Lesbók Morgunblaðsins - 25.08.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 25.08.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. ÁGÚST 2001 7 að myndin kom út og þurfti að gefa sig fram við lögregluna dag hvern á meðan rannsókn á hlutverki hans stóð yfir. Mistök urðu til þess að hann fékk vegabréf í hendur, hann flúði strax til Englands og síðar til Ameríku og hef- ur síðan hann átt farsælan feril í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Eftir að Henning kom heim til Danmerkur og myndin var komin í vinnslu spurðist sagan út og allt varð vitlaust. Mikil umfjöllun var í blöðum í Suður-Afríku, mótmæli frá utan- ríkisráðuneytinu í Pretoria vegna þess að filmum hafði verið smyglað út úr landinu eftir diplómatískum leiðum í gegnum starfsfólk ut- anríkisráðuneytisins, einnig mótmælti danska viðskiptasambandið í Jóhannesarborg. Til þess að bjarga viðskiptatengslum sínum steig forstjóri Danfoss líka fram og þóttist ekkert hafa vitað af neinu, en það breytti auðvitað engu fyrir Henning. Myndin vakti mjög mikla athygli, eins og Henning segir sjálfur mun meiri athygli en hún átti skilið miðað við listrænt gildi hennar. En það var ekki auðvelt að fá hana frum- sýnda, loks fékkst samþykki til þess að sýna hana í Nygade Teatret. Þar var hún sýnd í sex vikur fyrir fullu húsi. Þá var sýningum skyndilega hætt og sagt að samningur væri um að sýna aðra mynd. En síðan var myndin sýnd um alla Danmörku, ekki síst vegna þrautseigju Hennings sjálfs við að koma henni á framfæri. Dilemma kom Henning Carlsen á alþjóðlega kortið sem eftirtektarverðum kvik- myndargerðarmanni. Næstu myndir hans voru danska myndin „Hvad med os?“ en hún fjallaði um lítinn hóp andspyrnumanna í Dan- mörku eftir að stríðinu lauk. Síðan tók við leikstjórn á sænskri framleiðslu, „Kettirnir“, kvikmyndun á leikriti eftir Finnann Walentin Chorell. Hún fjallaði um líf nokkurra starfs- stúlkna í þvottahúsi. Í einu atriðinu gengur myndatökumaðurinn í sífellu í kringum leik- arana og heldur á myndavélinni. Sú aðferð átti eftir að endurtaka sig síðar hjá þekktum dönskum leikstjóra; Lars von Trier. Sultur Henning Carlsen hefur kvikmyndað tvær af skáldsögum Knuts Hamsun, Sult og Pan. Hugmyndina að „Sulti“ fékk hann þegar hann horfði á leikarann Per Myrberg við tök- ur á „Köttunum“. Hann var svo magur. „Með svona mögrum leikara ætti að vera hægt að kvikmynda Sult eftir Hamsun,“ hugsaði hann. Það var upphafið og 1965 var Sultur tekinn í Ósló. Það var reyndar ekki Per Myrberg sem lék í henni, hann reyndist upptekinn, en í stað hans kom Per Oscarsson sem lék hlutverkið frábærlega. Mikil vinna fór í að finna rétta andrúmsloftið, en bókin gerist árið 1890. Svo heppilega vildi til að auðvelt var að finna þó nokkra staði sem ekkert höfðu breyst á þeim sjötíu árum sem liðin voru. Ekki var lögð mikil áhersla á leikmyndina heldur var séð um að ekkert í bakgrunni gæti verið frá öðrum tíma en 1890 en síðan var ekki lögð frekari áhersla á það. Annað atriði kom upp við tökur en það var sú uppgötvun að ef notaðar voru langar linsur sem breyttu sjónarhorninu urðu tök- urnar skyndilega mun trúverðugri, eins og gamli tíminn birtist á meira sannfærandi hátt. Eftir að tökum lauk áttaði Henning sig á því að myndin minnti á margan hátt á uppáhalds- mynd hans frá árum áður „La Casque d’Or“, sem einnig á að gerast um aldamótin 1900. Komeda Það var Krzysztof Komeda-Trzcinski, kall- aður Komeda, sem gerði tónlistina við Sult, eins og við „Hvad med os“, „Kattorna“ og „Mennesker mødes og sød musik opstår i hjertet“. Vinátta Hennings og Komeda var einstök og samvinna þeirra afar sérstök. Vik- um saman sátu þeir við klippiborðið og fóru yfir atriðin ramma fyrir ramma, þeir töluðu saman á þýsku, máli sem hvorugur þeirra tal- aði vel. Komeda var fyrst og fremst djasspían- isti. Hann gerði einnig tónlist við nokkrar af myndum Romans Polanskis. Vinnubrögð hans voru stundum óvenjuleg. Þegar hann vann að tónlistinni við „Sult“, dvaldist hann á heimili Hennings. Einn morguninn þegar Henning kom á fætur kom hann að flyglinum opnum upp á gátt, risastór fimmtán kílóa Biblía hélt niðri öðrum pedalnum og upp við flygilinn stóð vinnustigi. Kvöldið áður hafði Komeda spurt börnin á heimilinu hvort þau gætu nokk- uð lánað honum strokleður og fengið ein sjö eða átta stykki. Þau fann Henning á milli strengjanna í flyglinum. Á strengjunum hafði verið komið fyrir hljóðnema. Tilraunin hafði falist í því að láta strokleður detta úr mismun- andi hæð á strengina. Árangurinn má heyra á mörgum stöðum í „Sulti“. Komeda lést um aldur fram, aðeins 38 ára að aldri. Það eru engar ýkjur að segja að „Sultur“ hafi slegið í gegn á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1966. Hún vann þó ekki Gull- pálmann, heldur var það Per Oscarsson sem fékk hann fyrir besta leik í karlhlutverki. Myndin vakti mikla athygli, hlaut mikið lof og útvegaði Henning sambönd víða um heim sem hann hefur haldið við síðan. Tilboðunum rigndi yfir hann en hann neitaði þeim öllum. Myndin verður að koma til mín, segir hann, ég þarf að finna hjá mér þörf til þess að gera hana, annars gengur það ekki. „Sultur“ átti fyrir sér mikla sigurgöngu út um víðan völl og vann til ótal verðlauna. Æ síðan, segir Henn- ing, hef ég fengið að heyra að „Þetta var ágæt mynd, Hr. Carlsen – en Sultur var nú betri: Ætli fólk sér að skapa meistaraverk er betra að gera þau á síðari hluta ferilsins, ekki í upp- hafi. Það er svo auðvitað annað mál ef fólk ætlar sér að skapa fleiri en eitt.“ ... og ljúfir tónar lifna í hjörtum Næsta mynd sem „kom til“ Hennings var bók Jens August Schade, „Mennesker mødes og sød musik opstår í hjertet“ er ástarsaga, reyndar eins konar útópía um frjálsar ástir. Hann hóf samvinnu við danska skáldið Poul Borum, við að búa til handrit upp úr bókinni. Í stað þess að skrifa handrit skrifaði Borum eitt hundrað og fimmtíu ljóð, eitt ljóð um hverja senu í myndinni. Eitt þeirra hljóðar svona í þýðingu undirritaðrar: 1. lest er nokkuð eins erótískt og lest? þegar hún kemur - ÆÐANDI þegar gufuna leggur upp úr STROMPIN- UM – þegar stimplarnir, stimplarnir, STIMPL- ARNIR snúast eins og pumpandi útlimir – þegar stór, svartur LÍKAMINN rennur áfram, SLANGA úr járni, bam – bam babadaBUMba, babadaBUMba, bababaB- UMba taktur, tekur yfir, málmur, og reykur, og HRAÐI – er nokkuð eins erótískt eins og eins og lest eins og lest eins og lest Einhvern veginn gæti ég ímyndað mér að það væri upplífgandi að sjá „kvikmyndahand- rit“ af þessum toga í dag, þegar flestir eru svo atvinnumannslegir í háttum. Fá handrit kom- ast í vinnslu á Íslandi í dag nema að fara í gegnum hendur „handritalæknisins“ amer- íska sem kemur árlega í heimsókn og vinnur með þeim sem hlotið hafa styrki úr kvik- myndasjóði. Alla vega er óhætt að segja að þetta handrit Paul Borum sé barn síns tíma, hvað sem manni finnst um aðferðina. Um þessa mynd segir Henning Carlsen sjálfur að hún sé nú ekkert sígilt meistarverk, en hún gekk vel. Kannski spillti þetta með frjálsu ástirnar ekki fyrir en takmarkið var að gera ljóðræna mynd um ástina. Hrapið og nýr frami Svo kom hrapið. Það var mynd sem heitir „Klabautermanden“. Hún fékk hræðilega dóma. Draugur hennar fylgdi Henning í rúm tíu ár, ekki aðeins var hún stórslys fyrir efna- haginn sem dró dilk á eftir sér, ósigurinn var andanum einnig erfiður. Lengi á eftir reyndi hann að sjá fyrir sér hvernig henni yrði bjarg- að. Endurklipping, litun, nýtt þetta eða hitt. Það var ekki fyrr en Henning hitti Francois Truffaut í París 1979 að hann læknaðist. Þeir sáu myndina saman og ræddu hana í marga tíma á eftir. Loks sagði Truffaut; „Þessi mynd hefur sinn takt, sín einkenni, sína sál. Láttu hana vera.“ Og það gerði hann. 1968 kom Dagmarbíóið til sögunnar. Ég held að í Danmörku sé Henning Carlsen jafn þekktur fyrir áralanga bíóstjórn sína og það úrval mynda sem hann jafnan sýndi og fyrir myndir sínar. Sýningarstjórnin þar var löng og skrautleg saga sem ekki verður farið út í hér, en Henning rak Dagmar bíóið allt til 1981. Margir Íslendingar kannast án efa við Dagmar, það er rétt hjá Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn. Dagmar er að vísu ekki eins „menningarlegt“ í dag og það var í tíð Henn- ing Carlsen. Saga bíórekstursins væri efni í aðra grein, og verður ekki sögð hér, en Henn- ing var á sínum tíma afar ósáttur við að hætta sem kvikmyndahússtjóri. Upp úr 1970 hóf Henning vinnu að næstu mynd, í þetta sinn í samvinnu við Benny Andersen, en ljóð hans hafa verið þýdd og út- gefin hér á landi. Myndin hlaut nafnið „Man skúvære noget ved musikken“. Í þetta sinn var heppnin með í för og allt gekk eins og í sögu. Myndin gerist að mestu á og í kringum kaffihús eitt og og fjallar um fastagestina sem það stunda. Hún fékk frábæra dóma og við- tökur og þótti vera nýjung í dönskum gam- anmyndum. Í kjölfar hennar fylgdi frönsk- dönsk framleiðsla „Un divorce heureux“; „Hamingjuríkur skilnaður“. Síðan kom mynd um atvinnuleysi í Danmörku, gerð eftir skáld- sögu frá árunum milli stríða og heitir, „Hör, var der ikke en som lo“. Hún fékk góða dóma en dræma aðsókn, kannski stóð efni mynd- arinnar fólki of nálægt. Á frönsku fékk hún fyrir misskilning hið dularfulla en fallega nafn „Un rire sous la neige“, eða „Hlátur undir snjónum“, en í síðustu senu myndarinnar leggst aðalpersónan til hvílu á bekk og síðan fer að snjóa svo hann verður alþakinn drif- hvítu teppi. Úlfur í sólskini 1980 var Henning lagður inn á sjúkrahús, hann hafði fengið blóðtappa í hjarta. Hann þurfti að vera á sjúkrahúsinu um tíma. Eina nóttina vaknaði hann við merkilega sýn; það var eins og kvikmynd væri varpað á ljósgræn- an vegg sjúkrastofunnar. Þetta var atriði sem átti sér stað í nýlaufguðum beykiskógi. Hest- vagn með ekli og litlum hópi fyrirfólks klæddu nítjándu aldar fötum kom akandi eftir skóg- arveginum. Við beygju á veginum nam vagn- inn staðar og herramaður steig úr honum. Henning vissi strax að þetta var enginn annar en Paul Gauguin, þótt hann myndi ekki eftir að hafa séð mynd af honum á þessum tíma. Þegar Gauguin var kominn niður úr vagninum sneri hann sér að hópnum, tók ofan og sagði á dönsku; „Jeg anbefaler mig.“ „Ég mæli með mér“, síðan hvarf hann út úr myndinni í átt að glugga sjúkrastofunnar. Hópurinn sat opin- mynntur eftir, en kona stóð upp og kallaði; „Paul!“ Síðan bankaði einn herranna í vagn- inum létt í öxl ekilsins, vagninn fór af stað og konan féll afturábak í sætið sitt. Vagninn ók út úr myndinni í átt að sjúkrahússganginum. Gauguin var sem kunnugt er kvæntur danskri konu og bjó í Danmörku um tíma. Hjónabandið ver ekki gæfuríkt og endaði með því að hann fór, eða var hrakinn frá henni og börnum þeirra. Þegar haft er í huga að Henning hafði oft- sinnis sagt að myndir yrðu að „koma til hans“, er ekki hægt að segja annað en að myndin um Paul Gauguin hafi svo sannarlega gert það. Þegar Else, kona hans, kom í heimsókn þrem- ur tímum síðar sagði Henning; „Ég ætla að gera mynd um Paul Gauguin.“ Það gerðist nú ekki einn, tveir og þrír. Í millitíðinni gerði hann myndina „Peningana eða lífið“, sem tapaði fyrir heimsmeistara- keppninni í handbolta; ekki fyrr var myndin komin í bíó en Danmörk safnaðist saman við sjónvarpsskjáinn að fylgjast með handbolta- keppninni. Umsókn um handritsstyrk að ann- arri mynd var hafnað á þeim forsendum að „nú hefði Henning Carlsen gert nóg af póli- tískum myndum“. Þá tók við handrit um sögu dönsku verkalýðshreyfingarinnar, sem var svo hafnað vegna þess að það þótti of „rautt“. 1983 fékkst loks grænt ljós á Gauguin og Henning uppgötvaði Biblioteque Nationale í rue de Richelieu í París. Hann segir að ef ein- hver hefði verið til í að borga honum fyrir það, sæti hann þar enn í dag, svo spennandi fannst honum það. Þar sat hann í fjóra mánuði, fletti bókum, blöðum og tímaritum og drakk í sig andrúmsloft Parísarborgar undir aldamót 1900. Tekist hafði að fá Donald Sutherland til þess að leika Gauguin sem þýddi líka að myndina varð að taka á ensku. Ung dönsk stúlka fékk sitt fyrsta en ekki síðasta hlutverk í þessari mynd, það var Sofie Graaböl, afar hæfileikarík og ein vinsælasta leikkona Dana í dag. Hún var þá sautján ára. Á frönsku fékk myndin nafnið „Un loup dans le soleil“, „Úlfur í sólinni“, en Gauguin kallaði sjálfan sig oft úlf. Á dönsku fékk hún nafnið „Oviri“, en þannig áritaði Gauguin verk sín á Tahiti. Oviri þýðir hinn villti, eins konar staðfesting á því að hann hafði yfirgefið „siðmenninguna“. Myndin var frumsýnd í Feneyjum 1985 og á frumsýningu fékk hún frábærar viðtökur. En það varði ekki lengi. Næsta dag var hún sölluð niður. Þegar Henning kom heim mætti honum fréttamaður á flugvellinum. Sá var búinn að fá sér einn öl eða tvo og skóf ekki utan af því. „Jæja, Henn- ing,“ sagði hann. „Nú ert þú dauður maður í danski kvikmyndagerð. Hvernig líst þér á það? “ Tvær grænar fjaðrir Pan er ein af skáldsögum Knut Hamsun. Hún gerist í sjávarþorpi í Noregi og fjallar um stutt og endasleppt ástarsamband milli ungs liðsforingja sem kemur til þorpsins í frí, Glahn liðsforingja og Edwördu sem er dóttir „þorps- eigandans“, faðir hennar á útgerðina ásamt flestu öðru á staðnum. Hún er dyntótt og sér- stök, hann er sérvitur, talar við trén og hlust- ar á grasið gróa. Bókin er afar falleg og nátt- úrulýsingarnar yndislegar. Í lok bókarinnar er eftirmáli sem segir frá dauða Glahn, en hann lést af voðaskoti. Í mynd sinni sem Henning gerði árið 1995 tók hann þá vel lukk- uðu ákvörðun að fella eftirmálann inn í mynd- ina. Pan er í alla staði vel heppnuð mynd, sér- staklega er leikur Sofie Gråböl eftir- minnilegur, en hún leikur hina ungu og þóttafullu Edwördu einstaklega vel. Hilmar Örn Hilmarsson gerði tónlistina við „Pan“. Fundum Hennings og Hilmars bar fyrst saman er Hilmar Örn vann til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir tónlist sína við „Börn náttúrunnar“, en þá var Henning Carl- sen í dómnefnd. Síðan hittust þeir aftur í París 1992, á ráðstefnu um framtíð evrópsku kvik- myndarinnar. Við það tækifæri kom Henning að máli við Hilmar og bað hann að gera tón- listina við „Pan“. Sú samvinna gekk mjög vel og samstarfið var endurtekið í næstu mynd Hennings, „I wonder whós kissing her now“. Pan fékk góða dóma, eins og hún átti skilið og gekk frábærlega vel í Noregi. Í fyrsta sinn fékk Henning að heyra að hann hefði gert mynd sem væri „næstum því eins góð og „Sultur““. „Pan“ gekk hins vegar misvel á al- þjóðlegum vettvagni, eins og Henning segir sjálfur þá eru persónurnar of sérvitrar og dyntóttar, liggur við hreinlega bilaðar og end- irinn er tragískur. Einhverjir hér heima muna kannski eftir „Pan“ en hún var sýnd í íslenska ríkissjónvarpinu sl. vetur. Danskur húmor Henning Carlsen hefur gert þrjár tegundir mynda – heimildarmyndir, gamanmyndir og drama. Nýjasta gamanmyndin var „Hver skyldi vera að kyssa hana núna?“ en hún er gerð eftir skáldsögu Ib Lucas, Silhouetter, eða Skuggamyndir. Myndin fékk endanlegt nafn sitt eftir gömlu dægurlagi „I wonder whós kissing you now“, en titlinum var breytt lítillega. Hún segir frá raunum afbrýðisams kvikmyndagerðarmanns og er full af þeim hlýja húmor sem hefur einkennt Dani í ára- raðir, en virðist nú sjást minna og minna. Í staðinn hefur komið síaukið ofbeldi – og dogmamyndir, en vonandi eru Danir ekki al- veg búnir að glata húmornum. Nýjasta mynd Henning Carlsen var svo gerð á síðasta ári og er heimildarmynd um danska blaðamanninn, leikhúsgagnrýnandann og rithöfundinn Frederik Dessau. Henning Carlsen er nú kominn á þann ald- ur þegar jólin eru sífellt á næsta leiti, eins og segir í tilvitnun í Poul Reumert í ævisögu hans. En hans síðasta mynd hefur ábyggilega ekki verið gerð. Tommy Kenter og Marika Lagercrantz í hlutverkum sínum í myndinni Hver ætli sé að kyssa hana núna? eftir Henning Carlsen en hún verður sýnd í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Höfundur er myndlistarmaður og rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.