Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. JÚNÍ 2001 7 Í NÚTÍMAÞJÓÐFÉLAGI þar sem frelsið er í öndvegi þykir fátt eins úr- elt og hvers kyns fordómar og menn sverja þá af sér í bak og fyrir þótt enn leynist af þeim snefill í hugskoti sumra. Fleyg er setningin: „Ég hef ekkert á móti lituðu fólki en fyrr skal ég dauður liggja en fá það inn í mína fjölskyldu!“ og þykir gjörla sýna hve gjarn- an frjálslyndið er aðeins í orði en ekki á borði. Einmitt þessi tvískinnungur kom glögg- lega fram í grein Sigurðar A. Magnússonar, rithöfundar, í Lesbók Morgunblaðsins 2. júní sl. Þótti mér dulítið skondið hversu full- komlega gamla kempan grefur sér karl- rembugryfjuna með þessum skrifum og fær- ir þar með sönnur á orð mín í Morgunblaðsgrein hinn 20. maí um að „… karlhöfundarnir og bókmenntafræðing- arnir og gagnrýnendurnir taki kvenhöfund- um með góðlátlegu umburðarlyndi, svo lengi sem þeim sé ljóst að konur skrifa sögur á meðan karlar skrifa bókmenntir …“ Vandlæting Sigurðar Ljóst er á umræddri grein að Sigurður er að kafna af vandlætingu yfir framhleypni minni að „arka fram á ritvöllinn eins og hver önnur sjálfskipuð „valkyrja“ og „dreifa um mig“ fullyrðingum sem séu í besta falli hálfsannar“. Þarna fáum við að sjá dæmi- gerð viðbrögð margra eldri karla við aðför kvenna að þeirra helgu véum, sbr. fyrri orð mín um viðbrögð gamalla og virðulegra lög- fræðinga þegar kvenstúdentum fjölgaði í lagadeild. Sigurður rembist eins og rjúpan við staurinn við að valta yfir „valkyrjuna“ með hroka og háði, vefengir sannleiksgildi orða hennar með hártogunum einum saman, þykist kvenhollur í meira lagi en fullyrðir um leið að það sé í góðu lagi þótt aðeins 16 konum hafi verið úthlutað ritlaunum en 38 körlum og það sé í enn betra lagi að á bók- menntaþingi skuli hafa verið fjallað um 2 skáldsögur eftir konur á móti 32 eftir karla, því bókmenntafræðingar „láti annað en kyn- ferði höfunda ráða mati sínu á skáldverk- um“. Hvað er þá þetta „annað“ sem ræður vali þeirra? Sigurður skyldi þó ekki vera að segja að það séu „gæðin“ sem fræðingarnir setji á oddinn og hlutfallið 2:32 sýni þá svo ekki verði um villst að það sé almenn skoð- un hans og þeirra að konur skrifi eftir allt saman verri bækur en karlar? Tvískinnungur Sigurðar Sigurður vill samt ekki vera talinn for- dómafullur maður í garð kvenna. Hann telur sig „fortakslaust hafa verið meðal þeirra sem fyrstir fögnuðu skáldverkum Jakobínu og Svövu sem og annarra góðra kvenhöf- unda“ þótt hann í hinu orðinu kalli verk þeirra „kerlingabækur“. Ef við snúum nú setningunni fleygu hér í upphafi upp á hann, gæti hún útlagst á þessa leið: „Ég hef ekk- ert á móti því að konur skrifi bækur en fyrr skal ég dauður liggja en fallast á að þær eigi meira skilið en það litla sem kemur í þeirra hlut af styrkjum, umfjöllun og við- urkenningu“ … slíkt er aðeins „þarflaust karp um keisarans skegg!“ Ekki held ég að þeir kvenrithöfundar og lesendur af báðum kynjum sem haft hafa samband við mig á liðnum dögum til að þakka fyrir löngu tíma- bæra umfjöllun tækju undir þær skoðanir Sigurðar að kvenrithöfundar hafi það bara ágætt með sín verk og þurfi andskotann ekkert að vera að kvarta og það svo allir heyra! Eða því fór svona út undir manninn að Víðsjá Ríkisútvarpsins skyldi fjalla um efnið í tveimur þáttum og það „gagnrýn- islaust“? Gekk fram af honum að Eiríkur Guðmundsson, karlkyns, skyldi hafa tal af þremur konum um málið án þess að setja ofan í við þær fyrir kellingabullið? Sigurður verður hins vegar að átta sig á að þátturinn heitir „Víðsjá“ og þar er víðsýni höfð að leiðarljósi fremur en þröngsýni. Hroki Sigurðar Sigurður eyðir drjúgu púðri og plássi í að sýna bókmenntakennaranum þekkingu sína í bókmenntasögu og þylur upp langar runur af kvenhöfundum allt frá því 600 fyrir Krists burð og fram á þennan dag. Fannst mér aðdáunarvert að sjá dugnað hans við að tína fram nöfn löngu gleymdra kvenhöfunda upp úr bókmenntasögubókum, þ.á m. nöfn íslenskra kvenhöfunda sem af einhverjum furðulegum ástæðum þjóðin kann ekki að nefna lengur ef hún kunni það þá nokkurn tíma. Einnig telur hann langa romsu núlif- andi kvenhöfunda upp úr Félagatali Rithöf- undasambandsins en sleppir undirritaðri, finnst hún sennilega framhleypinn kvenhöf- undur með óskammfeilnar skoðanir sem þess vegna eigi þar ekki heima. Hvaða til- gangi öll þessi upptalning þjónaði veit ég ekki, nema þá þeim að láta ljós sitt skína skærar en bókmenntakennarans, því ég hef aldrei sagt, hvorki í ræðu né riti, að konur hafi ekki alltaf skrifað bækur. Hitt er svo annað hversu verkum þeirra hefur verið haldið á lofti í tímans rás og fram á þennan dag. Af hverju hafa sárafáir heyrt minnst á Saffó hina grísku sem Sigurður nefnir eins og heimilisvin en allir þekkja grísku heim- spekingana Plató, Aritstóteles og Sókrates og þeirra rit, a.m.k. af afspurn? Af hverju vita fæstir deili á Guðrúnu í Stapadal eða Ólöfu frá Hlöðum eða hvar hægt er að nálg- ast verk þeirra en Anna frá Stóruborg eftir Jón Trausta stendur grunnskólanemendum landsins til boða og Piltur og stúlka Jóns Thoroddsens er enn gefin fermingarbörn- um? Af hverju sagði við mig maður á miðjum aldri sem hefur dágott yndi af bók- um að hann hefði verið búinn að gleyma því að Fríða Á. Sigurðardóttir hefði fengið bók- menntaverðlaun Norðurlandaráðs? Fáum hefur þó gleymst að Einar Már Guðmunds- son fékk þau enda er þess getið nánast í hvert skipti sem maðurinn kemur fram í fjölmiðlum og víðar … og er það alloft. Mér þótti líka athyglisvert að í öllum sínum löngu upptalningum lætur Sigurður alveg vera að nefna allar þær konur sem skrifað hafa bækur fyrir börn og unglinga, konur eins og Kristínu Steinsdóttur, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Yrsu Sigurðardóttur, Sigrúnu Eldjárn, Gunnhildi Hrólfsdóttur og margar, margar fleiri. Guðrún Helgadóttir og Iðunn Steinsdóttir fljóta með á lista hans þar eð þær hafa einnig skrifað fagurbók- menntir. Bækur fyrir börn eru nefnilega ekki fagurbókmenntir, sennilega eru þær bara ljótar bókmenntir, í það minnsta eru þær aldrei taldar til afreka. Utan einu sinni! Árið 1999 hlaut barnabók í fyrsta og ef til vill hinsta sinn Íslensku bókmenntaverð- launin. Töldu flestir að kvenhöfundar á borð við Guðrúnu Helgadóttur, Iðunni eða Krist- ínu Steinsdætur stæðu slíkum verðlaunum næst eftir áratuga sköpun á perlum fyrir börn og unglinga. En nei, verðlaunin komu í hlut karlhöfundar, Andra Snæs Magnason- ar, sem hafði skrifað sína fyrstu og einu barnabók til þessa. Skilaboðin þau sömu og í grein Sigurðar: Karlar skrifa betri bækur en konur og takk fyrir ekki orð um það meir! Þetta er einmitt kjarni málsins, hvað sem upptalningum Sigurðar A. Magnússon- ar líður, konur skrifa bækur og hafa löngum gert en verkum þeirra eða persónum er ekki gert hátt undir höfði. Blindni Sigurðar Svo virðist í umfjöllun allri og viðurkenn- ingu sem bækur kvenna þyki ekki standast neinn samanburð við bókmenntaverk karla … eða skyldi það vera tilviljun ein að í þau tólf ár sem Íslensku bókmenntaverðlaunin hafa verið veitt hafa þau 9 sinnum komið í hlut karla en aðeins 3 sinnum í hlut kvenna? Er það tilviljun að Svava Jakobsdóttir þótti ekki verð heiðurslauna Alþingis í ár og að af þeim 7 höfundum sem þar njóta góðs skuli aðeins einn vera kona? Er það líka kannski eintóm tilviljun að af þeim 25 höfundum sem hlutu viðurkenningu úr Bókasafnssjóði höf- unda þetta árið voru aðeins 9 konur? Og þetta gerist þrátt fyrir það að „rosalega margir kvenhöfundar“ séu „löngu komnir í þungavigtarflokkinn“ að mati Sigurðar A. Magnússonar enda „fríður“ hópur. Hvað ætli „fríðleiki“ kvenhöfundanna komi verk- um þeirra við eða viðurkenningu á þeim? Á þeim að vera nóg að Sigurði A. Magnússyni og hans líkum þyki þær bæði duglegar og sætar og geti því bara grjóthaldið kjafti með tæplega þriðjung úthlutaðra ritlauna og þriðjung veittra bókmenntaverðlauna? Hafa þær kannski ekkert að gera með slíkt? Í þætti Áslaugar Dóru Eyjólfsdóttur í Rík- issjónvarpinu 24. maí sl. komu fram töl- fræðilegar upplýsingar um skarðan hlut kvenna í umfjöllun fjölmiðla. Þar voru hlut- föllin jafnan 30:70 konum í óhag. Ljóst má því vera af öllu ofantöldu að Sigurður A. Magnússon fer með rangt mál og fordóma- fullt er hann heldur því fram að „konur sitji við sama borð og karlar varðandi ritlaun og aðra aðstöðu“. Það er einfaldlega ekki rétt, svo sem staðreyndir sýna, og Sigurði væri nær að láta af hroka sínum og viðleitni til að breiða yfir skítinn og styðja heldur við starfssystur sínar á borði en ekki bara í orði. Nansen nútímans Skömmu eftir aldamótin 1900 gekk Sigrid Undset, sú hin sama og síðar hlaut Nób- elsverðlaunin fyrir hina miklu sögulegu kviðu um Kristínu Lafranzdóttur, til for- stjóra Gyldendals-forlagsins, Peters Nan- sen, með handrit sögulegrar skáldsögu und- ir handleggnum. Svar Nansens er löngu frægt í norrænni bókmenntasögu: „Látið þér yður ekki detta í hug að skrifa sögu- legar skáldsögur. Þær ráðið þér ekki við. En þér gætuð reynt að skrifa eitthvað nú- tímalegt. Það er aldrei að vita.“ Hrokafullt svar Nansens minnir óneitanlega á hroka- fulla viðleitni Sigurðar A. Magnússonar til að þagga niður umræðu um mismunun sem sannanlega á sér stað í íslenskum bók- menntaheimi. Skilaboðin þau að undirrituð eigi ekki að hætta sér út í umfjöllun sem hún ráði ekki við. Samt skilur heil öld að þá Nansen og Sigurð. Hefur þá í rauninni lítið breyst? Eru enn Nansenar á Íslandi í röðum karlhöfunda, gagnrýnenda og útgefenda sem hafa takmarkaða trú á getu kvenna til að skrifa hvort heldur er gæðaverk eða hvassar ádeilur í blöð og tímarit? Finnst það bara alls ekki kvenlegt? Ef svo er, er full þörf á að einhver veiti þeim tiltal og bendi þeim á villu síns vegar. Ég segi og skrifa að konur hafa samið og eru að semja hreint ekki síðri bókmenntaverk en karlar og eiga skilinn jafnari aðgang að viðurkenn- ingum, styrkjum og fjölmiðlum en nú er raunin. Ég segi og skrifa að ekkert í þessari grein minni eða hinni fyrri er rangindi og fullyrði að ég hef fullt vit á því sem ég er að tala um, þrátt fyrir að Sigurður vilji telja fólki trú um annað. Og líkt og kynsystir mín Undset læt ég ekki hrokafullan Nansen setja mig út af laginu, þótt hann heiti Sig- urður A. Magnússon. FORDÓMAR SIGURÐAR A. MAGNÚSSONAR E F T I R Þ Ó R E Y J U F R I Ð B J Ö R N S D Ó T T U R Höfundur er rithöfundur, þýðandi og bókmenntakennari. 1. við daufa kippi lifnaði ávöl rauðleit ljósmóða lágvær kliður í tóminu rauf víðan þagnarmúr geislaslæður kviknuðu fölbláar á bylgjuflökti innan og utan líðandi svartamyrkurs alvídda rakadeplar dreifðust um ekki neitt og eitt 2. vætuiða innilukt birta í hljómstríðum titringi ljósgos hringrás elds drífur glitnála leiftur á þeysireið um fjölvíddir á hrafnsvörtum gljábylgjum endalaus samhljóma kliður í bjarmabogum sortahvelfinga hrímsprotar í þiðnun hnigu hvað andaði þá svo vært um víðáttur og afkima? 3. við lágværan þyt þandist marglit ljósþoka orkusvið bylgjuþráða um hana á víð og dreif uxu og þurru á víxl í áköfum fæðingarhríðum efnisandans spíralar og hringir sporbaugar og hnattform sigldu um hljóðan ljóssortann í afar heitum vindhviðum margstrendar íssúlur hrundu 4. upp flæddu súlur ljóss og vatns en svarblá hringiðan neðra milli hrímhvítra ísveggja um sporlaus heimkynni funans barst taktvís hjartsláttur boðaði komu lífvera hvert kvíslast þessar rætur hvert teygjast þessir stönglar? ég sé lýsandi línur sem tómið skera í kross mun ég líkt og Heimdallur heyra grasið gróa? út frá mér streyma bjartar bylgjur og dimmar 5. endilöng eimyrjan kraumaði og vall um undirgöng sótmekkir þöndust þéttust og huldu brátt himinblámann þegar iður ísbreiðunnar brustu fótspor voru á víð og dreif í sandi í skjóli klettaborga stunur stunur stunur hvaðan lá leiðin hvert liggur hún? roðagullnir taumar hverfa út í myrkrið eyrun hlusta á krossgötum í miðri atburðarás umvafinn þú 6. yfir helkaldri auðn lá hvítleitt þokumistur undir glóandi hraunelfu hurfu ilmandi grös jarðar samt brostu krímug andlit augun störðu í ljósflökti kveinað var í skugga einn var hljóður ljós á brautum efra ráka í niðamyrkri rýmið hvaðan flæðir birtan hvert leitar hún í líftengsla höll? um víðáttur skimar þú einn V. ÞORBERG BERGSSON LJÓÐ FRÁ ÁRUNUM 1997–1998 Höfundur er myndlistarmaður og skáld. EKKERT ALLT EITT

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.