Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2001, Blaðsíða 16
Í
GANGINUM, galleríi Helga Þorgils
Friðjónssonar myndlistarmanns að
Rekagranda 8, stendur nú yfir sýning
Bandaríkjamannsins Charlemagne
Palestine, en sýningunni lýkur í lok
ágúst. Listamaðurinn, sem þekktur er
bæði sem tónlistar- og myndlistarmað-
ur, kom til landsins af því tilefni og sett-
ist niður með blaðamanni eitt rigningarsíðdegi
í vikunni til að ræða um verk sín. Samtalið átti
sér stað undir lágværum nið tónlistar Palest-
ine, sem að þessu sinni er hluti af myndlist-
arverki sem hann sýnir, en hinn eiginlegi sjón-
ræni hluti þess hangir á vegg Gangsins. Þar
gefur að líta tuskudýr af ýmsu tagi sem „pissa“
látlaust í tvö föt sem minna einna helst á Legó-
kubba. Niðurinn í vatninu blandast tónlistinni
sem einkennist af lágstemmdum strengja-
hljóðum, strofum er minna á barnagælur er
blandast kunnuglegum dýrahljóðum. Tenging-
in á milli þessar tveggja þátta verksins er því
margþætt; tónlistin er afar myndræn og „lækj-
arniðurinn“ sem kemur frá tuskudýrunum á
veggnum er einn hljóðgjafanna í tónlistinni.
Palestine segir að hugmyndin að verkinu
hafi kviknað strax þegar Helgi Þorgils sagði
honum frá Ganginum og bauð honum að sýna
þar. „Orðið „Gang-urin“ á ensku þýðir eigin-
lega hópur manna sem pissar,“ segir Palestine
og hlær. „Það kom því af sjálfu sér að ég kæmi
með þetta ákveðna verk hingað. Það vill einnig
svo til að ég hef búið með konu minni í Belgíu
undanfarin ár og þar er þessi fræga stytta af
Mannequin Piss, sem sýnir lítinn dreng pissa,
en hann er einskonar alþýðlegt tákn Brussel
eða Belgíu. Ég fer með alla sem heimsækja
mig í Brussel að skoða þessa styttu og gef þeim
tappatogara í líki styttunnar að skilnaði. Þetta
er þó í fyrsta sinn sem ég geri verk af þessu
tagi, og það var auðvitað ekki fyrr en ég kom
hingað að ég sá að þið notið þessa athyglis-
verðu endingu á mörg orð.“
Í upphafi voru engin skil milli ólíkra þátta
mannlegrar tilveru
Þessi tenging við drenginn sem pissar og
bernskuna er ekki jafn langsótt og ætla mætti,
því Palestine hefur í áraraðir rannsakað það
sem hann kallar „anda tuskudýra“ í verkum
sínum og þær tilfinningar sem slíkar tákn-
myndir bernskunnar eru tengdar í samfélagi
mannanna. Hann segist vera að kanna áþekkar
slóðir í tónlist sinni, en hann hefur verið nefnd-
ur „síbyljukóngurinn“ af þeim sem þekkja til
hans á því sviði. „Tengslin á milli tónlistar
minnar og myndlistarinnar felast í því að ég
reyni að búa til helgimyndir eða íkona úr því
sem ég sé í umhverfinu. Að mínu mati á síbylja
sér helgan uppruna. Meðal frumstæðra þjóða
var hljóð af þessu tagi notað við hugleiðslu og
bænahald. Áhugi minn á þessu spratt upphaf-
lega af einhvers konar innsæi fremur en rök-
hugsun og loks snéri ég mér að þessu rétt eins
og hver annar mannfræðingur. Ég var orðinn
leiður á mínum eigin sakleysislegu uppgötv-
unum í listinni og ákvað að kanna frekar upp-
runa hugmynda og hluta.“
„Helgi Þorgils og vinur hans Jan Knapp
nota einnig íkona og hugsun tengda helgi-
myndum í málverkum sínum í könnun á upp-
runa þeirra,“ segir Palestine, „og í verkum
þeirra felst því endurmat á þekktum hug-
myndum úr málaralistinni. Ég tek þetta þó að-
eins öðrum tökum í minni listsköpun, því í mín-
um huga eiga allir menningarheimar það
sameiginlegt að upphaflega voru engin skil á
milli tónlistar, leikrænnar tjáningar, högg-
mynda, bænahalds og daglegs lífs. Þetta var
allt ein samofin heild. Í okkar vestræna sam-
félagi hefur þetta verið kallað „margmiðlun“
en í rauninni er sú hugmynd mörg þúsund ára
gömul. Í henni fólst þessi undursamlega sam-
þætting á dansi, söng, tali, matargerð, bæna-
haldi, ritlist og ást. Í dag eignum við ákveðnum
þjóðflokkum þessi eigindi og köllum þá frum-
stæða. En það var í rauninni ekki fyrr en á nítj-
ándu öld sem vestrænir menn fóru að flokka
alla hluti og taka þá úr samhengi.“
Charlemagne Palestine er fæddur í Brook-
lyn og kemur úr fjölskyldu gyðinga sem höfðu
komið víða við á leið sinni til Bandaríkjanna.
„Að því leytinu til er ég hinn dæmigerði
flökku-gyðingur,“ segir hann. „Menningu fjöl-
skyldu minnar var sundrað löngu áður en ég
fæddist. Hún var orðin vestræn í flestum skiln-
ingi og ég held að það hafi einmitt verið þess
vegna sem ég bar í brjósti dulda þrá um að
komast að upprunanum og setja hlutina í sam-
hengi á nýjan leik. Ég rakti því slóðina til baka,
ekki einungis slóð minnar eigin menningar,
heldur mannskepnunnar sjálfrar. Þegar litið
er aftur til forneskju má sjá að maðurinn lagði
upp með þessa samþættingu. Þetta hljómar
allt saman mjög háfleygt þegar ég segi frá
þessu svona eftir á,“ segir Palestine afsakandi,
„en sannleikurinn er sá að í upphafi hafði ég
ekki hugmynd um hvað ég var að gera. Ég
hafði einungis þessa sterku þörf sem knúði mig
áfram. Nú, með breyttum tímum, þegar mann-
legt samfélag á Vesturlöndum er orðið mun
fjölmenningarlegra, erum við ekki eins ein-
strengingsleg og við vorum fyrir nokkrum ára-
tugum. Mæri og mörk af öllum toga eru aftur
orðin óljósari.“
Flokkun er andstæð eðli verkanna
Palestine segir að það hafi verið gott fyrir
sig að uppgötva að sú þörf sem knúði hann
áfram í listsköpuninni hafi í rauninni reynst
vera sú sama og knúði frumstæða menn áfram
frá upphafi vega. Samt vill hann ekki heimfæra
list sína upp á tilfinningar fremur en annað,
enda væri slík flokkun andstæð grundvallar-
hugsuninni að baki verkanna.
„Verkin mín fela í sér tilfinningar, hug-
myndir og andlegan veruleika, allt í senn,“ út-
skýrir hann. „Það má því í rauninni t.d. segja
að tónlistin mín í þessu verki, gæti alveg staðið
ein og sér, en þá væri verkið allt mun dap-
urlegra. Samþættingin gæðir það lífi, því sem
heild fjallar verkið ekki einungis um hugmynd-
ir heldur beinlínis um ákveðinn raunveruleika.
Fólk hér á Íslandi þekkir þennan raunveru-
leika ef til vill betur en fólk í öðrum menning-
arheimum. Á Íslandi eru fjölskyldubönd enn
mjög sterk, tengsl fólks við náttúruna eru
ennþá fyrir hendi því allir þekkja fuglana, árn-
ar, rigninguna og vindinn af eigin reynslu. Í
öðrum menningarheimum hefur verið reynt að
temja þessa hluti þannig að þeir valdi ekki
óþægindum. Þegar það er gert verða hug-
myndir okkar um náttúruna og tengsl okkar
mannanna við hana hreinlega óljósari og af-
stæðari. Í því felst jafnframt ákveðin afneitun
á þeim þáttum í lífi okkar sem álitnir eru frum-
stæðir og ótamdir. Þó er það frumstæða og
ótamda vissulega hluti af mannlegu eðli. Þess
vegna er gott að hafa heildarmyndina í huga.
Sumir vilja halda því fram að ég og aðrir sem
hugsa á líkum nótum séu afskaplega róman-
tískir, en að mínu mati er það rangt. Sam-
hengið liggur í eðli hlutanna en ekki í viðhorf-
um manns – jurt er ekki lengur jurt þegar
grasafræðingurinn er búinn að hluta hana alla
í sundur. Jurt er heldur ekki tilfinningalegt
fyrirbrigði frá náttúrunnar hendi, hún bara er.
Þannig er það með mína sýn, ég vil upplifa það
sem er og miðla því í list minni. Það má ekki
gleyma því að þegar við fæðumst „erum“ við
einfaldlega, það sama á við þegar við elskumst
og grátum. Við „erum“ meira að segja þegar
við deyjum og í þó nokkurn tíma þar á eftir,“
segir Palestine og hlær.
Vitsmunaleg nýlendustefna
Að hans mati er vestræn listhefð og mark-
aðurinn í heild sinni mjög fastur í hugmyndum
um línulega framþróun. „Jafnframt er eins og
upprunalegu umhverfi okkar sé hafnað sem
óæðri vitundarmiðju. Við höfum meira að
segja lengi ímyndað okkur að allir sem ekki til-
heyra vestrænni menningu hafi verið ófærir
um að leggja eitthvað markvert fram til menn-
ingararfs mannkynsins. Sem betur fer er þetta
þó að breytast, með meiri upplýsingu og betri
menntun. Um leið verðum við færari í að meta
óræðari reynslu, eins og t.d. af landslagi, að
verðleikum. Það má því í rauninni segja að ný-
lendustefnan hafi ríkt yfir vitsmunum okkar
um skeið, en sé nú loks á undanhaldi.“
Það er ljóst af samtalinu að verk Palestine
hafa fallið illa inn í hefðbundnar skilgreiningar
listheimsins. Til að byrja með var hann talinn
til framúrstefnuhreyfingarinnar í New York,
en sjálfur segist hann aldrei hafa verið álitinn
„virðulegur“ listamaður fyrr en nú, þegar hann
segir aldurinn færa honum þann rétt sjálf-
krafa. „Það sem ég stóð fyrir féll einfaldlega
aldrei í neinn ákveðinn farveg. Meira að segja
þeir sem aðhylltust framúrstefnuna voru
þeirrar skoðunar að þessi tilhneiging mín til að
blanda öllu saman væri hreint óþolandi. Þeim
fannst ég ganga of langt. Í mér bjó bara alltaf
þetta hungur, þessi þrá, sem ég varð að full-
nægja til þess að vera hamingjusamur. Og nú
vill svo til að hugmyndafræðin hefur breyst svo
ég fell betur inn í það sem er viðurkennt.“ Pal-
estine hlær og segir að það hefði auðvitað verið
mun auðveldara í gegnum tíðina að rekast bet-
ur í hópi, sérstaklega fjárhagslega.
„En sem listamaður hefur maður tilhneig-
ingu til að aðhyllast annars konar sýn á heim-
inn en flestir. Ef listrænir „þreifarar“ lista-
manns eru í lagi þá á hann ef til vill auðveldara
með að sjá þróun samtímans fyrir en aðrir. Það
gerist þó ekki vegna þess að listamenn séu gáf-
aðri en aðrir, heldur eingöngu vegna þess að
þeir halda skilningarvitum sínum opnum, á
sama hátt og börn gera áður en þau láta undan
áreiti heimsins,“ sagði Charlemagne Palestine
að lokum.
AÐ LÁTA EKKI UNDAN
ÁREITI HEIMSINS
Morgunblaðið/Sigurður Jökull
Palestine við tuskudýrin sem eru hluti af sýningu hans á „Ganginum“. Hann segist vera hug-
fanginn af þeim andlega veruleika sem býr í táknum á borð við tuskudýr, en í tónlist þeirri sem
hann hefur samið og er hluti af verkinu leitar hann á áþekk mið í frumheimi bernskunnar.
Listamaðurinn Charlemagne Palestine er af gyð-
ingaættum, fæddur í Brooklyn, New York. Hann
segist að mörgu leyti vera hinn dæmigerði flökku-
gyðingur sem í leit sinni að listrænum viðfangsefnum
hefur flakkað á milli listforma, ólíkra landa og
menningarheima. Hann ræddi við FRÍÐU BJÖRK
INGVARSDÓTTUR um tilraunir sínar í listinni til
að stemma stigu við sundraðri vitundarmiðju hins
vestræna heims og afturhvarfi til samþættingar
frumstæðrar menningar.
fbi@mbl.is
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚLÍ 2001