Lesbók Morgunblaðsins - 16.01.1993, Blaðsíða 10
VERKEFNIÐ
Mynd: Yngve Zacharias
Klukkan var að ganga sex
og það var farið að
kólna. Fólk á heimleið
úr vinnu greikkaði
sporið þegar það gekk
yfir Lækjartorg. Það
var nóvember og orðið
dimmt.
í slqoli undir húsvegg stóð kona og leit
á armbandsúrið í tíunda sinn á fimm mínút-
um. Hún var um fertugt, lagleg og með
greindarleg augu. Ljóst hárið var sett upp
í hnakkanum og fest með stórri spennu.
Hún var í dökkri grængrárri yfirhöfn og
um mittið var fastsaumað dökkbrúnt leður-
belti. Konan hét Sif og var um það bil að
taka sér far með strætisvagni í annað sinn
á tuttugu árum. Fyrra skiptið hafði verið
þennan sama dag, þremur klukkustundum
fyrr.
Ástæðan fyrir því að Sif notaði ekki stræt-
isvagna var einföld. Hún þurfti þess ekki
með. Hún ók heimilisbílnum því maður henn-
ar hafði bfl frá fyrirtækinu. Þau bjuggu í
raðhúsi í Fossvogi ásamt tveimur stálpuðum
bömum sínum.
Sif var kalt. Hún velti fyrir sér hvort hún
ætti að fara inn í biðskýlið en féll frá því.
Það virtist vera svo rnargt fólk þar inni og
vagninn átti að vera kominn fyrir löngu.
Hún horfði áhyggjufull á innpakkaða mynd,
u.þ.b. 60 sinnum 80 sentímetra stóra, sem
stóð við hlið hennar. Það hafði kannski ekki
verið góð hugmynd að sækja hana á
innrömmunarverkstæðið úr því að hún var
ekki á bflnum. Hún hafði á tilfinningunni
að þetta ætti eftir að verða erfið ferð og
það hvarflaði að henni að taka leigubfl.
Nei, hún varð að ljúka þessu. Það var hluti
af verkefninu.
Þetta verkefni átti sér langan aðdrag-
anda. Þær voru sex vinkonumar sem höfðu
haldið hópinn frá því í menntaskóla. Þær
höfðu allar haft áhuga á bókmenntum og
myndað ieshring. Þær lásu sömu bækumar
og skiptust síðan á skoðunum. Þetta var
þroskandi áhugamál sem veitti þeim mikið.
Tvær þeirra fóm í bókmenntafræði í Háskól-
anum og ein varð leikhúsfræðingur frá ensk-
um háskóla. Félagsskapur þeirra hafði þró-
ast út í nokkurskonar menningarklúbb. Þær
fóra saman í leikhús, á tónleika og jafnvel
í kvikmyndahús. Á eftir skiptust þær á skoð-
unum um verkin yfir kaffibolla og líkjörs-
tári á notalegu kaffíhúsi. Þær fylgdust með
blaðadómum og bára saman við eigin álit
og skoðanir.
Um sumarið hafði komið fram ný hug-
mynd í hópnum. Þeim datt í hug að læra
„creative writing" eða ritlist eins og ungi
kennarinn, sem þær réðu, kallaði það. Hann
var nýkominn frá námi í Bandaríkjunum
þar sem hann hafði lokið MA-prófi í faginu.
Námið átti að standa yfir veturinn og að
því loknu vonuðust þær til að hafa skrifað
hver sína smásöguna sem þær ætluðu síðan
að láta gefa út í bók.
Námskeiðið fór vel af stað. Kennarinn
lagði fyrir þær allskonar verkefni sem þær
Verkefnið var tæknilegs
eðlis. Sif átti að skrifa
frásögn sautján ára
stúlku, sem situr framar-
lega í strætisvagni.
Smásaga eftir VIKTOR A.
INGÓLFSSON
urðu skilyrðislaust að vinna. Úrlausnimar
vora fjölfaldaðar og þær lásu allt efnið yfir.
Síðan hittust þær með kennaranum og
gagnrýndu verk hverrar annarrar. Þetta bar
góðan árangur og þær lögðu sífellt meiri
vinnu í að skila vönduðu verki. Kennslan
var tvisvar í viku. Annar tíminn fór í að
skoða þeirra eigin verk en hinn tíminn í að
lesa og ræða verk þekktra höfunda. Tímam-
ir áttu að standa yfír frá klukkan fimm til
sjö en oftast drógust þeir fram undir níu,
slíkur var áhuginn.
í síðasta tíma lagði kennarinn fram nýtt
verkefni. Það var tæknilegs eðlis, gömul
kona er að fara upp í strætisvagn. Ein átti
að skrifa lýsingu gömlu konunnar, önnur
skrifaði frá sjónarhóli bílstjórans, þriðja sem
alvitur höfundur. Sif átti að skrifa frásögn
sautján ára stúlku, sem situr framarlega í
vagninum.
„Guð minn góður,“ sagði Sif þegar verk-
efnið lá fyrir. „Ég hef ekki farið með
strætisvagni ... „hún hugsaði sig um,
fjöratíu mínus tuttugu, „ ... i fimmtán ár.“
Kennarinn horfði á hana með óræðum
svip. „Þú verður þá að fara í kynnisferð,
afla gagna.“
Þetta var ástæðan fyrir þessari bæjarferð
með strætisvagni.
Hún byijaði að undirbúa ferðina eftir
hádegið. Hún hringdi á skrifstofu Strætis-
vagnanna til að spyijast fyrir um með hvaða
vagni væri heppilegast að fara til að kom-
ast í miðbæinn. Hún fékk upplýsingar um
það og tímaáætlun vagnsins. Loks spurði
hún um fargjaldið.
Hún var lengi að velta fýrir sér hvemig
hún ætti að klæða sig og ákvað að reyna
að vera látlaust og hlýlega klædd, í góðum
leðurstígvélum sem gott var að ganga í.
Hún fór tímanlega á biðstöðina og þurfti
að bíða litla stund. Vagninn kom á tilsettum
tíma og hún var eini farþeginn sem steig
inn á þessum stað. Hún hafði fargjaldið til-
búið og lét smápeningana detta í baukinn.
Síðan settist hún framarlega í vagninum.
Þetta virtist vera nýlegur bfll. Sætin vora
klædd með fallegu, hreinu áklæði og öll
innréttingin var óslitin.
Vagninn fór mjúklega af stað og það fór
vel um farþegana. Fyrir utan Sif vora þeir
aðeins fimm. Tvær stúlkur um fermingu
skröfuðu saman í aftasta sætinu, piltur inn-
an við tvítugt horfði ólundarlega út um
gluggann með skólatösku í sætinu við hlið
sér og snyrtilega klæddur maður á sextugs-
aldri las í biaði. í fremsta sætinu fyrir aftan
vagnstjórann var gömul kona með veskið
sitt opið á hnjánum og taldi peninga upp
úr buddu. Næst þegar vagninn stansaði stóð
hún upp og lét smápeninga falla í baukinn.
Sif setti þetta atferli á sig, hún gat notað
það í verkefninu. Gamla konan studdi sig
þegar hún steig inn í vagninn og lét sig falla
í fremsta sætið. Hún opnaði veskið sitt og
leitaði að smápeningum. Það var ágætt að
vinna út frá þessu.
Þetta var þægileg ferð og tók stuttan
tíma. Sif steig út á Lækjartorgi ásamt öðr-
um farþegum. Þetta var ekki svo afleitur
ferðamáti. Þama hafði hún losnað við að
aka sjálf og síðan að finna bflastæði. Hún
gat gert hvað sem hún vildi án þess að
hafa áhyggjur af stöðumæli. Hún mundi
örugglega gera þetta oftar.
Hún heimsótti eina af vinkonunum sex
sem vann á lögmannsskrifstofu og saman
fóra þær á kaffihús. Sif sagði vinkonunni
frá ferðinni með strætisvagninum en minnt-
ist ekki á hugmyndina sem hún hafði feng-
ið. Hún vildi sitja að henni ein. Þær ræddu
um hinar vinkonumar og námskeiðið, hrós-
uðu hvor annarri fyrir verkefnin og gagn-
rýndu verk hinna harðar en þær höfðu gert
í áheym höfundanna. Tíminn var fljótur að
líða og klukkan var orðin hálf fimm þegar
þær stóðu upp og kvöddust. Sif ákvað að
nota ferðina og sótti myndina sem þau hjón-
in höfðu nýlega keypt.
Sif hafði komið á biðstöðina á Lækjar-
torgi nokkra áður en vagninn átti að fara
samkvæmt áætluninni en nú brá svo við
að hann var of seinn. Hún reyndi að skýla
sér fyrir norðanáttinni undir húsvegg og
virti fyrir sér umhverfið. Hún hugsaði til
þess þegar hún var lítil telpa og fór með
hvíta skauta niður á Tjöm. Þá stansaði
strætisvagninn á þessum sama stað. Hún
sá fyrir sér hvemig vagnamir, sem þá vora
gulir og grænir, stóðu í hring á sjálfu torg-
inu umhverfis klukku með auglýsingum og
skrítinn símaklefa. Þá var ekið um Austur-
stræti. Nú fannst henni þetta svæði svo lít-
ið og hún furðaði sig á hvernig þetta hafði
allt saman komist fyrir.
Fimmtán mínútum á eftir áætlun kom
loks vagninn. Sif leist ekki á blikuna þegar
hún sá mannflöldann sem gerði sig líklegan
til að stíga inn. Hún fór aftast i hópinn og
komst inn eftir langa mæðu. Myndin þvæld-
ist fyrir henni og hún lenti í erfiðleikum
með að ná í peninga til að borga. Hún fann
ekki smápeninga svo hún tróð hundrað
krónu seðli í baukinn. Hún stóð við hliðina
á vagnstjóranum þar til stöðvað var á næsta
stað. Þar var aftur stór hópur af tilvonandi
farþegum. Sif varð að troða sér aftar í vagn-
inn til að vera ekki fyrir. Þetta var gamail
vagn, miklu eldri og slitnari en sá sem hún
hafði verið í fyrr um daginn. Hann tók af
stað með rykk svo Sif hrasaði og lenti á
manni sem stóð næstur við hana. Hún fann
lykt af manninum, lykt af úldnum fiski.
Hún hrökk til baka með viðbjóði.
„Afsakið," sagði hún.
Maðurinn leit varla á hana. Þetta var
gamall verkamaður í skítugum og slitnum
vinnufötum, órakaður og með klepra af
neftóbaki í skeggrótinni á efri vörinni. Sif
tókst að koma sér betur fyrir en varð þá
að þrengja að tveimur drengjum, á að giska
ellefu ára, sem stóðu við gluggann og stungu
saman neíjum. Hún leit afsakandi á þá og
þeir horfðu undrandi á hana. Hún reyndi
að brosa og sneri sér síðan frá þeim.
Vagninn var troðfullur af alls konar fólki.
í sætinu fyrir framan Sif sat kona á þrítugs-
aldri með bam á fyrsta ári í fanginu en
annað eldra stóð volandi við hlið hennar.
Tvær eldri konur stóðu og töluðu saman.
Önnur var akfeit og kvartaði yfir að fá
ekki sæti. Loks aumkvaðist yfír hana eldri
maður, óeðlilega grár í andliti, og stóð upp.
Sú feita kom eins miklu af sjálfri sér fyrir
í sætinu og kostur var og hélt sér þar með
því að styðja fætinum út í ganginn. Maður-
inn sem sat í innra sætinu og hafði verið
að lesa í blaði, reyndi að gera eins lítið úr
sér og hann gat.
Sif leið illa. Hún fékk innilokunarkennd
þegar fólkið þrengdi að henni og henni var
óglatt af loftinu þama inni. Hún iosaði um
beltið á kápunni og hneppti frá efstu
hnöppunum. Mannfjöldinn hafði þrýstgamla
verkamanninum alveg að henni og til að
losna undan lyktinni varð hún enn að
þrengja að drengjunum sem stóðu fyrir aft-
an hana.
Maður í blárri úlpu talaði lágt við sjálfan
sig. Hann leit á Sif, en hún sneri sér snöggt
undan. Hann er sennilega ekki normal hugs-
aði hún.
Þessi strætisvagnaferð var öll önnur en
sú sem hún hafði farið fýrr um daginn. Nú
var það ijarri henni að hugsa um verkefnið.
Hún vonaðist aðeins til að ferðinni lyki sem
fyrst svo hún kæmist út úr þessari mar-
tröð. En ferðin gekk seint. Umferðin var í
hámarki þar sem allir vora á leið úr vinnu
og vagninn mjakaðist aðeins áfram. Hver
viðdvöl á biðstöð tók óratíma því fólkið
þurfti að troðast um vagninn til að komast
út eða inn.
Gömul kona í grárri skítugri ullarkápu
og með skýluklút brosti til Sifjar svo skein
í tannlausa gómana.
„Það er alltaf þessi örtröð í háifsex-
vagninum," sagði gamla konan eins og til
skýringar. Sif reyndi að brosa kurteislega,
en svaraði engu.
Þegar biðstöðin, þar sem Sif ætlaði út,
loksins nálgaðist, leitaði hún að bjölluhnapp
en einhver annar varð fyrri til að hringja.
Vagninn stansaði og hún tók myndina upp
og ætlaði að smeygja sér að dyranum. En
hún var föst. Full angistar leit hún við.
Ungu drengimir vora horfnir, en beltið á
kápunni hennar hafði verið bundið við slá
með föstum hnútum. Hún sleppti myndinni
og reyndi að losa hnútana. Það gekk engan
veginn og hún heyrði dymar lokast og fann
vagninn síga af stað.
„Stans!" kallaði hún örvæntingarfull. „Ég
þarf að komast út.“
Vagninn stansaði með rykk og dymar
opnuðust aftur. Hún reyndi áfram að losa
hnútana, en þeir vora óleysanlegir. Hún leit
í kringum sig. Allir farþegamir virtust horfa
á hana og henni rann kalt vatn á milli skinns
og hörunds. Vagninn rann aftur af stað.
„Hjálp!" kallaði hún. „Ég er föst.“
Vagninn stansaði aftur. Sumir farþeg-
anna horfðu ýmist samúðarfullir á Sif eða
vandræðalegir hveijir á aðra, en aðrir létust
ekki taka eftir henni og störðu út um
gluggana. Sif fannst hún vera föst í gildra.
Maðurinn í bláu úlpunni þrengdi sér til henn-
ar og vildi aðstoða.
„Snertu mig ekki!“ æpti hún.
Vagnstjórinn var nú kominn. Hann hafði
orðið að fara út um framdymar og inn að
aftan tii að komast að henni. Hann var í
einkennisbúningi, en það var greinilega
langt síðan hann hafði getað hneppt jakkan-
um utan um stóra ístruna.
„Viltu gjöra svo vel að losa mig,“ sagði
Sif við vagnstjórann slq'álfandi en skipandi
röddu.
Vagnstjórinn var ekki viss hvemig hann
átti að taka á málinu. Hann leit á hnútinn,
en sá að hann var óleysanlegur með góðu
móti.
„Ég verð að halda túmum áfram," taut-
aði hann.
„Viltu gjöra svo vel að losa mig,“ endur-
tók Sif.
Vagnstjórinn leit ráðvilltur í kringum sig.
Gamli verkamaðurinn sýndi nú loksins við-
brögð. Hann stakk hendinni í buxnavasann
og kom upp með vasahníf. Hann opnaði
hnífínn og brá honum eldsnöggt á beltið
fast upp við hnútinn.
„Jæja heillin. Þá ertu laus,“ sagði hann
kíminn. Sif tók andköf. Hún lét vagnstjór-
ann hjálpa sér út. Sá í bláu úlpunni kom á
eftir með myndina.
„Er allt í lagi með þig?“ spurði bílstjórinn.
„Já,“ svaraði hún með ekka.
Vagnstjórinn horfði rannsakandi á hana.
„Heldurðu að þú komist ekki heim til þín?“
„Jú,“ svaraði hún, tók upp myndina og
gekk af stað. Vagnstjórinn horfði á eftir
henni, steig síðan upp í vagninn og ók af
stað.
Sif gekk heim á leið óstyrkum skrefum.
í huga hennar bergmáluðu orð sem hún
hafði heyrt ungan pilt segja þegar hún var
leidd út úr vagninum: „Kellingin er bijáluð."