Lesbók Morgunblaðsins - 01.02.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 01.02.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. FEBRÚAR 2003 11 BANDARÍSKI rithöfundurinn PaulTheroux mun vafalítið vera einn fremstihöfundur ferðasagna nú á dögum enhann hefur sent frá sér merkar bækur af öðrum toga. Ber þar helst að nefna Sir Vidia’s Shadow. Þar segir frá Nóbelsverðlaunahafanum V.S. Naipaul en hann og Theroux voru perluvinir hátt á þriðja áratug áður en vinslit urðu með þeim. Smásagnasafnið Hotel Honolulu gefur smásögum eftir Somerset Maugham og Guy de Maupassant ekkert eftir. Theroux er þó ekki hættur að semja ferðasögur, sem betur fer. Kynlegir kvistir Afríkubókin Dark Star Safari er mun merki- legri en venjuleg ferðasaga eða vettvangslýsing fyrir margra hluta sakir. Theroux bjó í Afríku á sjöunda áratugnum og hlaut þar eldskírn sem rit- höfundur. Einhvers staðar segir að fortíðin sé annað land. Sagan er því eins konar uppgjör við þennan furðuheim sem Afríka er og ferð um- hverfis höfundinn sjálfan. Sögumaður kynnist að vanda alls kyns furðufuglum en hver og einn virðist efni í heila bók. Theroux lend- ir í miklum mannraunum og verður á vegi skotglaðra stigamanna og trú- boða. Afríkufarinn segir kristniboð- um óspart til syndanna og er þar söguhetjan Allie Fox úr skáldsög- unni The Mosquito Coast eftir Theroux lifandi kominn. Paul Thero- ux deilir hart á svokallaðar hjálpar- stofnanir og afskipti þeirra af Afr- íkuþjóðum. Varninginn sem Vesturlandabúar senda bágstöddum má oft kaupa á útimörkuðum. Landsmenn verða háðir matargjöfum og Therox segir frá því hvernig sumir björgunarmenn neyða konur til lags við sig fyrir nauðþurftir. Allrahanda kross- farar rjúfa fæðukeðjuna og snúa sér síðan að næstu þjóð sem kemst í fréttir en innfæddir sitja eftir með sárt ennið. Höfundi ofbýður bruðlið sem hann verður vitni að. Góðgerðarmenn keyra um á rándýrum jeppum en hirða ekki um að veita vegmóðum ferðalangi far heldur hreyta í hann ónotum. Theroux gefur sig á tal við finnska hjálp- arstarfskonu í lest. Sú er að þrotum komin og segir sínar farir ekki sléttar. Konan hneykslast á því að innfæddir byrji tilhugalífið um tíu ára ald- ur og vill stemma stigu við útbreiðslu eyðniveir- unnar. Hún segist hafa boðist til að sýna þorps- búum heimildarmyndir um kynsjúkdóma. Heimamenn sem lifað höfðu stóðlífi frá blautu barnsbeini bönnuðu henni aftur á móti að sýna konum og börnum dónamyndir. Höfundur verst brosi og spyr ósköp sakleysislega hvort konan hafi ekki reynt að tala þá til. „Jú, en þá vildu þeir bara fá að sofa hjá mér.“ Sýnd veiði en ekki gefin? Theroux víkur að þeirri firru að elta uppi villi- dýr á jeppa, skjóta meira að segja górillur og simpansa sem eru mennskari en margur mað- urinn og þykjast maður að meiri. Einhver vitfirr- ingur hefur líkt þessari ástundun við íþrótt. Því síður á þetta athæfi nokkurn skapaðan hlut skylt við veiðimennsku. Veiðimaður er sá maður sem veiðir stórhættuleg dýr með spjóti sér og sínum til bráðar. Vandamál eru stundum ekkert annað en dulbúin lausn á öðrum vanda. Theroux sést yf- ir þá sáraeinföldu lausn að gefa út veiðileyfi á kristniboða, veiðiþjófa og hjálparstarfsmenn og hlífa veslings dýrunum þótt uppstoppaður trú- boði sé kannski ekki mikið stofustáss. Theroux kynnist kátum karli sem rekur þjóðgarð í Afríku og fleygir þýskum túristum miskunnarlaust á dyr. Sá bendir réttilega á að mun meira sé upp úr því að hafa að leyfa mönnum að skoða dýrin í stað þess að láta einhverjar mannleysur skjóta þau á færi. Karlinn segir að veiðimennirnir svokölluðu sækist jafnan eftir gjörvilegustu dýrunum og stofnarnir úrættist í tímans rás; eftir standa slöppustu og óföngulegustu skepnurnar, kjós- endur R-listans í dýraríkinu. Á einum stað segir frá því að Theroux heim- sækir gamlan vin sinn. Sá vill fá syni Theroux sem sendikennara til Afríku en börn gestgjafans búa öll á Vesturlöndum. Ekkert þeirra hefur snú- ið aftur til föðurlandsins til að leyfa löndum sínum að njóta þeirrar menntunar sem þau hafa hlotið. Hvað um þín börn? spyr höfundur og reynir að láta beiskjuna ekki brjótast í gegn. Ferðalang- urinn hittir þó læknisfrú og nunnu sem lagt hafa nótt við dag í áraraðir til að gera þeim sem minna mega sín lífið bærilegra og hrífst þeim mun meira að þessum óskráðu dýrlingum eftir að hafa hitt jeppakarla og kvenfélagskonur af báðum kynjum sem ýmist reyna að snúa Afríkubúum til rétts siðar eða vinna þeim ógagn undir yfirskini dyggðar og manngæsku. (Eina leiðin til að fanga hamingjuna, Numicius, og halda henni, er að dást ekki að nokkrum sköpuðum hlut.) Hóras epidoes I. IV. Einhverjar bestu ferðasögur sem færðar hafa verið í letur eru eftir landa okkar Kjartan Ólafs- son; sá gerði hreystisöguna að listformi og þrótt- mikill stíllinn er með fallegasta prósa sem ritaður hefur verið á íslenska tungu. Helsti gallinn við ferðasögur almennt er sá að þær eru margar öðr- um þræði afrekaskrár. Theroux fellur þó ekki í þessa gryfju, reynir ekki svo að sjá megi að fegra sinn hlut eða koma sér í mjúkinn hjá lesandanum. Þó verður vart betri ferðafélagi fundinn. Öndveg- isskáldið Hóras réð vini sínum Numiciusi að verða ekki hugfanginn af nokkrum sköpuðum hlut, nil admirari. Theroux brýtur þetta boðorð Stóu- manna svo að um munar. Hann hrífst af öllu í kringum sig, mannlíf- inu, bæjunum, náttúrunni og hrífur lesandann með sér í hverri máls- grein. Þessi lífsgleði vegur á móti því ljótasta sem við blasir í Afríku. Þótt Theroux dragi ekkert undan er hann naskur á það sem gott er og göfugt í mannskepnunni. Van Damme í Afríku Hvergi er fegurra mannlíf en í Afríku og hvergi hefur greinarhöf- undur eins margar hetjur fyrir hitt, börn sem vakna um hálffimm að morgni og ganga 10 km í skólann innan um villidýr og mannætur, kennarar sem kvarta ekki og kveina undan lágum launum held- ur biðja um skriffæri handa nemendum og þak á skólahúsið, 8 ára gamlar stelpur sem ganga með kornabarn á bakinu allan liðlangan daginn og óþekka stráka sem héldu að Íslendingurinn væri Jean-Claude Van Damme en til meiri mannvirð- inga verður vart komist. Á salerni á flugvellinum í Harare hafði einhver glaðbeittur túristi, eflaust með ljónshaus í far- teskinu, haft fyrir því að krota óhróður og viðbjóð um blökkumenn. Eftir að bleiknefjar höfðu söls- að undir sig allt sem vert var að eiga í landinu og heimamenn máttu reka þá af höndum sér í mann- skæðri styrjöld var síður en svo við hæfi að krassa sámyrði um svertingja á vegg í sjálfri höf- uðborginni. Einhver Simbabvemaður hafði haft fyrir því að hripa svar fyrir neðan þetta krass. Einhvern veginn hafði ég ekki lyst á því að lesa meiri sora en forvitnin varð siðgæðisvitundinni yfirsterkari að vanda. Þar stóð skrifað snyrtilegri rithönd fyrir neðan barnslegt krotið: „Af hverju látið þið okkur ekki í friði?“ Meiri speki um Afr- íku hefur vart verið rituð. Hómer fær sér hænublund Portkonur reyna að leiða Theroux í freistni með blíðmælgi og kjassi en hann leitar athvarfs í hótelkytrunni með dyggðina eina sem rekkju- naut og kemst heill á húfi á áfangastað. Í loka- kaflanum heimsækir sögumaður rithöfundinn Nadine Gordimer í Suður-Afríku. Eini gallinn sem verður á bókinni fundinn er sá að síðasta málsgreinin er bæði snubbótt og endaslepp og sómir sér illa sem sögulok á svo vandaðri og góðri bók. Einhvers staðar stendur að stundum sofi líka hinn góði Hómer og jafnvel öndvegishöfund- ur á borð við Theroux getur slegið staka feilnótu þótt sjaldan sé. Erfitt er að henda reiður á af hverju Paul Theroux skarar svo fram úr á þessu sviði. Höf- undur er Ameríkumaður og upplýstir Amerík- anar eru gjarnir á að líta á veröldina fyrirtekt- arlaust. Þótt þeim hætti til að finna upp hjólið æ ofan í æ blása þeir ógjarnan á nokkra hugmynd eða hugtak að óathuguðu máli. Evrópumenn eiga aftur á móti til að ganga með fastmótaða heims- mynd í kollinum og hugarheimurinn er í þeim mun fastari skorðum hafi þeir aldrei opnað bók eða komið út fyrir hreppinn. Ef til vill er það þessi sérbandaríska forvitni og hleypidómaleysi sem gerir höfundi kleift að rita nær fimm hundruð síðna ferðasögu svo höndulega að þar er engan dauðan punkt að finna. Líkast til er helsti mun- urinn á Theroux og venjulegum ferðalangi sá að hann sér meira en meðalmaðurinn. Staðirnir stækka þegar maður sér þá með augum skálds- ins. Margar ferðasögur eru eftir svaðilfara sem skrifa í hjáverkum en bókin Dark Star Safari er eftir rithöfund sem ferðast. FLAKKAÐ UM DIMMA STJÖRNU Paul Theroux Höfundur er kvikmyndagerðarmaður. E F T I R J Ó N A S K N Ú T S S O N Hvað er sannleikur? Er hann það sem gerðist, hvernig atburðurinn er túlkaður eða hvernig við munum hann? SVAR: Þessa spurningu má orða á ofurlítið annan hátt en hér er gert: Er sönn lýsing á at- burði sú lýsing sem lýsir atburðinum, túlkar hann, eða gerir grein fyrir því hvernig munað er eftir honum? En þá lendir maður strax í þeim vanda að túlkun eða upprifjun eru hvort fyrir sig einhvers konar lýsing. Á endanum sit- ur maður líklega uppi með eina spurningu: Hvað felst í sannri túlkun, sannri lýsingu eða sannri upprifjun á atburði? Hverjir eru eig- inleikar túlkana, lýsinga og upprifjana sem leyfa okkur að segja að þær séu sannar frekar en ósannar? Til eru kenningar um hvað geri setningu sanna sem vísa til samhengis hennar við aðrar setningar eða annarra einkenna hennar. Ég ætla hins vegar að sleppa öllum vangaveltum um slíkar kenningar og gera ráð fyrir að sann- leikur setningar felist í einföldum hlut: Sam- svörun hennar við það sem hún er um. Þannig er lýsing sönn, túlkun sönn, upprifjun sönn eða rétt ef það sem sagt er samsvarar atburð- inum, eða hlutnum, eða því sem túlkunin, upp- rifjunin, lýsingin er um. En nú er augljóst að það er ekki sama hvort við erum að tala um túlkun, lýsingu eða upp- rifjun þegar við skerum úr um sannindi eða ósannindi. Ef ég set til dæmis fram túlkun á hegðun fólks sem er á ferli í kringum mig, þá legg ég skilning í athafnir þess sem kann að vera réttur eða rangur og í mörgum tilfellum kann að vera ómögulegt að skera úr um hvort tiltekin túlkun er sönn eða ósönn. Upprifjun er alltaf háð túlkun og því er hún ekki síður erfið að eiga við en túlkun. Þegar vel er að gáð er hætt við að lýsing sé sömu annmörkum háð: Stundum er auðvelt að skera úr um hvort lýs- ing er sönn eða ósönn, stundum er það erfitt eða jafnvel ókleift. Því er ekki hægt að svara spurningunni með því að velja einn kostinn af þremur: Hvað sannleikur er varðar eiginleika þess sem sagt er, hvort sem um er að ræða lýsingu, upprifjun eða túlkun, en það er engin leið að segja al- mennt eða fortakslaust að lýsing, túlkun eða upprifjun sé sannleikur. Um mörg svið veruleikans er lítils virði að gera sannleikann að helsta mælikvarða þess sem sagt er. Í vísindum er til dæmis iðulega verið að fást við kenningar sem eru sann- anlegar einungis í ljósi tilrauna og reynslu. Annaðhvort virka kenningarnar eða ekki. Þeg- ar beitt er skýringarhugtökum er oft erfitt að halda því fram að ein setning sé sönn frekar en önnur því að hugtakið sjálft felur í sér hug- myndir um tengsl fyrirbæra hvers við annað sem er hluti skýringarinnar sjálfrar. Ef ég held því til dæmis fram að tunglið valdi sjáv- arföllum þá er ég að halda fram hugmynd um tengsl tveggja náttúrlegra fyrirbæra sam- kvæmt viðurkenndri hugmynd um möguleg tengsl á milli þeirra. Öll hugtök eru háð sam- hengi sínu, notkun og merkingarsviði og því hlýtur hver lýsing alltaf í einhverjum skilningi að byggjast á orðræðunni sem hún sprettur úr, ekki síður en umhverfi, atburðum eða hlut- um sem hún er um. Innan trúarbragða á borð við kristni eru flókin hugtakakerfi notuð til að lýsa tengslum hins yfirnáttúrlega við jarðneskar verur. Þetta varðar meðal annars spurningar á borð við þá hvers konar hugsun eða hegðun samræmist kennisetningum kristninnar og hvað ekki. En augljóslega eru hugtök á borð við synd, náð Guðs og fleira merkingarlaus fyrir þeim sem ekki deila hugarheimi kristninnar. Á sama hátt sækja fullyrðingar og skýringar merk- ingu sína til viðeigandi orðræðu. Það er sama hver hún er og sama hve víðtæk: Engin orð- ræða er fastur hluti heimsins eða gefin fyr- irfram. Þetta merkir ekki að sannleikurinn sé af- stæður en það merkir að öll þekking er afstæð. Sannleikurinn er tvennt í senn: Annars vegar sá hversdagslegi eiginleiki þess sem við höld- um fram, trúum og förum eftir; hins vegar óræður og næstum yfirnáttúrlegur hlutur: samsvörun þess sem sagt er við það sem er í raun og veru og sem er alveg óháð því sem sagt er. Jón Ólafsson, doktor í heimspeki. Hvað eru margar vefsíður á Netinu? SVAR: Þessari spurningu má með réttu líkja við spurningu sem þegar hefur verið svarað á Vísindavefnum, nefnilega: Hvað eru mörg sandkorn í heiminum? Það blasir líklega við að ekki er hægt að gefa nákvæmt svar við þeirri spurningu en þó er ljóst að sandkornin eru endanlega mörg. Þessu er öðruvísi farið um vefsíður og raunar má segja að þær séu óendanlega margar í vissum skilningi. Síðustu ár hafa vinsældir forritunarmála á borð við PHP, ASP og JSP, sem búa til kvikar (e. dynamic) vefsíður um leið og notendur kalla á þær, aukist mjög. Í kjölfarið er erfitt að tala um fjölda vefsíðna þar sem hver síða á vef- setri sem nýtir þessa tækni er í raun ekki til fyrr en notandi kallar á hana. Áður en þessi tækni kom til sögunnar voru langflestar vef- síður sístæðar (e. static) og þurfti því að búa þær til og dagrétta handvirkt. Þannig má segja að vefsíðunum sem liggja á vefþjónum og bíða þess að notendur sæki þær hafi jafnvel fækkað en þeim vefsíðum sem hver netnotandi getur beðið vefþjón um að búa til og síðan sótt hefur fjölgað upp úr öllu valdi. Til dæmis má ímynda sér vefþjón sem býr til einfalda síðu fyrir hvern notanda sem heim- sækir hann. Á síðunni væri einungis talan pí með ákveðnum fjölda aukastafa (sem í raun eru óendanlega margir), en sá fjöldi væri ákveðinn á slembinn (e. random) hátt, til dæm- is út frá nákvæmri tímasetningu og IP-tölu hvers gests. Þessi eini vefþjónn hefur þá möguleika á að búa til óendanlega margar mis- munandi vefsíður. Einar Örn Þorvaldsson, starfsmaður Vísindavefjarins. HVAÐ ER SANNLEIKUR? Síðasta miðvikudag átti Vísindavefurinn þriggja ára afmæli. Frá opnun vefjarins hafa verið birt 3.000 svör við spurningum landsmanna, eða að meðaltali rétt tæplega þrjú svör á dag, alla daga ársins. Meðal spurninga sem hefur verið svar- að nýlega má nefna: Er eitthvert mark takandi á spádómum, af hverju fellur blýlóð og fjöður jafnhratt í lofttæmi, af hverju eru bara tólf mán- uðir í árinu og hver er hornasumma einhyrnings? VÍSINDI Morgunblaðið/Golli Íslenska óperan er einn óteljandi aðila sem eru með vefsíðu á Netinu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.