Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Side 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. JÚNÍ 2001 11
bak við bókstafinn og því dugir enginn bókstafs-
lestur. Tímamörk skerast og atburðir gerast í
eigin draumum og annarra eða endurminningum
sem fléttast saman eða rekast á líkt og í mörgum
leikrita Jökuls. Þó skal nefna einn löst sem er
ríkur í fari fólks í bókinni, líka í hinni lokuðu
kvennaveröld kvenfélagsins í sögunni: það er
baktal. Baktal er furðu algengt í fornum sögum,
sjá t.d. baktal Njáls um Hallgerði. Væri ekki nær
að bókmenntafræðingur rannsakaði hvaða hlut-
verki baktal gegnir fyrir formgerð sögu fremur
en lesa bókmenntir á svo persónulegan hátt að
það verði honum sjálfum til skammar? Verra er
þó að verja tíma Háskóla Íslands til að hafa ær-
una af höfundum og bera svona bull á borð eins
og þarna átti sér stað. Og hvar er hið akademíska
frelsi statt þegar persónulegar ranghugmyndir
kennarans ráða mati á bókum og áheyrendum og
nemendum sagt að hlæja að höfundunum? Þá
hlýtur maður að spyrja, einnig með hliðsjón af
dæminu sem ég ræði hér á eftir: er allt leyfilegt í
nafni kvennabókmenntafræða?
Ég hef rætt um bók Jökuls að gefnu tilefni og
ræði hann ekki persónulega en er óhrædd að
taka fram að hann var frá unga aldri afburða vel
lesinn í fornum íslenskum bókmenntum sem öðr-
um, íslenskum og erlendum, og bæði fjölgáfaður,
minnugur og hugmyndaríkur. Að tala um ein-
feldnislega karlrembu þegar Jökull á í hlut er yf-
irgengilegt og sendingunni hér með vísað til
móðurhúsanna. Það þarf varla að taka það fram í
lokin að bæði Snorra Edda og umræður um
kvenréttindi og kvennaár voru tilkomin talsvert
fyrir daga umræðna um feminískar kvennabók-
menntir.
Þá vík ég að grein eftir Þóreyju Friðbjörns-dóttur sem birtist í Morgunblaðinu 20.maí sl. þar sem hún gerir að sérstöku um-talsefni þá staðreynd að Garðar Bald-
vinsson bókmenntafræðingur kaus að flytja fyr-
irlestur um skáldsöguna Leigjandann eftir
undirritaða á sagnaþingi sem haldið var við Há-
skóla Íslands nýlega. Þessi grein Þóreyjar nefn-
ist „Skrifa konur verri bækur en karlar?“
Í greininni er vikið persónulega að mér og
Garðari Baldvinssyni bókmenntafræðingi en
Garðar hélt fyrirlestur um bók mína, Leigjand-
ann, á málþingi um Skáldsögur í Odda í mars sl.
Þórey segir: „...hin (skáldsagan) var eftir Svövu
Jakobsdóttur, valin af Garðari Baldvinssyni, og
telst það hugrekki af þeim fróma manni að óttast
hvorki um kynhneigð sína né faglega virðingu
þegar hann lýsir opinberlega áhuga sínum og
skilningi á verki eftir konu. Það hefur löngum
þótt för út á hálan ís að vekja athygli á málstað
minnihlutahópa...“
Þetta er með eindæmum ruddalegt tal um fyr-
irlesarann og með öllu ósæmileg ummæli í garð
okkar beggja. Ég er gerð að utangarðsmann-
eskju í bókmenntaheiminum og talið að það
gangi svo nærri mannorði fyrirlesara að fjalla
um bækur mínar að úr verður afkáraleg skrípa-
mynd sem er persónulega niðrandi fyrir okkur
bæði. Þó svo að Þóreyju Friðbjörnsdóttur hafi
þótt karlkynsrithöfundum gert hærra undir
höfði en kvenrithöfundum á umræddu þingi leyf-
ist henni ekki að úthella persónulegum svívirð-
ingum yfir fólk. Eigi þetta að vera írónía eða
gamansemi, missir hún marks. Maður íróníserar
ekki um minnihlutahópa sem almennt eru sviptir
mannréttindum, frelsi í ræðu og riti og eiga þess
engan kost að koma vörnum við áhættulaust.
Sjálf frábið ég mér vorkunnsemi.
Undarlega er okkur skipað í hlutverkin, systk-
inunum, í málflutningi þessara tveggja kvenna.
Jökull er gerður að svo glórulausum ofsækjanda
kvennabókmenntafræðinnar að hann á að hafa
lagt það á sig að skrifa heila bók um Helgu Kress
og ég er gerð að vanmetnum vesalingi í „minni-
hlutahópi“ skálda.
Ummæli Þóreyjar Friðbjörnsdóttur um mig
sem vanræktan, (kannski líka fyrirlitinn?) höf-
und hitta einnig fyrir þá sem sýnt hafa bókum
mínum áhuga frá fyrstu tíð, og því get ég ekki
unað. Ég hlýt því að bæta við stuttu sögulegu yf-
irliti um kellingadrauginn sem ásækir suma
kvennabókmenntafræðinga í tíma og ótíma og
því miður suma rithöfunda líka. Draugur þessi er
talinn eiga upphaf sitt í rabbgrein eftir Sigurð A.
Magnússon í Lesbók Morgunblaðsins 35. tbl.
1964. Orðalag Þóreyjar um „minnihlutahóp“ er
sama eðlis og kellingatalið. Raunar hefur Sig-
urður A. Magnússon þegar brugðist við mál-
flutningi Þóreyjar í svargrein í Lesbók Morgun-
blaðsins, 2. júní sl. og heitir grein hans „Er
kvenhöfundum mismunað?“ Ég tek það fram að
rabbgrein Sigurðar þar sem hann notar orðið
„kellingar“ um bókarhöfunda gat ekki á nokkurn
hátt snert mig persónulega, því að ég var ekki
búin að gefa út eina einustu bók árið 1964. Ég hef
því ekki minnstu ástæðu til að leika píslarvott og
er það mörgu að þakka, m.a. Sigurði A. Magn-
ússyni sjálfum sem ásamt Ólafi Jónssyni var
einn atkvæðamesti gagnrýnandi og menningar-
rýnir um það leyti sem ég gaf út fyrstu bækur
mínar. Sigurður tók smásögu eftir mig til birt-
ingar í Lesbók Morgunblaðsins sem birtist síðan
í bókinni Veizla undir grjótvegg. Þegar árið l968
hlaut ég viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ís-
lands, (ásamt Jóhannesi úr Kötlum og Guðbergi
Bergssyni) og Rithöfundafélag Íslands sýndi
mér það traust að kjósa mig í stjórn þegar árið
1968. Sigurður var einnig með þeim fyrstu að
koma á framfæri smásögum mínum erlendis þó
að þar hafi kona, Amalía Líndal, riðið á vaðið.
Skáldsaga mín, Leigjandinn, var tvö ár í röð lögð
fram til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs,
árið 1970 og árið 1971. Tveir virtir karlmenn
stóðu að því. Ég vona að menn virði mér til vor-
kunnar að mig skortir reynslu til að taka þátt í
þessu nýja kalda stríði sem verið er að blása til.
Það þarf heldur ekki að minna mig á að margar
konur í hópi bókmenntafræðanna hafa sýnt
verkum mínum áhuga en þær eru nú orðnar
miklu fleiri í stéttinni en var um miðja öldina síð-
ustu.
Í svargrein sinni þ. 2. júní sl. fullyrðir Sig-
urður að hann hafi aldrei notað orðið kellingabók
sem almennt heiti yfir bækur eftir konur. Þetta
vita jafnaldrar hans í rithöfundastétt mæta vel
og er sérstakt umhugsunarefni hvers vegna hon-
um er ekki trúað. Í þeirri trú að frumheimildir og
samhengi hlutanna skipti nokkru máli, mun ég
rekja í sem stystu máli aðdraganda þessa um-
rædda rabbs Sigurðar A. Magnússonar árið
1964. Þar notar Sigurður orðið „kellingar“ alls
ekki sem almennt heiti yfir kvenrithöfunda. Sig-
urður tekur skýrt fram hvaða tegund bóka var til
umræðu. Í rabbi sínu fjallaði hann heldur ekki
um bækur almennt heldur söluhæstu bækur
markaðarins á þessum tíma. Orðið „kerlinga-
bækur“ notar Sigurður ekki. Margumrædd
grein hans er svargrein rituð til varnar ungum
ljóðskáldum sem höfðu hlotið – allir sem einn –
neikvæða umfjöllun í Lesbók Morgunblaðsins
viku fyrr. Í umræddri grein deilir Sigurður á
bókmenntasmekk þjóðarinnar og það hversu
ómóttækileg hún sé fyrir nýjungum, en Sigurður
var tvímælalaust meðal brautryðjenda í forsvari
fyrir endurnýjun skáldskapar á þessum tíma.
Mér þykir rétt að birta niðurlag umræddrar
greinar en það er niðurlagið eitt sem varðar kell-
ingamálið mikla. Að loknu máli sínu um ungu
ljóðskáldin segir Sigurður:
„Annars skilst mér að góðborgarar Íslands
þurfi ekki að hafa þungar áhyggjur af föndri
ungu ljóðskáldanna eða framtíð íslenzkra bók-
mennta: þær eru nú að verulegu leyti í höndum 8
eða 10 kellinga (sic.) sem fæstar eru sendibréfs-
færar á íslenzku. Bækur þeirra seljast eins og
heitar lummur, en við ungu ljóðskáldunum lítur
þjóðin varla. Svo þetta er allt í sómanum, góðir
hálsar!“ (undirritað s-a-m).
Söluhæstu bækur hvers árs hafa löngum verið
tíundaðar hér á Íslandi og því hægur vandi að
endurskoða bækur þessara kvenrithöfunda til að
reisa við mannorð þeirra, hafi það ekki þegar
verið gert. Þær eru ekki nema 8–10 sem valda
þessu fjaðrafoki í hinum akademíska garði. Það
vill þó svo til að við getum fengið nokkra hug-
mynd um þá tegund bóka sem um ræðir í bókinni
Konur, hvað nú? (Rvík. 1985) sem er ritgerða-
safn. Í ritgerð eftir Helgu Kress sem birtist þar,
eru kvenhöfundar sem gáfu út bækur árið 1964
sagðar 12 talsins. Síðan segir Helga:
„Mikill hluti þessara bóka tilheyrir þeirri teg-
und bókmennta sem kallaðar hafa verið
„skemmtibókmenntir“ í andstöðumerkingu við
„skáldbókmenntir“. Fyrir þeim er mjög sterk
kvenleg hefð í íslenskum bókmenntum.“ Og enn-
fremur: „Oft er erfitt að draga mörkin milli
skemmtibókmennta og skáldbókmennta í sagna-
gerð kvenna.“ Ekki verður annað greint af hug-
takanotkun Helgu en hún sé sammála Sigurði
um að skemmti- eða afþreyingabækur séu annað
en skáldbókmenntir. Bækur kvenna eru, að
hennar mati, að miklum hluta skemmtisagnir en
Sigurður nefnir töluna 8–10 af a.m.k. 12 mögu-
legum á árinu 1964. Lýsing Helgu er efnislega
hin sama og það sem Sigurður segir í rabbi sínu
um skemmtisögur „kellinganna“. Helga skiptir
þeim í skemmtibækur og skáldbækur – og mætti
halda að skáldbókmenntir gætu ekki verið
skemmtilegar. Vitanlega kann að vera erfitt að
draga mörk þegar um list er að ræða eins og
Helga tekur fram en það er nú samt meginvið-
fangsefni listfræðingsins og hefur verið frá alda
öðli.
En hvernig má þá binda enda á þessa hár-togun hugtaka áður en kvennabók-menntafræðingar hljóta líkamleganskaða af kuldahlátri að körlum? Ég legg
fram sáttatillögu hér og nú: við komum okkur
upp nýrri reglu til að dæma eftir: sé ekki unnt að
gera upp á milli skemmtisögu eftir konu og
skemmtisögu eftir karl, skal saga konunnar
dæmast skemmtilegri! Ekki sakar að bæta við
reglu nr. 2 að karlrithöfundum skuli gert að
skýra nákvæmlega frá því hvað þeir eigi við ef
þeir skrifa orðið fress.
Sjálf lít ég ekki á mig sem píslarvott. Þetta
voru nýjungatímar í listsköpun. Ungt fólk sem
ruddi nýjar brautir í bókmenntunum fékk ekki
alltaf vinsamlegar kveðjur. Fyrir kvenrithöf-
unda á þessum umbrotatímum bókmenntanna
var leiðin flóknari að því skapi sem hefðin var
rýrari þó að það geti einnig verið kostur. Kona
varð að reyna að skipa sér sess sem gjaldgengur
listamaður – eins og ungu ljóðskáldin, og finna
listrænt tjáningarform og viðfangsefni, sem tóku
á vandamálum samtíðarinnar og gátu höfðað
þannig til sammannlegrar reynslu. Þegar svo er
komið að konur (giftar, jafnvel sumar barnlaus-
ar) lokast inni eða loka sig svo rækilega inni í
kvennaveröld (af ytri ástæðum eða fram-
kvæmdaleysi), að þær þekkja sig ekki í sameig-
inlegri veröld karla og kvenna er engin lausn að
leiða inn prinsinn/riddarann/hreppstjórasoninn
(nema í afþreyingarsögum). Hann er meira að
segja sjálfur orðinn hjálparþurfi. Leigjandanum
lýkur á þessa leið: „Ætti hún að opna yrði hún að
gera það sjálf upp á von og óvon.“ Það var mikið
að henni skyldi loks koma það til hugar, segi ég
nú bara!
Höfundur er rithöfundur.
Jökuldal eru allar í 1–2 km fjarlægð frá bæj-
um, og stemma því vel við tilgátuna um aðhald
fyrir beitarfé, þó varla sé nokkur þeirra sauð-
held.
Örnefnið Sauðá virðist hvergi vera eins al-
gengt og á norðanverðu Austurlandi. Í Vopna-
firði eru Sauðá ytri og Sauðá fremri sín hvor-
um megin við eyðibýlið Gnýstaði í Sunnudal,
báðar um 1 km frá bænum. Þær falla í sam-
nefndum gljúfrum niður snarbratta vesturhlíð
Smjörvatnsheiðar, og næst fyrir utan þær er
Fossá. Líklega er bæjarnafnið dregið af gný
ánna.
Sauðá heitir lækur innst á Hrappsstaðadal,
og Sauðá lækur í Böðvarsdal, um 2 km. innan
við Eyvindarstaði. Sauðá er einnig í Selárdal,
hjá eyðibýlinu Leifsstöðum, Sauðá er utan við
Strandhöfn og Sauðá á Viðvíkurdal. Ein Sauðá
er í Möðrudal, nokkuð fyrir utan bæinn, lítil og
ekki mjög flúðótt.
Í öðrum landshlutum er Sauðá við Sauð-
árkrók í Skagafirði líklega þekktust. Eitt sinn
gekk ég meðfram henni neðantil og það vakti
athygli mína hversu straumhörð hún er, með
fjölda smáfossa og flúða. Kristmundur Bjarna-
son, fræðimaður á Sjávarborg, hefur nýlega
staðfest þetta í bréfi til mín. „Kemur þessi
skýring einkar vel heim við Sauðána hér,“ rit-
ar hann.
Örnefnin Sauðanes, Sauðatangi, Sauðavog-
ur o.fl. eru hugsanlega einnig tengd so. að
sjóða, enda eru þau yfirleitt við sjó á út-
skögum, þar sem brimasamt er.
Sáðá í Geitdal
Í dagbókinni minntist ég á örnefnið Sáðá,
sem er skammt fyrir innan bæinn Geitdal í
Skriðdal. Þetta er lítil á, sem fellur í grunnu
gili niður snarbratta fjallshlíð, í mörgum smá-
fossum og flúðum, og rýkur oft töluvert úr
henni. Orðið sáð merkir kornmjöl eða sæði,
einnig súpu með mjöli eða fjallagrösum
(grasasáð) sem torvelt er að heimfæra upp á
ána, nema orðið sáð sé stofnskylt sjóða, sem
ekki er hægt að sverja fyrir.
Indriði Gíslason hefur bent mér á að „au“ er
svokallað gamlt tvíhljóð, og hefur líklega í
öndverðu verið borið fram svipað og á [aú] nú,
síðar sem [öí]... (Bréf 16. mars 1999). Þannig er
au líka borið fram í þýsku o.fl. málum. Hugs-
anlegt er því að í örnefninu Sáðá hafi geymst
hinn upphaflegi framburður orðsins Sauðá.
Seyðis-nöfn
Að seyða er önnur mynd af orðinu sjóða, og
af því eru leidd orðin seyður og seyðir, þ.e.
eldhola, eldstæði, einnig no. seyði. Í því sam-
bandi koma strax upp í hugann örnefnin Seyð-
isá, Seyðishólar og Seyðisfjörður.
Seyðisá er alkunnugt vatnsfall á Auðkúlu-
heiði eða nyrst á Kili. Í hana falla árnar Þegj-
andi og Beljandi. Sú síðarnefnda er lindá að
hluta til og vatnsmeiri en hinar þar sem þær
koma saman. Mikið er um flúðir og hylji í þess-
um ám, sem virðast allar vera kenndar við
hreyfingu vatnsins og nið þess.
Seyðishólar eru gíghólaþyrping efst í
Grímsnesi, með bollum og gígtjörnum, sbr. hið
alkunna Ker, sem er í útjaðri þeirra. Hólarnir
virðast því ljóslega vera kenndir við seyði í
merkingunni soðgróf eða pottur.
Um heiti Seyðisfjarðar hefur ýmislegt verið
rætt og ritað, og hafa komið fram ýmsar til-
gátur um uppruna þess. Í Sturlubók Land-
námu er nafnið ritað Seyðarfjörður, og í Drop-
laugarsona sögu Sauðarfjörður. Í „Loðmundar
þætti gamla“ í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússon-
ar (VI, 41) er nafnið sett í samband við seið í
merkingunni galdur.
Þórhallur Vilmundarson getur um tilgátur
nokkurra fræðimanna varðandi heiti Seyðis-
fjarðar, í tímaritinu Grímni 1, 1980, bls. 125.
Flestir hafa þeir sett nafnið í samband við seyð
(eða seyði) í merkingunni „gróf sem soðið er
í“. Hins vegar hallaðist Finnur Jónsson að því,
að nafnið Seyðisfjörður væri dregið af no. seyð
kvk. „Fos uden Vandfald, men bestaaende af
en Strøm, hvori Vandet danner Bobler paa
Overfladen ligesom i en kogende Gryde, sbr.
nyn. saud (Fritzner) (Nam och Bygd 1916,
77).“ Hér er komið býsna nærri þeirri tilgátu
sem ég hef reifað í þessari grein.
Sjálfur kemur Þórhallur með þá skýringu,
að innsti hluti fjarðarins líkist „katli eða
gryfju“, og sé þar af dregið nafnið. Það sama
telur hann geta átt við um Seyðisfjörð við
Djúp. Þessar tilgátur byggjast allar á
tengslum seyðis-nafnsins við so. að sjóða.
Vel má hugsa sér að nafnið sé til komið
vegna hins mikla fossaskrúðs í Fjarðará í
Fjarðardal, sem gengur upp af botni Seyð-
isfjarðar. Þar heitir hæsti fossinn Gufufoss,
sem vísar til úðans frá honum, og þekkja hann
allir sem farið hafa um Fjarðarheiðarveg.
Fossinn blasir við þegar komið er inn á skipa-
lægið innst í firðinum. Í Vestdalsá eru einnig
miklir fossar, sem sjást utar af firðinum. Í eng-
um firði á Austurlandi eru fossar eins áber-
andi, nema ef vera skyldi í Mjóafirði.
Að lokum vil ég þakka þeim frændum mín-
um, Páli Pálssyni frá Aðalbóli, og Indriða
Gíslasyni frá Skógargerði fyrir yfirlestur á
greininni og ýmsar gagnlegar ábendingar.
Páll er allra manna fróðastur um örnefni á
Héraði og Jökuldal, en Indriði er málfræð-
ingur og fyrrverandi íslenskukennari. Þakka
ég honum sérstaklega fyrir málfræðilegar
skýringar, sem ekki eru mín sterka hlið.
Ljósmynd/Helgi Hallgrímsson
Sauðá í Jökulsárhlíð. Áin fellur í grunnu gili og er samfelldur hvítfyssandi strengur frá fjallsbrún
niður á láglendi.
Höfundur er líffræðingur og búsettur
á Egilsstöðum.
Helstu heimildir:
Árni Böðvarsson (ritstj.): Íslensk orðabók. 2. útg., Rvík.
1996.
Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvík.
1989.
Landnáma og Droplaugarsona saga í útg. Fornritafélags-
ins.
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson: Landið
þitt (Ísland). Ýmsar útg.
Þórhallur Vilmundarson: Safn til íslenskrar örnefna-
bókar I og III. Grímnir 1. og 3. hefti, 1980 og 1996.
Örnefnaskrár og landabréf.
Munnlegar og bréflegar upplýsingar, sem getið er í
greininni.