Alþýðublaðið - 22.08.1984, Síða 16

Alþýðublaðið - 22.08.1984, Síða 16
16 Miðvikudagur 22. ágúst 1984 Hagkvæmni og jöfnuður Kapitaliskir tramleiösluhættir hafa átt fáa aðdáendur jafninn- blásna og Karl Marx. Hann lýsti með aðdáun byltingarkenndum áhrifum þessarar voldugu fram- leiðsluvélar, sem knúin var áfram miskunnarlaust af gróðavon kapi- talistanna. Framleiðslugeta kapítal- ismans var margföld á við eldri samfélagsgerðir. Og í leiðinni um- bylti hann mannlegu samfélagi, umturnaði yfirborði jarðar og lagði heiminn að fótum sér sem eitt fram- leiðslu- og markaðssvæði. í huga Marx var kapítalisminn framfarasinnað afl. Kommúnismi Marx var þá fyrst hugsanlegur, þeg- ar kapítalisminn hefði útrýmt skortinum. Kommúnisminn í ritum Marx er því draumsýn allsnægta- ríkisins, þar sem vandamálið er ekki lengur ónóg framleiðsla, skortur heimsins gæða, heldur „réttlát“ skipting allsnægtanna. Samkvæmt þessari kenningu var rússneska byltingin sögulegt slys, misskilningur, eins konar fyrir- burður í tímanum. Því að fram- leiðsluvél sósíalismans stenst engan samanburð við kapítalisma. Sósíal- isminn skilar því ekki vörunum og endar sem skömmtunarstjórn skortsins. Afnám samkeppni á markaði lokar öllum boðleiðum milli fram- leiðenda og neytenda um þarfir, óskir, kostnað og hagkvæmni. Þar með verður skynsamlegur áætlun- arbúskapur óframkvæmanlegur. í staðinn koma geðþóttaákvarðanir valdhafa, sem enginn framkvæmir, án valdbeitingar. Öllum leiðum frumkvæðis og nýjunga er lokað. Kerfið endar í stöðnun. (Tækni) framfarir eru ósamrýmanlegar full- komnu öryggi, status quo. Við þetta bætist að dreifð ákvarðanataka fjölda smárra aðila, en það er forsenda lýðræðis, er ósamrýmanleg þessu kerfi. Þannig endaði draumurinn um allsnægta- ríkið í Gúlagi ógnarstjórnarinnar. Afstaðan til gróðamótífsins (einkaeignarréttur og samkeppni margra á markaði) sker gjarnan úr um afstöðu manna til hins æskilega skipulags efnahagsstarfseminnar og hagstjórnaraðferða (venjulega kallað stjórnmál). Fidusinn hjá Marx var að sí- harðnandi samkeppni sífellt færri og stærri kapítalista eftir síminnk- andi gróða mundi að lokum leiða til þvílíkrar umskautunar þjóðfélags- ins, að hinn snauði fjöldi mundi að lokum rísa upp og taka völdin (bylt- ing) og þjóðnýta framleiðslukerfið. Eftir það myndu allir lifa ham- ingjusamlega við allsnægtir (sósíal- ismi). Sérstök sósíaldemókratísk hug- myndafræði um hagkerfi og þjóð- félag byrjaði í þessum punkti að verða viðskila við Marx fyrir u.þ.b. 100 árum. Þýskir og breskir sósíal- demókratar (Bernstein og Fabrian- félagið) áttuðu sig á því, að forspár Marx um þróunina rættust ekki; þær voru hugarburður en ekki vís- indi. Smáum fyrirtækjum fór fjölg- andi en ekki fækkandi; millistéttin þurrkaðist ekki út, heldur stækk- aði. Hagkvæmni stórrekstrar fram- kallaði nýja stétt tæknimanna, sem leysti kapítalistana af hólmi. Eign- arréttarformið skipti ekki megin- máli i stórrekstri. Það sem skiptir máli er að General Motors fram- leiði ódýra bíla, í samræmi við óskir og þarfir neytenda. Og að pólitísk valddreifing haldi stétt fjármagns- eigenda í skefjum; sem Galbraith kallar „Countervaiting Power“. Niðurstaðan var að bylting við þessi skilyrði væri bara bull; í staðinn kom „óhjákvæmileiki" hægfara umbóta. Frá og með millistríðsárunum var fátt orðið líkt með skyldum, annars vegar Marx-Lenínistum og hins vegar sósíaldemókrötum. Lífið er stundum mikill iðju- þjálfari, segir Benjamín. Sósíal- demókratar vísuðu að lokum alveg á bug metafýsik marxismans um „óhjákvæmilegt" hrun kapítalism- ans, vegna innbyrðis samkeppni kapítalistanna um gróðann. Þeir gerðu sér grein fyrir því að hagnað- ur er óhjákvæmilegur, hvort heldur er í markaðskerfi eða þjóðnýtingar- kerfi. Reynslan sýnir að hlutfall fjárfestingar (hagnaður, sem haldið er eftir í fyrirtækjum) er hærra í Sovétríkjunum en það var jafnvel á mesta gróskuskeiði iðnríkjanna. Ástæðan er m.a. sú, að í því kerfi er engin frjáls verkalýðshreyfing né pólitísk andstaða til að tryggja hlut launþega i gróðanum, í formi hærri launa, bættra lífskjara. Þar að auki skilar þessi mikla fjárfesting í þjóð- nýtingarkerfinu ekki sama arði, vegna þess að ágóðavoninni hefur verið útrýmt, boðmiðlun markaðs- kerfisins um óskir og þarfir neyt- enda verið tekin úr sambandi og leiðum frumkvæðis og nýjunga um leið lokað. Að vísu gætir enn tvískinnungs í afstöðu sósíaldemókrata til gróða- sjónarmiðsins. í hugum margra vinstrimanna er hagnaðarvonin ómórölsk, ósamboðin manninum. Og afleiðingar hennar, í óheftum markaðsbúskap þ.e. misskipting auðs og tekna, eru fordæmanlegar. Niðurstaðan er samt sú, að frernur en að útrýma hagnaðarvoninni og draga þar með úr drifkrafti kerfis- Eftir Jón Baldvin Hannibals- son ins, beri að beisla hana í almanna- þágu. Tækin til þess eru stofnanir hins pólitiska lýðræðis. Annars vegar eru ríkisstjórnir, sem i umboði þjóðarmeirihlutans hafa ótal ráð til að stýra fjárfestingu og skattleggja gróða. Spurningin er, hvernig það verði gert á sem hagkvæmastan hátt. Hins vegar er frjáls verkalýðs- hreyfing, sem beitir samtakamætti sínum í andófi gegn fjármagnseig- endum, og minnkar gróða þeirra í formi hækkandi launa og bættra lífskjara. Þessi sósíaldemókratíska afstaða til hagstjórnar hvílir á tveimur undir- stöðum: í fyrsta lagi pólitískum (hugmyndafræðilegum), hins vegar efnahagslegum (tæknilegum). Lýð- ræðið er hin pólitíska aðferð sósíal- demókrata í stjórnmálastarfi, þar sem þeir hafna valdbeitingu (bylt- ingu). Þeir gerðu sér snemma grein fyrir orsakasamhengi hagskipunar og lýðræðis. Lýðræði fær ekki stað- ist, nema þar sem hið efnahagslega ákvörðunarvald dreifist á marga aðila, sem eru óháðir valdhöfun- um. Sú röksemdarfærsla leiðir til niðurstöðu sem við köllum blandað hagkerfi, þar sem eignarréttarform eru margvísleg og efnahagslegt vald erdreift. Hinn kosturinn erað vald- hafarnir (rikið) fari einir með þetta gífurlega vald. Það endar í valdbeit- ingu, lögregluríki. Jafnframt felst í þessari afstöðu viðurkenning á nauðsyn samkeppni hinna mörgu aðila á markaði, til þess að framleiðslustarfsemin gegni því hlutverki sínu að leitast við að fullnægja þörfum og óskum neyt- enda með sem minnstum tilkostn- aði, á sem hagkvæmastan hátt. Það er forsenda efnahagslegra fram- fara, hagvaxtar, hækkandi launa, bættra lífskjara. Hlutverk ríkisvaldsins, sem lýtur aga hins pólitíska lýðræðis, er hins vegar þýðingarmikið í þessu stjórn- kerfi, en samt takmarkað. Hlutverk þess á að vera að leiðrétta það jafn- vægisleysi, sem leiða mundi af óheftri framrás markaðsafla og gróðasjónarmiðs og lýsir sér í mis- skiptingu þjóðarauðs og tekna. Hugmyndin er sú að ríkisvaldið og aðrar stofnanir lýðræðisins, hafi áhrif í þá átt að jafna eigna- og tekjuskiptingu, tryggja þau lág- markskjör sem útrýma fátækt og örbirgð, og félagslegt öryggi allra, sem ekki geta séð sér farboða af eig- in rammleik. Keynes bætti um betur þegar hann lagði þessari stjórnmálaheim- speki til sérstaka hagfræðikenn- ingu, sem var um það, að þjóðfélag- ið gæti tekið lán hjá framtíðinni, til þess að koma í veg fyrir samdráttar- tilhneigingar og kreppu. Sú kenn- ing er í svo rökréttu framhaldi af pólitískum praxis hins blandaða hagkerfis, að kratar voru farnir að framkvæma kenninguna, áður en hún var sett fram. Þrátt fyrir ærna tilburði til að hnekkja þessari kenningu (Keynes- ismanum), stendur hún óhögguð enn í dag að minu mati. Niðurstaðan er blandað hagkerfi, þar sem eignarréttarformið býður upp á fjölbreytni, samkeppni á markaði er meginreglan i atvinnu- lifinu og hagnaðarvonin er enn driffjöður kerfisins. Hagstjórnar- list ríkisvaldsins felst í þeirri við- leitni að viðhalda jöfnuði milli kröfunnar um hagkvæmni (arð- semi) og jöfnuð (hámörkun vel- ferðar, áður kallað réttlæti). Þetta kerfi skilar því aðeins árangri, að stofnanir hins pólitíska lýðræðis séu virkar og mannréttindi réttar- ríkisins tryggð i reynd. Fyrstu tvo áratugina eftir stríð skilaði þetta kerfi árangri, sem er einsdæmi í sögunni. Þá skapaðist smám saman víðtæk pólitísk sant- staða um grundvallaratriði og vinnubrögð, um leið og dró úr hug- myndafræðilegri togstreitu og stéttaátökum. Á seinasta áratug hefur þetta breyst verulega. Sam- staðan um velferðarríkið og „hlut- föllin“ í hinu blandaða hagkerfi, er rofin. Hugmyndafræðileg átök milli markaðshyggju og ríkisforsjár hafa skerpst á nýjan leik. Það kalla menn „kreppu velferðarríkisins". Á undanförnum áratug hefur gætt tilhneigingar til sívaxandi rík- isforsjár á kostnað hinna smærri eininga efnahagslífsins. Þetta hefur verið meira áberandi á íslandi en víðast hvar annars staðar á Vestur- löndum. Það hefur orðið valdatil- færsla frá forstöðumönnum fyrir- tækja, sem eiga að taka áhættu í at- vinnulífinu og bera ábyrgð gerða sinna, til forystumanna stjórnmála- flokka og atvinnuvegasamtaka, forstjóra stórfyrirtækja, toppemb- ættismanna og verkalýðsforingja. Ákvörðunarvaldið í efnahagslífinu virðist hafa færst frá þeim, sem eiga að taka ákvarðanir og hafa þekk- ingu, til pólitískra aðila, sem hneigjast til að láta fylgisvon og skammtímasjónarmið ráða gerðum sínum og bera endanlega ekki ábyrgð á ráðstöfun fjármagnsins. Afleiðingarnar lýsa sér í minnkandi arðsemi, minni hagvexti, lélegri lífs- kjörum og minni velferð, en ella hefði verið. Á íslandi er svo komið, að heilu atvinnuvegirnir eru á framfæri „ríkisins", þ.e. skattgreiðenda. Ekki er lengur um það að ræða að at- vinnurekendur taki áhættu í sam- keppni á markaðnum, því að þeir eru endurtryggðir hjá rikinu. Póli- tísk ítök skipta þá meira máli en góð stjórnun, frumkvæði, nýjung- ar, samkeppnishæfni. Þetta lýsir sér í mörgu. Landbún- aðurinn er t.d. algerlega á ríkis- framfæri. Hann nýtur innflutnings- verndar, fjárfestingar- og fram- leiðslustyrkja, niðurgreiðslna og útflutningsbóta, án nokkurs tillits til eftirspurnar á markaði. Sjávarútvegurinn er í kreppu vegna ríkisstýrðrar offjárfestingar í takmarkaða auðlind. Hallarekstr- inum, sem af hlýst, er bjargað með gengisfellingum, þ.e. ríkisfjár- magnaðri verðbólgu. Nýjar atvinnugreinar eiga hins vegar lítil sem engin ítök í þessu pólitíska stjórnkerfi og eiga því erf- itt uppdráttar. í stað þess að skapa atvinnuveg- unum almenn vaxtarskilyrði hefur ríkisvaldið hneigst til beinnar íhlut- unar á æ fleiri sviðum: Það veitir innflutningsvernd, stýrir verð- myndun, beitir niðurgreiðslum og styrkjum, skammtar fjármagn og ákvarðar kjör þess. Afleiðingarnar eru hvers kyns mismunun í þágu hefðbundinna greina, verndun stat- us quo á kostnað framtíðargreina. Kerfið er meira og minna sjálf- virkt og ósveigjanlegt, sbr. hina pólitísku úthlutun fjárfestingar- lánasjóða og sjálfvirkt afurðalána- kerfi. Bankar og aðrar lánastofnan- ir stjórnast í allt of ríkum mæli af pólitískri fyrirgreiðslu í stað við- skiptalegs mats á áhættu og arð- semi. Á íslandi virðist þessi bakdyra- þjóðnýting atvinnuveganna vera orðin miklu stærra vandamál, en vöxtur hins hefðbundna velferðar- kerfis, (almannatryggingar, heilsu- gæsla, skólakerfi). I þeim efnurn hafa ýmsar grannþjóðir okkar gengið mun lengra. Að því er milli- færslur velferðarkerfisins varðar er það hins vegar sérstakt rannsóknar- efni, að hve miklu leyti þær eru raunverulega tekjujafnandi, og að hve miklu leyti um er að ræða tekju- tilfærslu frá lág- og miðlungstekju- hópum til þeirra sem betur eru settir (m.a. vegna sívaxandi skattaundan- dráttar hinna efnameiri). Þegar litið er yfir tillögur Al- þýðuílokksins um efnahagsmál (einstök þingmál og stefnuyfirlýs- ingar í stjórnarmyndunarviðræð- um við aðra flokka) á sl. verðbólgu- áratug, er Ijóst að flokkurinn hefur staðfastlega verið andvígur hóf- lausri íhlutun ríkisvaldsins um mál- efni atvinnuveganna. í tvo áratugi hefur flokkurinn varað við afleiðingum óbreyttrar landbúnaðarstefnu. Hann hefur lagt til að niðurgreiðslur og útflutn- ingsbætur væru afnumdar í áföng- um og að verðmyndun ráðist af eft- irspurn fremur en sjálfvirkri við- miðun við laun. Alþýðuflokksmenn voru fyrstir manna til að vara við offjárfestingu í sjávarútvegi og gerðu tillögur um veiðileyfasölu sem hagkvæmri að- ferð til að nýta takmarkaða auð- lind. Alþýðuflokksmenn settu fyrstir manna fram kröfuna um raunvexti, til þess að koma í veg fyrir látlausa eignatilfærslu frá sparifjáreigend- um (almenningi) til skuldara og til þess að beina takmörkuðu fjárfest- ingarfé þangað sem það skilar mestum þjóðhagslegum arði. Alþýðuflokksmenn hafa lagt fram tillögur um endurskipulagn- ingu á stýrikerfi fjárfestingar, með það fyrir augum að viðskiptalegt mat á áhættu og arðsemi ráði meiru um nýtingu fjárfestingar en pólitísk ítök hefðbundinna hagsmunahópa eða atkvæðavon stjórnmálamanna. Þessi dæmi verða að nægja til að sýna að eftirfarandi grundvallar- sjónarmið hafa verið ráðandi: 1. Flokkurinn telur að samkeppni margra óháðra aðila á markaði, bæði um nýtingu fjármagns og verð afurða, tryggi best hagsmuni neyt- enda, almennings. 2. Ríkisvaldið á að láta af beinni íhlutun, sem mismunar aðilum at- vinnulífsins og dregur úr arðsemi, lífskjörum og velferð. Þetta á við um aðstoð við einstök fyrirtæki; at- vinnugreinar eða landsvæði, niður- greiðslur lána og verðlags, innflutn- ingshöft, leyfisveitingar og skömmtun. 3. Einmitt vegna þess að Alþýðu- flokkurinn var og er fylgjandi víð- tækum afskiptum ríkisvaldsins, sem stuðla að tekjujöfnun og fé- lagslegu öryggi (almannatrygging- ar, heilsugæsla, skólakerfi o.fl.) vill hann forðast það, að atvinnulífið lendi á framfæri skattgreiðenda. Það á þvert á móti að skila þeim verðmætum, sem samfélagið óskar að verja til nauðsynlegrar sameigin- legrar þjónustu. Að baki þessum hagstjórnarhug- myndum býr sú pólitíska heimspeki að dreifing hins efnahagslega valds sé forsenda virks lýðræðis og menn- ingarlegrar fjölbreytni. Ef pólitík í lýðræðisríki er í eðli sínu málamiðl- un, þá snýst hún í efnahagsmálum og hagstjórn fyrst og fremst um Ieitina að jafnvægi milli kröfunnar um hagkvæmni annars vegar og kröfunnar um jöfnuð hins vegar. Grein þessi birtist fyrst i „Hagmál", tímariti Viöskiptafræðinema. 25. árg. 1984. L

x

Alþýðublaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.