Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Blaðsíða 19

Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Blaðsíða 19
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. JANÚAR 2001 19 Þ RÍR gítarkvintettar verða á efnisskrá tónleika sem haldnir verða í Hafnarborg sunnudag- inn 7. Janúar. Það er gítarleik- arinn Arnaldur Arnarson sem leikur kvintettana ásamt Sif Tulinius fiðluleikara, Júlíönu Elínu Kjartansdóttur fiðluleik- ara, Margréti Theodóru Hjaltested lágfiðlu- leikara og Ásdísi Arnardóttur sellóleikara. Verkin sem leikin verða á tónleikunum eru Kvintett í e-moll, G.451 eftir Luigi Boccher- ini (1743–1805), Gran Quitetto op. 65 eftir Mauro Giuliani (1781–1829) og Quitette op. 143 eftir Castelnuovo-Tedesco (1895–1968). Arnaldur Arnarson hefur búið í Barcelona undanfarin sextán ár og er nú einn virtasti gítarkennari á Spáni. Hann leikur einleik og kammertónlist jöfnum höndum og er með- limur í nútímatónlistarhópnum Ensemble Barcelona Nova Musica. Hljómdiskur með leik hans sem út kom árið 1999 hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda á Íslandi og er- lendis. Hann hélt síðast tónleika hér á landi á Myrkum músíkdögum í janúar 1999 og var þá eingöngu með íslenska dagskrá. Auk þess kom Arnaldur fram á tóleikum í Mývatns- sveit í júlí síðastliðnum – fyrir tilviljun, eins og hann segir. „Ég ætlaði ekkert að spila hér heima í sumar, en svo var hringt í mig og ég beðinn um að hlaupa í skarðið fyrir annan hljóðfæraleikara eftir viku. Þetta var að vísu nokkuð skammur fyrirvari en mér leist vel á að gera þetta. Að vísu var brúð- kaup hjá frænku minni þennan sama dag, svo skipulagið þurfti að ganga upp. En ég náði að komast í brúðkaupið, snarast síðan út á flugvöll til að fljúga norður og náði á staðinn rétt áður en tónleikarnir hófust.“ Ólík tónskáld Hvað geturðu sagt okkur um tónskáldin og verkin sem þú ætlar að leika á tónleik- unum í Hafnarborg á sunnudaginn? „Elsta verkið er eftir ítalska tónskáldið og sellósnillinginn Luigi Boccherini og er frá því seint á 18. öldinni. Boccherini var uppi á svipuðum tíma og Mozart og var árið 1770 ráðinn að hirðinni í Madrid sem virtuoso di camera e compositor di musica. Þar samdi hann m.a. mikinn fjölda kammerverka, þar á meðal strengjakvintetta fyrstur manna. Al- gengust hljóðfæraskipan var fyrir hinn hefð- bundna strengjakvartett, tvær fiðlur, lág- fiðlu og selló með annað selló sem fimmta hljóðfæri. Stundum var það þó önnur lág- fiðla, píanó, flauta, óbó, bassi eða gítar. Trú- lega samdi Boccerini tíu gítarkvintetta en tveir þeirra eru glataðir. Boccherini var uppi á svipuðum tíma og Mozart og kvintettinn sem ég leik á sunnudaginn er glaðlegur, leik- andi og léttur. Í honum er einn hægur kafli en þó ekki tregafullur. Þetta er mjög ljóð- ræn og fáguð tónlist. Mauro Giuliani var afburðagítarleikari og afkastamikið tónskáld. Hann samdi fjölda einleiksverka fyrir gítar, þrjá konserta auk samleiksverka. Gran Quintetto op. 65 hefst með inngangi fyrir strengina. Þá eru tilbrigði um Nel cuor piú non mi sento úr óperunni La Molinara eftir Paisiello og verkinu lýkur á glæsilegum Polonaiseþætti með gítarinn í aðalhlutverki. Þetta er mjög glæsilegt verk og krefjandi fyrir gítarinn. Ítalinn Mario Castelnuovo-Tedesco fædd- ist í Flórens. Hann var af ættum gyðinga af spænskum uppruna og flúði til Bandaríkj- anna árið 1939 með konu sinni og tveimur ungum sonum. Hann settist að í Hollywood og samdi tónlist við fjölda kvikmynda auk annarra verka, þ.á m. sjö óperur og yfir þrjúhundruð verk fyrir gítar. Kvikmynda- tónlistina kallaði hann matjurtirnar sínar en aðra tónlist blómin sín. Meðal aðdáenda Castelnuovo-Tedesco voru Gieseking, Hei- fetz, Toscanini og Segovia sem fluttu og stjórnuðu verkum hans reglulega. Hann var afkastamikið tónskáld, mikill fagurkeri og mjög ljóðrænn Að mínum dómi er kvintett- inn sem við leikum eftir hann mjög glæsilegt kammerverk. Þar eru miklar kröfur gerðar til strengjakvartettsins sem hefur mikið hlutverk. Það eru miklar tilfinningalegar andstæður í þessu verki, bæði eldlegar ástríður og djúpur tregi, en líka geislandi léttleiki. Það er svo merkilegt að það er alltaf ein- hver tregi í tónlist gyðinga. Kannski vegna þess að þeir virðast hvergi eiga heima, þótt þeir eigi heima alls staðar. Eftir stríðið vannst til dæmis Castelnuovo- Tedesco hann alltaf vera gestur þegar hann kom til Ítalíu en í Bandaríkjunum fannst honum hann vera Ítali.“ Aftur tekinn til við tónleikaferðir Það hefur verið nóg að gera hjá Arnaldi síðustu mánuðina. Auk þess að æfa fyrir tón- leikana í Hafnarborg, er hann að æfa fyrir tónleika hjá Kammersveit Reykjavíkur sem verða haldnir seinna í janúar. Hann er með- limur í Ensemble Barcelona Nova Musica sem hann segir vera svipaðan Caput-hópn- um hér á landi. „Þetta er lítill tónlistarhópur sem sérhæfir sig í nútímatónlist. Ég hef ver- ið töluvert á tónleikaferðalögum með þeim, bæði á Spáni og erlendis,“ segir Arnaldur og þegar hann er spurður hvort hann geri mikið af því að halda tónleika erlendis, segist hann vera byrjaður á því aftur. „Ég á dóttur sem er að verða fimm ára og þegar hún fæddist, ákvað ég að taka mér frí frá ferðalögum og það er ekki fyrr en núna í haust sem ég byrjaði aftur að fara í tónleikaferðir.“ Auk þessa hefur Arnaldur átt sæti í fjöl- mörgum dómnefndum í alþjóðlegum gítar- keppnum en hann er sem fyrr segir einn virtasti gítarkennari Spánar. Í vetur hefur hann tíu nemendur, þar af tvo íslenska en hinir eru frá Danmörku, Kólumbíu, Portúgal og Spáni og eru þeir allir annað hvort á há- skólastigi eða í framhaldsnámi eftir háskóla- próf. Arnaldur segir þó skólann vera með öll námsstig, allt frá börnum á forskólastigi. Nú eru Spánverjar ein af mestu gítarþjóð- um heims. Er ekkert sérkennilegt að Íslend- ingur sé að kenna þeim á gítar? „Það finnst Spánverjum ekki. Þeim finnst það ekkert skrítnara en ef ég væri að kenna þeim á eitthvert annað hljóðfæri eða söng. Menn yrðu kannski undrandi ef ég væri að kenna þeim flamingo gítarhefð. Það væri eins og að fá Spánverja til að kenna okkur rímur. Annars eru til mjög góðir kennarar í flamingo gítarhefðinni sem ekki koma frá Spáni.“ Hefur lengi langað til að leika kamm- ertónlist hér á landi Hvað réð verkefnavalinu hjá ykkur á tón- leikunum næstkomandi sunnudag? „Gítarkvintettar hafa aldrei verið leiknir hér á landi áður. Það hefur að vísu ekki veð mikið um starfandi strengjakvartetta á Ís- landi og því ekki hlaupið að því að æfa upp svona efnisskrá. Tónleikarnir á sunnudaginn eru einfaldlega framtak hjá mér og stöllum mínum. Mig hefur lengi langað til þess að leika kammertónlist hér á landi og þessir kvintettar eru mjög falleg og skemmtileg tónlist.“ Hver eru tengsl þín við strengjakvartett- inn? „Sellóleikarinn, Ásdís, er systir mín og við höfum spilað saman áður. Við höfum lengi gengið með þá hugmynd að setja saman kammerhóp, hvort heldur til að flytja þessa tónlist, eða bara einhverja aðra og núna lét- um við það verða að veruleika.“ Sif Tulinius lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1991 og var síðan við nám í Bandaríkjunum. Hún hefur komið þar fram á mörgum tónlistarhátíðum og starfað við flutning kammer- og nútímatónlistar austan hafs og vestan. Hún tók við starfi annars konsertmeistara við Sinfóníuhljómsveit Ís- lands í nóvember síðastliðnum. Júlíana Elín Kjartansdóttir hefur verið fastráðin í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 1981. Þá hafði hún nýlokið framhalds- námi í Ósló og London hjá Leif Jörgensen, Bela Katona og Manough Parikian. Auk starfa í Sinfóníuhljómsveitinni hefur Júlíana tekið þátt í fjölda kammertónleika, meðal annars á vegum Kammersveitar Reykjavík- ur og verið konsertmeistari í Kammersveit Langholtskirkju. Margrét Theodóra Hjaltested stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, The Juilliard School og The Mannes College of Music í New York. Hún hefur komið fram með ýmsum hljómsveitum og kammerhóp- um, þar á meðal The Gotham City Baroque Orchestra, The New Jersey Symphony og The Opera Orchestra of New York. Margrét kennir við tónlistardeild Queens College í New York. Ásdís Arnardóttir lauk mastersgráðu í sellóleik frá Boston University árið 1995. Hún hefur haldið tónleika á Íslandi, í Banda- ríkjunum og á Spáni. Ásdís starfar sem sellókennari við Tón- skóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hún hefur einnig starfað hjá Sinfóníu- hljómsveit Íslands og leikur í dúói með Jóni Sigurðssyni píanóleikara. ELDLEGAR ÁSTRÍÐUR OG DJÚPUR TREGI Arnaldur Arnarson gít- arleikari leikur þrjá gít- arkvintetta á tónleikum í Hafnarborg á sunnudag- inn. Það er í fyrsta sinn sem gítarkvintettar eru leiknir hér á landi og spjallaði SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR við Arnald um kvintettana og líf hans og störf á Spáni þar sem hann er búsettur. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson Arnaldur Arnarson gítarleikari ásamt strengjakvartettinum sem leikur með honum í Hafnarborg á sunnudag.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.