Lesbók Morgunblaðsins - 13.02.1993, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 13.02.1993, Blaðsíða 8
Lincoln um 1160 en þar var vaxandi hefð fyrir helgileikjum á þessum tíma. Það er líka skemmtilegt að handritið að Babio er einmitt í dómkirkjubókasafninu í Lincoln þó að það þýði vitaskuld ekki að Þorlákur hafi séð það. Biskupsfeðgarnir ísleifur og Gissur ísleifsson fóru á 11. öld til náms í Herfurðu sem hafði náin tengsl við klaust- ur í Hildesheim þar sem tvö handrit eru varðveitt að Nikulásarhelgileik frá 11. eða 12. öld. Hvert sem menn fóru til náms á meginlandinu gátu þeir kynnst leiklist og leikritunarhefð af einhverju tagi. Spássíumerkingakerfið gefur til kynna að eddukvæði hafi verið talin leikverk af svipuðum toga og tíðkuðust úti í Evrópu — og þau voru þá líklega flutt á leikrænan hátt. Við vitum að fólk fór í búninga og við höfum texta sem hljóta að hafa verið leiknir. Varðandi Skírnismál þá kemur það kvæði vel saman við brúðkaupssiði seinni tíma og gæti líka vel hafa tengst eldri helgi- siðum. Það verður að hafa í huga að á miðöldum var ekki til neitt ákveðið orð yfir leikrit. í Svíþjóð um 1500 kalla menn íeikrit ennþá kvæði og í þeim handritum sem við höfum, <eins og Carmina Burana, er ekki gerður mikill munur á leikritum og kvæðum. Því er óvíst að fólk hafi aðgreint þetta'svo mjög enda var hvort tveggja aðallega kunn- ugt af flutningi þeirra sem hafa þurft að lifa sig inn í persónur hvort sem þær voru ein eða fleiri. Niðurstaðan er þá sú að menn þurfa að finna sérstök rök fyrir því að a.m.k. sum eddukvæði hafi ekki verið leikin." Um kvæðin Ur Islensku alfræðiorðabókinni: Fáfnismál hefjast á inngangi í óbundnu máli þar sem segir frá því er Sigurður veg- ur orminn Fáfni á Gnitaheiði en síðan tek- ur við samtal Sigurðar við Fáfni í dauða- teygjunum og er þar mikið goðsagnaefni. Þessu fylgir tal Sigurðar og Regins, bróður Fáfnis sem hafði hvatt Sigurð til vígsins. Þegar Sigurður steikir hjarta Fáfnis og bragðar á blóðinu skilur hann fuglamál og heyrir þá fugla vara sig við vélum Regins. Sigurður drepur því Regin, tekur gull Fáfn- is og ríður hestinum Grana á vit valkyrjunn- ar Sigurdrífu. í lausamálskafla á undan Grímnismálum nefnir Óðinn sig Grímni og heimsækir Geir- röð fóstra sinn sem lætur pína hann þar til Agnar Geirröðarson færir honum fullt horn að drekka. Grímnir hefur þá kvæðið sem lýsir heimi goðanna svo að Geirröður skilur loks hver gesturinn er og stendur upp en fellur þá fram á eigið sverð og fær bana. Grímnismál eru fræðiljóð og þess vegna fremur laust í byggingu en margt af goðsagnaefni þess er hvergi varðveitt nema þar. Hárbarðsljóð eru skoplegur mannjafnað- ur Þórs og Óðins sem í kvæðinu nefnist Hárbarður. Þór miklast af bardögum við tröll og jötna en Óðinn hælir eigin bragð- vísi og kvenhylli og segir að hann eigi jarla en Þór þrælakyn. í Hárbarðsljóðum eru goðin máttlítil, Óðinn er stríðinn og reynd- ur en Þór drenglyndur og umkomulaus. í Lokasennu er Loki flæmdur úr veislu hjá Ægi en snýr aftur og skammar goðin hvert af öðru, ásynjur fyrir vergirní, hór og lauslæti en æsi fyrir hugleysi, ergi og galdra. Loki sjálfur er sakaður um lygar, ergi og ölæði. Hann hættir ekki fyrr en Þór hótar að drepa hann með hamrinum Mjölni. í Lokasennu er vitnað á gamansam- an hátt til atburða úr lífi goðanna sem ekki segir frá annars staðar. Skírnismál segja frá frjósemisguðinum Frey sem fær hugsóttir miklar út af jötna- meyjunni Gerði. Hann sendir Skírni skó- svein sinn með sverð og hest til að biðja hennar en Gerður þverneitar. Þá hefur Skínir í hótunum og beitir göldrum þar til hún segist munu finna Frey.að níu nóttum liðnum í lundinum Barra. Skírnismál eru eikrænt samtalskvæði og gætu hafa tengst frjósemisdýrkun og helgiathöfnum. í Vafþrúðnismálum segir frá því er Óðinn fer til Vafþrúðnis jötuns, dylst sem Gagnráður og þeir veðja hofðum sínum í viskukeppni. Jötunninn spyr Gagnráð um goðafræði og hann spyr á móti um sögu heimsins, upphaf og ragnarök. Vafþrúðnir gatar á lokaspurningunni um það hvað Oðinn mæltí síðast í eyra Baldri því að það veit Óðinn einn. •Höfundur er íslenskufræðingur og starfar í Árnastofnun KRISTJÁN J. GUNNARSSON Jólabíót Norður við heimskautið nærsýn sólin nývöknuð strýkur svefninn af bránum og miðsvetrarhátíðin heiðna, jólin, er haldin með skammtímalánum. Einhverjir græða og óska að væru oftar jól og stærri fengur aðrir tapa, sjá tilganginn hrapa og trúna með einsog gengur. Þessi María mey, var það hún sem í fjárhúsi frumburð sinn ól á jólum? Fáir minnast þess lengur aðrir en þeir sem af hæversku hafa fyrir að spyrja: „Hvort var barnið þitt, María, stúlka eða drengur?" Höfundur er fyrrverandi fræðslustjóri. SVEINBJORN HALLDORSSON Þyrnir á fjalli Þyrnir á fjalli rifað segl kvíðans sem hvorki flöktir né rífur upp moid Samt gleypir aldan mig er sólin hnígur að Lampi fingra minna brotnar í göngunum En runninn ósar fyllist vindi uns dimmir \ alstirndum og aldan fjarar frá skugga mínum Flygsur af dúni í augum mér sem hönd þín fær ei slitið Eina hlýia vornótt ætla ég að vitja þín einsog kafari sem brýst í gegnum sprengdar dyr og tendra ljós í rökkvuðum greinum Skugginn við enni mér verður aftur grænn og beittur aftur alda sem brotnar aftur hrakið segl vindsins Höfundur er myndlistarmaður í Reykjavík. ÍVAR BJÖRNSSON frá Steðja Vorkoma í þorpi Vorið er komið, veturinn á förum, vaknar af dvala allt sem fraus og kól, fuglarnir syngja, flugur suða í vörum, í fjörunni leikur telpa í bláum kjól. Bátarnir eru settir fram á sæinn, selta og þari fylla nasaból, hlaupa nú kýr og hestar út í dag- inn hringinn í kringum telpu í bláum kjól. í fjallinu háa fyrir ofan bæinn fossandi lækir glitra móti sól, snjórinn að bráðna, hálfgrænn orðinn haginn, í hlíðinni situr telpa í bláum kjól Þorpið er okkar þjóðlífs stærsta undur, þorpið á skilið aðdáun og hól, í þorpinu' er lífið þúsund manna fundur, í þorpinu skartar telpa í bláum kjól. Að bíða og vona Hún situr og bíður við símann, því senn mun hann hringja. Hún vakir og sefur við símann, um síð mun hann hringja. En rofið er samband við símann, og seint mun hann hringja. Ljóðin eru úr nýrri Ijóðabók Ivars, sem heitir Liljublóm. I bókinni eru 55 Ijóð og hafa sum þeirra birst i Lesbók. Höfundur- inn er fyrrverandí kénnari. M A N IN L F S P I S T I i L L SNJOR Þessa dagana er veröldin hvít. Allt er þakið þessu hvíta efni, sem er stundum hart, stundum blautt og stundum dúnmjúkt, eins og æðardúnsængin hennar ömmu, sem maður gróf andlitið ofaní, hér áður og fyrrum, þegar maður var barn og gat leyft sér að veita eftirtekt öllu því smáa og ein- falda, sem þrátt fyrir allt er það sem mestu máli skiptir þegar allt kemur til alls. En undantekningarlaust er snjórinn kald- ur. Það fann ég glöggt, þegar ég átti leið um tjarnarbakkann í miðborginni, í leit minni að innblæstri til að skrifa lítinn pistil fyrir Lesbókina. Fyrir skömmu átti ég leið hér um með litlum snáða sem er sonarsonur minn. Við gerðum innreið okkar í Ráðhús Reykjavíkur, þar sem við hlýddum á undurfagra tónlist ungmenna, sem voru að æfa á hin margvís- legustu hljóðfæri. Drengurinn varð hugfang- inn af tónlistinni, og ég veitti eftirtekt þeim dásamlega eiginleika barnsins, að geta notið þess sem fagurt er, án allrar yfirborðs- mennsku eða stærilætis, sem oft einkennir hina fullorðnu. Þörfin fyrir að sýnast fyrir öðrum er rík í mannssálinni. Þetta er iærður eiginleiki — það sannfærðist ég um, þegar ég fylgdist með þeim stutta þar sem hann stóð við handriðið og hlýddi á tónlistina sem barst upp úr gryfjunni. Hann saug þumalinn, til merkis um að hann hefði ekkert vit á tónlist og að honum fyndist ekkert athugavert við það. Hann vissi ekki hvað hljóðfærin heita, hver samdi tón- listina eða hverjir það voru sem túlkuðu hana þarna í Ráðhúsinu. En augun sögðu að þetta væri góð tónlist. Hún náði til hjartans litla, sem sló undir tilgerðarlausu brjósti þess sem leggur meira upp úr því hvað það er sem hann nýtur, heldur en því hver samdi það, hvort það var frægur tónsmiður, *hvað verkið hét eða hverj- ir túlkuðu það. Hér af gæti margur lært. En ég hef ekki enn lokið við að fjalla um þetta hvíta, kalda efni sem heitir snjór. Þeir sem daga og nætur lifa á og við tjörn- ina finna glöggt fyrir kuldanum sem nú rík- ir. Endurnar og gæsirnar láta hann samt ekki aftra sér frá að njóta brauðgjafa reyk- vískra sunnudagsborgara, sem gera sér far um að fæða þær. Og hvíti svanurinn í vök- inni kemur að bakkanum til mín og hneigir sig djúpt og tígulega, því þetta er svo dæma- laust kurteis fugl. Því miður á ég ekkert brauð. En lítil stúlka í blárri úlpu sér vandræði mín og er fús að bjarga virðingu minni. í mínu nafni hendir hún stórum brauðbita fyr- ir hvíta svaninn, sem samstundis nýtir sér þessa lánuðu gjafmildi mína. Litla stúlkan brosir, og veit að hún hefur bjargað virðingu fákunnandi karls, sem er kominn brauðlaus niður að tjörn. Ég er eins og pennalaus rithöfundur og finn að nú er komið að mér að hneigja mig virðulega. Ég lýt höfði fyrir þessari blá- klæddu prinsessu og get á þessari stundu vel trúað að hún sé raunveruleg prinsessa, og svanurinn prins i álögum sem bíður þess að þiggja koss hennar með brauðinu, svo hann geti aftur tekið á sig mannsmynd og farið að taka hana sér fyrir eiginkonu, setja hana í hásæti og ríkja með henni yfir gjör- vallri Reykjavík, þar til ævintýrið verður úti, sem að sjálfsögðu verður aldrei. Því ef maður er lítil stúlka í blárri úlpu, þá tekur hvert ævintýrið við af öðru, svo lengi sem maður vill. En það er ósköp hætt við að bláklædda prinsessan míii eigi eftir að verða fullorðin kona, sem tekur tilgerðina og sýndarmennsk- una upp eftir öðrum fullorðnum. Fari að hafa efnið að leiðarljósi í stað ævintýrsins. Að mergurinn málsins verði sá að vita hver samdi það, hvenær og hvar og hvernig það varð til. En ekki hvað það er. Þá verður tónlistin ekki lengur fögur í einföldum skilningi barnsins. Ævintýrið ekki raunverulegt og svanurinn ekki lengur prins. Og þegar þessar hugrenningar koma upg í höfuðið, þá fyllist hjarta mitt af hryggð. Ég geng álútur í áttina að Lækjartorgi og sé að miðaldra maður hefur fest bílinn í snjón- um. Hann bölvar þessu hvíta efni sem fellur af himnum ofan, og sér ekki að það hafi neinn tilgang annan en þann að tefja för hans í endalausu kapphlaupinu við aðra full- orðna, sem líka eru að eltast við veraldleg gæði sem eru hjóm. Það er langt síðan þetta fólk hefur sogið þumalinn í orðlausri undrun yfir því sem fagurt er í raun. Óratími síðan það hefur kúrt undir sænginni hennar ömmu sinnar og séð lítinn kvist á veggnum verða að heilli borg, með fólk á förnum vegi. Svo óumræði- lega fjarri því að það kunni að njóta þess sem lífið getur gefið, aðeins ef við veitum því tækifæri. Við skulum leyfa ævintýrinu í okkur að lifa. Grétar kristjónsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.