Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2001, Síða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MARS 2001 9
E
FTIR viku geta borgarar í
Reykjavík greitt atkvæði. At-
kvæðagreiðslan er ákveðið
skref í framvindu máls sem
hefur undið upp á sig jafnt og
þétt síðustu marga mánuðina.
Sem arkitekt get ég glaðst
yfir þessari miklu vitundar-
vakningu hins almenna borgara gagnvart
manngerðu umhverfi okkar allra, sjaldan
hefur verið talað og skrifað jafnmikið hér á
Íslandi um mögulegar afleiðingar skipulags
daglegs ramma um líf Reykvíkinga.
En í hita og þunga leiksins er eins og
kjarni málsins hafi gleymst eða lotið í lægra
haldi fyrir einstaka minni og þrengri hags-
munaatriðum.
Umræðan hefur þannig að mestu snúist
um sjálfan flugvöllinn í Vatnsmýrinni –
hvernig megi hugsanlega forma hann eða
flytja, eða að sýna fram á gróðamöguleika
stórfellds byggingarmassa og tilheyrandi
umferðarmannvirkja.
Vissulega er þetta landsvæði staðsett
þannig að meta má til stórra verðmæta, en
það má þó ekki gleyma því að þau verðmæti
eru ekki eingöngu fólgin í mælanlegum
stærðum, byggingarframkvæmdum og
streymi fjármagns til skamms tíma að telja,
heldur býr Vatnsmýrin og umhverfi hennar
yfir eiginleikum, sem gera svæðið einstakt,
og það ber að hafa að leiðarljósi þegar metið
er verðmæti þess og framtíðarhlutverk.
Lestur landslags
Við frumnám lands veljast gjarnan staðir
sem frá náttúrunnar hendi svara þörfinni
fyrir land; til búsetu, beitar eða annarra
hluta.
Af þessu samspili landkosta og notkunar
mannsins þróast smám saman mælikvarði á
fegurð og notagildi, sem myndar grunninn
að sjálfsmynd ábúendanna og í víðari skiln-
ingi menningu heilla þjóða. Íslendingar í út-
löndum þrá bláma fjallanna og víðáttur,
dönsk tunga þykir flöt eins og endalausir
akrar, japönsk rósemi samræmist logni og
regnúða.
Þegar sérkenni landslagsins fá að njóta
sín í manngerðu umhverfi styrkir það hvort
tveggja, eitt virðist vaxa með öðru og skýr
tilfinning fæst fyrir staðnum sem slíkum:
Laugardalurinn les sig þannig með sund-
laugina í grænum farvegi íþrótta og útivist-
ar, vesturbærinn sem þéttriðið net smárra
húsa yfir vindblásna mela, hvítir olíutankar
Skeljungs á Gróttu kallast á við Esjuna yfir
sundið.
En þegar notagildi bygginga og mann-
virkja er hafið gagnrýnilaust yfir gefið sam-
hengi veikir það yfirleitt skilning á staðnum,
rýmið verður ómarkvisst og karakterlaust
og fæstir vilja dveljast þar að nauðsynja-
lausu.
Þróun borga
Borgir hafa þannig þróast úr náttúrulegu
landslagi, en ekki síður með heimsmynd
þjóða hvers tíma.
Grikkir byggðu hof sín og staðsettu frjáls-
lega í landslaginu – gjarnan efst á hæðir – í
samræmi við hugmyndir þeirra um lýðræði
með einstaklingum, og súlnagöng umhverfis
sjálft húsið milda sambýli byggingarinnar
og náttúrunnar.
Götur Rómar voru skipulagðar þráðbeinar
undir aga einveldis keisarans, byggingarnar
eru tiltölulega massífar og gluggasnauðar og
vísa á launráðabrugg og svallveislur innan-
dyra.
Á tímabili endurreisnar fengu hugmyndir
um yfirburði mannsins yfir náttúrunni
sterka útbreiðslu, ýmsar uppgötvanir mön-
uðu til jarðar hjátrú og hindurvitni miðalda,
en slitu líka í sundur þá sterku sannfæringu
miðaldarmanna um heiminn sem eina heild
skapaða af Guði. Tími svokallaðs módern-
isma um miðbik síðustu aldar studdi svo enn
framgang einstaklingsins á kostnað heilda
og klassísks samræmis, farið var að skipu-
leggja ný hverfi sem stakar byggingar á
grænum flötum í stað samhangandi húsa við
þröngar götur.
Lögð var mest áhersla á samtímann, núið
skipti meira máli en fortíð og framtíð.
Þótt ýmislegt hafi verið vel gert og beri
enn með sér ferska vinda bjartsýni og ung-
æðis, eru líka mörg dæmi skipulagsslysa frá
þessum tíma, mælikvarði hins byggða fjar-
lægist æ meir hinn mannlega, og fyrirferð
og hraði nútímafararskjóta verður allsráð-
andi í umhverfinu.
Í dag standa flestar vestrænar borgir
frammi fyrir afleiðingum hagsældarinnar,
og það er víðar en í Reykjavík að farið er að
staldra við og reyna að hugsa upp á nýtt
samhengi lands og manns, notkunar og
verðmæta.
Reykjavík framtíðar, sérstök
borg á sérstökum stað
Margir bölva upphátt eða í hljóði um-
hleypingunum í veðrinu; rokinu sem kemur
úr öllum áttum, rigningunni sem virðist eiga
erfitt með að ákveða sig í hvaða mynd hún
birtist – allt tilfinnanlegur hluti af því að
búa í borginni Reykjavík.
Sérstaða Reykjavíkur og að mörgu leyti
aðalkostur er þó þetta návígi hennar við
náttúruna: alls staðar er stutt í sjó og fjöru,
stórbrotna fjallasýn, villuráfandi fífla og
grjót.
Elsti hluti borgarinnar er byggður í
kringum höfn og vöruskipti, þar sem lækur
rennur í sjó, landið rís sitt hvorum megin og
myndar hlýlega kvos.
Þetta er auðlesin ímynd bæjarstæðis.
En borgir stækka og þenjast út. Í Reykja-
vík hefur byggðin dreifst svo mjög að varla
er hægt að tala um borg í evrópskum skiln-
ingi nema rétt í gamla miðbænum, og allar
nauðsynjar verður að sækja á bílum, jafnvel
þó ekkert ami að veðri.
Vaxandi óþægindi m.a. vegna mengunar
hljóðs og lofts, samfara skorti á bygging-
arlandi innan borgarinnar fæða nú af sér
hugmyndir um hugsanlega þéttingu byggð-
arinnar sem fyrir er.
Flestir eru sammála um nauðsyn þessa,
en þétting byggðar er eitt og sér ekkert
galdraorð sem leysir allan vanda. Hversu
þétt er td. þétt byggð? Það verður að sjálf-
sögðu að taka tillit til þess samhengis sem
fyrir er, þess skala sem einkennir hin mis-
munandi hverfi borgarinnar, áður en skipu-
lögð eru háhýsi og stórhýsi, tekin hrátt upp
úr allt öðru samhengi eyðimerkursvæða
Mið-Ameríku eða iðnaðarsvæða Mið-Evr-
ópu.
En þéttari byggð og betri nýting þess
lands sem þegar er til staðar, er hluti af
borg Reykvíkinga framtíðarinnar.
Vatnsmýri Reykjavíkur
Vatnsmýrin er stórt svæði eins og sjá má
á meðfylgjandi loftmynd.
Til glöggvunar á stærð landsins, sem í dag
er helgað notkun vegna flugvallarins, hef ég
klippt út þann hluta Reykjavíkur, sem af-
markast af Laugavegi, Snorrabraut, Hring-
braut og Lækjargötu – hverfi sem flestir
hafa tilfinningu fyrir – og lagt niður í heilu
lagi með kirkju, skólum, verslanagötum og
íbúðabyggð. Skikann má setja niður tvisvar
sinnum og er þó ekki fullnýttur reiturinn
sem til ráðstöfunar er.
Þessi leikur er aðeins til viðmiðunar, og
flesta getur væntanlega rennt grun í hvaða
ótrúlegu möguleikar opnast á að fá svæðið
undir það eðlilega framhald byggðar gamla
miðbæjarins, Þingholtanna og Háskólans
sem aldrei varð vegna legu flugvallarins.
Aðflugslínur vélanna hindra þar að auki
notkun á þeim grænu úti-
vistarperlum sem liggja
að svæðinu; Öskjuhlíð og
Hljómskálagarði með
Tjörninni. Hávaðinn er
slíkur við flugtök og
lendingar að ekki er
hægt að halda uppi sam-
ræðum á þessum stöðum.
Vatnsmýrin einkennist
helst af óvenju miklu
flatlendi, sem spennt er
út á milli gróinnar Öskju-
hlíðar í austri, stæðilegra
bygginga Háskóla Ís-
lands í vestri, iðandi
byggðar Þingholts í
norðri og bláma Skerja-
fjarðar í suðri.
Útsýni er mikið yfir
svæðið því það liggur
töluvert lægra en aðliggj-
andi svæði, og vegna flat-
lendisins virðist birta og
skýjafar himinhvolfsins
leggjast yfir það með
sérstakri rósemd.
Hluti svæðisins er vot-
lendi sem tengist Tjörn-
inni og myndast þar sjón-
rænt belti sérstakrar
náttúru og fuglalífs alveg
inn til sögulegrar miðju
Reykjavíkur; Alþingis og
Ráðhúss.
Suðurströnd landsins,
sem tengir Nauthólsvík
við Ægisíðu, er göngufær
alla daga.
Á köldum morgnum
má greina gufuslæður úr
mýrinni, og á sólríkum
dögum blandast silfrað
endurkast frá sjónum
ilmi trjánna úr Öskjuhlíð-
inni.
Heildaryfirbragð
svæðisins er þannig milt
og þægilegt viðmóts,
ólíkt töffaraskap norður-
strandar Seltjarnarness
eða efniskenndra klappa Grafarholts.
Aðkoma að svæðinu takmarkast af fyrr-
greindum náttúrufyrirbærum, gróðri og
vatni.
Mikilvægt er að þessir íbúandi eiginleikar
Vatnsmýrarsvæðisins fái að njóta sín í sam-
spili við vaxandi byggð.
Svæðið getur alls ekki borið einhliða
þyngd mikils byggingarmassa, hvorki sjón-
rænt né umferðarlega séð. Sá þéttleiki sem
einkennir umlykjandi byggð vesturbæjarins,
Þingholtanna og gamla miðbæjarins er að
mínu mati eðlilegri skali, og á auðvelt með
að aðlagast þeim grænu geirum sem yrðu
sparaðir, svo nýtast mætti sem flestum. Með
þessu á ég ekki við að byggðar verði eftirlík-
ingar af bárujárnsklæddum timburhúsum
eða hvítmáluðum byggingum í klassískum
stíl, heldur á svæðið að eiga sitt sérstaka
tungumál nútímaforms og efnisnotkunar,
meðvitað framhald á íslenskri húsagerðar-
list eins og hún gerist best. Halda á opnar
samkeppnir svo tryggja megi aðkomu sem
flestra hugmynda, hvetja td. til framhalds á
þeim góðu skipulagshugmyndum sem voru
þróaðar í upphafi síðustu aldar með tilliti til
íslenskrar veðráttu og vilja um rými á for-
sendum borgarmyndar, þótt á hófstilltum
mælikvarða væri.
Rök fyrir áframhaldandi starfsemi svæð-
isins undir flugumferð væru í dag hverfandi
miðað við þau óþægindi sem af henni stafa,
ef ekki kæmu til hagsmunir fólks sem búsett
er utan Reykjavíkur og kemur hingað með
innanlandsflugi. En þröngir hagsmunir fá-
menns hóps, sem telur það til mannréttinda
að geta flogið upp að dyrum erinda sinna,
geta ekki verið ráðandi fyrir framtíð svæð-
isins.
Það er ekkert eðlilegra í dag en að skilja
að þungar og áhættusamar atvinnugreinar
og daglegt líf mannfólks, hvar sem það ger-
ist. Þeir tímar þar sem flug- og bílaumferð
tengdist nýfengnu frelsi mannsins eru liðnir,
sú rómantík er á hröðu undanhaldi nýrra
kynslóða. Er annað hægt en að greiða at-
kvæði með borginni okkar, og losa svæði
Vatnsmýrinnar undan oki flugvallar?
AÐ META LAND
Hér hefur sá hluti Reykjavíkur, sem afmarkast af Laugavegi, Snorrabraut, Hringbraut og Lækjargötu verið klipptur
burt og lagður niður í heilu lagi með kirkju, skólum, verslanagötum og íbúðabyggð í Vatnsmýrina. Skikann má setja
niður tvisvar sinnum og er þó ekki fullnýttur reiturinn sem til ráðstöfunar er.
„Vatnsmýrin getur alls
ekki borið einhliða þyngd
mikils byggingarmassa,
hvorki sjónrænt né um-
ferðarlega séð. Sá þétt-
leiki sem einkennir um-
lykjandi byggð
vesturbæjarins, Þingholt-
anna og gamla miðbæj-
arins er að mínu mati
eðlilegri skali.“
E F T I R
G U J U D Ö G G H A U K S D Ó T T U R
Höfundur er arkitekt.