Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. JÚNÍ 2001 3 H RESSILEGUR hlátur hefur oft leyst skyndilega erfið vandamál. Hláturinn skilur ekki eftir sig nein spor sem sagnfræðingar kunna að rekja. Samt er hann stórveldi í sam- skiptum manna. Hann hefur oftar en menn vita breytt gangi sög- unnar. Hláturinn hefur bjargað geðheilsu margra manna. Hann hefur einnig oftar en menn vita kveðið upp dauðadóm yfir mönn- um og málefnum. En saga hlátursins verður aldrei skrifuð. Hann kemst aldrei á verð- launapall og mætir aldrei í réttarsal. Öfl- ugasti og hættulegasti hláturinn hefur gegn- um tíðina jafnan komið frá þeim sem sagan telur ástæðulaust að nefna, ekki síst konum. Veraldlegir og andlegir valdamenn hafa allt- af þekkt þessa hættu og margir vara við hlátri og sumir hafa lagt til að banna hann með öllu. Að minnsta kosti aðhlátur á kostn- að valdhafa. Hláturinn hefur verið þýðing- armikill hluti af lífi okkar og engum dettur annað í hug en að hann verði það áfram þriðja árþúsundið. Elsti guð Egypta (segir á gömlu blaði frá þriðju öld fyrir Krist) horfðist í augu við ka- os, ringulreiðina miklu. Og guðinn hló. Sá hlátur breytti ringlulreiðinni í skipulagða til- veru, heiminn okkar. Ef til vill mætti segja að í kristnum fræðum birtist hinn gamli hlátur upphafsins sem heilagur andi Guðs sem skapaði manninn Adam með því að anda á leir jarðar. Hlátur er að anda á sér- stakan hátt. Og hvað á að segja um fagn- aðarerindið? Er það ekki hinn þögli hlátur? Fögnuður og hlátur eiga samleið. Það væri hins vegar misskilningur að skilgreina hlát- ur eingöngu sem stóran skammt af súrefni. Hann er fyrirbæri sem við ráðum ekki yfir. Uppgerðarhlátur er ævinlega holur og hann vantar þann lífskraft sem býr í sönnum hlátri. Við erum eina skepnan sem hlær. Við hlæjum að mistökum okkar og annarra. Við hlæjum að fortíð okkar og stundum lyftir hláturinn okkur upp á hærra stig. Við hlæj- um að því óvænta og afbrigðilega. Og ung- menni hlæja að lífsháska sem þau sleppa naumlega frá. Hlátur þeirra fjarlægir óttann og eykur sjálfstraustið. Kímnigáfan er óneit- anlega ein af bestu gáfum mannsins. Hún er gjöf Guðs. Í mínu ungdæmi var það hins vegar nokk- uð almennt viðhorf að hlátur væri fíflskapur og þumbararnir kallaðir vitrir og þá eina bar að taka alvarlega. Nú hefur hláturinn út- rýmt þessum viðhorfum. Ekki er því að neita að á minni tíð þekktu menn vel það sem kallað var Þórðargleði, kætin yfir að meiða og niðurlægja annað fólk. Þetta er þekkt fyrirbæri úr allri fortíð. Það er ástæð- an fyrir því að margir hugsuðir fortíðarinnar litu á hlátur sem neikvætt fyrirbæri. Hvers vegna hlæja menn hæðnishlátri? Hvers vegna hlæja menn að manninum sem stamar eða manninum sem skakklappast leiðar sinnar? Ef til vill stafar þessi hlátur af feginleika yfir að við höfum ekki orðið sjálf fyrir þessu, ekki enn þá. Undir niðri vitum við vel af okkar eigin öryggisleysi og óvissri framtíð. Þetta er ef til vill feginleiki yfir þeirri vitneskju að enn sé röðin ekki komin að okkur. Er þetta gleði rándýrsins yfir auð- veldri bráð? Hvers vegna hlakkar í fólki yfir óförum annarra? Ekki á ég nein svör við þessum spurningum. Er jafnvel hugsanlegt að hæðnishlátur manna hljóðni þegar þeir vaxa frá hinni grimmu fortíð sinni? Þegar rándýrið í okkur verður að víkja fyrir hærri sýn og meiri mennsku? Þó að svo fari þá þýðir það ekki að við hættum að hlæja. Sá hlátur sem kallaður hefur verið Þórðargleði gæti snúist upp í það að maðurinn fari að hlæja að rándýrinu í sjálfum sér og öðrum. Þegar mönnum fer að finnast þetta rándýr- seðli okkar skoplegt fyrirbæri og heyri for- tíðinni til. Það verður seint heyri ég ykkur segja. – Og já. – Ég held að þið hafið því mið- ur rétt fyrir ykkur enn um sinn hvað sem síðar verður. Frelsi og hlátur eiga samleið. Við hlæjum af feginleika þegar við losnum úr fjötrum, ekki síst andlegum fjötrum fortíðarinnar. Við notum frelsið til að byggja upp nýjan heim. Í þessari nýju sköpun gegnir hlát- urinn stóru hlutverki. Hann sýnir mönnum oft hvað er við hæfi og hvað ekki. Það er ver- ið að leiðbeina okkur þegar hlegið er að okk- ur og hlátur okkar leiðbeinir líka öðru fólki hvort sem menn gera sér grein fyrir því eða ekki. Menn læra oft meira af stuttum hlátri en langri predikun. Í daglegu lífi notum við hláturinn bæði í sókn og vörn. Við teljum oft hláturinn bestu vörn okkar gegn öfund og illmælgi annarra manna. Menn nota oft hlát- ur sem hættulegt vopn í rökræðum eða kappræðum og þar sem hlátur kviknar í fundarsal eru kjánaleg rök kveðin niður af skyndingu. Vissulega getur hláturinn verið hættulegt vopn og hann getur líka verið hættulegur þeim sem beitir þessu vopni eins og sagan sýnir. Margir sagnfræðingar telja að Sókrates hafi raunverulega verið líflátinn fyrir það að hlæja á Agóru, stórtorginu í Aþenu, að helstu valdamönnum borgarinnar. En valdið fær engan til að hætta að hlæja. Venjulega lengir hláturinn ekki aðeins lífið heldur gerir hann mörgum lífið og tilveruna léttbærari. Hann getur á örlagastundu snöggbreytt öll- um aðstæðum á undraverðan hátt. Eðlilega getum við ekki hlegið að erfiðum hlutum fyrr en þeir eru löngu liðnir og við sjáum þá og skoðum úr fjarlægð. Stundum breytir tíminn þeim lítið eða alls ekki en stundum verða þeir aðeins skoplegir þegar frá líður. Við beinlínis hlæjum að þeim og sá hlátur færir okkur upp á hærra svið ef svo mætti segja. Þetta var aldrei annað en kjánaskap- ur sem við höfum alfarið hafnað. Hláturinn lyftir okkur yfir þessi vandamál, ekki öll en kannski fleiri en við höldum. Í fortíðinni var mönnum oft kennt hvenær mætti og hvenær ekki, hver mætti hlæja og að hverjum mætti hlæja. Þannig var hlát- urinn notaður sem vopn valdamanna til að viðhalda stöðugleika. Þetta gekk í vissum stofnunum í ákveðinn tíma en öll börn og raunar fólk á öllum aldri vilja leika sér. Og hláturinn og leikurinn eiga ævinlega sam- leið. Hvorki andlegir né veraldlegir stjórn- endur gátu haft taumhald á hlátrinum til lengdar. Hlátur valdamannsins er venjulega hæðnishlátur. Hann boðar andstæðingum hans niðurlægingu og jafnvel dauða. Og hann þolir síst af öllum að hlegið sé að hon- um. Grísku guðirnir virðast þó undantekn- ing. Grikkir ætluðust til þess að Seifur og aðrir grískir guðir tækju því vel þegar hlegið var að þeim í leikhúsum Aþenu. Þeir ætl- uðust jafnvel til þess að guðirnir sjálfir tækju þátt í hlátrinum þegar hlegið var að þeim sjálfum. Og þannig bregðast göfugir menn yfirleitt við aðhlátri. En veraldlegt og andlegt vald hefur oftast gegnum tíðina sýnt lítið umburðarlyndi gagnvart hlátri. Þrískipting valdsins getur verið með ýmsu móti. Á miðöldum til dæmis ríkti myrkrahöfðinginn í neðra, kirkjan í miðheimum, eða á jörðinni og Guð á himn- um. Þetta gilti að sjálfsögðu í hinum kristna heimi miðaldanna. Þó að fagnaðarerindið sé kjarni kristninnar þóttu fögnuður og hlátur ekki vænleg leið til að komast í himnaríki. Leiðin þangað lá eingöngu gegnum táradal eymdar og fátækar. Allt annað var léttúð og heimska, ef ekki beinlínis hrokafull upp- reisn. Basin kirkjufaðir bannaði hvers konar hlátur. „Góður maður á hvorki að hlæja né leyfa öðrum að hlæja“, sagði hann. Það var þá almennt viðhorf kirkjunnar að hlátur væri alfarið af hinu illa. „Vitrir menn búa í sorgarhúsi, sonur minn, en fíflin í húsi gleð- innar.“ Við þessari grimmu heimsmynd var samt fögnuður í himnaríki og grátur í neðra. Þar hló aðeins yfirstéttin og ævinlega hæðn- ishlátri. En þrátt fyrir þetta stranga vald að ofan vissi allur almenningur betur og hélt áfram að hlæja í laumi. Þegar fram liðu stundir komu fram menn sem hlógu öll þessi ósannindi út úr heiminum. Þar voru skáldin fremst í flokki í ritgerð, ljóði, leikriti og sögu. Á okkar tíð er hláturinn orðinn vopn hins valdalausa í samfélaginu. Valdamönnum stafar meiri háski af hlátri en nokkru öðru. Fyrst og fremst þegar hann misbeitir valdi sínu. Hann getur ekki dulist neitt í upplýs- ingaflæði fjölmiðla. Frá vissu sjónarmiði má líta á hláturinn sem besta fræðara og uppal- anda nútíma stjórnmálamanns. Það hafa alltaf verið náin tengsl milli hlátursins og hugsunarinnar. Ég yrði ekki hissa þó ein- hver fræðimaður á þriðja árþúsundinu kæmist að þeirri niðurstöðu að góður hlátur sé þegar grannt er skoðað besti kennarinn. HLÁTUR RABB G U N N A R D A L JÓNAS HALLGRÍMSSON ALSNJÓA Eilífur snjór í augu mín út og suður og vestur skín, samur og samur inn og austur, einstaklingur! vertu nú hraustur. Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór, hjartavörðurinn gengur rór og stendur sig á blæju breiðri, býr þar nú undir jörð í hreiðri. Víst er þér, móðir! annt um oss; aumingja jörð með þungan kross ber sig það allt í ljósi lita, lífið og dauðann, kulda’ og hita. Jónas Hallgrímsson (1807-1845) var skáld og náttúrufræðingur. Hann var eitt helsta skáld rómantísku stefnunnar í íslenskum bókmenntum og einn Fjöln- ismanna. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 2 2 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R EFNI Sæberpönk birtist jafnt í skáldsögum og smásögum sem kvikmyndum og myndasögum, segir Úlf- hildur Dagsdóttir í fyrri grein um þessa nýstárlegu tegund bókmennta þar sem samband manns og vélar er í brennidepli. Finnbogi Pétursson er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í ár. Sýning hans var opnuð í gær en Fríða Björk Ingvarsdóttir átti samtal við hann um verkið sem hann sýnir áður en hann hélt til Feneyja. Salisbury er fallegur enskur miðaldabær sem á hverju vori heldur myndarlega listahátíð. Í ár er þemað norrænt og þar á meðal ís- lenskir gestir. Sigrún Davíðsdóttir heim- sótti hátíðina. séra Jóns Magnússonar er komin út í nýrri útgáfu Máls og menningar undir ritstjórn Matthíasar Viðars Sæmundssonar. Ólína Þorvarðardóttir skrifar ýtarlegan ritdóm um verkið. Píslarsaga FORSÍÐUMYNDIN er þrívíð vinnuteikning Finnboga Péturssonar af verkinu sem hann sýnir á Feneyjatvíæringnum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.