Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Qupperneq 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. JANÚAR 2001 3
H
VERNIG skiljum við hlut-
ina og hvernig verður
merking orða til? Þetta
var eitt af höfuðviðfangs-
efnum fortíðarinnar, ekki
síst tuttugustu ald-
arinnar. Menn gerðu sér
yfirleitt grein fyrir því að
merking gat orðið til með ýmsu móti. Merk-
ing þarf að skapast og gerjast þar til ein-
hver almenn, viðurkennd niðurstaða fæst.
Menn gerðu sér grein fyrir því að mörg ólík
skáld sem horfðu á sömu dögun eða sama
sólarlag sköpuðu úr skynjun sinni og hug-
leiðingu mismunandi heimsmyndir og gáfu
hlutunum mjög mismunandi merkingu,
jafnvel þótt allir væru að horfa á sama hlut-
inn. Umræður manna um merkingu urðu
oft því merkingarlausari sem mælskan og
sundurgreiningin varð meiri. Tuttugasta
öldin leið áður en þessir menn gerðu sér
grein fyrir að þeir voru allir að tala um
sama hlutinn. Og þeir gerðu sér enga grein
fyrir því heldur að þeir voru alltaf að reyna
að segja það sem ekki er hægt að segja.
Niðurstaðan varð oft ringulreið, uppgjöf og
merkingarleysa, einkum í skáldskap. Það er
alltaf til heimur sem liggur handan við orð-
in. Bæði í lífi okkar og list er allur veruleiki
okkar á hreyfingu og breytingum háður og
allar biblíur má túlka á ótal vegu. En við
megum ekki gleyma því að það er aðeins
túlkun á einum og sama veruleika. Vonandi
kemst þriðja árþúsundið að því að það er
hann sem skiptir máli. Ég á von á að þriðja
árþúsundið sýni umburðarlyndi gagnvart
allri þessari mælsku tuttugustu aldarinnar,
ekki síst vegna þess hvað hún er merkingar-
lítil. Menn eru alltaf að uppgötva nýja hluti,
en venjulegur skilningur hins venjulega
manns heldur velli eftir að margar heim-
spekikenningar eru fallnar. Því meira sem
menn eiga af heilbrigðri skynsemi, því
betra. En satt að segja var hún sjaldnast í
hávegum höfð á minni tíð og ekki alltaf hátt
metin meðal spekinga og spámanna fortíð-
arinnar. Flestir gáfumenn á minni öld álitu
að heimspekin byrjaði þegar menn yxu upp
úr því að notast við venjulega skynsemi og
byrjuðu að nota löng, flókin og lærð orð um
veröld sem þeir sáu þó aðeins í þoku. Von-
andi skilja menn á þriðja árþúsundinu að
það að vaxa frá fyrri sjónarmiðum er ekki
það sama og að hætta að nota skynsemina,
þvert á móti, hana verður að nota í auknum
mæli.
Á minni öld hæddust menn ekki meira að
neinu orði en orðinu sannleikur. Þessir
menn sögðu að enginn sannleikur væri til
vegna þess að hann væri tilbúinn af ólíkum
einstaklingum við ólíkar aðstæður. En auð-
vitað er það ekki sama og að enginn sann-
leikur sé til. Hér er aðeins um mismunandi
túkun á veruleikanum að ræða. Ný dögun
er veruleiki og hættir ekki að vera veruleiki
þó að þúsund skáld lýsi henni á þúsund
vegu. Sannleikur eða veruleiki minnkar
ekki við það að stór hluti hans hlýtur alltaf
að vera handan orðanna og handan mann-
legra takmarkana.
Regndropinn gerir meira fyrir jörðina en
stórfljótið. Fljótið sem rennur í föstum far-
vegi til sjávar gerir minna gagn fyrir þyrsta
jörð en regnið. Hugsanir manna sem falla
eins og stórfljót í þröngu gljúfri gera heim-
inum ekki sama gagn og hugsun hins frjálsa
skapandi manns sem er laus úr hlekkjum
gamalla fordóma. Dómgirni var höf-
uðeinkenni hugsunar manna í fortíð okkar.
Margt bendir til þess að sköpun og lífsgildi
verði leiðarstjörnur hins nýja árþúsunds.
Stórfljótið í gljúfrinu okkar fæst um þessar
mundir aðallega við það að bæta tölvuna
með nýjum forskriftum og fullkomna Netið.
En þeir eru fáir sem hafa áhuga á að leiða
anda mannsins til meiri þroska. Samt eru
það einmitt þeir sem eru regnið sem fellur á
þyrsta jörð. Er það ekki augljóst að það ætti
að vera þroski mannsins sem skiptir hann
sjálfan mestu máli? Á öldinni sem leið birt-
ist nær öll hugsun gáfumanna í kappræðum,
sem þeir oftast nefndu rökræður, til þess að
breiða yfir vanþroskað eðli þeirra. Aðal-
atriðið í þessum kappræðum var ævinlega
að sigra, ekki að komast að hinu sanna eða
skynsamlega. Þekkingarleit er annars eðlis,
þar skiptir sigur eða tap í kappræðu ekki
máli. Hún er meira í ætt við gljúfrið en
regnið. Þrönghyggja er aldrei líkleg til þess
að leiða til andlegs vaxtar. Það er betra að
hlusta en setja fram af kappi einstrengings-
leg sjónarmið. Það er lífsnautn að nota öll
skilningarvit og skilningsgleðin er líka lífs-
nautn. Einfaldir hlutir eru lífsnautn. Að
vakna á morgnana og finna lykt af kaffi og
ristuðu brauði í eldhúsinu, faðma að sér
elskuna sína, hlusta á morgunútvarpið, gá
til veðurs og virða himininn fyrir sér, borg-
ina og fjarlæg fjöll, borða morgunmatinn.
Við beitum öllum skilningarvitum okkar til
að njóta þessara hversdagslegu hluta. Og
þau eru grundvöllur hugsunar okkar, þau
skapa hugmyndir okkar um tíma og rúm og
þau tengja fortíð og framtíð líðandi stund.
Þegar milljónir manna fylgja vitleysu
valdamanna nákvæmlega annaðhvort vegna
hópsefjunar eða ótta breytist þessi fjöldi í
aftökusveit sem auðvelt er að nota gegn
heiðarlegum mönnum sem reyna að hugsa
af einhverju viti. Allir kristnir söfnuðir for-
tíðarinnar voru einhvern tímann bann-
færðir af þessum sökum. Trúarleg valdboð
komu oft frá illa menntuðum, jafnvel ólæs-
um, biskupum og margir lærðir en valda-
lausir menn vissu betur og skildu betur.
Þeim var það lífsháski að segja satt og tala
viturlega eða vera trúir hinum upphaflega
boðskap Krists eftir því sem þeir þóttust
best þekkja hann. Valdið þoldi enga and-
stöðu og allir sem hlýddu ekki skilyrðislaust
voru brennimerktir. Þeim var gefið ákveðið
nafn. Síðan sömdu menn lög um að allir sem
kallaðir voru þessu nafni með réttu eða
röngu yrðu réttdræpir eða þeir niðurlægðir
og hunsaðir. Menn þurfa ekki að vera fróðir
í sögu til að sjá að þetta er rauði þráðurinn í
svörtustu köflunum í sögu allra trúar-
bragða. Þetta er líka rauði þráðurinn í
svörtustu köflum í öllum stjórnmálahreyf-
ingum heimsins í fortíðinni. Megum við ekki
gera okkur vonir um að við förum ekki með
þennan arf með okkur inn í þriðja árþús-
undið eftir Krist? Megum við vona að til
verði valdhafar sem taka réttum rökum í
stað þess að krefjast skilyrðislausrar hlýðni
og undirgefni? Menn skilja nú að valdhafar
tuttugustu aldarinnar höfðu ekki áhuga á
verkalýð eða almenningi til annars en að
koma sjálfum sér til valda með þeirra stuðn-
ingi. Þá varðaði í raun hvorki fyrir né eftir
valdatökuna um hagsmuni almennings, hins
vinnandi manns eins og það var kallað á öld-
inni sem leið. En almenningur var látinn
trúa því að hagsmunir hópsins sem barðist
til valda og hagsmunir þeirra sem voru not-
aðir færu saman. Það gerðist aldrei á tutt-
ugustu öld. Eftir að valdamaður var búinn
að hreiðra um sig og festa sig í sessi var öll
gagnrýni barin niður miskunnarlaust. Það
sem einkenndi pólitísk réttarhöld á tutt-
ugustu öld og trúarleg réttarhöld á miðöld-
um var hið sama: Sakborningurinn fékk
ekki að ráða því hvaða skoðanir hann hafði.
Dómararnir þóttust alltaf vita betur um
hans eigin raunverulegu skoðanir. Þess
vegna var margur mætur maður dæmdur
og líflátinn fyrir skoðanir sem hann hafði
ekki. Valdhafinn gerði honum upp skoðanir
sem hann taldi refsiverðar og dæmdi hann á
þeim gjörfölsuðu forsendum. Málfrelsið var
ekki til í raun og réttarfarið oft flugeldasýn-
ing hinna lærðustu siðleysingja.
AÐ GERA
MÖNNUM UPP
SKOÐANIR
RABB
G U N N A R D A L
TÓMAS
GUÐMUNDSSON
SIGLING
Undir haustdökkvum himni
er húmið þöglast á sænum,
burt frá heimskunnar hlátrum
held ég einn út frá bænum.
Ég leysi festar og fley mitt
und fullum seglum rennur
beint út í nóttina. Himinn og haf
í hjarnköldum loga brennur.
Ljóðhreimar liðinnar ævi
leiftra á bárunnar földum.
Gleymdar ástir, syndir og sorg
sindra í geislunum köldum.
– Hvað heyri ég? Feigs manns hlátra?
– Á hafinu vofur reika!
Og öldurnar fallast í faðma
við fleyið mánableika.
Tómas Guðmundsson hefði orðið hundrað ára í dag en hann var fæddur 6.
janúar árið 1901 á Efri-Brú í Grímsnesi. Ljóðið Sigling hefur ekki áður birst á
prenti en í dag kemur út hjá Máli og menningu bókin Síðbúin kveðja sem inni-
heldur áður óbirt efni eftir Tómas. Ljóðið er ort 17. nóvember 1919 en í at-
hugasemd höfundarins við það sem dagsett er 6. júní 1924 segir: Af vangá
virðist þetta kvæði til orðið.FORSÍÐUMYNDIN
Tómas Guðmundsson skáld. Ljósmynd: Ólafur K. Magnússon.
Gersemar
Vínarborgar
eru margar eins og allir vita sem til
þekkja, skrifar Bragi Ásgeirsson. Hallirnar
Belvedere og Schönbrunn víðfrægar fyrir
reisn og fegurð. Listasöfnin mörg og róm-
uð, gnægtarbrunnur fagurkera, og ekki er
húsagerðarlistin síðri. Stefánsdómurinn,
þó einkum hverfið umhverfis hana, segull
sem dregur fjöldann til sín og aldrei sefur.
Núll
Er núll núll? spyr Erlendur Jónsson í svar-
grein við núllrabbi Gunnars Dals hér í Les-
bókinni fyrir skömmu. Sýnist Erlendi að
Gunnar rugli saman fimm eða sex hlutum
eða hugtökum í umfjöllun sinni.
Jónas Jónsson
Fyrsta för Jónasar Jónssonar frá Hriflu út í
heiminn var til Ráðagerðis í Leiru á Reykja-
nesi en þar dvaldist hann vetrarlangt við
léttastörf. Gerður Steinþórsdóttir hefur
gluggað í bréf sem Jónas skrifaði syst-
kinum sínum meðan á dvölinni stóð.
Tómas Guðmundsson
hefði orðið hundrað ára í dag en hann var
fæddur á Efri-Brú í Grímsnesi 6. janúar ár-
ið 1901. Soffía Auður Birgisdóttir fjallar
um skáldið og verk þess. Þar segir meðal
annars: „Tómas Guðmundsson er Reykja-
víkurskáldið. Skáldið sem fann sér efnivið
til ljóðrænnar tjáningar í borginni, þessari
sódómu sem fá skáld höfðu sér látið til hug-
ar koma að byggi yfir fegurð sem tjá mætti
í ljóðrænum hendingum í bundnu máli.“
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
1 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R
EFNI