Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Side 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. JANÚAR 2001 5
hann sje flinkur að búa til góðan mat úr litlu.
Hann á kú en lánar hana fram yfir nýár og svo
Rauð, ekki annað af lifandi skepnum.“ Jónas
segir frá heimkomu kýrinnar á gamansaman
hátt í jólabréfi: „Einn gestur hefir komið milli
jóla og nýárs sem mjer er fremur illa en vel við,
það er kýrin sem kom úr „dvöl“ síðan í haust og
býst jeg við að hún heldur tefji en flýti fyrir
mjer; vatnið er æðilangt frá, fullar tíu mínútur
verið að ná í föturnar úr pumpu sem flestir nota
í Leiru, einkum í hitum á sumrin því þá vill
verða vatnslítið sumstaðar hér á þessum
kjálka.“
Í síðasta bréfinu frá 11. febrúar kemur fram
að Brynjólfur selur mjólk úr kúnni: „...er nú öllu
lausari við en var fyrir jólin; fer t.d. æðioft inn í
Keflavík með mjólk fyrir Br. og er þar gefið 20
aurar fyrir pottinn.“ Kirkja var í Útskálum.
Þangað fór Jónas og greinir svo frá í fyrsta
bréfinu: „Í gær var sunnudagur; jeg fór til
kirkju út í Útskálar, þar var fjöldi fólks sam-
ankomið, æðimargir voru til altaris og tvö börn
skírð, annað tveimur nöfnum en hitt þremur.“
Í öðru bréfi frá 24. nóvember lýsir hann húsa-
skipan ítarlega, og gerir uppdrátt: „Í gær var
jeg að reyna að gera uppdrátt af bænum hjerna
og útihúsum sem mjer datt í hug að senda ykk-
ur ef skeð gæti að hann gæti gefið ykkur hug-
mynd um húsaskipun hjer. Það er nú hjer timb-
urhús að mestu leyti – 3 alna háir torfveggir á
tvo kanta – og skúr við annan endann; húsið er
með járnþaki og járnklæddum framvegg; Það
er 16 ára gamalt en vel stæðilegt ennþá. En
öðru máli er að gegna með hin önnur húsin sem
á uppdrættinum sjást: Eldhús, fjós, hlöðu, hjall,
hesthús, smiðju. Þau eru hvert öðru ónýtara
enda ætlar Brynjólfur að rífa hlöðuna og hjall-
inn í vor og setja það undir járnþak. Mjer datt í
hug þegar jeg sá fjósið að mamma hefði ekki
verið ánægð með það handa kúnni sinni.“ Þótt
Brynjólfur sé svo flinkur í matreiðslunni að orð
sé á gerandi er annað hefðbundnara í Ráða-
gerði. Þannig þjónar gamla konan Jónasi: „Eins
og jeg skrifaði ykkur um daginn, eru hjer ein
hjón í húsinu, Gísli og Elsa, sem áttu jörðina áð-
ur en Brynjólfur keypti, og búa í afþiljuðu her-
bergi upp á lofti; þau eiga fimm börn uppkomin
sem voru farin frá þeim; ekki segir Brynjólfur
að þau hafi selt fyrir skuldir, heldur þyki þeim
vissara að eiga peningana á rentu í bankanum
heldur en í jörðinni. Þau eru bæði greind og
gamansöm svo mjer þykir betur að þau eru hjer
en ekki. Elsa er þjónustan mín og fellur mjer vel
við hana... Í vor keypti B. bæði Ráðagerði á
1.200 og annað kot sem liggur við hliðina á
Ráðagerði fyrir 600. Svo ætlar hann að rífa bæ-
inn þar því hann er ljelegur og leggja túnið með
heimatúninu en úr viðunum sem kemur úr bæn-
um ætlar hann að endurbæta með húsið hérna,
breyta innréttingum bæði uppi og niðri til að fá
fleiri herbergi. Á þann hátt getur hann líka haft
mikið meira upp út því, með því að leigja það
sem nú er naumast byggilegt.“ Hér fær lesand-
inn innsýn inn í veröld sem var, þar sem allt var
gjörnýtt. Á sama hátt kemur fram aðferð Jón-
asar að lýsa, hugleiða og komast að niðurstöðu.
Í þriðja bréfi til bróður, sem ritað er á jólum
(jóladag, annan í jólum og nýársdag), greinir
hann frá því að Brynjólfur hafi lánað kennslu-
stofuna undir „skrall“ eins og hann orðar það:
„Nokkrir ungir menn og konur fengu lánaða
kennslustofuna hjá B. í kveld, til að halda
„skrall“ og stendur nú á því, en jeg hef dregið
mig upp á loft og áleit að jeg gerði ekki annað
þarfara en byrja á brjefi þessu. Ólætin keyra
fram úr hófi og áðan datt lampinn niður og
brotnaði hjálmurinn og glasið; vildu þá sumir að
hætt væri, en stúlkurnar eru lengi sjálfum sjer
líkar og báðu menn í öllum bænum að gera eigi
slíka fásinnu... þær vissu sem var að leikurinn er
meir háður fyrir tilfinning en sjón. Jeg er að
verða syfjaður, klukkan er orðin tvö og dans-
fólkið að hætta.“
Kryddlöguð sósa
Lýsingar Jónasar á mataræði eru nákvæmar
og ljóst er að hann telur fjölskyldu sína hafa
áhuga á því. Og sjálfur hefur hann áhuga á öllu,
stóru sem smáu, og virðist fátt fara framhjá
vökulum augum hans. Á leið heim frá messu í
Útskálum, sem áður hefur verið vikið að, skrifar
hann: „Við komum á einn bæ á leiðinni þar sem
fjelagi minn var kunnugur. Okkur var boðið inn
(fólkið var fátækt) og gefið að borða. Fimm flat-
kökur lagðar á borðið í heilu lagi og bræðingur á
diski, svo fengum við kaffi á eftir. Svona er mat-
arhæfi allvíða hjer; öll ósköp borin á borð í einu
af einni sort en ekki nema einni.“
Í næsta bréfi tíundar hann nákvæmlega
hvaða matar er neytt í Ráðagerði: „Ykkur lang-
ar nú kanske til að vita hvernig matarhæfi sje
hjer hjá okkur. Á morgnana fer B. á fætur á
undan mjer en þá eru gömlu hjónin búin að vera
á flakki æðilengi og Elsa búin að sjóða bæði fyr-
ir sig og B. jarðepli og stundum fisk en hann
tekur þá við og býr til sósu blandaða úr ýmsu
sem mamma hafði sjaldan mikið af svo sem
lauk, lárberjalauf, edik, kirsuberjasaft o.fl.
Stundum sýður hann líka á olíumaskínu sem
hann hefir í búrinu eða steikir nýan fisk til
morgunverðar. Síðan höfum við annaðhvort
súra haframjelsgrautarhræru, stundum mjólk
útá sem hann kaupir eða þá te og smurt rúg-
brauð. Um miðjan daginn höfum við stundum
steikt slátur eða fiskisúpu, haframjelsgraut með
sykri og kanel, baunir og svo brauð. Á kveldin
er það te með brauði og kjöti ofaná. Jeg er orð-
inn mesti tesvelgur, við höfum krukku til að
drekka úr (ég tók eina á Svalbarðseyri) sem
taka líklega 1½ kaffibolla og þær tek jeg oftast
tvær á kveldi.“
Bleksterkt kaffi
Jónas heldur áfram og gerir grein fyrir kaffi-
gerð: „Kaffi höfum við um hádegi og er það búið
til öðruvísi en fyrir norðan. Það er fyrst gjört
ákaflega bleksterkt kaffi, mörgum sinnum
sterkara en nokkur kaffikerling gjörir kröfur
til, því hellt í flösku og svo smátekið af eftir þörf-
um, t.d. eina matskeið í bollann, síðan er hellt á
heitu vatni og finnur þá enginn maður að það sje
öðruvísi búið til en vanalegt kaffi ef sæmilega er
látið í af leginum. Það er að mörgu leyti þægi-
legra en hin vanalega aðferð t.d. í allar útgerðir
og þannig lagað kaffi hefði jeg getað haft með
mjer til ferðarinnar enda sá jeg einn mann á
Hólum hafa svoleiðis kaffi. Hjer nota flestir
kandis með kaffi, þykir hinn svo ódrjúgur og yf-
irleitt er hjer lítið um „bakkelsi“ eins og menn
komast hjer að orði um bakstur.“
Nám og skóli
Jónas skrifar lítið um námið, miðað við að-
stæður. Ætla má af bréfunum að í Ráðagerði
hafi verið barnaskóli, dagskóli, en á kvöldin hafi
Brynjólfur verið með nokkra nemendur á aldur
við Jónas. Í fyrsta bréfinu kemur einungis fram
að hann hefur tekið með sér orðabók að heiman
(líklega danska orðabók) en það hafi verið óþarfi
þar sem Brynjólfur átti hana, einnig á Brynj-
ólfur orðabók Geirs (enska orðabók). Af bréfinu
sést að það kemur sér illa fyrir systkini hans að
missa orðabókina.
Brynjólfur er á förum til Keflavíkur og þess
vegna ákveður Jónas að skrifa bréf og biðja
hann fyrir það. Á meðan Brynjólfur er í burtu á
Jónas að sitja yfir nemendunum. Það er einhver
lærdómssvipur á honum því hann skrifar: „Einn
strákur sagði svo frá og bar út að í Ráðagerði
væri kominn maður sem ætlaði að verða aðstoð-
arkennari hjá B. og væri skólagenginn á Möðru-
völlum og einhverjum öðrum skóla líka.“ í
næsta bréfi minnist hann ekki á námið. Á jóla-
dag skrifar hann: „Skólanum var sagt upp og
byrjar hann nú bráðum aftur og fer þá heldur að
verða skurk hjer í Ráðagerði.“ Í upphafi annar
er haldin veisla: „Nóttina 5. janúar hélt Brynj-
ólfur öllum skólabörnunum gildi og fleirum
unglingum og var vakað fram undir morgun,
öllum veitt kaffe og matur, rauðgrautur og
mjólk útá.“
Annan í jólum víkur hann að náminu og þeirri
ósk sinni að halda áfram námi. Það hefur ekki
verið sjálfgefið: „Ennþá býr það sama í huga
mínum og áður þegar við vorum saman að
reyna að komast á Akureyrarskólann ef ástæð-
urnar yrðu þolanlegar hjá okkur, því ekki getur
þetta kallast nema undirbúningur...“ Hann
greinir síðan frá námi sínu í ensku, reikningi og
íslenskri málfræði og finnst hægt ganga. Í síð-
asta bréfinu, sem ritað er 11. febrúar 1903, held-
ur hann áfram í sama dúr: „Svo hafa þeir þrír
drengir sem um skeið gengu hingað í enskutíma
og reiknings- ekki komið nú upp á síðkastið og
verður mjer þá öllu minna að verki einum. Eftir
nýárið fékk jeg kennslubók – danska – og hef
dálítið átt við hana síðan.“
Undir heilsunni er allt komið
með framtíðina
Hvernig leið svo Jónasi þegar hann var kom-
inn suður og dvaldist fjarri fjöskyldu sinni í
fyrsta sinn? Hann segir svo í fyrsta bréfinu til
Kristjáns um Brynjólf: „Hann hefir verið mjer
svo góður sem jeg get framast kosið og yfir höf-
uð kann jeg vel við mig hjer þó landslagið sé
sviplítið.“ Á jólum skrifar hann um heilsufar
sitt: „Jeg hef einlægt verið frískur síðan jeg
kom hingað, og vildi óska að nýja árið breytti
engu þar um, því undir því er allt komið með
framtíðina.“ Í bréfinu frá 24. nóvember segir
hann frá því að hann hafi synt í sjónum: „Í dag í
rökkrinu var kyrrt og blíðuveður, þá labbaði jeg
niður að sjó með öðrum dreng og fór og synti of-
urlítinn sprett, í langri vík og mjórri; það var
svo grunnt að jeg mátti til að vaða æðilangt
fram en mjer fannst ekkert kalt; botninn var
sljettur og mátulega djúpt á dálitlum parti, í
klof og undir hendur.“
Blek frýs í svefnstofunni
Nokkuð er um veðurlýsingar í bréfunum, og
fram kemur að Jónas gerir veðurathuganir:
„Síðan um nýár hef jeg á degi hverjum skrifað
hjá mjer hvernig veðrið er, t.d. vindstaða, hríð-
ar, hlákur og þvíumlíkt, og vildi biðja þig að
gjöra það sama af því jeg man að þú varst ekki
latur að skrifa.“ Þegar Jónas tekur sjóbað fær
lesandinn svipmynd af atvinnuháttum í Leiru:
„Það er alauð jörð nú um tíma og sumir eru að
taka ofan af en flestir sinna þá sjónum meira þó
lítið sje í aðra hönd stundum.“ Hann lýsir veð-
urfari um jólin allnákvæmlega: „Í gærkveldi var
að vísu aftansöngur á Útskálum, en það var
bæði tunglljóslaust og ískyggilegt veður svo við
fórum ekki... Í dag (jóladag) er veður fremur
mollulegt, hríðarfjúk öðru hvoru en bjart á milli
og andaði hægt á norðan sem líklega hefir verið
meira heima; en hjer er snjór ekki nema í skó-
varp og þess vegna vel sækjandi að staulast
milli bæja.“ Húsakynnin eru köld. Á nýársdag
er veðrið „stillt og bjart, ekki mjög frostmikið,
en undanfarna tíð hefir verið töluvert svalt hjer,
jafnvel frosið blekið í svefnstofu okkar og ekki
vantar kuldabólgu á hendur mínar jafnvel þó
loftslag eigi að vera mildara en heima“.
Lítil saga um forframað úr
Í bréfunum er oft vikið að úri, sem Kristján
hefur lánað bróður sínum eða gefið, en Jónas er
óánægður með það. Úrið gengur nefnilega ekki
eins og það á að gera. Jónas skrifar bróður sín-
um og segist ætla að senda það til Reykjavíkur
þegar örugg ferð fáist. Hann er fjarska glaður
þegar úrið kemur úr viðgerð. Frásögn hans er í
gamanstíl og fær að fljóta með: „Ekki má þó
gleyma einu sem jeg hef nú fram yfir umliðna
tímann, það er úrið sem nú er búið að forframa
sig í Reykjavík, en eins og önnur menntun kost-
aði það peninga 3,25 aura, og sagði úrsmiðurinn
að það væri „grútskitið“ og bilað stykki sem
kostaði 1,25.“
Jónas og veröldin
Í jólabréfinu, sem er lengsta bréfið, leitar
hugurinn heim og kemur fram söknuður eins og
eðlilegt er. Jónas skrifar á jóladag: „Nú eru jól-
in komin, og hafa þau verið fremur hversdags-
leg, ekki vegna skorts á hátíðarmat eða neinu
þessháttar, en jeg hef öðrum dögum fremur
minnst fyrri samkyns hátíða meðan jeg var
heima og saman við ykkur, þó að jeg fyndi lítið
til þess þá einsog hvers þess sem maður hefir.
Jeg hef ekkert farið burtu um þessi jól nema á
næsta bæ svolítið í dag til að spila.“ Á nýársdag
skrifar hann um tómleika hinna löngu vetur-
nótta: „Jeg býst við að þjer muni leiðast í vetur
og það sje heldur dauflegt heima eins og vant
var, ekki beint fyrir það þó jeg sje ekki, nema
meðan þið fenguð ekkert skeyti hjeðan heldur
af þessum gamla tómleik sem einlægt lifir.“
Í jólabréfinu er Jónas að hluta að svara bréfi
frá Kristjáni, sem hefur verið að grennslast eft-
ir hvenær sé von á honum heim og hvernig hann
komist, hvort hann hafi hugleitt að koma land-
leiðina. Jónas skrifar að hann vilji hjálpa Brynj-
ólfi við vorverkin „...því þó jeg hugsi að Brynj-
ólfur verði ekki harður við mig með gjald fyrir
veturvistina, eftir annarri framkomu við mig, er
mín skuld söm fyrir því...“ Jónas segist helst
vilja fara með Vestu eða Ceres norður en engar
áætlanir séu komnar í Ráðagerði, en landleið
geti hann ekki leitt hugann að, hestlaus og reið-
tygjalaus.
Jónas ræðir í glettnislegum tón við bróður
sinn, segist hafa verið að hugleiða að fá sér
vinnu fyrir sunnan „...en hamingjan má vita
hvernig það gengur, og lýst mjer fremur dap-
urlega á slíkar útréttingar stundum þegar jeg
er andvaka og hugurinn leitar norður, en aftur
þegar jeg er kominn á flakk, finnst mjer ver-
öldin sem „kálfskinn“ eitt sem allavega má fara
með“.
Seinni hluti í næstu Lesbók.
Uppdráttur Jónasar af bænum í Ráðagerði. Hann skrifaði heim um hvaðeina sem snerti lífið í Ráðagerði, þar á meðal um mataræðið. Hér gerir hann grein fyrir húsaskipan, en
Ráðagerðishúsið var svo kalt að blekið fraus í blekbyttunni.
Höfundur er cand.mag.