Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JANÚAR 2001 Í UPPVEXTI sínum er mannveran fyrst og fremst þiggjandi heimsmyndar sem aðrir hafa mótað. Smám saman tekur einstaklingurinn að hreyfa sig á meðvit- aðari hátt innan myndarinnar og verð- ur jafnvel fær um að rýna í hugmynda- fræðilegar útlínur hennar, sem eiga þó til að vera harla óskýrar og flöktandi. Áður fyrr var oft rætt um heimsmynd í tengslum við „hugmyndafræði“, en það hugtak hefur lítt verið haft um hönd í almennri um- ræðu hin seinni ár. Kannski rekst það ekki vel í félagsskap þess heimsmyndarorðs sem hvað mest hefur farið fyrir á Vesturlöndum um þessi árþúsundamót, en það er hugtakið „upp- lýsingar“. Sagt er að við séum vitni að „upplýs- ingabyltingu“ á heimsvísu eða lifum jafnvel nú þegar í „upplýsingasamfélagi“ og þræðir þess liggi um víða veröld. Hér má bregða á leik með eintölu og fleir- tölu eins og stundum er gert þegar sagt er að flaumur upplýsinga verði á kostnað „upplýs- ingarinnar“: rökrænnar og gagnrýninnar úr- vinnslu sem byggi á arfi lýðfrelsis, menntunar og veraldlegra umsvifa, arfi sem talinn hefur verið undirstaða hins vestræna nútíma. Þó að ekki megi gleyma því að frumkvöðlar upplýs- ingarstefnunnar á 18. öld töldu söfnun og flokkun upplýsinga vera mikilvægan þátt í upplýsingarferlinu, vaknar sú spurning hvort ekki felist oft hugmyndafræðileg skammsýni eða hreinlega blekking í þeirri skírskotun til heimsins í heild, „heimsþorpsins“ svokallaða, sem oft fylgir dásömun upplýsingasamfélags- ins. Undanfarið hefur nýtt hugtak látið á sér kræla í fjölmiðlum: þekkingarsamfélagið. Ekki treysti ég mér til að fullyrða hver uppruni þess er en ég man eftir ræðu sem Páll Skúlason rektor Háskólans flutti við brautskráningu stúdenta í febrúar á síðasta ári þar sem hann lýsti því hversu mikilvægt væri að greina á milli „upplýsingaþjóðfélagsins“ og „þekking- arþjóðfélagsins“. Samfélagsuppbygging, menntun og einstaklingsþroski byggir ekki að- eins á öflun og dreifingu upplýsinga heldur úr- vinnslu og þekkingarsköpun – og í þessari notkun þekkingarhugtaksins er ákveðið við- nám, ögrun til hugsunar, sem hætta er á að hverfi með öllu ef fólk tekur að nota það sem samheiti upplýsingasamfélagsins, eða jafnvel, eins og sést hafa ítrekuð merki um, sem vísun í tölvunotkun og rafrænan gagnaflutning í sam- félaginu. Enginn vafi leikur á því að tölvunet og marg- miðlunarþróun móta heimsmynd fólks í sívax- andi mæli og kemur það meðal annars fram í hugmyndum um hnattvæðingu. En þarna er líka falin mesta hættan á einföldun og þeirri blindni sem meðal annars fylgdi gömlu upplýs- ingarstefnunni þegar gildi hennar voru notuð eða misnotuð í „hnattvæðingunni“ sem fylgdi heimsvalda- og nýlendustefnu Vesturlanda á síðastliðnum öldum. Talsmenn tækni og við- skipta á Vesturlöndum tala gjarnan eins og aðrir heimshlutar séu framlenging af þeim og sjálfgefið sé að þéttriðnir möskvar „Internets- ins“ og vestræns markaðskerfis myndi sam- felldan hjúp um alla jarðarkúluna. Þar með stilla þeir jafnframt upp einhlítri heimsmynd sem tekur að lifa eigin lífi án tillits til þess að tæknin er mjög mislangt á veg komin, m.a. vegna þess að efnahagsforsendur eru gríðar- lega misjafnar eftir því hvar okkur ber niður í heiminum. Enda er sláandi hversu sjaldan er talað um menntun og menningartengsl í þessu sambandi, hvað þá að „hnattvæðing“ og upp- lýsingatækni hennar leiði til aukinnar hugs- unar um sameiginlegan velfarnað mannkyns, þó ekki væri nema til að fyrirbyggja hung- ursneyð. Bjartsýnistal um hnattvæðingu sneyðir oft- ast hjá neikvæðum þáttum. Manni getur skilist að alþjóðlegt fjárfestingakerfi sé örvandi fyrir efnahagslíf í víðu samhengi. En það þýðir ekki að sleppa eigi gagnrýni á þann þátt hnattvæð- ingar sem felst í fjárfestingu og jafnvel róttæk- um umsvifum fjárfesta á svæðum þar sem þeir kunna engin skil á mannlífi, umhverfi og nátt- úru, þar sem þeir koma kannski sjaldan eða aldrei sjálfir og finna ekki til þeirrar ábyrgðar sem nærtækust er ef markmiðið er eitthvað annað og meira en beinharður fjárhagslegur ávinningur. Slík hnattvæðing gróðahyggjunn- ar getur orðið sem nöturlegur endurómur hinnar gömlu heimsvaldastefnu. Frjó hnattvæðing verður nefnilega að tengj- ast staðvitund, þeirri heimsmiðju sem er hvar- vetna þar sem mannlíf þrífst. Miðja heimsins er í Færeyjum eins og William Heinesen sýndi fram á, hún er líka í Sómalíu og hún er út um allt. Vissulega tengist þessi staðvitund í æ rík- ari mæli menningu og markaði sem hafa á sér alþjóðlegan brag þar eð þau teygja anga sína til margra landa. Oft er réttilega bent á að al- þjóðlegir straumar geti leitt til einhæfni, en þeir berast með rásum sem einnig geta eflt einstaklingsfrelsi og samkennd með fólki sem er á einhvern hátt öðruvísi en maður sjálfur. Meðal þess sem helst einkennir tíðaranda og heimsmynd í okkar heimshluta við upphaf nýrrar aldar, er sú vitund að karlmenn sem eru hvítir á hörund, eru ekki lengur í þeirri óskor- uðu valdastöðu sem þeir nutu fyrir hundrað ár- um. Beita má margvíslegri hugmyndafræði til að tefja framgang kvenna, en hann verður ekki brotinn á bak aftur. Frá gömlu nýlendunum og öðrum löndum „þriðja heimsins“ hafa flætt íbúar sem eru ekki aðeins í heimsókn heldur hafa sest að. Og aðrir minnihlutahópar láta ekki bæla sig heldur krefjast réttinda og virð- ingar fyrir framlagi sínu til mannlífsins. Samfélög Vesturlanda eru orðin litskrúð- ugri en áður og þau búa yfir fjölþættari menn- ingu. Þetta hefur víða vakið ótta um að nú muni senn skorta samheldni og samfellu í því sem á íslensku nefnist einmitt samfélag, og að fólk muni ekki gangast við sameiginlegum menningararfi, hvort sem þá er vísað í þjóð- legan arf eða hina svokölluðu „vestrænu hefð“ sem talin er fóstruð í Grikklandi og Róm og menn rekja svo eftir misþjóðlegum leiðum til nútímans. Þannig tengjast vangaveltur um tíð- aranda og heimsmynd í aldarbyrjun umræðu um það sem sumir hafa kallað „menningar- læsi“: hver er sú menning sem við berum kennsl á, meðvitað eða ómeðvitað, sem kallar á innri og ytri viðbrögð okkar, hvaða orðræða, myndir, hreyfing og tónar tengja okkur um- hverfinu og umheimi með samkennd og ögrun? Slíkar spurningar eiga heima í hjarta umræð- unnar um þekkingarsamfélagið, sem er stein- dautt hugtak þegar það er látið vísa fyrst og fremst til rafræns tækja- og tölvubúnaðar (þótt hann megi vissulega nýta til að skapa og flytja menningu). „Tíðarandi“ og „heims- mynd“, rétt eins og „menning“ og „list“, eru óljós hugtök sem samt taka til grundvallar- þátta í tilveru okkar sem þekkingarvera. Skynjun okkar á umhverfinu, tilfinning fyrir öðru fólki, öllu lífi, skilningur okkar á hvers- dagslíðan og andlegum verðmætum, fegurð- arskyn okkar og lífsgildi – þetta eru tilvist- arþættir sem ákvarða líf okkar og menningu á svo djúpstæðan hátt að það verður að ætla þeim lykilstöðu í umræðu um þekkingarsam- félagið. En það er enginn ótvíræður samhljómur í hópi þeirra sem telja að rithöfundar og aðrir listamenn, sem og þeir sem sinna öðrum menn- ingarstörfum og hugvísindum, hafi brýnum verkefnum að gegna í þekkingarsamfélagi. Skiljanlegt er að sumum standi stuggur af þeim upplausnarbrag sem þeir kunna að sjá jafnt á sviði lista sem hugvísinda. Ýmis mörk leysast upp, brot úr ólíkum menningarheimum liggja hlið við hlið, gáttir opnast milli afþrey- ingar og hámenningar, heimspeki og listsköp- unar, heimilda og skáldskapar. Og það und- arlega er að upplausnin virðist þó öðrum þræði einkennast af nýrri samtengingu, þverfagleg- um og þvermenningarlegum samböndum. Engin furða að suma sundli yfir ástandi sem einkennist af svo ögrandi mótsögn brota- kenndar og heildarsýnar. Engin ástæða er þó til að bregðast við þessu ástandi með vísun til fyrri og betri tíma. Hafi menn skynjað evr- ópska siðmenningu sem stöðugt bjarg árið 1901, kom brátt í ljós hversu fallvalt það var og hversu mikil fávísi og brjálæði bjó undir pípu- höttum og herhjálmum hinna „miðlægu“ þjóða heimsins. Þegar leið á 20. öldina horfðu samt margir andans menn um öxl og sáu í hinni borgaralegu 19. öld stöðugleika sem þeim fannst vera að hverfa – eitt besta dæmi um slíka heimsmynd er að finna í bók austurríska rifhöfundarins Stefans Zweig, Veröld sem var. Og írska skáld- ið W.B. Yeats, með annan fótinn í 19. öldinni og hinn í umbrotum á nýrri öld, yrkir í frægu ljóði um að allt tvístrist, miðjan fái ekki staðist átök- in („Things fall apart; the center cannot hold“). Tímamælingar hafa áhrif á heimsmynd okkar; nú þegar ný öld er gengin í garð, virðist 19. öld- in allt í einu býsna fjarlæg okkur. Jafnframt skerpist tilfinningin fyrir því að arfurinn sé orðinn annar; list og menning 20. aldar, meira að segja hin byltingarkennda nýstefna eða módernismi í bókmenntum og listum, er hefð sem við sitjum uppi með en líka hefð sem hvet- ur til vinnu í þekkingarsmiðjunni. Tíðarandinn í aldarbyrjun á Vesturlöndum einkennist þannig öðrum þræði af hnattvæð- ingu samtímans, en hann er jafnframt afurð okkar nærtækustu arfleifðar. Mörg merkileg listaverk 20. aldar og einnig mörg stórvirki fræðanna má lesa sem eins konar drög að þeirri þverstæðukenndu heimsmynd samtím- ans sem áður var lýst. Þau eru full af brotum, tvístruðum veruleika, en einkennast líka af leit – sem getur verið í senn örvæntingarfull, grá- glettin og ástríðufull – leit að tengingum og heildarmynd. Þau bregðast við upphrópun Yeats um að miðjan fái ekki staðist og vilji menn leita uppi vonarglætuna í slíkum verk- um, einhverja týru sem bregða megi á loft í upphafi aldar, þá má kannski finna hana í orð- unum sem annar Íri, Samuel Beckett, notaði til að ljúka einni skáldsögu sinni: „ég get ekki haldið áfram, ég held áfram.“ ALLT TENG- IST, ALLT TVÍSTRAST Hér birtist fyrsta grein í flokki Lesbókarinnar um tíðar- anda í aldarbyrjun sem höfundar af ýmsum sviðum þjóð- lífsins munu skrifa. Í greininni er fjallað um hnattvæðingu samtímans og þverstæðukennda heimsmynd hennar. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson „Tímamælingar hafa áhrif á heimsmynd okkar; nú þegar ný öld er gengin í garð, virðist 19. öldin allt í einu býsna fjarlæg okkur. Jafnframt skerpist tilfinningin fyrir því að arfurinn sé orðinn annar; list og menning 20. aldar, meira að segja hin byltingarkennda nýstefna eða módernismi í bókmenntum og listum, er hefð sem við sitjum uppi með en líka hefð sem hvetur til vinnu í þekkingarsmiðj- unni,“ segir Ástráður í grein sinni. E F T I R Á S T R Á Ð E Y S T E I N S S O N Höfundur er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.