Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JANÚAR 2001 9 A DAM SMITH á það sameig- inlegt með Karli Marx, fyr- ir utan að vera einn mesti áhrifavaldur á hugsun seinni tíðar manna, að oft vísa til hans menn sem ekk- ert hafa lesið eftir hann og hafa í raun og veru ekki hugmynd um hvernig hann hugsaði. Á tímum kalda stríðsins bætti klúðursleg túlkun þeirra sem menntaskólaviskuna eina höfðu að vopni gráu ofan á svart, þannig að á endanum stóð eft- ir dýrlingur eða djöfull. Adam Smith var auðvit- að hvorugt þótt á meðal samtíðarmanna hans fyndust ýmsir sem hneigðust til að hugsa þann- ig um hann þótt af allt öðrum ástæðum væri. Líf hans var ekki til þess fallið að valda úlfa- þyt; allt frá því hann tók að stunda skóla í smá- bænum Kirkcaldy í Skotlandi og til dauðadags lifði hann því mest í eigin höfði og var hann því í meira lagi viðutan og var oft haft orð á því að hann væri ekki með réttu ráði. Slíkir þankar urðu að víkja þegar Smith hóf upp raust sína því þá streymdi fram afrakstur langtímahugsunar hans meitlaður í klassísk form þrætubókarlistar eins og hann kenndi hana sjálfur sem ungur maður og embættislaus í Edinborg. Áhugi hans á þrætubókarlist og fagurbókmenntum kom þó ekki einungis af góðu, því Smith reyndi það eins og margir hæfileikaríkir ungir Skotar á átjándu öld sem lærðu í Oxford eða Cambridge að þeir voru taldir annars flokks borgarar mállýsku sinnar vegna. Varð sú reynsla til þess að Smith og fleiri tóku að einbeita sér að „hreinsa“ tungu- mál sitt af skoskum áhrifum og gekk vinur Smiths, heimspekingurinn David Hume, svo langt að skrá lista yfir skosk orð sem forðast bæri í tungumáli siðaðra manna. Það voru einmitt siðaðir menn, eða dyggð- ugir, sem áttu hug Smiths allan eftir að hann hóf kennslu sem prófessor í Glasgow 1751 og ritaði hann um efnið heila bók, Theory of Moral Sentiments, sem útleggst hrátt Kenning um siðaðar tilfinningar. Bókin kom fyrst út 1759 og hefst á þessum orðum, þýddum: „Einu gildir hversu eigingjarnir menn eiga að heita, þeir búa samt augljóslega yfir þeim eðlisþáttum að hafa áhuga á gæfu annarra manna og þurfa á ham- ingju þeirra að halda þótt þeir hafi sjálfir ekkert upp úr því annað en ánægjuna af að fylgjast með því.“ Þótt auðvitað sé ofsagt að þessi litla málsgrein geymi kjarnann í þessari bók er hún vissulega útgangspunkturinn sem siðferðis- spekingurinn vildi sanna í löngu máli og ströngu. Eins og lærimeistari hans FrancesHutcheson og David Hume höfðu áðurgert, hafnaði Adam Smith eigingirninnieða sjálfselskunni sem drifkrafti sam- félags sem einungis er til orðið af því að „hver maður er öðrum vargur“. Vissulega er varga alls staðar að finna, en hegðan þeirra er ekki „eðlileg“ að mati Smiths, eðli manna er það nær að hafa „samúð“ hver með öðrum og er þar ekki átt við vorkunn, þótt hún eigi þar líka heima. Gæska við aðra menn gerir þann sem veitir að göfugum manni í huga hins hlutlausa áhorf- anda, þeirrar persónu sem stendur fyrir sam- félagið í hugsun Adams Smiths. Mótrök egóist- anna voru vitanlega þau, að einmitt þetta fái menn til góðverka; ekki eðli þeirra, heldur upp- hafningin í huga annarra sem geti orðið þeim til framdráttar. Adam Smith sá hins vegar eins og Hume fleira en einungis afleiðingar gerðra góðverka, gagnið sem af þeim er fyrir einstakling eða hóp; áhorfandinn hlutlausi finnur inni í sér, í sam- visku sinni, samþykki fyrir góðum gerðum sem koma honum á engan hátt við, rétt eins og fyr- irlitningu á þeim sem ill verk fremja þótt þau snerti hann ekki beint. Og samviskan getur kvalið þinn innri mann þegar þú veist upp á þig vondan verknað þótt engir aðrir viti af honum. Þannig endurspeglar innri maðurinn áhorfand- ann hlutlausa þegar menn líta á eigin athafnir; hann er samtímis inni í þér og utan við þig með gagnrýnin augu á gerðum þínum. Hann hefur það fram yfir aðra að vita hvers vegna þú fram- kvæmir, sem er mikilvægasti mælikvarðinn á gerðir manna, miklu mikilvægari en afrakstur þeirra, því uppruni verksins mótast af eðli ein- staklingsins, dyggðugu eða spilltu. Hver og einn getur ímyndað sig inn í aðra menn, hugsað eins og þeir og dæmt út frá því hvort athöfnin sæmi dyggðugum manni eða spilltum. Siðferðiskenningarnar skrifaði Smith áundan Auðlegð þjóðanna, því verki semhaldið hefur nafni hans á lofti og marg-ur talað hefur um. Ýmsir fræðimenn á nítjándu öld sáu í því mótsögn við frumverkið, þótt augljóst sé að það er skrifað nánast í fram- haldi af því. Í Auðlegð þjóðanna eru einstak- lingsframtakið og verkaskiptingin drifkraftur samfélags eða þjóðar enda afneitaði Smith aldr- ei því eðli manna að hugsa fyrst um eigin hag í víðum skilningi orðsins hagur. Í siðferðiskenn- ingum sínum sá hann meira að segja stóískt réttlæti í misskiptingu auðs þar sem jafnvel auðugir menn geta ekki neytt mikils meira en fátæklingurinn og virka þannig sem „ósýnileg hönd“ með því að dreifa lífsgæðum sínum smám saman til þeirra sem minna eiga; hugmynd sem gengur upp í einangruðum samfélögum með frumstætt hagkerfi líkt og Skotland um miðja átjándu öld. Í verkaskiptu samfélagi Auðlegðar þjóðanna hefur þessi sama ósýnilega hönd þau áhrif að afrakstur athafna einstaklinganna verður smám saman til að auka lífsgæði heild- arinnar, samfélagsins þjóðar, svo lengi sem hún heldur hagkerfinu innan eigin ramma. Eftirtektarvert er að Smith var ekki að leiða rök að því að auka ætti frelsi einstaklinga þeirra sjálfra vegna, sem vissulega var unnt á átjándu öld meðan ánauð þekktist enn í Skotlandi, held- ur var þetta frelsi grundvallarforsenda fyrir hag samfélagsins, heildarinnar. Þetta frelsi var ekki byggt á hugmyndafræðilegri formúlu um jafnrétti manna, þótt það væri vissulega engin bóla svo skömmu fyrir frönsku byltinguna, heldur hinu náttúrulega eðli mannsins, með þeim kostum og löstum sem það hefur að geyma. Með því að leysa einstaklinginn úr læð- ingi var hægt að auka hagsæld samfélagsins í anda þess sem Hutcheson kenndi Smith að væri hið eina rétta markmið; að tryggja „sem mesta hamingju fyrir sem mestan fjölda“ manna. Tengsl einstaklingsins við samfélagið er íjafnvægi í hugsun Adams Smith, vissu-lega útópísku, en þau eru raunsærri en íhugsun Karls Marx, þar sem hagsmunir verkalýðsins eru hin sýnilega hönd réttlætis sem einungis er til orðið fyrir óréttlæti sem fyrir er. Það er kannski engin tilviljun að hin díalektíska efnishyggja leit dagsljósið á nítjándu öld, þeirri er menn fóru eftir kenn- ingum Adams Smith í hvívetna og þó alls ekki. Hyldjúp gjáin milli og hagfræði- og siðferðis- kenninga hans birtist best í laissez-faire og gríðarlegri góðgerðarstarfsemi nítjándu aldar. Margur sósíalistinn sá í slíkri starfsemi aðeins lítilfjörlega tilraun borgarastéttarinnar til að viðhalda status quo og létta á samviskunni í leiðinni, en það má alveg eins færa að því rök að samhengið sem Adam Smith sá hafi verið rofið. Leikskáldið Oscar Wilde var þeirrar skoðunar í frægri ritgerð, Soul of Man under Socialism, að góðgerðarstarfsemi væri til þess fallin draga úr viðreisnarkrafti verkalýðsins, en samtímis telur hann að sósíalismi fái einungis þrifist ef ein- staklingar fái frelsi til athafna í orði og æði. Frjálshyggja síðari tíma hefur lengst af hamrað á járni verslunarfrelsisins í nafni Smiths og þeirra heimspekinga sem sjá í at- hafnafrelsi tryggingu fyrir samfélagslegu frelsi, þótt margur marxistinn hafi gagnrýnt það með þönkum um að athafnir eins geti troðið á frelsi annarra. Adam Smith var sér meðvit- andi um hvort tveggja, hann taldi að ríki hefðu tiltekin verkefni, vernd borgaranna fyrir inn- rásum, og kannski ekki síður hvers fyrir öðrum. Hugmyndir hans um verslunarfrelsi eru og skemmtilega bundnar hans eigin lífi á fremur þverstæðukenndan hátt. Í Auðlegð þjóðanna verður honum vitanlega tíðrætt um tolla og smygl og sér hann í háum tollum hvatningu til hins síðarnefnda, þar sem okurtollar brjóti í bága við eðlilega réttlætiskennd manna. Sam- tímis var honum ljóst að ríki þurfa fé til að sinna verkefnum sínum og til þess væru hóflegir skattar og tollar nauðsynlegir. Svo fór að eftir að þetta áhrifamikla verk um verslunarfrelsið kom út fékk Adam Smith stöðu hjá bresku krúnunni sem tollvörður og sinnti hann því starfi af þeirri kostgæfni sem við mátti búast af honum, enda má kannski segja að hann hafi tal- ið sig þjóna verslunarfrelsinu best með því að framfylgja lögum í anda réttlætis öllum til handa. Hugsanlega er lýðræðislegt þjóðríkiðniðurstaða þeirrar togstreitu efna-hagslegra krafta sem leystust úr læð-ingi með iðnbyltingunni, sambýli kap- ítalista og verkalýðs undir einu þaki þar sem allir eiga að lokum eitt atkvæði þótt auðvitað séu sumir jafnari en aðrir þar eins og annars staðar. Adam Smith var ríkulega undir áhrifum Stóuspekinga sem sáu umheiminn að samfélag- inu meðtöldu sem eina vél með gangverk til góðs, hvað sem segja mætti um einstaka við- burði. Í þeim heimi verður heimsborgarinn arf- taki þeirra er í minni samfélögum bjuggu, en Smith, sem ólst upp í litlum bæ og kynntist einnig hinum stóra heimi, sá í fjölbreytileik samfélaganna, allt frá fjölskyldunni til ríkisins, gagnpól sem, kannski eins og einstaklingarnir, skapar einmitt með „verkaskiptingu“ heims- menningu eða heimssamfélag. Adam Smith hefði vísast snúið sér við í gröf- inni hefði hann heyrt kenningar sínar túlkaðar með þeim orðum að það væri „ekkert til sem heitir samfélag, einungis einstaklingar“, því það ástand taldi hann heyra undir það sem sumir kalla villimennsku, en aðrir kannski frumstæði þjóðanna. Þegar menn túlka Adam Smith á þennan hátt eru þeir alls ekki að túlka hann, heldur einmitt nútímann, þá staðreynd að kenningar hans hafa snúist upp í andhverfu sína og höndin ósýnilega hverfur óðum með hvarfi samfélaganna, spegill einstaklingsins endurpeglar ekki lengur samkennd þeirra inni í honum, í hópfélagi einstaklingshyggjunnar er einstaklingurinn að engu orðinn. ADAM SMITH OG SAMFÉLAG- IÐ SIÐAÐA „Einu gildir hversu eigingjarnir menn eiga að heita, þeir búa samt augljóslega yfir þeim eðlis- þáttum að hafa áhuga á gæfu annarra manna og þurfa á hamingju þeirra að halda þótt þeir hafi sjálfir ekkert upp úr því annað en ánægjuna af að fylgjast með því,“ segir Adam Smith í riti sínu Theory of Moral Sentiments. Myndin er eftir John Kay. „Adam Smith hefði vísast snúið sér við í gröfinni hefði hann heyrt kenningar sínar túlkaðar með þeim orðum að það væri „ekkert til sem heitir samfélag, einungis einstaklingar“, því það ástand taldi hann heyra undir það sem sumir kalla villimennsku, en aðrir kannski frumstæði þjóðanna.“ E F T I R G A U TA K R I S T M A N N S S O N Höfundur kennir þýðingar og þýðingafræði við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.