Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. JÚNÍ 2001 eins hraðar en hinn þar til báðir hringirnir brotnuðu upp í algjört öngþveiti, uns jafn- vægi náðist á ný. Verkið rak sig þannig áfram í ákveðnu ferli sem ef til vill má líkja við starfsemi hugans.“ Tengsl hugmyndaheims miðalda og samtímans Verk Finnboga í Feneyjum sver sig í ætt við fyrri verk hans, því þar er hann enn að leika sér með hljóðið. Í þessu tilfelli verður hljóðið þó ekki að neinu ákveðnu formi í huga áhorfandans, það er mun óræðara og hverfist helst í menningarlegri skírskotun til sög- unnar. Verkið ber hið kynngimagnaða heiti „Diabolus“, sem er bein vísun í hugmynda- heim miðalda. Þá var tónbilið „diabolus in musica“ bannað af kirkjuyfirvöldum og skil- greint sem hljómur djöfulsins eins og heiti þess ber glöggt vitni um. Kirkjan áleit þetta ákveðna tónbil svo hættulegt siðferði manna að reynt var að útrýma því úr allri tónlist. Að sjálfsögðu tókst það ekki, en hugmyndin um hina djöfullegu eiginleika tónlistar lifði lengi og kynnti undir allskyns þjóðsögnum um sefjunar- og töframátt sem væri af hinu illa. Tilraun kirkjunnar til að „ritskoða“ tónlist fór því að mestu út um þúfur, því þótt henni hafi verið ætlað að halda múgnum í siðferð- islegri spennitreyju varð hún í raun fyrst og fremst til þess að renna stoðum undir þau til- finningalegu hughrif sem felast í tjáning- armætti tónlistarinnar. Það sem vakir fyrir Finnboga að rannsaka þessu viðamikla verki – fyrir utan hljóðræna eiginleika tónanna – er sú staðreynd að ein- faldur tónn hafi getað orðið að siðferðislegum ásteytingarsteini kirkju- og ríkisvalds og um leið forsenda fyrir ritskoðun og stýringu á skapandi straumum. Tónninn sjálfur er því ekki síður mikilvægur efniviður í verkinu en allur sá mikli strúktúr sem við augum blasir. Finnbogi segir að hugmyndin að „Diab- olusi“ hafi beinlínis kviknað í könnunarferð- inni síðastliðið haust, þegar hann horfði inn í opinn skála Aalvars Alto sem Íslendingar leigja til sýningarhaldsins. „Ég veit því manna best hversu nauðsynlegt það er að listamaðurinn fái að fara og skoða aðstæður áður en hann hefst handa,“ segir hann. „En það sem ég legg til grundvallar í þessu verki tengist þó beinlínis ákveðnum tónbilum sem ég hef verið að vinna með undanfarin tvö til þrjú ár. Þetta Feneyjaverk er t.d. mjög skylt verki sem ég vann með Rögnu Róbertsdóttur og sýnt var í Köln, um Schumann ómunina, en hún er einskonar jarðsveifla. Vísindamað- urinn Nicola Tesla uppgötvaði fyrst þessa 7.83 riða sveiflu sem jörðin gefur frá sér og í verkinu mínu framkalla ég hana með hátöl- urum í tveimur stálplötum. „Diabolusinn“ er eiginlega beint framhald af þeim pælingum. Mér fannst tengingin á milli Ítalíu sem mið- stöðvar kaþólsku kirkjunnar og þessa tónbils vera þannig háttað að Feneyjar væru hrein- lega rétti staðurinn fyrir verkið. Ég hefði auðvitað getað útfært það eins og áður með tveimur plötum eða hátölurum, en langaði til að tengja verkið fortíð þessa ákveðna tónbils með því að nota gamla aðferð við hljóðmynd- unina, þ.e.a.s. orgelpípu. Síðan nota ég nú- tímatækni til að búa til elektrónískan tón sem myndar mótbylgjuna. Í stuttu máli hefur hugmyndin mótast á þennan hátt, en hún verður þó aldrei fullmótuð fyrr en verkið er komið á sinn stað í Feneyjum. Þá fyrst verða skírskotanirnar komnar í rétt samhengi.“ Áhrif á fortíðina í gegnum tímagöng Finnbogi tekur fram að þó verkið sé stórt eigi „Diabolusinn“ ekki eftir að óma um stræti og torg á tvíæringnum. „Göngin eru það stór að hljóðið úr þeim truflar ekki marga. Fólk á eftir að heyra gnauðið í verk- inu úti fyrir og síðan betur og betur eftir því sem það færir sig nær. Það er ekki fyrr en maður fer inn í göngin að þau fara að sveifl- ast eða óma með tóninum eins og hljóðfæri. Það má því segja að göngin séu hljóðið, í óeiginlegum skilningi, og ég ákvað að láta þau mjókka eftir því sem innar dregur til að gefa einstaklingnum tækifæri til að fikra sig nær uppruna hins díabólíska tóns. Á þann hátt virka göngin líka sem tímagöng, því ein- staklingurinn getur sjálfur haft áhrif á loft- flæðið og þaggað niður í gamalli, íhaldssamri miðaldahugsun ef honum sýnist svo. Þannig gefst honum tækifæri til að hafa áhrif á for- tíðina, því án loftflæðisins úr orgelpípunni hljómar einungis elektróníski nútímatónninn sem er alltaf stöðugur og beinn. Þetta er það sem mér finnst fallegt við þessa hugmynd; það að verkið byggir á víxlverkun og samspili við áhorfandann – en hvort það virkar svo í reynd eins og ég geri mér í hugarlund er önnur saga.“ „Diabolus“ hverfist því ekki einungis um ákveðinn hljóm, heldur alla þá sögulegu hefð sem honum fylgir. Verkið fjallar um samspil nútíðar og fortíðar, um það hvernig fortíðin hefur mótað okkur sem nú erum uppi. En það leiðir ekki síður í ljós hvernig við getum haft áhrif á fortíðina með því að rannsaka hana og túlka, og draga fram á sjónarsviðið nýja sýn á það sem þá gerðist. Keilulögun ganganna hefur einnig mótandi áhrif á reynslu áhorfandans, því hann verður að standa einn innst í göngunum þar sem þau eru þrengst; einn við upprunann þar sem tónninn á upptök sín. Í ferð hans til baka dreifast hins vegar áhrifin eftir því sem hann deilir þeim með fleiri samtímamönnum sínum þar sem rýmið er meira, allt þar til hann kemur aftur út í mannfjöldann fyrir utan göngin. Hugsunin verður ekki stöðvuð „Í einföldum samanburði á þessum tveimur tónum er fólgin öll þessi mikla saga; um kirkjuvaldið, ritskoðunina og tjáningarfrels- ið,“ segir Finnbogi. „Við megum ekki gleyma því að andstæður á borð við þær sem felast í þessu tónbili eru að sjálfsögðu ennþá til. Það eru alltaf einhverjir sem hafa tilhneigingu til að reyna að koma í veg fyrir skapandi hugs- un. Gamli tónninn úr orgelpípunni er því auð- vitað skírskotun í liðnar aldir, en einnig í slík- ar hugmyndir í nútímanum. Kannski er nýi elektróníski tónninn bara það sem nútíminn stendur fyrir. Þegar þeir óma saman standa þeir fyrir þessa ótrúlegu togstreitu sem fólg- in er í „Diabolusnum“, togstreitu tveggja tíma sem gufar upp ef maður þaggar niður í öðrum tóninum. Að það skuli vera hægt und- irstrikar síðan valkosti manns sem einstak- lings, það að frjáls hugsun verður aldrei stöðvuð.“ Aðspurður jánkar Finnbogi því að ef til vill liggi sköpunarkrafturinn sjálfur einmitt í þessu díabólíska bili, „það hefur í það minnsta verið drifkraftur til margvíslegrar listsköpunar, svo sem meðal tónskálda,“ segir hann. „„Diabolus in musica“ hefur meira að segja verið þeim hvatning til þess að semja tónverk sem beinlínis fjalla um þetta for- boðna bil. Þeir læddu hugmyndinni inn í verkin og tóku viljugir ákveðna áhættu til að standa vörð um frjálsa hugsun og rétt sinn til að vera skapandi. Hið sama má segja um rit- höfunda og skáld sem hafa unnið í trássi við vilja stjórnvalda í gegnum aldirnar og fundið sér leiðir til þess. Mannskepnan er nú einu sinni hvað þetta varðar bara eins og krakkar; þegar þeim er bannað eitthvað gera þeir það samt. Ef til vill er frelsishvötin undirstöðuat- riði í okkur öllum.“ Íslendingar döðruðu við hið forboðna „Diabolus in musica“ tengdist alþýðutónlist sterkum böndum um mest alla Evrópu og segja má að þessi djöfullegi þáttur hafi þrifist best á því svæði sköpunarinnar sem ekki naut viðurkenningar stofnanavaldsins eða hefðarinnar á þeim tíma sem hann var bann- aður. Hér á landi var einnig hefð fyrir söng í þessu tónbili, sem Finnbogi hefur kynnt sér og nefndur var „trítónus“, og því er freist- andi að bera Ísland og Ítalíu saman, hvað frelsi til tjáningar varðar. „Ég var einmitt að lesa mér til í íslenskri handbók um þessa tón- tegund,“ segir Finnbogi, „en söngur í trítón tengdist íslenskum fimmundasöng. Ég veit ekki hvort þriðja söngvara var bætt inn, eða hvort einn söngvaranna gat hreinlega farið úr fimmund yfir í trítón, en þessir söngvarar sungu í öllu falli í díabólus og voru því að leika sér með þetta form. Íslendingar döðr- uðu því við hið forboðna hér á öldum áður, enda í öruggri fjarlægð frá kirkjuvaldinu í Róm. Mér finnst því sérstaklega skemmtilegt að fara með þessa hugmynd héðan frá Íslandi til Feneyja, þangað sem kirkjuvaldið er upp- runnið og var hvað sterkast. Ef til vill er það einmitt ástæðan fyrir því að þessi ákveðna hugmynd kviknaði, innblásturinn tengdist staðnum mjög sterkt. Ég horfði bara í gegn- um skálann og allt í einu small allt saman. Það er óneitanlega notalegt þegar maður verður svo áþreifanlega var við að einhver leið opnist í sköpuninni. Ég hef þá trú að maður verði að vera vakandi fyrir því fyrsta sem kemur upp í huga manns. Þar liggur iðu- lega mesti krafturinn. fbi@mbl.is „Það er óneitanlega notalegt þegar maður verður svo áþreif- anlega var við að einhver leið opnist í sköpuninni.“ Tígur tígur, blik þitt bjart brennir skógarþykknið svart. Hvaða sjón með eilífsarm ægifagran skóp þinn barm? Hvar í dýpstu himingátt hreppti sjón þín eldsins mátt? Hver mun voga vængjum á vitja elds, með höndum ná? Hvaða öxl, og hvaða snilld, hjartavöðvann batt að vild? Þegar hjartað hóf sinn slátt, hræddist greip, lét fótur mátt? Hvaða bræðsla, sleggjuslög slógu heilans frumstæð lög? Hver var steðjinn, hönd sem tók heljarafl og grimmd þess skók? Þegar stungust stjörnuspjót, steyptust himnesk tárafljót; skein hann þeirri sköpun af, skóp hann þig sem Lambið gaf? Tígur tígur, skin þitt skjótt skóginn tendrar myrka nótt. Hvaða sjón með eilífsarm ógnarfagran skóp þinn barm? WILLIAM BLAKE TÍGRISDÝRIÐ INGIMAR ERLENDUR SIGURÐSSON ÞÝDDI Höfundur var enskt ljóðskáld, málari og grafíklistamaður sem uppi var á ár- unum 1757 til 1827.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.