Morgunblaðið - 27.07.2003, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 27.07.2003, Blaðsíða 4
4 B SUNNUDAGUR 27. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ MESTAN hluta síns ferils var Miles Davis á mála hjá Columbia, sem hefur á seinni árum staðið myndarlega að endurútgáfu á 30 ára tónlistar- sögu hans á því merki. Allar plötur hans hafa kom- ið út, sumar með auknu efni, endurhljóðblandaðar og -unnar. Veglegar kassaútgáfur sem eru ýmist þema- eða stílfræðilega tengdar hafa þó vakið mesta athygli. Þær innihalda jafnan mikið af áður óútgefnu efni sem og ritgerðir og ljósmyndir í glæsilegum bókum. Veg og vanda af útgáfuser- íunni hafa Michael Cuscuna og Bob Belden sem hlotið hafa Grammy-verðlaun fyrir útgáfuna. Hér verða aðeins raktar kassaútgáfurnar. The Complete Miles Davis With John Coltrane (1955–1961) (Box #1) Þessi kassi inniheldur sex geisladiska og allt efni sem Miles og Coltrane léku saman inn á plötur. Kassinn inniheldur m.a. Kind of Blue og Milestones-plöturnar og einnig mikið af áður óútgefnu efni. The Complete Miles Davis And Gil Evans (1957–1968) (Box #2) Hérna er öll stórsveitartónlist þeirra félaga kom- in saman á sex diskum. Inniheldur margar af vin- sælustu plötum Miles eins og Porgy and Bess, Sketches of Spain. The Complete Studio Recordings Of The Miles Davis Quintet (1965–1968) (Box #4) Á sex diskum eru allar upptökur með „seinni“ kvintettinum, Shorter, Hancock, Carter og Will- iams raðað í réttri tímaröð. Þriggja ára ferðalag frá kammerdjassinum til upphafs rafdjassins. The Complete In A Silent Way Sessions (Box #5) Þessi kassi einskorðar sig við upptökuna á tíma- mótaverkinu In A Silent Way og spannar sex mánaða tímabil á þremur diskum. Þrátt fyrir að vera for- leikur að enn meiri breytingum stendur tónlistin vel fyrir sínu. The Complete Bitches Brew Sessions (1969–1970) (Box #6) Upphaflega tvöfalt albúm sem hafði ótrúleg áhrif á djass- og rokktónlist. Með Bitches Brew missti Miles marga gamla aðdáendur en eignaðist líka marga nýja. Aukin og endurbætt útgáfa fyllir núna fjóra diska. Í undirbúningi eru kassi #3, Seven Steps to Berl- inog kassi #7 The Complete Jack Johnson Sessions.Auk þess hefur verið gefinn út sér- stakur kassi, átta diskar, um upptökur á Plugged Nickel klúbbnum frá 1965. Á síð- asta ári komu út í fyrsta sinn tónleikar frá Fillmore Miles Davis Live at Fillmore East – March 1970. Hérna heyrist einmitt í Shorter, Chick Corea, Dave Holland, Jack DeJohn- ette og Airto Moreira, sem stundum var köll- uð „týnda sveitin“ þar sem engar stúdíóupp- tökur eru til með þessari hljómsveit. Ef buddan leyfir ekki kaup á þessum kössum þá má benda á að allar upphaflegu plöturnar hafa verið gefnar út. Warner Brothers sem tók við Mil- es frá Columbia á níunda áratugnum hefur ekki látið sitt eftir liggja því á síðasta ári slógu þeir öll met með útgáfu á tuttugu diska kassa, The Complete Miles Davis at Montreux 1973–1991, en þar er m.a. að finna frægan konsert Miles með Gil Evans tónlistinni undir stjórn Quincy Jones. Endurútgáfur með Miles Davis EFTIRTALDAR bækur eru brot af því besta sem finna má á prenti um Miles Davis. So What: The Life of Miles Dav- is er splunkuný bók eftir John Szwed, sem áður hefur skrifað athyglisverða bók um Sun Ra. Hérna reynir Yale-prófessorinn Szwed að segja sannleikann um Miles, kafa undir yfirborðið á flókinni persónu sem var snill- ingur í að halda fólki frá sér með hryssingslegum töffaraskap. Miles Davis: The Definitive Biography eftir Ian Carr. Mikil að vexti, 660 blaðsíður að lengd. Carr, sem er trompetleikari og gagnrýnandi, hefur vandað mjög til verksins. Bókin kom fyrst út 1982 og aftur 1998, þá aukin og endurbætt. MILES The Autobiography kom út 1989 meðan Miles var á lífi og vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir bersögli og palladóma um samtímafólk í tónlistinni og ann- ars staðar. Sögur af baráttu hans við kynþáttafordóma og eitur- lyfjaneyslu eru hispurslausar að ógleymdum kvennamálunum. Kannski ekki besta sagnfræði, en óborganleg lesning. Miles Beyond eftir Paul Tingen fjallar eingöngu um rafmagns- tónlistina frá 1967–1991 og er ómissandi fyrir þá sem heillast hafa af þeim tíma, sem líklega er dularfyllsta skeið Miles. Kind of Blue: The Making of the Miles Davis Masterpiece eftir Ashley Kahn, sem kom út árið 2000, skyggnist bak við tjöldin og lýsir því hvernig Kind of Blue platan varð til. Stórfróðleg bók. Bækur halda minningunni á lífi MILES Davis-kvintettinnsteig á svið í hinumfræga Blackhawk nætur- klúbbi í San Francisco föstudags- og laugardagskvöldin 21.–22. apríl 1961. Trompetleikarinn stóð á há- punkti ferils síns og mætti með tenórsaxistann Hank Mobley og rytmasveitina þrautreyndu, þá Wynton Kelly á píanó, Paul Chambers á bassa og Jimmy Cobb á trommur. Upphaflega voru upp- tökur frá kvöldunum gefnar út á tvöföldu vinýlalbúmi, en nýlega hefur Columbia/Sony endurútgefið upptökurnar og reyndar gengið mun lengra með því að gefa út í heild allar upptökur kvöldanna í réttri röð eftir flutningi á fjórum geisladiskum, sem hægt er að kaupa annaðhvort sem „föstudags- kvöld“ (2 diskar), „laugardags- kvöld“ (2 diskar) eða í einu setti, In Person Friday and Saturday Nights at The Blackhawk: Com- plete. Diskarnir fjórir eru samanlagt rúmlega fjórir tímar í spilalengd og innihalda m.a. þrettán áður óút- gefnar upptökur. Þess ber að geta að upphaflega klipptu Miles og framleiðandinn Irving Townsend saman ólíkar upptökur laga frá sitthvoru kvöldinu. Þannig bjuggu þeir til eina opinbera útgáfu frá Blackhawk af tilteknum lögum, allt eftir því hvernig Miles líkaði sín sóló eða meðreiðarsveinanna. Eftir á að hyggja er með ólíkindum hversu vel þetta frumkvöðlastarf í samsetningum tókst. Enginn veitti þessu athygli nema helst trommu- leikarinn Jimmy Cobb, sem fannst þetta fölsun, enda sjálfsagt næm- ari á allar taktbreytingar en aðrir. Hljómsveitin og foringinn voru í þrusuformi þessi kvöld og renndu sér í gegnum mörg lög sem tengd eru nafni Miles Davis órjúfanleg- um böndum. Hér má heyra t.d. So What, No Blues, Bye Bye Black- bird, Walkin’, ‘Round Midnight, Autumn Leaves, o.fl. Tónlistina hafði Miles kynnt fyrst nokkrum árum áður á plötum eins og Milestones og meistaraverkinu Kind of Blue. Kvöldin í San Franc- isco og aðrir tónleikar mánuði síð- ar í Carnegie Hall, sýna hversu frábær hljómsveit Miles Davis var árið 1961. Óneitanlega fylgir upp- tökunum í Blackhawk meiri ang- urværð og nálægð sem aðeins get- ur myndast í litlum klúbbum þar sem áheyrendur sitja þétt hver við annan og við sviðið. Sjálfur segir Miles í sjálfsævisögu sinni að upp- tökubúnaður og upptökumenn í klúbbnum hefðu haft truflandi áhrif á tónlistarmennina, en það heyrist alls ekki, þvert á móti er hljómsveitin afslöppuð og í fínu formi allan tímann. Glasaglaumurinn hjaðnaði Blackhawk-klúbburinn, elsti djassklúbburinn á Vesturströnd- inni og með þeim elstu í Banda- ríkjunum, var ávallt vinsæll af tón- listarmönnum, sérstaklega fyrir góðan hljómburð, nánast hljóð- vershljóm. Þetta var þröng kompa, skítug og dimm, bókstaflega við- bjóðsleg í dagsbirtu samkvæmt Ralph J. Gleason gagnrýnanda sem skrifaði aðfararorð að upp- haflegu útgáfunni. Samt sem áður dró klúbburinn að sér fólk sem naut þess að hlusta á tónlist. Sag- an segir að heyra hafi mátt saum- nál detta þegar Miles spilaði eitt- hvað fallegt. Ekkert skvaldur eða glasaglaumur, þarna mættu aðeins siðfágaðir hlustendur og helsta hetja dagsins var Miles Davis! Alltaf þegar Miles spilaði í Black- hawk mynduðust langar biðraðir enda var klúbburinn í uppáhaldi hjá honum. Kannski var það vegna sérstaks sambands hans við eig- anda staðarins, Guido Caccienti, sem dekraði við stjörnuna, bók- staflega dáði Miles. Þegar Miles skipaði Guido að hætta að afgreiða áfengi í Paul Chambers vegna ölv- unar bassaleikarans, þá hlýddi Guido. Eitt sinn á kona nálægt sviðinu að hafa kallað eftir að heyra „Bye Bye Blackbird“ og endurtekið óskina oft og mörgum sinnum. Miles horfði einkennilega á konuna, labbaði af sviðinu og bað Guido að láta „fjarlægja tíkina af staðnum“. Guido brást hratt við og bað konuna að yfirgefa staðinn, henti henni út nánast. Að því búnu renndi Miles sér í Bye Bye Black- bird! At the Blackhawk er frábær heimild um kvintett Miles sem í djasssögunni hefur aldrei notið sömu stöðu og kvintettinn með John Coltrane á árum áður eða þá kvintettinn með Wayne Shorter, Herbie Hancock, Ron Carter og Tony Williams, tveimur árum síð- ar. Líklega skýringin er saxófón- leikarinn Hank Mobley, sem alltaf hefur verið talinn nokkurs konar varaskeifa fyrir John Coltrane. Ljóst var að Miles var í vandræð- um með að manna þessa stöðu þegar Coltrane hætti með honum. Sonny Stitt, Jimmy Heath og jafn- vel Sonny Rollins léku um stund- arsakir, en Miles vildi fá Wayne Shorter, sem ekki var tilbúinn að koma í grúppuna fyrr en nokkr- um árum síðar. Í áðurnefndri sjálfsævisögu segir Miles að sér hafi leiðst spilamennska og hug- myndaleysi Mobleys. Svo mikill varamaður var Mobley að þegar Miles fór í stúdíó til að taka efni fyrir plötuna Someday My Prince Will Come fyrr um veturinn, þá náði hann í Coltrane í nokkur lög og lét Mobley dingla á ganginum á meðan. Mobley virðist síður en svo hafa látið framkomu foringjans trufla sig því hann leikur aldeilis frábærlega á upptökunum frá San Francisco og raunar líkar síðar í Carnegie Hall. Safn af gullmolum Kvöldin tvö innihalda marga gullmola og aldrei nokkurn tíma hefur tónlistin hljómað betur en eftir hreinsun og lagfæringar tæknimanna. Fyrir undirritaðan standa upp úr fyrsta og annað settið á laugardagskvöldinu, þar sem heyra má If I were a Bell, So What og seinna Walkin’ og ‘Round Midnight. Óútgefnu lögin 13 gefa öðru efni engu eftir í gæðum og eru sannarlega frábær viðbót. Endurnýjuð kynni eru ákaflega notaleg, tónlistin er fersk og flutn- ingur hennar sígildur. At the Blackhawk sýnir Miles Davis á hápunkti tónlistarsköpun- ar sem hófst nokkrum árum áður. Aðeins 35 ára er hann búinn að bylta djasssögunni tvisvar, með bíboppi og svo cool-djassi. Lengra var ekki komist með þessa tónlist, fram undan var enn ein umbylt- ingin. Á næstu tveimur árum skipti hann út mannskap fyrir framsækna unga menn með nýjar hugmyndir um tónlistina. Á þann hátt tókst honum allan sinn feril að endurnýja sig reglulega og forðast endurtekningar, líkt og Picasso gerði í sinni myndlist, í sí- felldri og endalausri leit að rétta hljóminum. Rytmasveitin fræga slakar á. Jimmy Cobb, Wynton Kelly og Paul Chambers. Ljósmynd/Jan Persson Trompetleikarinn, tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Miles Davis fæddist 26. maí 1926 og lést 29. september 1991. Miles Miles Davis blandaði saman smekkvísi, tilfinningu og vitrænni sköpun á einstökum tónlistarferli sem gat af sér 120 upptökur. Örn Þórisson kynnti sér nýútkomna, aukna og endurbætta útgáfu frá næturklúbbnum Blackhawk í San Francisco. Miles á tónleikum um 1970. Einstakur tónlistarferill Miles náði yfir fimm áratugi. Á þeim tíma bylti Miles eigin tónlistar- sköpun a.m.k. þrívegis og þar með djasstónlistinni einnig.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.