Morgunblaðið - 26.04.2002, Page 37
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. APRÍL 2002 37
Friðriks Jónssonar, og þegar þú
komst heim til mín þá spilaði ég það
meðal annara oft fyrir þig í flutn-
ingi Björgvins Halldórssonar og
Karlakórs Fóstbræðra:
Undir háu hamrabelti
Höfði drúpir lítil rós.
Þráir lífsins vængja víddir
Vorsins yl og sólarljós.
Ég held ég skynji hug þinn allan
Hjartasláttinn rósin mín.
Er kristallstærir daggardropar
Drjúpa milt á blöðin þín.
Finna hjá þér ást og unað
Yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist.
Aldrei það er minning þín.
Ég sendi þér líka hér með þessa
bæn, sem þú hélst mjög upp á:
Heimsins þegar hjaðnar rós
og hjartað klökknar.
Jesús gef mér eilíft ljós,
Sem aldrei slökknar.
Þú varst ekki aðeins frábær móð-
ir og amma barnanna okkar, heldur
einnig besta vinkona mín, til þín var
hægt að leita til með alla hluti og
oft sagðir þú mér að finna út hvaða
leið mig langaði til að ganga og
taka svo ákvörðun, sem sagt svörin
átti ég að finna sjálf við lífsgátunni
og hún hlustaði oft á vangaveltur
mínar í gegn um lífið og lagði orð í
belg þegar henni fannst þörf á.
Minningin um mjúku strokurnar
um vanga okkar „krakkanna“ á öll-
um aldri geymast í hjörtum okkar
allra.
Ég reyndi oft að fá bollaspádóm
á yngri árum mínum en ég fékk
aldrei svör við lífsgátunni í gegnum
bollaspádóm hennar þó oft hafði ég
heyrt að hún hefði þótt góð í þeim
málum. Þú varst kletturinn í mínu
lífi, mín fyrirmynd og barnabörnin
voru heppin að fá að njóta samvista
við þig. Þú kenndir þeim m.a. að
hamingja fæst ekki með peningum
heldur að leggja á sig og uppskera;
að rækta fjölskylduna sína væri
númer eitt í forgangsröðinni. Fórn-
fýsi þín fyrir aðra gekk stundum út
fyrir öll takmörk að mínu mati en
þú máttir ekkert aumt sjá hvorki
hjá dýrum né mönnum.
Mér fannst þú persónulega oft
gleyma sjálfri sér og því sem þig
langaði að gera. Sumir bogna, aðrir
bresta, þú bognaðir eins og góð tré
gera en þú náðir að rétta úr og sjá
lífið í nýju ljósi og sagðir þú mér oft
að þegar yngsta barn okkar Ingi-
björg Íris hefði fæðst hefði vaknað
ný von hjá þér, þú sást mikið ljós í
henni og fylgdist náið með henni til
dauðadags eins og þér einni var
lagið.
Hér áður fyrr koms þú oft í sum-
arbústaðinn og margar góðar minn-
ingar eigum við þaðan með henni,
er mér sérstaklega minnisstæð ein
heimsóknin en þá komst þú með
rútu sem Ólafur Ketilsson ók til
Laugarvatns þar sem þú hafði verið
að vinna á laugardeginum og við
fórum austur deginum áður. Við
biðum nokkur við kaupfélagið eftir
ferðalanginum og héldum að eitt-
hvað hefði komið fyrir rútuna, en
loksins komst þú og steigst út úr
rútunni öll rykfallin og þá varst þú
mjög reið og vissum við ekki hvort
við ættum að hlæja eða gráta fyrir
hennar hönd. Þér var ekki hlátur í
huga þá, en oft síðar á ævinni
skemmtir þú þér við minninguna á
meðan þú mundir hana. Við yljum
okkur öll í fjölskyldunni við minn-
ingarnar um þig um leið og við
þökkum þér samfylgdina og sam-
gleðjumst þér innilega að vera laus
úr þeim fjötrum sem þú varst í síð-
ustu árin þín hér. Við vitum einnig,
elsku vinan okkar, að nú getur þú
ferðast út um allar jarðir og geim
en oft þurftir þú að horfa á eftir
okkur að heimsækja ættingjana er-
lendis, sem voru þínir nánustu ætt-
ingjar líka. Sjáumst síðar.
Margrét Oddsdóttir
og fjölskyldan.
Fleiri minningargreinar um Ingi-
björgu Sólveigu Sigurðardóttur
bíða birtingar og munu birtast í
blaðinu næstu daga.
✝ Friðrik JensGuðmundsson
fæddist í Reykjavík
9. nóvember 1925.
Hann andaðist á
Landspítalanum við
Hringbaut 16. apríl
síðastliðinn. Foreldr-
ar hans voru Sólveig
Jóhannsdóttir, hús-
móðir, f. 1897, d.
1979, og Guðmundur
Halldór Guðmunds-
son, sjómaður, f.
1887, d. 1982. Bræð-
ur Friðriks eru: Ósk-
ar, f. 1922, látinn.
Guðmundur Jóhann, f. 1927, látinn.
Jóhann, f. 1930.
Árið 1945 kvæntist Friðrik Sig-
ríði Sigurjónsdóttur, sérkennara,
f. 1925. Foreldrar hennar voru Sig-
urjón Sigurðsson, verslunarmaður,
f. 1891, og Rannveig Vídalín Guð-
mundsdóttir, húsmóðir, f. 1897.
Friðrik og Sigríður eignuðust sex
börn. Þau eru: 1) Katrín, f. 1946.
Dætur hennar með Friðriki Guð-
jónssyni eru: a) Berglind Sigur-
veig, f. 1969, maki Roman Schröd-
er. Dætur þeirra eru Elisabet
Berglind, f. 1995, og Lóa Marie, f.
1971. Kona hans Sif Ásmundsdótt-
ir, f. 1972. Sonur þeirra er Óðinn
Örn, f. 2000. b) Höskuldur Goði, f.
1975. Unnusta hans Kristín Sif Óm-
arsdóttir, f. 1979. c) Friðrik Þór, f.
1984. Börn Gunnars frá fyrra
hjónabandi eru Eva, f. 1975, og
Snorri, f. 1971, í sambúð með Ísól,
f. 1972. Sonur þeirra er Óskar Jós-
úa, f. 1999. 4) Sigríður, f. 1957.
Börn hennar og Pálma Kristins-
sonar, f. 1957, eru: a) Hjalti Þór, f.
1981. Unnusta hans Ingunn Agnes
Kro, f. 1982. b) Elísabet, f. 1986. 5)
Sigrún, f. 1959, maki Jóngeir Þór-
isson, f. 1957. Dóttir þeirra er Irma
Gná, f. 1997. Sonur Sigrúnar er
Gunnþór Jens, f. 1976. Börn hans
og Auðar Aspar Jónsdóttur, f.
1976, eru Bjarki Már, f. 1997, og
Patrekur Máni, f. 2001. 6) Guð-
mundur, f. 1961, maki Helga Ósk-
arsdóttir, f. 1962. Börn þeirra eru:
a) Sigrún Áslaug, f. 1980. Unnusti
hennar Friðrik Sölvi Gylfason, f.
1973. b) Rannveig, f. 1986. c) Frið-
rik Jens, f. 1998.
Friðrik ólst upp í Vesturbænum,
lauk Samvinnuskólaprófi árið 1945
og starfaði lengi hjá Olíuverslun Ís-
lands. Síðan vann hann hjá Skatt-
stofu Reykjavíkur þar til hann lét
af störfum. Friðrik var KR-ingur
og stundaði glímu og frjálsar
íþróttir um árabil.
Útför Friðriks fer fram frá Foss-
vogskirkju í dag og hefst athöfnin
klukkan 13.30.
1997. Þau eru búsett í
Lúxemborg. b) Katrín
Elísabet, f. 1974, bú-
sett í París. Dóttir
hennar, Kaja Port-
mann, andvana fædd
2000. Sonur Katrínar
með Jean Pierre F. er
Jean Pierre Fannar, f.
1981. 2) Sólveig, f.
1949, maki Guðmund-
ur Hjartarson, f. 1948.
Börn þeirra eru: a)
Friðrik, f. 1968. Börn
Friðriks með Helenu
Jónsdóttur, f. 1964,
eru Karítas, f. 1993, og
Davíð, f. 1995. Friðrik er í sambúð
með Ragnhildi Ragnarsdóttur, f.
1964, og hennar sonur er Ragnar
Dagur Ágústsson, f. 1991. b) Hjört-
ur, f. 1970. Sonur Hjartar með
Stellu Monique Samúelsdóttur, f.
1970, er Samúel, f. 1997. c) Sigríð-
ur Alma, f. 1971. Dóttir Sigríðar
Ölmu með Henrik Andersen, f.
1972, er Freyja, f. 2000. Þau eru
búsett í Danmörku. 3) Rannveig, f.
1953, maki Gunnar S. Snorrason.
Dóttir þeirra er Sólveig, f. 1992.
Synir Rannveigar og Óla Arnar
Andreassen eru: a) Sigurjón Örn, f.
Elsku pabbi, minningarnar hrann-
ast upp, allar ferðirnar okkar á völl-
inn, í Laugardalinn, veiðiferðirnar
o.fl. o.fl. Takk fyrir allt.
Ég skal vaka og vera góð
vininum mínum smáa,
meðan óttan rennur rjóð,
roðar kambinn bláa,
og Harpa sýngur hörpuljóð
á hörpulaufið gráa.
Stundum var í vetur leið
veðrasamt á glugga;
var ekki einsog væri um skeið
vofa í hverjum skugga?
Fáir vissu að vorið beið
og vorið kemur að hugga.
(Halldór Laxness.)
Kveðja.
Rannveig, Sigrún og
Guðmundur.
Þegar ég minnist tengdaföður
míns, Friðriks Guðmundssonar, er
mér efst í huga þakklæti til þessa
mikla manns sem ávallt reyndist mér,
dóttur sinni og börnum okkar ein-
staklega vel. Finnst mér orðið mann-
vinur eiga vel við þegar hans er
minnst. Friðrik var húmoristi af guðs
náð og einnig mikill keppnismaður.
Hann byrjaði snemma að stunda
íþróttir hjá KR og varð einn af okkar
fremstu frjálsíþróttamönnum.
Hann var fulltrúi hjá Skattstofu
Reykjavíkur í allmörg ár og hafði
mikla þekkingu á því sviði. Þeir voru
ófáir sem komu með gögn sín til hans,
auðvitað á síðustu stundu, og voru í
daufara lagi. En það brást ekki að
þegar minn maður hafði brett upp
ermarnar, farið höndum um bókhald-
ið og skýrslan var tilbúin, fóru menn
frá honum léttari í spori og bjart-
sýnni á lífið og tilveruna. Þannig mað-
ur var tengdafaðir minn, tilbúinn til
aðstoðar og hjálpar, sama hvað á
bjátaði.
Friðrik hafði mörg áhugamál og
var hafsjór af fróðleik um ólíkustu
málefni. Hann hafði mikla ánægju af
veiði og minnist ég margra veiðiferða
í Stóru-Laxá og víðar þar sem ég og
börn mín nutum tilsagnar hans og
sérlega skemmtilegra stunda. Þau
hafa síðan tekið upp merki afa síns
um háttvísi og góða umgengni við
veiðiár landsins og á þar við máltæk-
ið: „Hvað ungur nemur, gamall tem-
ur.“
Megi minningin um Friðrik lifa í
hjarta okkar allra um ókomna tíð.
Guðmundur Hjartarson.
Ég hafði þekkt Friðrik tengdaföð-
ur minn í 21 ár eða síðan ég kynntist
syni hans og eiginmanni mínum.
Friðrik hefur verið mér afskaplega
góður alla tíð og heimili þeirra Sigríð-
ar ávallt staðið opið fyrir mér. Friðrik
var mjög barngóður og sýndi börnum
okkar mikla hlýju. Friðrik átti það til
þegar dóttir okkar var yngri að
hringja til hennar og spyrja hvort
þau ættu að skreppa niður í bæ og fá
sér ís. Slík atvik lýsa hlýju Friðriks til
barnanna vel.
Við höfum tvívegis búið hjá þeim
Sigríði tímabundið og þótti þeim allt-
af sjálfsagður hlutur að rýma til fyrir
okkur hvort sem það var að lána okk-
ur stássstofuna eða eitthvert her-
bergið. Það var aldrei spurning hvort
við kæmumst fyrir eða ekki, við vor-
um alltaf velkomin inn á heimili
þeirra.
Við fórum tvisvar saman í sumarfrí
og eru það virkilega góðar minningar
sem við eigum um þá daga. Við
keyrðum um Arnarfjörð og Hjall-
kárseyri þar sem Friðrik átti ættir að
rekja og gladdi það hann að sjá þess-
ar slóðir aftur.
Friðriks er sárt saknað og þykir
okkur mikill missir að börnin okkar
skuli ekki fá að njóta hlýju hans
áfram í uppvexti sínum.
Helga Óskarsdóttir.
Minn elskulegi mágur, Friðrik
Guðmundsson, er látinn.
Það var á vori lífs míns sem ég
kynntist Friðriki. Frjálsar íþróttir
voru þá líf hans og yndi og náði hann
afburðaárangri, sem KR-ingur að
sjálfsögðu. En KR átti ekki hug hans
allan því Friðrik kvæntist eftirlifandi
eiginkonu sinni, Sigríði Sigurjóns-
dóttur, á 18 ára afmælisdegi mínum.
Ég var þá ekki formlega komin inn í
fjölskylduna á Ásvallagötu 65. Þar
bjuggu hjónin Guðmundur H. Guð-
mundsson, kona hans Sólveig Jó-
hannsdóttir og fjórir synir þeirra, Jó-
hannes Óskar, Friðrik, Guðmundur
J. og Jóhann. Friðrik var alla tíð kær-
leiksríkur sonur tengdaforeldra
minna og var þeim innan handar og
hjálplegur.
Þau Friðrik og Sigríður eignuðust
sex vænleg börn. Fimm dætur og
son.
Kynni mín af mági mínum voru
mikil og góð frá byrjun.
Eins var vor lífs míns gæfuríkt í
nánu vinfengi við tengdafólk mitt. Við
Guðmundur vorum ung og sumarið
varð hörð lífsbarátta en við tókum
þátt í lífi í borginni því okkur varðaði
um hana og íbúa hennar. Borgarmál-
in tóku hug okkar allan og oft var lítill
tími til heimsókna. En sem betur fer
þurfti alltaf að gera skattskýrslur og
þá var Friðrik bjargvætturin. En
Friðrik var líka önnum kafinn og
byggði fjölskyldu sinni góða íbúð við
Kleppsveg 34. Lengstum starfaði
Friðrik á Skattstofu Reykjavíkur og
á þessum árum, einnig um nætur,
þrælaði hann í Loðnubræðslunni við
Kleppsveg og vann myrkranna á milli
og sýndi ótrúlegt starfsþrek. Svona
unnu sumir duglegir menn á þessum
árum. Sigríður tók þátt í dugnaði
Friðriks og fór aftur til náms og lauk
kennaranámi og kenndi lengstum við
Langholtsskóla við frábæran orðstír.
Þá var yngsta barn þeirra, Guðmund-
ur, hjá mér í Tjarnarborg en sumt
vildi lítill drengur ekki gera nema
heima hjá sér, og þrátt fyrir áhyggjur
mínar get ég enn hlegið að því hvað
Friðrik var ánægður með „staðfestu“
sonar síns.
Friðrik skipaði sérstakan heiðurs-
sess í fjölskyldu minni. Hann var tíð-
ur gestur á heimili okkar Guðmundar
og það var alltaf ánægjulegt að fá
Friðrik í heimsókn. Kímni hans og
skopskyn var einstakt og áttum við
ógleymanlegar stundir sem seint líða
úr minni.
Ég get ekki fullþakkað mági mín-
um allt sem hann var mínu fólki og er
fyrir löngu orðin sátt við að hann
valdi minn afmælisdag til að giftast
sinni ágætu konu. Ég sendi fjöl-
skyldu hans mínar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Ég kveð þig, Friðrik, með söknuði.
Elín Torfadóttir.
Kynni mín af Friðriki Guðmunds-
syni hófust árið 1947. Hann var þá
nýlega kvæntur Siggu og bjuggu þau
á efri hæð á Laufásvegi 38. Ég var þá
að draga mig eftir systur Siggu,
Katrínu, og eftir að við gengum í
hjónaband nokkru síðar, og við Frið-
rik þar með orðnir svilar, hófst vin-
skapur okkar fyrir alvöru. Hugur
Friðriks hneigðist snemma til
íþróttaiðkana. Hann gekk í KR eins
og sönnum Vesturbæingi sæmdi, og
með því félagi æfði hann alla tíð og
vann sína íþróttasigra. Friðrik vann
um tíma í skrifstofu Olíuverslunar Ís-
lands hf. og seinna sem fulltrúi í
Skattstofu Reykjavíkur. Að loknum
vinnudegi var farið suður á völl að
æfa.
Friðrik var glæsilegur maður á
velli, kraftalega vaxinn og sterkur.
Hann var í fremstu röð íslenskra
íþróttamanna á árunum eftir seinna
stríð. Aðalkeppnisgreinar hans voru
kúluvarp og kringlukast, og þar var
hann í hópi þeirra bestu. Friðrik var
afar hugþekkur maður, ljúfur í um-
gengni og drengskaparmaður í hví-
vetna, og kom það fram jafnt á
íþróttavelli sem í einkalífi, enda var
hann hvers manns hugljúfi og vin-
margur. Hann var í landsliði Íslands í
frjálsíþróttum árum saman og auk
ótal kappmóta hér heima keppti hann
á frjálsíþróttamótum á Norðurlönd-
um, í Danmörku, Þýskalandi og víðar
við góðan orðstír. Það var gaman að
koma á „völlinn“ þegar okkar menn
öttu þar kappi við afreksmenn ann-
arra þjóða. Fólk kom í hópum til þess
að horfa á spennandi keppni. Menn
fylltust stolti og gleði þegar okkar
menn höfðu sigur. Og Friðrik var eitt
hjólið í því sigurverki. Þá var gaman
að vera Íslendingur. Mikil gróska var
í frjálsíþróttum á þessum árum og
met voru sett. Enn halda íslenskir
íþróttamenn merkinu hátt og met eru
slegin. Friðrik var ekki aðeins áhuga-
maður um íþróttir og góður íþrótta-
maður. Hann hafði mikinn áhuga á
flugi og flugvélum og þreyttist aldrei
á að fræða menn um flugvélar og
sýna myndir af ýmsum gerðum flug-
véla og bera saman flugeiginleika
þeirra og flughæfni.
Sigga og Friðrik komu oft í heim-
sóknir til Stykkishólms til þess að
njóta kyrrðar og náttúrufegurðar
Snæfellsness og Breiðafjarðar. Þá
var það toppurinn að fara á lúðuveið-
ar með Valdemar Stefánssyni á
gamla Fönix. Og aldrei brást lúða hjá
Valda.
Friðrik átti við vanheilsu að stríða
síðustu árin og naut þá hlýlegrar um-
hyggju yndislegrar eiginkonu sinnar.
Ég minnist Friðriks vinar míns sem
góðs drengs og skemmtilegs manns
og kveð hann með söknuði og virð-
ingu.
Jón Magnússon.
Elskulegi afi minn. Ég mun aldrei
gleyma þegar við sátum og tefldum
saman í stofunni hjá ömmu.
Ég mun aldrei gleyma þegar þú
varst að lýsa veiðiferðum þínum og
hve skemmtilegt var þegar sá stóri
beit á krókinn eða þegar þú varst að
sýna mér bækurnar þínar með gömlu
flugvélunum. Ég mun aldrei gleyma
því.
Sunnanvindar fjöllum frá
fönnum hrinda síðar,
grænum linda girðast þá
grundir, tindar, hlíðar.
(Páll Ólafsson.)
Jean-Pierre Fannar Jónsson.
Sálin, hún líður í ljósvakaheiminn,
en líkamans svipur í draumageiminn
burt, – inn á dalalönd dularbleik.
Þar dregur hann ást undir töfranna þak,
sæt eins og ilmur af sólvermdu rjóðri
sár eins og vorþrá í ungum gróðri
og öflug sem fjallbrjóstsins andartak.
(Einar Ben.)
Elsku afi minn. Nú ertu horfinn á
braut, en í huga mínum munt þú
ávallt vera hjá mér.
Er ég lít upp á stjörnubjartan him-
in, þá sé ég að stjarna ein skín sem
aldrei var.
Er ég horfi á fossinn í allri sinni
dýrð, þá er hann svo smávægilegur
þar sem þú verður að sýn.
Er ég hugsa um þig bæði í gleði og
sorg, þá veit ég að sólin í mínu hjarta
skín. Þú ert minn klettur. Þú ert mín
birta. Þú ert minn styrkur. Þú ert
mitt þrek. Þú ert minn afi, minn elsku
afi.
Höskuldur.
Elsku besti afi minn. Ó hve sárt ég
sakna bross þíns og hlýju þinnar,
allra þeirra stunda sem ég átti með
þér. Samt leynist hamingja innst inni
í hjarta mínu, því nú hvílir þú í friði
frá öllum veikindunum. Ég veit að nú
ert þú með bræðrum þínum, foreldr-
um og vinum að nýju og ert búinn að
finna fegursta stað himnaríkis fyrir
okkur öll, sem elskum þig svo heitt.
Ég þakka Guði fyrir að hafa gert þig
eins og þú varst, því að fyrir mér ertu
fyrirmynd alls hins góða og fallega.
Gráti því hér enginn
göfugan föður,
harmi því hér enginn
höfðingja liðinn;
fagur var hans lífsdagur,
en fegri er upp runninn
dýrðardagur hans
hjá drottni lifanda.
(Jónas Hallgr.)
Ég bið um að vaka yfir okkur öllum
á þessum sorgartíma og þá sérstak-
lega henni ömmu .
Guð geymi þig, elsku afi,
Þín
Elísabet.
FRIÐRIK JENS
GUÐMUNDSSON
Fleiri minningargreinar
um Friðrik Jens Guðmundsson
bíða birtingar og munu birtast í
blaðinu næstu daga.