Morgunblaðið - 02.03.2004, Blaðsíða 4
FRÉTTIR
4 ÞRIÐJUDAGUR 2. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FYRRVERANDI starfsmenn, alls 13 hjúkr-
unarfræðingar og 27 sjúkraliðar, telja að for-
svarsmenn Heilsugæslunnar í Reykjavík hafi
sýnt störfum þeirra vanvirðu og líta svo á að
þeim hafi verið sagt upp störfum. Þetta er
meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu frá
fyrrverandi starfsmönnum Miðstöðvar
heimahjúkrunar frá því í gær. Til stóð að fyr-
irtækið Alhjúkrun legði til starfsfólk til að
ganga tímabundið í störf þeirra sem hættu í
gær en af því verður ekki og mun Alhjúkrun
hafa hætt við.
Einhverjir skjólstæðingar heimahjúkrunar
fengu ekki þjónustu í gær, en nítján sjúkra-
liðar og átta hjúkrunarfræðingar eru enn
starfandi við heimahjúkrun.
Deila starfsmanna heimahjúkrunar og
Heilsugæslunnar í Reykjavík er óleyst en 37
starfsmenn hættu störfum í gær. Deilan
snýst um það hvernig standa skuli að akst-
ursgreiðslum. Núverandi fyrirkomulag gerir
ráð fyrir að starfsmenn fái greiddar um 450
krónur fyrir hverja vitjun, þ.e.a.s. fyrir hvert
hús sem þeir heimsækja. Breytingarnar sem
forsvarsmenn heilsugæslunnar vilja koma í
gegn fela í sér að greitt sé fyrir raunakstur,
kjósi starfsmenn að vera á eigin bíl í
vinnunni. Að öðrum kosti geti starfsmenn
fengið bíla til afnota sem heilsugæslan tekur
á rekstrarleigu. Þegar hefur verið samið um
að heilsugæslan taki fjörutíu slíka bíla í notk-
un á þessu ári.
Heilsugæslan hefur sagt að kostnaður við
rekstrarleigubílana sé lægri en að markmið
breytinganna sé að efla og bæta þjónustuna.
Þá hefur komið fram að heilsugæslan telji nú-
verandi akstursfyrirkomulag óheppilegt þar
sem það hvetji til hraða í vitjunum.
Starfsmenn taka ekki
ákvarðanir um fjölda vitjana
„Við höfum náð að halda úti dagþjónust-
unni í [gær]dag eins og talað hafði verið um
og ég held að kvöldþjónustan ætli að bjargast
að mestu leyti,“ segir Þórunn Ólafsdóttir,
hjúkrunarforstjóri hjá Heilsugæslunni í
Reykjavík. Hún segir að málið sé erfitt vegna
þess að brugðið hafi verið fæti fyrir starfsfólk
heimahjúkrunarinnar.
„Það fólk, sem við höfum leitað til til þess
að liðsinna okkur, hefur verið beitt gífurleg-
um þrýstingi, að liðsinna okkur ekki,“ segir
Þórunn. „Við höfum aðallega verið að tala við
hjúkrunarmiðlanir eins og Alhjúkrun og Lið-
sinni. Síðan auglýstum við eftir starfsfólki
fyrir viku og það hafa verið að skila sér inn
fyrirspurnir frá fólki og einhverjir eru líkleg-
ir til þess að sækja um en það er ekki auðvelt
fyrir fólk að sækja um þessar stöður vegna
þess að það er gífurlegur þrýstingur.“
Í yfirlýsingu frá fyrrverandi starfsmönnum
segir að ákvarðanir um fjölda vitjana hvers
starfsmanns heimahjúkrunar séu alfarið í
höndum svokallaðra hverfisstjóra, sem eru
fimm talsins, en ekki í höndum hvers starfs-
manns. „Starfsfólk Miðstöðvar Heimahjúkr-
unar hefur verið tilbúið að taka á sig ómælt
álag vegna yfirvinnubanns þegar veikindi
samstarfsfólks hafa komið uppá. Árum saman
hefur það tíðkast að starfsmenn hafa deilt
með sér vitjunum sem eru á vinnukortum
þeirra sem komast ekki til vinnu vegna veik-
inda og þannig tryggt að allir skjólstæðingar
fái þá þjónustu sem þeir þurfa. Þetta hefur
einnig gilt á orlofstíma á sumrin þegar ekki
hefur tekist að manna afleysingastöður vegna
orlofs starfsmanna. Starfsfólk hefur verið
tilbúið að halda uppi heiðri stofnunarinnar og
bætt á sig vinnu sem var þó ærin fyrir,“ segir
í yfirlýsingunni.
Fyrrverandi starfsmenn fara fram á op-
inbera afsökunarbeiðni frá forsvarsmönnum
heilsugæslunnar vegna þeirra ummæla sem
viðhöfð hafa verið um störf þeirra.
Stjórnvöld bera ábyrgð á deilunni
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB,
kveðst hissa á því að heilbrigðisyfirvöld beini
ekki kröftum sínum að því að ná samkomu-
lagi við starfsmenn heimahjúkrunar á höf-
uðborgarsvæðinu. „Mér finnst dapurlegt að
þeir sem þarna eiga hlut að máli skuli taka
þátt í tilraunum til að hrekja núverandi
starfsfólk frá starfi. Öðrum augum er ekki
hægt að líta það sem nú er að gerast. Þetta er
ekkert annað en kjaradeila sem stéttarfélögin
hafa komið að og sýnt fulla ábyrgð. Heil-
brigðisráðherra hefur sagst vilja bíða átekta
en það verður ekkert lengur beðið. Alvarlegt
ástand er að skapast í heimahjúkruninni og ef
ekkert verður aðhafst af hálfu stjórnvalda þá
er ábyrgðin alfarið þeirra,“ er haft eftir Ög-
mundi á vefsvæði BSRB.
Þingflokkur Samfylkingarinnar sendi frá
sér ályktun vegna deilunnar í gær þar sem
lýst er áhyggjum af þeirri óvissu sem nú ríki
um heimahjúkrun í Reykjavík og Kópavogi. Í
ályktuninni segir m.a. að góð og mikilvæg
þjónusta sé í uppnámi vegna þess að stjórn
heilsugæslunnar hafi einhliða ákveðið að
segja upp gildandi samningum um fyrir-
komulag aksturs í stað þess að ná samkomu-
lagi um breytingar. Aðgerðin endurspegli
skort á pólitískri forgangsröðun verkefna.
Deila starfsmanna heimahjúkrunar og Heilsugæslunnar í Reykjavík er enn óleyst
Telja störfum sín-
um sýnd vanvirða
Mannréttindi eru brotin á skjólstæð-ingum heimahjúkrunar með skerð-ingu á þjónustu. Þetta segir Þórður
Jónsson, en hann er bundinn við hjólastól og
háður þjónustu heimahjúkrunar daglega.
Þórður telur að stjórnvöld hefðu átt að
grípa í taumana fyrr og telur að nýtt fyr-
irkomulag aksturssamninga feli í sér aukinn
kostnað fyrir ríkið í stað þess að draga úr
honum.
Þórður er sextugur íbúi Sjálfsbjargarhúss-
ins í Hátúni. Hann hefur verið bundinn við
hjólastól frá fæðingu og fer allra sinna ferða
í rafmagnshjólastól. Starfsmaður heima-
hjúkrunar kemur til hans á hverjum morgni
og aðstoðar hann við að komast í stólinn svo
hann geti tekist á við verkefni dagsins.
Þórður hefur miklar áhyggjur af þeirri
stöðu sem kjaradeila stjórnar heilsugæsl-
unnar í Reykjavík og starfsmanna heima-
hjúkrunar hefur skapað. „Þetta er til stórrar
skammar. Þarna er verið að fremja mann-
réttindabrot […] Mér finnst að stjórnvöld
hér verði að sýna fordæmi í þessum málum.
Stjórnvöld ættu ekki að láta líðast að mann-
réttindabrot séu framin.“
Dýrara þegar upp er staðið
Þórður kveðst fullviss um að breyting-
arnar sem forsvarsmenn heilsugæslunnar
vilja gera á aksturssamningum við starfsfólk
verði dýrari en núverandi fyrirkomulag þeg-
ar upp er staðið.
„Það er alveg grátlegt að það skuli verið
að eyðileggja þessa þjónustu núna og skapa
fólki sem þarf á henni að halda miklu verri
aðstæður. Þetta verður til þess að fólk verð-
ur lagt inn á spítalana, sem er miklu dýrara.
Þetta nýja fyrirkomulag verður mörgum
sinnum dýrara fyrir hið opinbera. Ég er al-
veg sannfærður um það,“ segir Þórður.
Að mati Þórðar er þjónusta heimahjúkr-
unar eins og best verður á kosið. „Þessi
þjónusta hefur farið stigbatnandi í mörg ár.
Þjónustan getur ekki verið betri en hún er
akkúrat núna.“
Þórður segist hafa áhyggjur af því að
þjónustan kunni að skerðast. Einkum lýsir
hann áhyggjum af næturþjónustu, en skjól-
stæðingar hafa aðgang að starfsmanni
heimahjúkrunar á nóttunni, ef upp koma
neyðartilfelli. Hann segir þá óvissu sem
fylgir kjaradeilu starfsfólks heimahjúkrunar
og heilsugæslunnar í Reykjavík hafa afar
slæm áhrif á skjólstæðinga, ekki síst and-
lega. „Fólk hættir að geta sofið og hefur
áhyggjur,“ segir Þórður.
Þórður telur að forsvarsmenn heilsugæsl-
unnar hefðu átt að fara öðruvísi að breyt-
ingum á samningum við starfsfólk. „Það
hefði verið hægt að beita mannlegri aðferð-
um við þessar breytingar. Þetta verður
miklu dýrara á buddu skattgreiðenda,“ segir
Þórður og kveðst reiður yfir því að stjórn-
völd hafi ekki „stigið á bremsuna fyrr“ til að
koma í veg fyrir að tæpur helmingur starfs-
fólks heimahjúkrunar segði upp störfum.
Þjónustan ekki of hröð
Þórður segist ekki telja þjónustu heima-
hjúkrunar of hraða, en forsvarsmenn heilsu-
gæslunnar hafa sagt að núverandi aksturs-
samningar hvetji til hraða í vitjunum og því
beri að greiða fyrir raunakstur fremur en
fyrir ákveðið marga kílómetra á hverja vitj-
un. Þannig sé frekar hvatt til lengri viðveru
með hverjum skjólstæðingi. Þórður gefur
ekki mikið fyrir þessi rök og segir að spyrja
megi á móti hvernig heilsugæslan ætlar að
fara að því að lengja viðveru þegar starfs-
fólki hefur fækkað um nær helming.
Brotið á mannrétt-
indum skjólstæðinga
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þórður Jónsson, skjólstæðingur heimahjúkr-
unar, segir það vera brot á mannréttindum að
draga úr þjónustu heimahjúkrunar.
VEGAGERÐIN og Reykjavíkur-
borg hafa auglýst útboð á færslu
Hringbrautar, sem á að fara fram
30. mars næstkomandi þegar
frestur rennur út fyrir verktaka
að skila inn tilboði. Frá þessu var
m.a. greint á vef Vegagerðarinnar
í gær.
Samkvæmt útboðslýsingu á
verkinu að vera lokið í síðasta lagi
15. október á næsta ári en útboðið
er auglýst á öllu Evrópska efna-
hagssvæðinu.
Braut í fjórum akreinum og
undirgöng fyrir göngufólk
Eins og fram hefur komið í
Morgunblaðinu nær færsla
Hringbrautarinnar frá Rauðarár-
stíg að Tjörninni. Kemur brautin í
fjórum akreinum milli Bifreiðar-
stöðvar Íslands, BSÍ og lóðar
Landspítalans sem fara undir nú-
verandi Bústaðavegarbrú. Endur-
gera þarf allar tengingar inn á
gömlu Hringbrautina, auk þess
sem hringtorg kemur á mótum
Njarðargötu og Sóleyjargötu.
Þá munu verktakar bjóða í und-
irgöng fyrir gangandi og hjólandi
umferð og fjórar göngubrýr.
Tvær slíkar brýr verða yfir
Hringbraut, ein yfir Njarðargötu
og loks ein yfir læk sem tengir
Vatnsmýrartjörn og Þorfinns-
tjörn.
Umferðarljós bætast
við á Bústaðavegi
Þegar litið er nánar á kort
Vegagerðarinnar af gatnamótum
Hringbrautar og Bústaðavegar,
eins og þau verða að framkvæmd-
um loknum, sést að umferðarljós-
um verður bætt við á Bústaðavegi
til að ná tengingu við svonefndan
suðvestur-ramp inn á Hring-
brautina.
Umferðarljósin á núverandi
gatnamótum verða nær óbreytt.
Megintilgangur framkvæmdar-
innar að liðka fyrir umferð um
Hringbrautina og búist er við að
hún færist meira af Bústaðaveg-
inum. Umferð um núverandi
gatnamót muni um leið minnka
frá því sem verið hefur og ekki tal-
ið að tafir verði miklar um Bú-
staðaveg þar sem umferðarljósin
verði samstillt.
Færsla Hring-
brautar boðin út
Vegagerðin og Reykjavíkurborg
ÚTFÖR Svövu Jakobsdóttur, rit-
höfundar og fyrrverandi alþingis-
manns, fór fram frá Hallgríms-
kirkju í gær. Svava andaðist á
Landspítalanum – háskólasjúkra-
húsi laugardaginn 21. febrúar síð-
astliðinn.
Séra Ragnar Fjalar Lárusson
jarðsöng og organisti var Hörður
Áskelsson. Kammerkórinn Schola
cantorum söng við athöfnina, Gunn-
ar Guðbjörnsson söng einsöng, Inga
Rós Ingólfsdóttir lék einleik á selló
og Hjalti Rögnvaldsson leikari las
upp.
Líkmenn sem báru kistuna úr
kirkju voru Ragnar Arnalds, fyrr-
verandi alþingismaður, Ragnheiður
Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri
Rithöfundasambands Íslands, Vig-
dís Grímsdóttir rithöfundur, Helgi
Seljan, fyrrverandi alþingismaður,
Hjörleifur Guttormsson, fyrrver-
andi alþingismaður, Gerður Kristný
rithöfundur, Ingibjörg Haraldsdótt-
ir rithöfundur og Steingrímur J.
Sigfússon alþingismaður.
Morgunblaðið/Þorkell
Útför Svövu Jakobsdóttur