Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. JÚNÍ 2001 11 Matthías Viðar má búast við því að til rit- smíða hans sé vitnað um ýmsar staðreyndir varðandi umfjöllunarefni hans, og í því ljósi eru yfirsjónir á borð við þær sem hér hafa verið nefndar bagalegar. Í vísindastörfum og rann- sóknum gildir almennt sú venja að rannsókn- arniðurstaða A leiði til rannsóknartilgátu og síðar niðurstöðu B sem verður svo tilefnið að rannsóknartilgátu C og svo koll af kolli. Menn byggja m.ö.o. fræðastarf sitt á því sem leitt hef- ur verið í ljós af forverum þeirra. Sú hvimleiða tilhneiging að hafna eða líta framhjá því sem gert hefur verið áður og láta eins og rannsókn- arniðurstöður séu ekki til er ekki til þess fallin að fleygja vísindastarfinu fram. Sautjánda öldin er ekki það vel rannsakað tímabil í íslenskri sögu að hún megi við slíkum loftfimleikum, nógu margt er nú óljóst um þetta söguskeið samt. Ábyrgð fræðimanna lýtur þó að fleiru en staðreyndum. Góðir fræðimenn setja hugrenn- ingar sínar og athuganir fram á aðgengilegan og/eða læsilegan hátt. Þó að stíll og orðfæri Matthíasar sé á mörkum þess að geta talist að- gengilegt þá er hann engu að síður skemmti- legur. Matthíasi er einkar vel lagið að fara með íslenskt mál, og stundum gleymir maður sér einfaldlega yfir stílþrifum hans sem eru á köfl- um mikill seiður og unun að lesa. Fáum íslensk- um fræðimönnum er jafn vel lagið að heilla les- endur og draga þá inn í dularvef þeirra myrku fræða sem hann fæst við. Ég verð þó að við- urkenna, að mér finnst Matthías ekki mega ganga mikið lengra í torræðum stíl. Þó ekki sé mér alls varnað í íslensku máli skal játað að ég hnaut um nokkrar setningar, til dæmis eftirfar- andi: Skrifaður var fjöldi fræðirita um djöfulæði eða andsetu, enda var ekki um að ræða einföld hugtakaskipti, vísindalega framsókn, heldur raunveruleg hugarfarsmót, mótsagnakennda deiglu, þar sem læknisfræðileg vitneskja og djöflafræði af miðaldatoga blönduðust með ýmsum hætti saman (380-81). Hér hefði mátt orða hugsunina skýrar, sem og sjálfa niðurstöðu ritgerðarinnar, sem Matth- ías Viðar orðar þannig: Við þurfum að þróa flóknari mynd af tengslum trúar, sálarlífs og galdurs, enda má hugsa sér ólík víddarstig hvert inn af öðru í stað einvíðrar orsakakeðju, stig sem mynda svo ólík svið innan hrings er lýt- ur svipuðu lögmáli og bylgjuhreyfing vatns (417). Hver var síra Jón Magnússon? Þess hafa ýmsir spurt og sitt sýnst hverjum um svör. Sigurður Nordal tók þá afstöðu fyrr á öldinni að síra Jón hefði verið sjúkur maður á heljarþröm (1967, bls. 45). Sú skýring lyftir oki sektar af herðum þess samfélags sem maðurinn hrærðist í, það er svo miklum mun auðveldara að skella skuld hörmulegra atburða á einstak- ling fremur en heilt samfélag, sína eigin þjóð. En hvar skilur á milli einstaklings og sam- félags, heilbrigðis og sjúkleika, hugar og heims? Því verður seint svarað, enda er Matthías í sama vanda gagnvart þeirri spurningu og for- verar hans hafa verið því þótt hægt sé að skil- greina vonina og kvíðann er á huldu það sem að baki þeim býr. Ekki má horfa fram hjá huglægu eðli reynslunnar, að kvöl er sár og einstök, bundin geði og tíma (bls. 418). Það er og mikið rétt að síðari tíma túlkanir á atburðum fyrri tíð- ar eru vandrötuð braut, við getum ekki tekið skáktafl tuttugustu aldar og heimfært það upp á taflreglur þeirrar sautjándu, eins og bent hef- ur verið á (bls. 362). Með öðrum orðum, við þekkjum ekki Jón Magnússon, við þekkjum heldur ekki sautjándu öldina nema í gegnum mistur fjarskans. Píslarsagan er hinsvegar einn af fáum sjónaukum sem við höfum til þess að grilla í veruleika sem var, innri veruleika manns í sálarháska sem samtíð hans skóp honum. Þannig til orðin er Píslarsaga síra Jóns ómet- anlegur dýrgripur í heimildasjóðnum. Geta skal þess sem gott er ... Þrátt fyrir ýmsar aðfinnslur hér að ofan er ritgerð Matthíasar Viðars á margan hátt hug- vekjandi. Í henni má finna ýmsar heimildir bæði erlendar og innlendar um tíðaranda og hugmyndafræði brennutímabilsins, hér og í Evrópu. Ljóst er að hann hefur kynnt sér rit djöflafræðinga fyrri alda og sett sig vel inn í þá orðræðu sem fram fór í skrifum klerklærðra manna bæði hérlendis og erlendis. Hann er sömuleiðis orðinn vel kunnugur ýmsum frum- heimildum sautjándu aldar og ætti því að geta byggt fræðastörf sín á traustari grunni en margur samverkamaðurinn á akri sautjándu aldar fræðanna. Í því ljósi verður enn ergilegra að hann skuli skjóta sig í fótinn með óþarfa á borð við þann sem þegar er nefndur. Í heild sinni er þessi nýja útgáfa af Píslar- sögu séra Jóns Magnússonar fengur fyrir þá sem hafa áhuga á sögu sautjándu aldar, atburð- um og hugarfari þessa sérstæða tímabils í lífi þjóðarinnar. Viðaukar ritsins eru góð og gild viðbót við það sem þegar hefur verið gert, og ágætur heimildagrunnur fyrir fróðleiksfúsa. Er því ástæðulaust annað en að óska aðstandend- um og viðtakendum ritsins til hamingju með framtakið. Heimildir: Jón Helgason 1948: Bókasafn Brynjólfs biskups. Árbók Landsbókasafns Íslands 1946-47, III.IV. ár. Reykjavík. Jón Magnússon 1914: Píslarsaga síra Jóns Magnússonar. Sigfús Blöndal sá um útgáfuna. Kaupmannahöfn; 1967: Sigurður Nordal sá um útgáfuna. Reykjavík; 2001: Píslarsaga séra Jóns Magnússonar. Matthías Viðar Sæmundsson sá um útgáfuna. Reykjavík. Lýður Björnsson 1976: Kennimark kölska (Character bestiæ). Reykjavík. Matthías Viðar Sæmundsson 2001: Ævi séra Jóns Magn- ússonar og Galdur og geðveiki Jón Magnússon 2001: Písl- arsaga. Ólafur Davíðsson 1940-43: Galdur og galdramál á Íslandi. Reykjavík. Ólína Þorvarðardóttir 1992: Merkingarheimur og skynj- un. Um sekt og sakleysi í Píslarsögu síra Jóns Magnússonar. Tímarit Máls og menningar 4. Reykjavík. Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík. Óttar Guðmundsson 1990: Schizophrenian og píslarsaga sr. Jóns Magnússonar. Pressan 17. maí. Reykjavík. Sigurður Nordal 1967: Trúarlíf síra Jóns Magnússonar. Jón Magnússon: Píslarsaga Sigurjón Jónsson 1944: Sóttarfar og sjúkdómar á Íslandi 1400-1800. Reykjavík. Sprenger og Kramer 1970/1928: Malleus Maleficarum. Montague Summers þýddi og ritaði inngang. New York. Trevor Roper, Hugh 1977: Galdrafárið í Evrópu. Helgi Skúli Kjartansson þýddi og ritaði inngang. Reykjavík. Brennudómur um Kirkjubólsfeðga 9. apríl 1656 (Thott 2110 4to II, Þjsks. Ísl.) – upphaf. Í annan máta það máli Jóns yngra viðvíkur þá framleiðir presturinn uppá hans síðu þessi líkindi: Í fyrstu að almennilegt rykti hafi á hon- um legið, það hann hafi viljað læra og iðka þessa óleyfilega galdrakúnst, hvar um prestinum gögnuðust til bevísingar sam- ankomnir þingsóknendur. Þar næst þá er vitanlegt og af prest- inum framborið að kælan af þeim feðgum hafi ei síst tiltekið og aukist síðan þessi yngri Jón fékk ei sínum vilja framkomið um málaleitun til prestsins stjúpdóttur, hvað og síðar gjör sannast af sjálfs eft- irfylgjandi meðkenningu, sérdeilis það fyrra. Þriðja framber presturinn að yngri Jón hafi tekið í hönd sér í kirkjunni á Eyri eft- ir embætti, þegar hann hafi kvatt sig, og í því þegar hann sleppt hafi hans hendi þá hafi skinnsviði í lófann komið allt uppað miðhandarhnúunum innanvert; og til lík- inda þessari sinni sögu segist hann hafa núið handarlófanum ofan í bekkjarbríkina, hvar á sögðust horft hafa Jón Þorsteinsson í Tungu og Stephan Brandsson. Í fjórðu grein að Djöfullinn hafi sýnt sig í þeirra beggja feðga myndum þrálega af bæ og á, hvað líka svo bevísaðist vottlega, en sýnist að svo komnu þetta eður annað vottunarlega framborið ei sverja þurfa sökum eftirskrifaðra meðkenninga nefndra beggja feðga, svo sem eftir fylgir og von er sig í ljós láti. En ályktum vér þó með sama dómsatkvæði og um hans föður, sem áður er sagt, fyrir þessi líkindi og önnur fleiri að tilgreind nefndarvitni þessarar fyrr- nefndra manna undir einum eiðstaf sín sannindi framleggi í allan máta, svo sem áður með fullnaðar handsölum undirbund- ist hafa við sýslumanninn Magnús Magn- ússon, og fyrr í þessum dómi greinir, – hvör eiður svo er látandi sem þeir sam- stundis sóru: [...] BRENNUDÓMUR UM KIRKJUBÓLSFEÐGA Á EYRI 9. APRÍL 1656 (BROT) Ólína Þorvarðardótt ir

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.