Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.1996, Síða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.1996, Síða 5
fallerast" og átt barn í lausaleik. En þegar hún fór að þykkna undir belti í annað sinn, vissu allir að skrifarinn ungi, Páll Melsteð, átti þann þunga og í honum fólst um leið trygging fyrir embættisframa eftir lögfræð- inámið sem beið hans í Kaupmannahöfn. Allt var þetta nokkuð víst og fyrirsjáanlegt og þessvegna hefur verið fylgst afar vel með vinfengi Páls og Rósu. Hvort sem hún hefur gert sér vonir um einhveija framtíð í þessu ástarsambandi eða ekki þá hlaut hún að sjá, svo greind sem hún var, að þarna var óyfirstíganlegur þrö- skuldur í hinu rækilega stéttskipta þjóðfé- lagi. Maður eins og Páll Melsteð gat ekki farið að „taka niður fyrir sig“ eins og það var kallað. Framinn byggðist á réttum mægðum. En hitt er heldur ekki hægt að afskrifa að svo ástríðufull kona sem Rósa vissulega var, hafi kosið að berja hausnum við steininn og hlíða fremur kalli hjartans en skynseminnar. Um Pál var sagt að hann var „fríður sýnum og manna gjörvulegast- ur, bráðgáfaður, hygginn og gætinn, manna stilltastur, fámáll og nokkuð dulur í skapi“. Frá hendi náttúrunnar var jafnræði með þeim og það hafa þau bæði fundið. En þeim var ekki skapað nema að skilja; þjóðfélagið sá til þess, en harmsögulegur endir þessarar ástarsögu hefur orðið afar lífseigur. ÁSTIR Á KETILSSTÖÐUM Því miður ber heimildum illa saman. Stað- reynd er að Páll lauk lagaprófinu 1815 og fékk fyrst veitingu fyrir sýslumannsemb- ætti í Suður-Múlasýslu og setti saman bú á KetHsstöðum á Völlum. Og nú vandast málið. í nýútkominni bók sinni segir Guðrún P. Helgadóttir að Páll hafi kvænst festar- mey sinni, Önnu Sigríði, árið eftir, þ.e. 1816 og þau þá farið að búa á Ketilsstöðum, en að ári síðar hafi Rósa komið þangað í vist og þá frá Svalbarði í Þistilfirði. Sama ár hafi hún gengið að eiga Ólaf Ásmundarson frá Halldórsstöðum og að svaramaður hafi verið Páll Melsteð sýslumaður. Þetta hljóm- ar mjög ódramatískt, en vekur eina spurn- ingu: Ef Páll Melsteð var búinn að valda Rósu djúpstæðri hryggð og ástarsorg, svo sem fram kemur í vísum hennar, hvers- vegna í ósköpunum réði hún sig í vist til þeirra hjóna nýgiftra? Það hljómar að minnsta kosti eins og einhverskonar sjálfs- pynting. í bókinni Konur og kraftaskáld, sem út kom 1964, er ritgerð um ævi Rósu eftir Tómas Guðmundson skáld. Þar segir hann að þegar Páll Melsteð hóf sýslumannsferil sinn og byijaði búskap á Ketilsstöðum, hafi hann strax fengið Rósu til sín sem bústýru og meðal þess sem hún gerði daglega var að færa honum morgunkaffið í rúmið. Páll hafi farið norður til Möðruvalla sumarið eftir og þá kvænst Önnu Sigríði án þess að Rósa vissi um það. Það hafi þó enn dreg izt í heilt ár að sýslumannsfrúin flytti til manns síns að Ketilsstöðum. Þá hafi Páll sótt konu sína; komið heim um nótt og Rósa farið grunlaus með morgunkaffið til hans í rúmið. Þar hafi hún þá séð hvers kyns var, en Páll sagt við hana: „Einhvem- tíma var þér nú ætlað að sofa þarna“. Kannski hefur alþýðu manna þótt drama- tískara að hafa söguna svona. Hitt er víst að á Ketilsstöðum var maður sá er Ólafur Ámundarson hét og er kallaður vefari í bók Guðrúnar, en smiður í ritgerð Tómasar. Honum er lýst sem andstæðu þeirra manna sem Rósa elskaði fyrr og síðar; ósjarmer- andi en vinnusamur búmaður, lítt gefinn fyrir kveðskap og andlegheit. Sagnaritarinn Gísli Konráðsson segir hann „geðlausan". Það er vitaskuld óskiljanlegt að Rósa gift- ist þesskonar manni, sumir sögðu hana hafa gert það nauðuga, aðrir að hún hafi gert það til að storka Páli. Eitt mesta áfall í lífi hennar, skrifar Tómas, var þegar Páll Melsteð sagði henni að hún skyldi sem fyrst giftast Ólafi. Þrátt fyrir allt bar hún Páli vel söguna og fáir elskhugar hafa fengið fegurri eftir- mæli: Langt er síðan sá eg hann, sannlega fríður var hann, allt, sem prýða má einn mann, mest af lýðum bar hann. Löngu síðar, þegar bæði voru tekin að reskjast, er sagt að fundum þeirra hafi bor- ið saman sem snöggvast á förnum vegi Páll ríðandi ásamt föruneyti, Rósa gang- andi, kannski á leið frá Hafnarfirði í kaupa vinnu norður í land. Hún á að hafa gengið í veg fyrir yfirvaldið og stöðvað það; þau horfst í augu um stund án þess að heilsast, unz Rósa kvað: Man eg okkar fyrri fund, forn þó ástin réni. Nú er eins og hundur hund hitti á tófugreni. Hér verða kaflaskil í ævi Rósu; framund- an er búskaparbasl við kröpp kjör, svo og barneignir. Eftir skamma veru á Ketilsstöð- um, flytjast þau Ylafur og Rósa búferlum allar götur vestur í Húnavatnssýslu og byija húsmennsku að Haukagili í Grímstungu- sókn eftir því sem Guðrún P. Helgadóttir segir. Þar fæðist þeim dóttir sem Rósa nefn- ir Pálínu eftir fyrrverandi elskhuga sínum. Þau eignast svo síðar dæturnar Guðrúnu og Sigríði. Enn ber heimildum ekki saman. Tómas Guðmundsson segir þau hafa flutt að Snær- ingsstöðum í Vatnsdal og eignast dótturina Pálínu þar. Ólafur bóndi hafi hinsvegar haft af því áhyggjur, að ungur prestssonur frá Undirfelli sóttist ákaflega eftir félags- skap húsfreyjunnar og til að stía þeim í sundur hafi Ólafur tekið þá ákvörðun einn að þau fluttu að Lækjarmóti. Það var 1820 og miklir atburðir í nánd. NATAN KEMUR TIL SÖGU Fáir alþýðumenn urðu um sína daga eins umtalaðir og ævintýramaðurinn Natan Ket- ilsson, sem myrtur var á Illugastöðum í marzmánuði 1828. Þá sögu þekkja nú marg- ir betur en áður eftir að sýning kvikmyndar- innar Agnes hófst. Natan var frá Móbergi í Langadal, jafnaldri Rósu. Vegna þess hve hún og fleiri konur báru ákafan ástarhug til hans, hafa menn ímyndað sér Natan sem glæsimenni. En það var hann ekki;„vitur af eðli og mælskur en æríð óstöðugur í gáfum, lítilmenni að orku og huglítill ef á þyrfti að reyna, nær meðalmaður á vöxt, heldur grannlegur, nefstór nokkuð, sléttur á skinn og smáeygður, jarpleitur á hár, fingralangur og höndin mjó og löng, en eigi gæfusamlegur á svip.“ Gísli Konráðsson telur Natan „vitrastan allra óaldarmanna í Húnaþingi. “ Það sem ekki kemur fram hér, en telja má fullvíst, er að Natan hefur haft persónu- töfra. Hann hefur verið vel gefínn skúrkur, talaði hrafl í þýzku og Norðurlandamálum, enda „sigldur". Hafði hann farið utan og vildi læra lækningar en minna varð úr því. Hann hélt sig samt að hætti yfirstéttar- manna; var sundurgerðarmaður í klæða- burði og græddist fé á lækningum sínum, sem talsvert orð fór af. Þótt ýmsir ættu um sárt að binda eftir kynni við Natan, einkum þó konur, var hann ekki ofbeldismaður eins og honum er lýst í kvikmyndinni. Enda er skýrt fram tekið að myndin sé skáldverk. Natan sóttist eftir að fá vist hjá þeim Ólafi og Rósu á Lækjamóti og var Rósa fremur á móti því; kvað illt mundi af hljót- ast. Það fór þó svo að hann kom þangað og töfraði húsfreyjuna uppúr skónum og kannski úr einhveiju meiru. Sjálfur var Natan prýðilega skáldmæltur og í honum fann Rósa þann félagsskap sem hún þurfti. Bæði voru í blóma lífsins. Engum sögum fer af því að Ólafur bóndi hafi viljað flýja aftur undan aðdáanda sinn- ar föngulegu eiginkonu. Svo virðist sem hann hafi sætt sig við að vera kokkálaður. Sumir sögðu hann aurasál og að Natan hefði einfaldlega borgað honum fyrir að fá að sænga hjá Rósu. Tómas Guðmundsson segir í ritgerð sinni: „Þarna hafa tvær mannverur andlega skyldar á ýmsa lund, fundið hvor aðra í ástum og skáldskap, og fárviðri ástríðnanna er jafnsnemma skollið á.“ Á Lækjamóti fæddist sonurinn Berthold Rósant, skráðúr Ólafsson. En í vísu sem Rósa kvað til Nat- ans sést hvaða hugmyndir hún hefur um faðemið: Seinna nafnið sonar míns sífellt á þig minni: Oft var fáklædd eyja líns uppi í rekkju þinni. Vorið 1824 fluttust þau Rósa og Ólafur að Vatnsenda, þeim bæ sem hún var gjarn- an kennd við síðan. Með í för var Natan. Og enn bættist í barnahópinn. Á Vatnsenda fæddi Rósa dótturina Þó- rönnu Rósu og enn er barnið eignað eigin- manninum. Þá virðist svo sem hlutverki hans við barneignir sé lokið. Dóttirin Sús- anna, sem lézt kornung, fæddist 1826 og nú er ekkert farið í grafgötur; skráður faðir í kirkjubókinni er Natan Ketilsson. Hér urðu verðir siðferðisins að spyrna við fótum; móðirin gift kona. Réttað var í máli Rósu í janúar 1827 og játaði hún fúslega hjúskp- arbrot, en Ólafur kvaðst hafa fyrirgefið konu sinni. Þetta hefur verið undarlegt heimilislíf; Ólafur bóndi verið eins og þriðja hjól undir vagninum á meðan ástarsamband þeirra Rósu og Natans stóð. Hjónabandi þeirra Rósu og Ólafs var í rauninni lokið. Það er þó ekki fyrr en löngu síðar, 1837, að Bjarni skáld og amtmaður Thorarensen á Möðru- völlum segir í skjölum til danska kansellís- ins, að leyfi hafi verið veitt til að gera óg- ilt hjónaband þeirra Rósu Guðmundsdóttur og Ólafs Ásmundarsonar og sé Ólafi heim- ilt að kvænast aftur. Hegðun eiginkonunnar er átalin. Hún hefur ekki viljað þýðast Ólaf lengur; er skráð „húskona" við húsvitjun á Vatnsenda 1835, þótt enn eigi hún að heita eiginkona Ólafs. Nærri má geta hvort Rósa hefur ekki verið umtöluð. En hún var samt einstaklega vel látin og hafði getið sér afar gott orð sem farsæl yfírsetukona. Börnum sínum reyndist hún góð móðir og þau áttu hjá henni skjól, jafnvel á síðustu árum hennar. Vinfengið við Natan var ekki alltaf til ánægju. Á árun- um í Lækjamóti hafði Rósa orðið að bera vitni, þegar Natan var ákærður um hlut- deild í þjófnaði á silfurpeningum. Það vakti athygli hve opinskátt og greindarlega Rósa 'svaraði öllum spurningum. En hún ætlaði ekki að láta þennan elskhuga ganga sér úr greipum. Guðrún P. Helgadóttir segir svo í bók sinni: „Hún ann Natani með hug full- þroskaðrar konu, sem þráir, að unaðssemd- irnir vari sem lengst. Hún trúir honum og treystir oggerir honum upp sama hugarfar- ið og hún hefur sjálf." En Natan var of ótrygglyndur og marg- skiptur til að eiga í löngum ástarsambönd- um. Hann fór að verða Rósu afhuga og flutti að Illugastöðum, sem hann eignaðist á held- ur vafasaman hátt eftir því sem sagt var; með því að neita bóndanum þar um lækn- ingu nema hann fengi jörðina að launum. Bóndi hresstist en missti jörðina og það er gamla sagan, að illur fengur illa forgengur. Nú rak að hinum dramatísku atburðum þar; Natan búinn að „yngja upp“ og kominn með 15 ára bústýru á heimilið, sem sam- rekkti honum jafnan, og tveimur árum síðar hefur hann heim með sér Ágnesi frá Geita- skarði sem var gullfalleg, gáfuð og skáld- mælt eins og Rósa. Af ljóðabréfi Rósu til Natans má sjá að hann hefur sagt í sundur ástum þeirra með bréfi og Rósa kennir ekki sízt Ágnesi um það. Ljóðabréf Rósu til Natans, sem hér birtist að stærstum hluta, er sá kveðskapur sem bezt sýnir hvers Rósa var megnug þeg- ar tilfinningarnar loguðu eins og bál. I beztu hlutum ljóðabréfsins er magnað skáld að verki sem aldrei missir snilldartökin þótt hún sveifiist milli haturs og örvæntingar; niðurstaðan er samt:„Enn sem fyrri er eg þín“. Hún gat ekki gefið þennan heillandi gallagrip uppá bátinn. „Helft Af Lífi Mínu Morðið á Natani Ketilssyni varð eins og nærri má geta mikið áfall fyrir Rósu. Vísa sem hún kvað um það leyti vitnar um huga- rástand hennar: Angurs stranga leið er löng, lengi þrengist mæðan ströng. Mig langar þangað geðs um göng, sem gengur að mengi engin þröng. Rósa var að vísu aðeins liðlega 32 ára þegar hér var komið sögu, en lífsreynslan farin að sjást á henni og hún var orðin inn- hverfari. Við skilnaðinn skiptu þau Rósa og Ólafur með sér börnunum og hafði Rósa með sér yngstu dótturina, Þórönnu Rósu og sveininn Rósant Bertholt; bæði voru þau nokkuð áreiðanlega Natansbörn. Það varð Rósu um megn að sjá fyrir börnunum báð- um, en sveininn Rósant hafði hún lengst af hjá sér. Hann var viðkvæmur og gáfaður drengur og vel að sér; móðirin sá um það. Tómas Guðmundsson segir að fundum þeirra Agnesar og Rósu hafi eitt sinn borið saman; önnur með dauðadóminn yfir höfði sér, hin kramin á hjarta. Þá hafi Rósa kveð- ið: Undrast þarftu ei, baugabrú, þótt beiskrar kennir pínu. Hefur burtu hrifsað þú helft af lífi mínu. Og þá hafi Agnes svarað: Er mín klára ósk til þín, apgurs tárum bundin: Ýfðu ei sollnu sárin mín, sólar báru hrundin! Engum sögum fer af því hvernig Rósa brást við aftöku Ágnesar í Vatnsdalshólum í febrúar 1830. Næstu árin urðu henni erf- ið; hún átti þá heima á ýmsum bæjum og fékkst einkum við ljósmóðurstörf sem hún gegndi „meðmikilli heppni og almannalofi". Enda þótt hún hefði opinberlega játað á sig hórdóm, sóttust eiginkonur fyrirmanna og stórbænda eftir því að fá liana þegar þær áttu von á sér; jafnvel var náð í hana í fjar- læg byggðarlög.. SJÁ NÆSTU SÍÐU VATNSENDA-ROSA Úr Ijóða- bréfi til Natans Ketilssonar Sælu, bið eg, hljóttu hér, hryggðin niður falli í strá, sjáðu miðann, sem að þér sendir iðuljósa gná. Sjálfur veiztu eg þér ann, eiða þarf ei leggja við. Þér og skildar þakkir kann þitt fyrir síðast tilskrifið. Ó, hvað sæla eg áleit mig, - enginn mun því trúandi, - þá fékk eg líða fyrir þig forakt lýða og hinna spé. Sá minn þanki sannur er, þó svik þín banni nýting arðs. Ó, hvað hefir orðið þér agnið tálbeitt Kiðjaskarðs. Brátt þó sé eg, betur fer, - bý eg þeim að meinunum, - eta tamt er orðið þér af forboðnu greinunum. Síðan neyttir þeirra þú og þínum breyttir tryggða stig, ef aldrei veitti víf þér trú, veit eg eitt það gleddi mig. Þér til handa þýða trú, - því er fjandans nærrhver, - eg hef vandað, eins og nú allt sjáandi vitni ber. Oft eg hugði og nær sá allt burtdrifi hryggðirnar lífs ávexti þína þá þolgóð, hugdjörf, aðkast bar. Einu sinni enn nú hér angri blandast klögun mín. Til hvers skal að trega mér tryggðalausa sálu þín? Sérhver þjónar sinni lund, sízt mun hægt að dylja það. Eg þig trega alla stund endadægri hinzta að. Von er, mér að gremjist geð, gjöri þenkja um loforð stíf, aldrei skaltu utan með . óánægju faðma víf. Af innstu rótum ósk er mín, angurbótin það er fríð, - allar snótir ætíð þín illa njóti fyrr og síð. Mundu þessa mína bón, mörg þð gleymist hinna þér. Okkur fegrast yfirsjón ekki, þó að hötumst vér. Nafni leyna mun eg mín, muntu vita það með sann. Enn sem fyrri er eg þín, ástum bundin geðs um rann. Þú munt spyrja: auðs hver Eir? eg til gegni: það er sú, er ævilangt, ef ekki meir, ófarsæla gjörðir þú, - hver þér framar öllum ann, og ill þú skaptir forlög sín og sem gleyma aldrei kann ódauðlegum svikum þín. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 20. JANÚAR 1996 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.