Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Side 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JANÚAR 2001
A
ÐDRAGANDINN að þessu
samtali okkar Arnars er
orðinn nokkuð langur. Við
hittumst seint í sumar þar
sem hann lét fara vel um
sig í sumarhúsi fjölskyld-
unnar austur í Biskups-
tungum og sátum þar lengi
dags og ræddum feril Arnars vítt og breitt.
Niðurstaðan úr því samtali var að hittast aftur
þegar leikárið væri komið á fullt skrið en Arnar
var þá á förum á heimssýninguna í Hannover
þar sem sýning Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu
fólki var framlag Íslands til menningardag-
skrár sýningarinnar. Arnar var sem kunnugt
er í hlutverki Bjarts í seinni sýningunni er
nefndist Ásta Sóllilja. Í kjölfar þess voru tekn-
ar upp sýningar að nýju á Sjálfstæðu fólki í
Þjóðleikhúsinu og síðan hófust æfingar á jóla-
verkefninu Antigónu þar sem Arnar fer með
annað aðalhlutverkanna, Kreon konung í Þebu.
Er það einróma álit þeirra er séð hafa að Arnar
staðfesti þar enn einu sinni styrk sinn sem
skapgerðarleikari.
Alinn upp í leikhúsinu
Arnar Jónsson birtist fyrst á sviði í atvinnu-
leikhúsi haustið 1963 í hlutverki Leslie Willi-
ams í leikritinu Gísl eftir Brendan Behan í
Þjóðleikhúsinu. Arnar var þá 21 árs gamall
nemi í leiklistarskóla Þjóðleikhússins og út-
skrifaðist þaðan vorið 1964. Hann vakti strax
óskipta athygli og varð á skömmum tíma ein
helsta vonarstjarna íslensks leikhúss og lék
fjölda hlutverka bæði hjá Leikfélagi Reykja-
víkur og Þjóðleikhúsinu uns hann flutti sig á
æskuslóðirnar að nýju með eiginkonu sinni
Þórhildi Þorleifsdóttur og starfaði með Leik-
félagi Akureyrar um nokkurra ára skeið.
Arnar á reyndar ekki langt að sækja leik-
húsáhugann og steig á fjalir Leikfélags Ak-
ureyrar barnungur. Faðir hans Jón Kristins-
son var potturinn og pannan í starfsemi
Leikfélags Akureyrar um áratugaskeið og seg-
ir Arnar að hann og systir hans Helga (leik-
kona og leikstjóri) hafi nánast verið alin upp í
gamla samkomuhúsinu á Akureyri. Arnar hef-
ur einnig við mörg tækifæri stigið á fjalir síns
gamla leikhúss nú síðast fyrir fáum árum í sýn-
ingunni Undir berum himni sem leikin var í
Ketilhúsinu, húsnæði sem Leikfélagið hafði af-
not af um skeið.
Upp úr dvöl Arnars og Þórhildar á Akureyri
1970–75 varð Alþýðuleikhúsið til (1975) og
tvær sýningar þess á Krummagulli og Skolla-
leik eftir Böðvar Guðmundsson fleyttu ís-
lensku leikhúsi áfram um nokkrar þingmanna-
leiðir í listrænum skilningi. Eftir það starfaði
Arnar með Alþýðuleikhúsinu Sunnandeild
(1978–82) en réðst jafnframt á samning hjá
Þjóðleikhúsinu (1978) þar sem hann hefur leik-
ið mörg sín stærstu og merkustu hlutverk á
seinni árum.
Á sjöunda áratugnum starfaði Arnar einnig
með leikhópnum Grímu og síðar Leik-
smiðjunni, sjálfstæðir leikhópar þeirra tíma
sem lögðu grunninn að mörgu því sem löngu er
talið sjálfsagt og eðlilegt í vinnubrögðum og
framsetningarmáta í hinu íslenska nútímaleik-
húsi.
Launamál í brennidepli
Arnar hefur í haust verið upptekinn við
samningamál fyrir hönd leikara Þjóðleikhúss-
ins. Hann er ómyrkur í máli þegar hann ræðir
launakjör leikara. „Það er ekki hægt að bjóða
fólki byrjunarlaun upp á rétt um 100 þúsund
krónur. Það er bara svo einfalt. En þetta eru
engu að síður þær tölur sem við höfum fyrir
framan okkur. Ungir leikarar í dag sem hafa
lokið 4 ára námi á háskólastigi fá innan við 100
þúsund í byrjunarlaun, þ.e. um 600 krónur á
tímann.“ Það kemur kannski einhverjum á
óvart að leikari, sem náð hefur um 40 ára
starfsaldri líkt og Arnar Jónsson, skuli vera
með um 140 þúsund krónur í grunnlaun. „Það
er ekki ýkja skemmtilegt að ræða launamál en
þetta er grundvallaratriði þar sem allir komast
á eftirlaun einhvern tíma og standa þá frammi
fyrir því að lífeyrir hrekkur ekki fyrir nauð-
þurftum – þetta gengur bara ekki upp.“
Leikarar við Þjóðleikhúsið hafa um nokk-
urra ára skeið haft samningamál sín í eigin
höndum undir heitinu Leikarafélag Íslands og
er nokkurs konar deild úr heildarsamtökum
leikara FÍL, Félagi íslenskra leikara. Á sama
hátt semja fastráðnir leikarar Borgarleikhúss-
ins við sinn vinnuveitanda. Arnar Jónsson og
Randver Þorláksson hafa séð um samningamál
fyrir hönd Þjóðleikhúsleikara við stjórn leik-
hússins.
„Í bili gengur hvorki né rekur en vonandi
kemst skriður á þau mál fljótlega.“
Endurreisa virðingu fyrir starfinu
Núverandi launakerfi er þannig byggt upp
að annars vegar eru grunnlaunin og hins vegar
sýningarlaun. Sýningarlaun eru greiðsla til
leikarans fyrir hverja sýningu, nánast hugsuð
eins og yfirvinnulaun ofan á dagvinnu. Arnar
bendir á að með þessu fyrirkomulagi séu leik-
arar á grunnlaunum sínum eingöngu allt að 5
mánuði á ári þar sem sýningar liggja niðri yfir
sumartímann.
„Ef hægt væri að breyta þessum samningum
þannig að kjörin yrðu mannsæmandi þá gætu
leikarar hætt að vera eins og útspýtt hund-
skinn um allar jarðir við að afla sér aukatekna.
Þetta kemur verulega niður á starfinu hér í
húsinu þar sem það ástand er fremur regla en
undantekning að ekki er hægt að æfa sýningar
með fulla áhöfn þar sem einhverjir eru alltaf
uppteknir í aukavinnu úti í bæ. Þessi launabar-
átta núna snýst um að endurreisa sjálfsvirð-
ingu leikara og virðingu almennt fyrir starfinu.
Listamenn eru í orði hafnir til skýjanna en á
borði eru þeir flestir með lúsarlaun ef þeir fá þá
yfirleitt borgað fyrir sína vinnu. Við höfum
ekki borið gæfu til að sinna listinni nema með
hálfum huga og það er slæmt því í okkur býr
mikill sköpunarkraftur sem hefur fengið
merkilega mikla útrás þrátt fyrir slæm skil-
yrði.“
Með reynslunni eykst þolinmæðin
Leikarar hafa löngum farið undan í flæmingi
þegar spurt er hvernig þeir skapi persónur sín-
ar. Hvernig þeir finni leiðina til túlkunar leik-
persónunnar. Arnar er engin undantekning
hér á þótt hann geri heiðarlega tilraun til að út-
skýra hvernig þetta gengur fyrir sig með lík-
ingamáli. „Þetta er eins og veiðiskapur. Ef beð-
ið er nógu lengi þá bítur eitthvað á. Mér líkar
vel að vinna þannig að prófa ýmislegt á æfinga-
tímanum og gefa mér góðan tíma. Með árunum
hefur mér lærst að vera þolinmóður, heimta
ekki fullskapaða persónu af sjálfum mér of
fljótt heldur treysta því að hún birtist um síð.
Maður prófar ýmislegt og er iðulega orðinn
margfróður um persónuna, bakgrunn hennar
og umhverfi áður en lýkur,“ segir hann og bæt-
ir við í hjartans einlægni. „Annars hef ég ekki
hugmynd um hvernig ég fer að þessu.“
Ég spyr hann um Kreon, konung Þebu, goð-
sögulega persónu í 2500 ára gömlu leikriti.
Kreon er gott dæmi um harmræna leikper-
sónu. Hann telur sig í upphafi hafa heiminn í
greip sinni en gjörðir hans verða til þess að í
leikslok stendur hann yfir líkum sonar síns og
eiginkonu, auk Antígónu, væntanlegrar
tengdadóttur sinnar.
Hvernig fer Arnar að því að nálgast slíka
persónu sem sprottin er úr allt öðrum jarðvegi
en við þekkjum í dag.
„Í fyrsta lagi verður maður að ýta frá sér öllu
sem sagt hefur verið og skrifað um persónuna.
Maður verður að nálgast hana alveg ósnerta.
Leyfa sjálfum sér að upplifa hana í fyrsta sinn.
Hann hefur vissulega goðsögulega stærð en
manninn Kreon get ég og aðrir nútímamenn
vel skilið. Hann er fjölskyldumaður, hann tek-
ur afdrifaríka ákvörðun í krafti valds síns og af-
leiðingarnar eru skelfilegar fyrir hann per-
sónulega. Þetta er hægt að máta sig við. Texti
verksins er auðvitað frábrugðinn texta nútíma-
leikrita. Hann lyftir verkinu upp á annað plan
og í mínum huga verður það tærara og allar lín-
ur þess skarpari fyrir vikið. Textinn er eins og
höggvinn í marmara, meitlaður og fágaður.“
Ætlar þessu aldrei að linna?
Á undanförnum misserum höfum við séð
Arnar takast á við hvert stórhlutverkið á fætur
öðru. Abel Snorko í samnefndu leikriti, Þeiseif
konung í Fedru eftir Racine og Bjart í Sum-
arhúsum í Sjálfstæðu fólki einnig í leikgerð
Kjartans Ragnarssonar. Mörg fleiri minnis-
stæð hlutverk mætti nefna enda skipta þau
orðið hundruðum hlutverkin sem Arnar hefur
leikið fyrir leikhús, kvikmyndir, sjónvarp og
útvarp. Hann segir um samstarf þeirra Kjart-
ans Ragnarssonar sem nú hefur skilað mark-
verðum árangri í tvígang:
„Okkur Kjartani fellur vel að vinna saman. Á
milli okkar er þráður og það þarf ekki alltaf
mörg orð. Mér leiðist þegar öllu er drekkt í
málæði og útskýringum. Ef traust ríkir á milli
leikara og leikstjóra nægir oft að maður finni
að leikstjórinn viti hvað maður er að reyna til
að geta haldið áfram.“ Arnar segist að öðru
leyti ekki setja traust sitt svo mjög á leikstjóra.
„Ég treysti meira á sjálfan mig. Mér hefur ekki
alltaf fundist ég fá innblástur frá þeim leik-
stjórum sem ég vinn með. Fremur frá meðleik-
urum og þeim anda sem leikritið og hlutverkið
blæs mér í brjóst.“
Hann staldrar við þegar ég spyr hvort hann
líti svo á að einhvers konar kreppa eða skortur
á leikstjórum hái íslensku leikhúsi. „Að vissu
leyti já. Það hefur skort markvisst uppeldi,
samfellu og samhengi í vinnu þeirra, enda er
leikstjórn kannski ekki fýsilegt starf þegar
unglingadýrkunin gengur út í þær öfgar að slá
fólk af um fertugt.. Ég hef ekkert á móti þeim
sem eru að byrja. En þetta þarf að haldast
hönd í hönd. Sjálfur get ég kennt þeim sem eru
byrja í leikstjórn meira en þeir geta kennt mér.
Það er eðlilegt og þannig hefur það alltaf verið.
En reyndur leikari þarf líka sína glímu og hana
getur óreyndur byrjandi varla gengið í með
honum. Og það er sláandi dæmi um rangt upp-
eldi þegar ungir og óreyndir drengir fá að æfa
sig á uppsetningu stórra og viðamikilla sýn-
inga, þar á meðal á sígildum leikbókmenntum
og síðan er hverju klúðrinu af öðru hampað af
óöruggum gagnrýnendum sem ekki vilja láta
það spyrjast um sig að þeir séu ekki í „inn lið-
inu“. Og maður spyr, „Ætlar þessu aldrei að
linna?“
Hann dregur djúpt andann og lækkar róm-
LEGGUR SJÁLFAN SIG
SÍFELLT AÐ VEÐI
Einn af okkar þekktustu og virtustu leikurum er án efa
Arnar Jónsson. Hann stendur nú á hátindi ferils síns,
hefur leikið hvert stórhlutverkið af öðru og nú síðast
Kreon í Antígónu sem frumsýnt var á jólum í Þjóðleik-
húsinu. HÁVAR SIGURJÓNSSON átti samtal við
Arnar um hinar ýmsu hliðar lífs leikhúslistamannsins.
Arnar sem Þorleifur Kortsson í Skollaleik Alþýðuleikhússins 1976.