Morgunblaðið - 24.05.2001, Síða 16
16 C FIMMTUDAGUR 24. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÚR VERINU ÍSTOGARINN Ingimundur SH kom með
fullfermi, um 50 tonn af þorski auk smávegis
af ufsa og karfa, til Grundarfjarðar í viku-
byrjun, en skipið hélt til veiða eftir að verk-
falli sjómanna lauk fyrir viku og var um
fjóra sólarhringa í túrnum. „Við byrjuðum í
Jökuldjúpinu og þar sem vel veiddist í fót-
reipistroll á þessum tíma í fyrra reyndi ég
það í fyrsta sinn fyrsta sólarhringinn,“ segir
Óli Fjalar Ólafsson skipstjóri. „Þetta er
öðruvísi veiðarfæri, engar bobbingalengjur
og léttara í drætti, en síðan fórum við upp í
Kolluál og vorum þar sem eftir var.“
Allt öðruvísi
Óli segir gott að veiðar séu hafnar á ný
eftir langt stopp. „Við hefðum reyndar þurft
að fá samninga, en þetta var orðinn ansi
langur tími og það var fínt að komast af stað
aftur. Við byrjuðum ekki sérstaklega vel en
síðan lagaðist þetta og síðasti sólarhring-
urinn var sérstaklega góður. Hins vegar
held ég að útlitið sé ekki alltof gott. Mér
finnst þetta vera allt öðruvísi núna en á
sama tíma í fyrra. Fiskurinn er ekki á sama
stað og verið hefur á þessum árstíma og ein-
hvern veginn er allt öðruvísi – ég held til
dæmis að nær enginn fiskur sé nú á Vest-
fjarðamiðum.“
Ingimundur er 294 brúttólestir að stærð
og eru 11 manns í áhöfn. 220 kör komast
fyrir í lestinni og tókst að fylla þau á áætl-
uðum tíma í fyrsta túr eftir verkfall. „Það
stóð til að landa á þessum degi og okkur
tókst að fylla,“ segir Óli Fjalar.
Verkfallið hefur ekki mikil áhrif á afkomuna
Guðmundur Runólfsson hf. gerir Ingi-
mund út á þorsk og karfa. Félagið er auk
þess með skuttogarann Hring SH, einkum á
karfaveiðum, en hann er væntanlegur inn til
löndunar í dag, og Helga SH á rækjuveiðum.
Hjá félaginu eru alls 106 stöðugildi í landi og
á sjó og heildarkvótinn um 3.700 þorskígild-
istonn. Auk þess veiða skip félagsins 2.500
tonna bolfiskkvóta Fiskiðjusamlags Húsa-
víkur hf. og er aflanum ekið norður.
Í fiskvinnslu félagsins starfa 55 manns.
Þar er einkum um að ræða framleiðslu á
freðfiskafurðum og er að mestu um vinnslu
á eigin afla að ræða, en einnig er keypt á
markaði þegar þarf auk þess sem hluti afla
skipa félagsins fer á markað. Vegna verk-
falls sjómanna lá vinnsla niðri frá því fyrir
páska en hún hófst aftur sl. mánudag eftir
tæplega sex vikna stopp. Móses Geirmunds-
son verkstjóri segir að verkfallið eigi ekki að
koma í veg fyrir að kvóti félagsins náist á
fiskveiðiárinu, en í því sambandi nefnir hann
að milli 600 og 700 tonn séu eftir af karfa.
„Ég held að verkfallið hafi ekki mjög mikil
áhrif á afkomuna,“ segir hann og bætir við
að komið hafi til tals að bæta við fólki og
keyra vinnsluna á meiri krafti en áður. „Við
ætlum að sjá hvernig veiðin verður en vissu-
lega hefur verkfallið haft mikil áhrif á fólkið
og það þarf nokkra daga til að ná sér upp
aftur. Áður en við hættum vinnslu vegna
verkfallsins fórum við með í kringum 12
tonn af þorski í gegnum húsið á dag, en nú
byrjum við með sjö tonn á dag.“
Þorskurinn er fluttur út til Bandaríkjanna
en karfinn til Evrópu, einkum til Þýskalands
og Frakklands. „Það er svo mikil spurn eftir
karfanum að hann nær varla að frjósa í
tækjunum – er farinn áður,“ segir Móses.
„Yfirleitt höfum við selt aflann í vikunni áð-
ur en við vinnum hann og ekki haft undan að
framleiða. Vandamálið er hins vegar að nú
er engan karfa að fá. Það var gott karfaskot
fyrir verkfall og það þarf tíma til að finna
hann aftur.“
Í fiskvinnslunni er fjölþjóðlegt yfirbragð
en þar eru 23 útlendingar, frá Póllandi, Víet-
nam, Litháen, Austurríki, Nýja Sjálandi,
Úganda og Grænhöfðaeyjum. Unnið er á
einni vakt frá klukkan sjö á morgnana til
klukkan þrjú á daginn alla virka daga, en
starfsfólkið er ekki bundið af því að vinna
allan daginn, getur unnið hluta úr degi að
vild. „Vinnutíminn er sveigjanlegur með til-
liti til skóla og annars,“ segir Móses.
Skemmtilegt líf
Það er nóg að gera við að flaka þorskinn,
snyrta, pakka og frysta. Jóhanna Guð-
mundsdóttir er verkstjóri í vinnslunni en
hún hóf störf þegar að loknu grunnskóla-
námi og hefur unnið þarna í um 15 ár. Hún
segir að verkfallið hafi þýtt mikla tekju-
skerðingu fyrir fólkið í vinnslunni, sem hafi
verið á atvinnuleysisbótum, og því hafi verið
gott að byrja aftur í vinnunni. Hins vegar
hafi ekki allir komið aftur því margir hafi
fengu sér vinnu annars staðar vegna verk-
fallsins.
Jóhanna er gift, á tvö uppkomin börn og
hundinn Nettu. „Þegar ég var unglingur var
ekkert annað í boði,“ segir hún um það að
hún byrjaði að vinna í fiskvinnslunni. „Ég
kunni strax vel við þetta starf, mér finnst
gaman að lífinu í kringum fiskvinnsluna og
mér líður rosalega vel hérna.“
Oft hefur verið sagt að erfitt sé að fá Ís-
lendinga í fiskvinnslu, en Jóhanna skilur það
ekki almennilega. „Gjarnan er ástæðan sögð
lág laun en ég held að laun í fiskvinnslu séu
ekkert lægri en í verslun og þjónustu. Vissu-
lega er þetta ekki eins snyrtilegt og að vinna
í verslun eða banka, en það sem mér finnst
leiðinlegast er að heyra fullorðnar konur,
sem hafa verið í fiski, segja „aumingja þú“
við unglingana, sem eru að byrja. Það er
slæmt að krakkarnir fái þetta veganesti og
nær væri að hvetja þá til dáða, segja þetta
verður gaman fyrir þig og stattu þig, því
þetta er svo gaman.“
Skemmtilegt og fjölbreytt starf
Auður Halldórsdóttir tekur í sama streng.
„Vinnan er skemmtileg og það var viss til-
hlökkun að byrja aftur eftir verkfallið og
hitta félagana.“
Auður er Reykvíkingur en býr með sam-
býlismanni sínum í Grundarfirði, þar sem
hún hefur unnið á sama stað í rúm 10 ár.
Hún hefur unnið við fiskvinnslu í tvo ára-
tugi, en auk þess m.a. starfað á sjúkrahúsi, í
verslun og verksmiðju „Mér finnst gaman að
breyta til og það er eitthvert flökkueðli í
mér. Ég er Reykvíkingur, en hef mest unnið
á Rifi, í Hafnarfirði og Reykjavík fyrir utan
Grundarfjörð. En hérna eru góðir vinnu-
félagar og fiskvinnslan er skemmtileg og
fjölbreytt.“
Ánægð á Íslandi
Pólsku mæðgurnar Halina Nabakowska
og Monika Bajda vinna saman í fiskvinnsl-
unni og segir Monika að tíminn í verkfallinu
hafi verið frekar leiðinlegur og því gott að
byrja að vinna aftur. „Það var ofboðslega
leiðinlegt að sitja heima og gera ekki neitt
og því var gaman að byrja aftur í vinnunni
og fá laun til að borga húsið, en þegar það
er búið langar mig til að fara aftur í skóla,
verði ég ekki búin í fjarnámi áður,“ segir
Monika. Hún er nær 18 ára og hefur fjárfest
í húsnæði í Grundarfirði ásamt íslenskum
kærasta sínum. „Ég er ánægð hérna og við
borgum þetta upp á fimm árum.“
Monika hefur verið á Íslandi í tæplega
þrjú ár og talar glettilega góða íslensku, en
fjölskyldan bjó fyrst á Hvammstanga þar
sem hún byrjaði í skóla. „Pabbi er búinn að
vinna á Íslandi í rúm fjögur ár en við, ég,
mamma og tveir yngri bræður mínir, kom-
um einu og hálfu ári síðar,“ segir Monika og
bætir við að gaman sé að vinna í fiskinum.
„Fyrst var mjög erfitt að hreinsa fiskinn og
ég var mjög hrædd við orma, en nú gengur
allt mjög vel. Samt var svolítið erfitt að
byrja eftir verkfallið því ég hafði ekki unnið
svo lengi en þetta kemur allt saman.“
Gleðin í
fyrirrúmi
Það er nóg að gera hjá Moniku Bajda, Jóhönnu Guðmundsdóttur og Auði Halldórsdóttur.
Óli Fjalar Ólafsson, skipstjóri á
Ingimundi SH, ánægður með
fyrsta túr eftir verkfall.
Monika Bajda hefur fjárfest í
húsnæði í Grundarfirði ásamt ís-
lenskum kærasta sínum.
Skemmtilegt að starfa við veiðar og vinnslu hjá Guðmundi
Runólfssyni hf. í Grundarfirði.
Hjólin eru komin á fullt hjá
sjávarútvegsfyrirtækjum
landsins eftir langt sjó-
mannaverkfall. Steinþór Guð-
bjartsson tók púlsinn á veið-
um og vinnslu í Grundar-
firði, þar sem ánægja og
gleði skein úr hverju andliti.
steg@mbl.is
Morgunblaðið/Ásdís