Lesbók Morgunblaðsins - 25.08.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 25.08.2001, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. ÁGÚST 2001 11 GAGARALJÓÐ hefur fjórar kveður í hverri línu og eru allar línur stýfðar. Endarímið er víxlrím eins og í ferskeytlu. Hátturinn virðist koma fyrst fyrir í Pontusrímum Magnúsar Jónssonar prúða (um 1525–1591) og verður síðan nokkuð vinsæll rímnaháttur. Eftirfar- andi vísa Kristjáns frá Djúpalæk er undir hættinum óbreyttum: Sólu brenndan sá ég mann, sem í viskí hefur þyrst, vera að greiða hár sem hann hefur fyrir löngu misst. Kolbeinn Grímsson Jöklaraskáld (á 17. öld) kveður í Sveins rímum Múkssonar gagaraljóð þar sem önnur kveða hverrar línu rímar við síðustu kveðu. Nefndi hann síðar háttinn Kol- beinslag þar sem hann taldi sig höfund hans. Í Sveins rímum er til dæmis þessi vísa í man- söng: Soddan snót er sinnisbót sómagegn, ef ann hún þegn, angurs rót svo eyðir fljót eins og regnið tundurs megn. Sé hálfrím á milli frumlína (fyrstu og þriðju línu) og síðlína (annarrar og fjórðu línu) nefnist hátturinn gagaravilla. Er eft- irfarandi dæmi um hana sótt í Háttatal Sveinbjarnar Beinteinssonar: Værrar hvíldar nú í nótt njóti fólkið vinnuþreytt. Svefninn gefur þrek og þrótt þeim sem hafa kröftum eytt. Langhent eða langhenda hefur í öllum braglínum einu atkvæði fleira en ferskeytla og eru því frumlínurnar (fyrsta og þriðja lína) óstýfðar en síðlínurnar (önnur og fjórða lína) stýfðar og einni kveðu lengri en síðlínur fer- skeytlu. Sem dæmi um óbreytta langhendu má taka þessa aðsendu vísu ÞK: Ársól tindinn efsta glitar, allt er landið geislum stráð. Örn í lofti háu hnitar, horfir eftir veiðibráð. Hátturinn er nokkuð gamall í rímum og ortu bæði Bjarni Jónsson Borgfirðingaskáld (um 1577–1653) og Guðmundur Bergþórsson (um 1657–1705) undir hættinum breyttum og Sigurður Breiðfjörð hafði á honum mikið dá- læti eins og sjá má til dæmis í Númarímum. Til þeirra vitnar Guðmundur Böðvarsson í þessari víxlhendu langhendu en sá háttur hefur einnig verið nefndur skrúðhent: „Móðurjörð hvar maður fæðist,“ man ég sönginn hvar ég fer, þó í hörðu hjartað mæðist hann mun löngum fylgja mér. Nýhenda er eins og ferskeytla nema hvað síðlínur hennar eru einni kveðu (tvílið) lengri en síðlínur ferskeytlu. Sigurður Breiðfjörð er jafnan talinn höfundur háttarins og var hún því einnig nefnd Sigurðarbragur.1 Undir hættinum óbreyttum er þessi aðsenda vísa sem merkt er ÞK: Yfir loftið líður sól, lengir dag og styttast nætur. Hlýnar fold sem fyrrum kól, festir gleðin nýjar rætur. Og undir hættinum oddhendum og hring- hendum orti Valdimar Benónýsson frá Æg- issíðu þessa vísu til Sveins Hannessonar frá Elivogum og vísar um leið til frægrar vísu eftir Svein undir sama hætti: Ei er leyft að skeiki skeift skeyti hleypt af þínum boga. Eins og leiftur lýsa dreift ljóðin steypt við Elivoga. Vísur frá lesendum: Lesendur eru hvattir til að senda inn vísur undir ofangreindum bragarháttum á vefsíð- una: www.ferskeytlan.is eða í pósti með ut- anáskriftinni: Vísnaþáttur Ferskeytlunnar, Ferskeytlan, Háholti 14, 270 Mosfellsbær. Heimildir: 1 Sjá Helgi Sigurðsson: Safn til bragfræði íslenzkra rímna, bls. 172. VÍSNAÞÁTTUR GAGARALJÓÐ, LANGHENT OG NÝHENT Kristján er íslenskufræðingur og Jón Bragi verkfræðingur. U M S J Ó N K R I S T J Á N E I R Í K S S O N O G J Ó N B R A G I B J Ö R G V I N S S O N Hver eru félagsleg áhrif hvít- flibbaglæpa á samfélagið og hvernig skilgreinir samfélagið hvít- flibbaglæpi? SVAR: Árið 1939 vakti þáverandi forseti bandarísku afbrotafræðisamtakanna, Edwin Sutherland, fyrst athygli á viðskiptabrotum í setningarræðu sinni á ársþingi bandarískra afbrotafræðinga. Hugtakið „hvítflibbabrot“ (white collar crime) kom þar fyrst fram í ræðu hans en hefur síðan orðið vel þekkt á Vesturlöndum. Brot af þessu tagi fela í stuttu máli í sér misnotkun á mikilvægri valdastöðu til ólögmæts ávinnings. Rannsóknir á hvítflibbabrotum hafa verið viðamiklar á síðustu áratugum, sérstaklega í Bandaríkjunum, og hafa margir sérhæft sig á þessu sviði. Fræðimenn eru almennt sammála um að viðskiptabrot séu meðal þeirra alvar- legustu í samfélaginu. Þetta sjónarmið tengist áhrifum brotanna á samfélagið, áhrifum sem talin eru í það minnsta jafnalvarleg, ef ekki alvarlegri, og áhrif hefðbundinna glæpa á borð við þjófnaði, rán, ofbeldi og jafnvel manndráp. Tjón samfélagsins vegna viðskiptabrota er ekki eingöngu fjárhagslegt heldur einnig heilsufarslegt og er jafnframt talið draga úr sið- ferðisvitund borgaranna. Efnahagslegt tjón birtist á margvíslegan hátt og er talið mun meira en hlýst af venjulegum strætisbrotum. Ólögmætt samráð um verð, vörusvik og brot á lögum um einokun og hringamyndanir eru fá- ein dæmi um tjón af þessum toga. Heilsutjón birtist í því hvernig fyrirtæki, ýmist vísvitandi eða af vanrækslu, valda starfstengdum dauðs- föllum, sem eru talin umtalsvert fleiri en morð, fyrir utan ýmsa starfstengda sjúkdóma vegna óviðunandi vinnuaðstæðna. Tjón á siðferðisvit- und felst í því að traust borgaranna á helstu stofnunum samfélagsins minnkar og má nefna að í kjölfar Watergate-hneykslisins í Banda- ríkjunum á áttunda áratug síðustu aldar dró mjög úr trausti borgaranna á stofnunum rík- isins. Sú afstaða er ríkjandi innan afbrotafræðinn- ar að réttarvörslukerfið leggi mun meiri áherslu á að uppræta strætisbrot en viðskipta- brot og að þau séu ekki tekin þeim tökum sem alvara þeirra óneitanlega kallar á. Viðhorfa- mælingar sýna þó að borgarar á Vesturlöndum telja yfirleitt hefðbundin strætisbrot mun al- varlegra samfélagsvandamál en viðskiptabrot sem vissulega endurspeglar áherslur réttar- kerfisins. Til að sporna gegn viðskiptabrotum verði að koma til öflugra mótvægi borgaranna og brotin verði að vekja meiri reiði og hneyksl- an í samfélaginu en þau gera almennt í dag. Ýmislegt bendir reyndar til að afstaðan sé að breytast og viðskiptabrot séu nú tekin fastari tökum en stundum áður og ekki síst hefur um- fjöllun í samfélaginu leitt til áherslubreytinga af þessu tagi. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Af hverju heita allir puttarnir fingur nema einn sem heitir TÖNG, langa- töng? SVAR: Miðfingur handarinnar er oftast nefndur langatöng en í eldra máli einnig langastöng. Hugsanlega er sú mynd upprunalegri og vísar til þess að þessi fingur stendur fram úr hinum eins og löng stöng. Til gamans má nefna að fing- urnir hafa flestir fleiri en eitt nafn. Talið frá þumli eru þau: þumall, þumalfingur, þumalputti vísifingur, sleikifingur, bendifingur langastöng, langatöng baugfingur, hringfingur, græðifingur litlifingur, litliputti, lilliputti. Tærnar hafa einnig sín nöfn þótt ekki séu þau eins útbreidd og nöfnin á fingrunum. Talið frá stóru tá eru þau: stóratá, Vigga, Dyrgja, Stóra-Jóa Háa-Þóra, Bauga, Nagla-Þóra Stutta-Píka, Geira, Langa-Dóra Litla-Gerður, Búdda, Stutta-Jóra litlatá, Lilla, Grýta, Litla-Lóa. Guðrún Kvaran, forstöðumaður Orðabókar Háskólans. Hvaðan er komið slanguryrðið „steypa“ í merkingunni bull eða vitleysa? SVAR: Slanguryrðið steypa í merkingunni „vit- leysa“, „bull“ er sennilega íslenskt að uppruna. Að öllum líkindum er verið að líkja innihaldi höfuðkúpunnar við hinn gráa massa sem steyp- an er. Fyrir um tíu til fimmtán árum var al- gengt að segja að einhver hefði „steypu í hausn- um“. Nú virðist algengara að tala um að eitthvað sé (alger) steypa. Um svipað leyti var talað um að vera með „malbik í hausnum“ en það virðist ekki hafa náð sér á flug. Eldra í mál- inu er að tala um að einhver hafi graut í hausn- um og að sá sé grautarhaus sem þykir ekki skýr í hugsun. Guðrún Kvaran, forstöðumaður Orðabókar Háskólans. HVER ERU FÉLAGSLEG ÁHRIF HVÍTFLIBBAGLÆPA? Í vikunni sem er að líða fjallaði Vísindavefurinn meðal annars um hvað orðasambandið sjálfbær þróun merkir, af hverju asískt fólk er með skásett augu, hvaða reglur gilda um þéringar og uppruna orðatiltækisins lengi býr að fyrstu gerð. VÍSINDI Morgunblaðið/Kristinn „Sú afstaða er ríkjandi innan afbrotafræðinnar að réttarvörslukerfið leggi mun meiri áherslu á að uppræta strætisbrot en viðskiptabrot ...“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.