Alþýðublaðið - 28.04.1990, Side 17

Alþýðublaðið - 28.04.1990, Side 17
Laugardagur 28. apríl 1990 17 Minning Garðar Svoinn Árnason Fœddur 8. júní 1943 — Dáinn 20. apríl 1990 Garðar Sveinn Árnason fæddist á Neskaupstað 8. júní 1943. For- eldrar hans voru Árni Einarsson og Ásbjörg Kristjánsdóttir, en föð- ur sinn missti Garðar á unga aldri. Hann ólst upp fyrir austan, gekk í Kennaraskólann, en varð að hverfa frá námi vegna veikinda. Garðar kenndi veturlangt á Aust- urlandi, en ævistarf hans tengdist fyrst og fremst rékstri og stjórnun. Hann gerði út um tíma og rak fisk- vinnslu, var sveitarstjóri á Hofsósi í tvö ár og var framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins um árabil. Jafnaðarmenn standa í mikilli þakkarskuld við Garðar Svein. Þegar mest á reyndi var hann æv- inlega boðinn og búinn að leggja sig allan fram. Alþýðuflokkurinn hefur ekki getað gengið í digra sjóði og oftar en einu sinni hefur orðið að leita til stuðningsmanna flokksins til að rétta við skútuna. Á áttunda áratugnum réði Garðar Sveinn löngum ferðinni. Árið 1977 fór hann t.d. um landið þvert og endilagt og safnaði peningum meðal jafnaðarmanna, og tókst það sem engum öðrum hefði lán- ast að koma Alþýðublaðinu og flokknum á réttan kjöl. Garðar Sveinn var hamhleypa til verka og í starfi fyrir Alþýðu- flokkinn. Hann naut þess að þekkja persónulega mikinn fjölda flokksmanna. Garðar Sveinn lét sér nægja að sjá árangur erfiðisins og þáði aldrei laun umfram algjöra nauðsyn á þessum tíma. „Atak 77“ fleytti flokknum yfir erfiðan hjalla, og jafnaðarmenn gátu fagn- að stórkostlegum sigri í alþingis- kosningum ári síðar. Fáir gera sér nú grein fyrir því hve Garðar Sveinn átti stóran hlut í þeim sigri. Garðar Sveinn var eindreginn stuðningsmaður nýrra leiða í stjórnmálabaráttunni. Alþýðu- flokkurinn varð fyrstur stjórn- málaflokka að velja frambjóðend- ur á framboðslista með að gefa al- menningi kost á að velja sína frambjóðendur með beinum hætti í opnu prófkjöri. Á þessum árum var mikið umrót í stjórnmálalífi og gekk Garðar Sveinn ötullega fram í fylkingu þeirra sem vildu breyta starfsháttum og opna flokkana. Garðar Sveinn var glaðsinna, góður drengur og mikill húmor- isti. Hann átti einfalt með að laða fólk að sér. Hann var félagslyndur rómantíker og hjartað sló með lít- ilmagnanum. Störf hans í þágu jafnaðarstefnunnar verða seint þökkuð, en hvað sem hann tók sér fyrir hendur fyigdi hugur máli. Að leiðarlokum kveðjum við mætan vin. Ég votta aðstandend- um dýpstu samúð. Jón Baldvin Hannibalsson formaður Alþýðuflokksins Garðar Sveinn Árnason, fyrr- verandi framkvæmdastjóri Al- þýðuflokksins, verður jarðsung- inn frá Fríkirkjunni í Reykjavík n.k. mánudag. Kynni okkar Garð- ars Sveins hófust 1975, þegar ég gekk til liðs við Alþýðuflokkinn, þá var Garðar formaður Sam- bands ungra jafnaðarmanna og jafnframt framkvæmdastjóri flokksins. Minningar þeirra ára úr flokksstarfinu eru mjög tengdar Garðari. í SUJ var þá margt brall- að, tekist á um menn og málefni enda miklir umbrotatímar í flokknum sem og í þjóðfélaginu. Við félagarnir úr SUJ frá þeim dög- um söknum Garðars Sveins og þökkum honum fyrir samfylgd- ina. Garðar Sveinn fæddist á Nes- kaupstað 8. júnt 1943. Foreldrar hans voru Árni Einarsson og Ás- björg Kristjánsdóttir. Um 1970 flutti hann til Reykjavíkur og bjó lengi hjá frænku sinni, Sigríði á Þórsgötunni. Framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins var hann fram til 1980 er hann réðst sem sveitar- stjóri á Hofsósi og síðar til þess að stýra útgerðar- og fiskvinnslufyrir- tæki á Sauðárkróki sem hann gerði af dugnaði, samviskusemi og fylgni allt til þess að heilsan brást honum. Garðar Sveinn var sérstakur um margt, glettinn, hlýr og hlátur- mildur í daglegri umgengni. Hann var fljótur að átta sig á viðfangs- efnum og móta sér skoðun á mönnum og málefnum. Á ein- hverjum mestu erfiðleikatímum í sögu Alþýðuflokksins var það að Garðar Sveinn tók að sér að sjá um rekstur flokksins. Mánuðum sam- an var hann einn á skrifstofunni og vann það sem varð að gera tii að flokksstarfið lognaðist ekki útaf. Svo vel þekkti Garðar til í flokknum á þessum árum að hann gat sagt til um atkvæðagreiðslur á flokksþingi með ótrúlegri ná- kvæmni. Samstarf okkar Garðars var hnökralaust og gott en við ásamt með Halldóru Jónsdóttur unnum af hálfu skrifstofu flokks- ins að því að skipuleggja og fram- kvæma undirbúning kosninganna 1978 er flokkurinn vann sinn stærsta sigur. Minningarnar frá þeim árum staðfesta að viljinn er allt sem þarf. Síðustu ár voru Garðari erfið, veikindi mikil og ólæknandi. í því stríði reyndust þau Rebekka og Einar sannir vinir, en hjá þeim dvaldi hann þær stundir sem hann var hér syðra utan spítala. Minningin um góðan dreng lifir með okkur sem nutum samfylgd- ar hans og i verkun hans um ókomna tíð. Bjarni P. Magnússon Vinur okkar Garðar Sveinn er látinn aðeins 46 ára gamall eftir æðrulausa baráttu við erfiðan sjúkdóm í hálft annað ár. Foreldrar Garðars voru þau hjónin Árni Einarsson verkamað- ur og Ásbjörg Kristjánsdóttir, sem bjuggu allan sinn búskap á Norð- firði. Þar ólst hann upp og hlaut skólagöngu. Síðar stundaði hann um tíma nám í Kennaraskólanum í Reykjavík. Á Norðfirði vann Garðar Sveinn við margvísleg störf til lands og sjávar og kynntist af eigin raun grundvallaratvinnugrein þjóðar- innar. Árið 1969 fluttist hann alfar- inn til Reykjavíkur og vann sem sölumaður hjá Eiríki Ketilssyni og Kristjáni G. Gíslasyni um tíma. Þá tók við pólitískur vettvangur. Hann gerðist starfsmaður og síðar framkvæmdastjóri Alþýðuflokks- ins 1974 og gegndi því starfi til 1981, þegar hann var ráðinn sveit- arstjóri á Hofsósi. Ekki undi Garð- ar Sveinn fjármálaráðslagi hrepps- nefndarinnar og sagði upp sveitar- stjórastarfinu eftir rúmlega hálft annað ár. Þá tóku við bókhalds- störf í Reykjavík en 1984 urðu kaflaskil þegar hann fluttist á ný í Skagafjörð og tók við fram- kvæmdastjórn rækjuverksmiðj- unnar Dögunar hf á Sauðárkróki, sem þá átti í verulegum erfiðleik- um. Hann tók skipulega á við- fangsefninu og á örfáum árum byggði hann upp eitt best rekna fyrirtækið í landinu á þessu sviði. Reyndar naut hann þar ætíð að- stoðar úrvalssamstarfsfólk til sjós og lands. Á meðan sambærilegur rekstur á ýmsum öðrum stöðum lenti í sviptivindum, styrkti hann stöðugt fyrirtækið, sem honum var trúað fyrir. Enda þótt Garðar Sveinn væri alla tíð einhleypur var hann fé- lagslyndur í besta lagi. Á uppvaxt- arárum sínum hafði hann gerst einlægur jafnaðarmaður og var ætíð virkur liðsmaður við að rétta hag lítilmagnans og berjast gegn ranglæti. Hann sat í stjórn SUJ í mörg ár, þar sem við kynntumst fyrst upp úr 1960. í flokksstjórn Al- þýðuflokksins var Garðar í ára- tugi. Hann var prýðilega máli far- inn og skýr ræðumaður og ætíð sanngjarn í málflutningi. En það sem sérstaklega er minnisstætt er einstakt næmi hans á menn og málefni í pólitík. Ýmsum forystu- manninum hefði vissulega farnast betur með því að taka meira tillit til góðra ráða Garðars Sveins, sem oft voru þó vel metin. Hann var höfðingi að upplagi. Hvort sem hann var að sleppa spottanum á bryggjunni í peysu og stígvélum eða uppáklæddur með- al innlendra eða erlendra ráða- manna var hann meðal jafningja. Hann var formaður Norðfirð- ingafélagsins í nokkur ár og for- maður í nýju Félagi rækjuvinnslu- stöðva, sem stofnað var af tíu rækjuverksmiðjum 1988 í þeim til- gangi að koma í veg fyrir yfirgang nokkurra annarra fyrirtækja í greininni í gegnum „vinnslu- kvóta" fyrirkomulag. Sú atlaga gufaði upp. Þá sat hann í stjórn Áburðarverksmiðjunnar í níu ár samfleytt. Með Garðari Sveini er genginn traustur vinur, sem aldrei hefði getað svikist að nokkrum manni. Nú hljómar ekki lengur hinn hvelli og innilegi hlátur, sem öllum vin- um hans er minnisstæður. Ég votta aðstandendum samúð. Megi hann hvíla í friði. Óttar Yngvason Nú er Garðar Sveinn Árnason, vinur minn, allur, aðeins 46 ára að aldri. Hans er sárlega saknað af vinum hans öllum. Glaðvær og smitandi hlátur hans heyrist ei framar, en hann var þeim fágætu eiginleikum gæddur að geta kom- ið öllum í gott skap, einungis með því að gleðjast sjálfur. Ég kynntist Garðari Sveini fyrir tólf árum er hann var fram- kvæmdastjóri Alþýðuflokksins. Alþýðufiokkurinn var þá í mikilli uppsveiflu og um hann fór bylgja nýrrar hugsunar og vilja til breyt- inga í þjóðlífinu. Vilmundur Gylfa- son var sá forystumaður þessarar hreyfingar sem mest gustaði af. Um hann hafði safnast hópur ungra manna, sem héldu líflega málfundi og var gjarnan boðið til fundarsetu einhverjum áberandi gesti úr þjóðlifinu. Garðar Sveinn hvatti mig óspart til að taka þátt í þessum félagsskap, þar sem ég komst bæði í kynni við skemmti- legri þjóðfélagsumræðu en ég hafði þekkt annars staðar og um leið komst ég í kynni við áhuga- verða unga menn, sem lögðu áherzlu á frjálslyndi, réttlæti og framfarir á þann hátt að pólitík varð skemmtileg. í þessum félags- skap kynntist ég Garðari jafnvel enn betur en í Alþýðuflokknum sjálfum. Garðar Sveinn var jafnaðarmað- ur af beztu gerð. Hann lagði sig all- an fram, þegar málstaðurinn var annars vegar. Hann vann hvert verkefni af þeirri festu og ein- lægni, sem honum var eiginleg. Þeirri sögu geta einnig íbúar Hofs- óss borið vitni frá því að hann var sveitarstjóri þeirra og stjórn- aði staðnum af lipurð og lagni og þeirri sögu geta einnig borið vitni aðstandendur rækjuverksmiðj- unnar Dögunar á Sauðárkróki, en Garðar Sveinn var framkvæmda- stjóri þeirrar verksmiðju hin síð- ustu ár, en þá starfsemi rak hann af miklum dugnaði og útsjónar- semi. Það má með sanni segja, að hann hafi notið mikilla vinsælda þess fólks sem hjá honum vann eins og áhafna þeirra skipa, sem lönduðu hjá honum rækjunni. Garðar Sveinn var enginn já- maður i pólitík eða i lífinu yfirleitt. Hann sagði sínar skoðanir um- búðalaust og hafði jafnvel lúmskt gaman af, ef þær komu mönnum örlítið í opna skjöldu. Okkur er þó mest brugðið við það að þurfa nú að horfa á eftir þessum góða dreng. Það er vandfyllt það skarð sem hann lætur eftir sig, því svo fastan sess hafði hann skapað sér í tilveru okkar hinna. Garðars Sveins er saknað, en minningin lif- ir, eftirminnileg og Ijúf. Jón Sæmundur Sigurjónsson

x

Alþýðublaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.