumanns ásatrú- armanna (allsheijargoðans og skáldsins Sveinbjörns Beinteinssonar á Draghálsi), sem mun vera eitt af þeim „skráðu trúfé- lögum” sem prýða nafnalögin. insmins® @ IB b m B r' Islendingar og gyðingar Inýjustu bók Isaiha Berlins „The Cro- oked Timber of Humanity”, 1990, er áður óbirt ritgerð um Joseph de Mais- tre höfund hins sérstæða og ágæta rits „Les Soirées de Saint-Pétersbo- urg”. I því sambandi rita Berlin og Maistre um að gyðingar hafi lifað af með hjálp texta Gamla testamentisins. Við þessu má bæta helgimáli þeirra, hebreskunni, ættvísi og lögvísi, sem á sér upphaf í þeim textum. Engin þjóð hefur átt slíkan styrk í rituðum textum og helgisiðum sem gyðingar. Þrátt fyrir tvístrun þjóðarinnar eftir eyðingu musterisins í Jerúsalem 70 e. Kr. hefUr þjóðernisvitund þeirra haldist allt fram á þennan dag. Hvar sem gyðingar fóru voru helgir textar með í för, þar með lögin og sagan. Staðfestu í landi höfðu þeir enga lengst af, var bannað að eiga jarðir víðast hvar á miðöldum og urðu að þola gjörræði og ofsóknir kristinna manna og íslamskra. Þeirra staðfesta var bókin, fjöregg þeirra og lífsakkeri. Það var ekki fyrr en eftir flakk og ofsóknir, sem náðu ómennskri stærð og hryllingi undir stjórn þjóðernis-sósíalista á Þýskalandi í síðustu heimsstyrjöld, að þeim var úthlutað samastað af þorra þjóða heims- ins í ísrael. Þeir höfðu þá verið flökkuþjóð í tæp 1900 ár. Það hefur gengið erfiðlega að skýra for- sendur íslensks bókmenntablóma á 12. og 13. öld. Hvernig stendur á því að afburða- höfundar eins og Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson rita bækur sem eiga sér fáar lík- ar í Evrópu á svipuðum tíma, auk þess sem önnur bókmenntaverk benda til ekki minni listamanna, þ.e. íslendinga sögur. Hin fornu kvæði virðast hafa lifað hér á landi eftir landnám í munnlegri geymd, þar til þau eru skráð eftir að eiginleg ritöld hefst með kristninni og klerklegum menntum. Þessi fornu kvæði bera með sér blæ þjóðflutning- anna og hafa e.t.v. lifað með flytjendum þeirra í 3-400 ár. Hvernig stendur á því að kvæði þessi skyldu ekki lifa í Noregi og víðar á Norðurlöndum, þar sem tunga þeirra (kvæðanna) var töluð? Voru þessf kvæði bundin vissum hópum eða ættum og flutt- ust með þeim til íslands á 9. og 10. öld? Þær ættir sem flytjast til íslands eiga sér ættarsögur í Landnámugerðunum. Ættvís- in er öðrum þræði kjarni þeirra saman- tekta. Slíkar samantektir í Noregi á ármið- öldum voru ekki til eða hafa þá ekki varð- veist, hvérs vegna ekki? Ættin er staðfestu- snauðri þjóð eða hópum, staðfesta, sbr. gyðinga. Var sá hópur manna og þær ætt- ir sem hingað fluttu komnar sunnan úr Evrópu, allt frá Kaspíahafi og sléttum Ungverjalands eins og Barði Guðmundsson hélt fram? Meðal germanskra flökkuþjóða á þjóðflutningatímunum, var farið með bálka og kvæði. Karl mikli lét safna saman fornum söngvum eða kvæðum forn-franka, en það safn er týnt. Þau gern.önsku hetju- kvæði sem geymst hafa eru skyld Eddu- kvæðunum um efni og form. Jordanes minn- ist á forn kvæði í Gotasögu sinni. Þýsk fornkvæði og ensk, Beowulf og Hilde- brandsljóð eru uppkomin á þjóðflutninga- tímunum. Snorri Sturluson segir Óðin hafa flutt skáldskaparíþróttina frá Svartahafi til Norðurlanda. Og skáldskaparíþróttin var iðkuð áfram af mestum krafti á ísiandi, sbr. hirðskáldin. Flökkuþjóð sem á sér stað- festu í bundnu máli flyst til íslands og iðk- ar þar áfram skáldskap og vinnur síðar upp bækur í lausu máli úr heimildum fornra kvæða og iðjan heldur áfram. Það er ort og skrifað eftir ritöld og áfram „of ið sama far” fram allar aldir. Minning forfeðranna varð styrkur þjóðarinnar eftir að landkost- um hnignaði og fátækt og kuldi þjarmaði að þjóðinni. Bókfestar minningar forfeðranna, ættar- tengsl við sömu forfeður og Íögvísin blómstra hér á landi óvenju vítt. Hin forná aristókratíska hefð lifðir, jafnvel í meðvit- und hjáleigubóndans og verður haldreipið þegar þjarmar að. Bókin gefur þeim reisn- ina, þegar stéttarbræður þeirra á Norður- löndum koðna niður í fyrirbrigðið Jeppa á Fjalli. Bókin er sameiginlegt fjöregg Islend- inga og gyðinga og hefur svo verið um aldir. SIGLAUGUR BRYNLEIFSSON

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.