Lesbók Morgunblaðsins - 25.08.2001, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 25.08.2001, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. ÁGÚST 2001 Þ Ó AÐ í Edinborg standi yfir um þessar mundir í rauninni tvær listahátíðir, þ.e.a.s. hin opinbera hátíð sem fyrst var haldin 1947 og svo Jaðarshátíðin sem óhindraðri hefur smátt og smátt vaxið fiskur um hrygg, eru þessar hátíðir í hugum margra ein allsherjarlistahátíð. Skipulögð þátttaka leikhópa sem deila með sér sýningarstað og auglýsingakostnaði færist í aukana á Jaðarshátíðinni, ein slík samtök, Aurora Nova, eru samsafn alþjóðlegra leik- húshópa sem bjóða upp á sérvalin leikhúsverk frá tíu löndum á sýningarstað no. 8 sem er St. Stephens-kirkjan í Edinborg. Kirkjan er óvenjulegt sambland af arkitektúr sem sam- anlagt hefur skapað drungalega og ókristilega byggingu sem situr lúmskulega fyrir botni hins hallandi Fredricks-strætis. Í baksal í kirkjunni, sem tjaldaður er svörtum tjöldum, fer flutningur leikhúsverkanna fram. Þessi salur er að mörgu leyti heppilegur fyrir fá- menna leikhópa en bekkirnir eru harðir, sjálf- ur Calvin hefði örugglega kvartað. Teatr Provisorum Lublin frá Póllandi setti hér nýlega á svið sýningar á Ferdydurke eftir Witold Gombrowicz (1904–1969) sem enn þann dag í dag er talinn skelfir í pólsku menn- ingarlífi, bæði sem rithöfundur og hugsuður. Ferdydurke er óvenju frumleg útfærsla á kaldhæðnislegri skáldsögu W. Gombrowicz þar sem koma skýrt fram áhrif súrrealisma, dadaisma og meðferð skáldsins á frægum klassískum ritverkum sem æði oft er vísvit- andi afskræming. Sláandi einfaldleiki Uppfærsla Witold Mazurkiewicz og svið- setning Jerzy Rudzki hefur verið lengi í mót- un og þróast smátt og smátt í þá frábæru sýn- ingu sem Ferdydurke er orðin. Svört tjöld umlykja lítið svið þar sem innan tréramma er bekkur, borð og færanlegur gluggakarmur með rúðum í, hægt er að opna og loka þessum glugga. Þessi sláandi einfald- leiki skapar þegar sterka stemmningu en svo heyrist einn stórkostlegasti strengjakvartett Beethovens, sá í es dúr op. 127 fluttur í bak- grunni af hljómflutningstækjum. Hvað vakir fyrir leikhússtjóranum með þessu er ekki al- veg ljóst. Er hér verið að minna á hversu göf- ugur maðurinn getur verið og hversu djúpt hann getur sokkið, eins og fram kemur í leik- ritinu sjálfu? Þrír karlleikarar koma fram til aðbyrja með og eru á sviði allan tímann, sá fjórði bætist við seinna. Strax í upphafi hefst leikur, svo öruggur, hraður og hnitmiðaður að leikhús- gestir eru fangaðir á þessum hörðu bekkjum og ekki sleppt fyrr en eftir 80 mínútur. Mér datt í hug skröltandi, æsandi og hávær lest- arferð á vafasömum og hættulegum teinum. Farið er með textann á ensku, sem er svívirði- lega nærgöngull og fyndinn, hláturinn kraum- ar í þindarstað allan tímann. Sparkað er í sið- ferði, ýmsar kærkomnar hefðir, hræsni, karlmennsku og undirheimar hugans opnaðir á gátt. Raddbeiting var stundum svo hávær að ég örvænti um raddbönd leikaranna en ef hægt er að tala um galla voru þeir fljótt fyrirgefnir. Í stórum dráttum er söguþráðurinn þessi: Jozio er 30 ára gamall þjónn sem þvingað er inn í frumskóg æskuminninganna. Ásamt félögum sínum þurfti hann að þola illa með- ferð í æsku þar sem ofbeldi, stríðni og smán var daglegt brauð. Í skóla tekur ekki betra við, þar kynnast þeir fínlegum tilbrigðum af því sama. Dularfullt ferðalag á sér stað út í sveit þar sem á virðulegu sveitasetri frænda hans skemmtir yfirstéttin sér við að lumbra á þjón- ustufólkinu og misnota bæði þernur og hesta- sveina undir yfirborði uppgerðarvelsæmis. Ógeðfelldar athafnir manneskjunnar Andlitsglennustríðið í Ferdydurke og svo notkun hans á mörgum ógeðfelldum athöfnum manneskjunnar sem eru þó hluti af lífinu eiga rætur sínar í sérstæðum kenningum Gombro- wicz um ástæðurnar sem liggja að baki mann- legri hegðun. Í skólastofuþættinum eru fjórir karlleikar- ar og er engu líkara en þeir séu sem sam- vaxnir fjórburar sem lifa þó sínu sérstaka lífi. Frá upphafi til endaloka eru leikararnir í þrúgandi návígi á þessu örsmáa sviði. Margt sem gerist á sviðinu gengur nærri áhorfand- anum, en það er alltaf sannleikstónn og skop innifalið, og öryggi, leikni, hugmyndaflug og reynsla þessa leikara skapa því sem næst al- gert leikhús þar sem aldrei er slakað á. Hörðu bekkirnir gleymdust alveg. Þar til sýningunni lauk. Í sömu salarkynnum sá ég nokkru seinna leikhóp frá Japan sem nefnist Mizuto Abura og samanstendur einnig af fjórum leikurum, þremur karlmönnum og einni konu. Leikhús- verkið sem þau sýna nefnist Cellophane Sing- ular og er allt sviðið notað. Í bakgrunni er leikin tónlist frá upphafi til enda sem er ein- föld og minnir á stílfærða en vísvitandi brenglaða kaffihúsamúsík franska frá 1930 eða þar um bil. Þó að á yfirborðinu virðist þetta leikhús- verk einfalt er hér leikið á útsmoginn hátt með þversagnir og áhorfendur lokkaðir í hverja gildruna á fætur annarri, aðeins til að frelsast aftur óvænt til að hefja aftur nýtt æv- intýri. Hér sameinast látbragðslist, glettni, dans, líkamsatgervi og ljóðrænar sjónhverfingar. Miðað við Ferdydurke er þetta leikhúsverk létt og leikandi og afar fágað þar sem ríkir hinn sérstaki japanski agi. Áhorfendum er í rauninni færð töfrandi gjöf, pökkuð inn í cello- phane-pappír. Ferðalagið hefst með lestri bókar þar sem lesandinn, eftir að hafa lesið nokkuð lengi, dettur út af og fer inn í töfra- heim bókarinnar, dýpra og dýpra, þar sem ríkir óraunveruleiki blandaður rökrænum lög- málum sem virðast tilheyra öðrum heimi. Hvert óvænt atriði rekur annað þar til lesand- inn vaknar óvænt með bókina í höndum. Það sem kom líklega mest á óvart voru afar fín- gerð augnablik þar sem ljóðrænar sjónhverf- ingar komu tímanum til að standa kyrrum. Í Assembly Rooms í George Street (sýning- arstað no. 5), þar sem yfirstéttin í Edinborg hélt hér áður fyrr stórdansleiki, eru fjölda- mörg leikrit sýnd á vegum Jaðarshátíðarinnar í stórsölum sem hólfaðir hafa verið í smá- leikhús. Í einum af þessum sölum eða öllu heldur leikhúsum fór fram ein merkilegasta leiksýning sem ég man eftir að hafa séð; Antigone í endurskrifum Jean Anouilh’s og í uppfærslu Marjanishvili-leikhópsins frá Georgíu. Leikstjóri þessarar sýningar var Temur Chkheidze. Þetta fræga leikrit í endurskrifaðri útgáfu Jean Anouilh’s er í meðförum þessara frá- bæru leikara – sem eiga vart til hnífs og skeiðar heimavið – viss endurspeglun á at- burðum sem átt hafa sér stað í Georgíu á und- anförnum árum þar sem þeir sem börðust fyr- ir breytingum náðu síðan völdum en þurftu að berjast við eigin samvisku þegar ófullkomnum lögum þurfti að beita í þágu langvarandi heildarstefnu, fjöldanum til góðs að talið var. Þungamiðja verksins er harmþrungið sam- band hinnar uppreisnargjörnu Antigone við frænda sinn Creon konung sem verður að framfylgja landslögum sem banna að hún jarðsetji sigraðan bróður sinn, Polynices. Creon neyðist til að framfylgja lögum til að koma á friði á yfirráðasvæði sínu. Harmi sleg- inn lætur hann lífláta Antigone. Hvítglóandi spenna Það væri fróðlegt að sjá þessa uppfærslu í Georgíu þar sem reynsla leikaranna á atburð- um í sínu heimalandi á sér sterka samsvörun í þessu leikriti. Otar Megvinetukhutsesi sem leikur Creon er eldri maður, hávaxinn, tígulegur og virðu- legur, sem áreynslulaust skapar spennu sem smásaman verður hvítglóandi þótt hreyfingar hans séu látlausar. Samband og samleikur Nato Murvanidze – sem leikur Antigone, og þessa aldraða leikara sem marineraður er í gegn af leikhúslist – er ofar öllu lofi. Þau eru einfaldlega sönn og halda hjarta áhorfandans í höndum sér. Í lokaatriðinu þar sem Creon og Antigone deila af örvæntingu og heift nær hinn mikli Othar slíkum áhrifum að mér datt í hug þegar ég sem drengur nálgaðist eitt sinn Dettifoss í þoku. Fyrst var ekkert nema nafnið Dettifoss, svo heyrðist fjarlægur niður, sem hægt og hægt fór vaxandi, síðan fann ég vaxandi titr- ing jarðar og ógnvekjandi hávaða og skyndi- lega sá í fossinn, mógráan og skelfilegan. Töluverður fjöldi leikara kemur fram í þessu fræga leikriti og fóru þeir allir með hlutverk sín af sama alvarlega látleysinu sem einkenndi þessa sannfærandi og ógleyman- legu sýningu sem hófst í leikrænu logni, skap- aði storma en endaði í margslunginni kyrrð. Í næstu grein er ætlunin að fjalla um nokkra tónleika á aðalhátíðinni sem ég hef hugsað mér að sækja. SPARKAÐ Í SIÐFERÐI Sýning Teatr Provisorum Lublin frá Póllandi á Ferdydurke eftir Witold Gombrowicz verður HAFLIÐA HALLGRÍMSSYNI að umfjöllunarefni í annarri grein hans um Edinborgarhátíðina. Gombro- wicz er enn þann dag í dag talinn skelfir í pólsku menningarlífi, bæði sem rithöfundur og hugsuður. Ferdydurke er óvenjufrumleg útfærsla á kaldhæðnislegri skáldsögu W. Gombrowicz, þar sem koma skýrt fram áhrif súrrealisma, dadaisma og meðferðar skáldsins á frægum klassískum rit- verkum, sem æði oft er vísvitandi afskræming. Höfundur er tónskáld. ÆTLI maður að vera maður með mönn- um í gáfulegri umræðu um „æðri“ tónlist er eins gott að hafa nafn Johns Cages (1912–1992) á takteinum og flíka því óspart því Cage er vafalaust einn af áhrifamestu gúrúum í framúrstefnutónlist 20. aldar. Hann boðaði þær kenningar að hljóðfærin megi meðhöndla að vild og ekkert væri við það að athuga að þeim væri misþyrmt. Einnig að tónlist væri í eðli sínu meining- arlaus, tónsköpun væri í raun tilgangslaus: „Það þjónar engum tilgangi að semja, hlusta á eða leika tónlist,“ (John Cage – 1961). Það væri skylda tónskáldsins að gera tilraunir og viðbrögð áheyrenda væru aukaatriði. Allt voru þetta atriði sem féllu í góðan jarðveg hjá avantgardistum seinni tíma. Þótt án vafa sé skammlaust staðið að tónlistarflutningi á þessum nýlega ECM- diski veldur hann samt verulegum von- brigðum. Flest það sem hér er flutt er hreinlega svo óbærilega leiðinlegt að það hálfa væri nóg. Hápunkti ná leiðindin í hinu gersamlega viðburðasnauða og form- lausa Seventy-Four sem er í ofanálag tví- tekið (version I og II)! Í þennan flutning fara rúmar 24 mínútur. Konsertinn fyrir „undirbúið“ píanó og kammersveit frá 1950 er hreint ekki skárri. Þrátt fyrir óvenju- legt einleikshljóðfærið sem er píanó fyllt af allskyns drasli, svo sem skrúfum, bréfa- klemmum og búsáhöldum. Það getur vel verið að hægt sé að semja eitthvað af viti fyrir þetta hljóðfæri og kammersveit. En þessari sundurlausu tónlist er mér ómögu- legt að henda reiður á. Svítan fyrir leik- fangapíanó er ótrúlega þunnur þrettándi og skánar lítið þegar hún er endurtekin (!!) í hljómsveitarútsetningu Lou Harrisons. Titilverk disksins, The Seasons, er hefð- bundnast þess sem hér er flutt. Ekki óáheyrilegt verk en heldur ekki sérlega minnisstætt. Ég er einn af þessum aumu hlustendum sem Cage fannst vera aukaatriði. Eins og ljóst má vera af ofansögðu var mér ekki skemmt. Þannig er það nú bara. Væri Cage enn á lífi hefði honum ábyggilega verið nákvæmlega sama. Það skal tekið fram í lokin að diskur þessi hlýtur lofsamlega dóma í The Pengu- in Guide to Compact Discs 2000/2001. Misjafn er smekkurinn. LEIÐINLEGTTÓNLISTS í g i l d i r d i s k a r John Cage: Seventy-Four for Orchestra, Version I (1992), Seventy-Four for Orchestra, Version II. The Seasons- Ballet in One Act. Concerto for Prepared Piano and Chamber Orchestra (1950/51). Suite for Toy Piano (1948). Suite for Toy Piano (Orchestration: Lou Harrison). Einleikari: Margaret Leng Tan („undirbúið“ píanó, leikfangapíanó). Hljómsveitarstjóri: Dennis Russell Davies. Hljómsveit: American Composers Orchestra. Heildarlengd: 76’01. Útgefandi: ECM New Series ECM 1696. Verð: kr. 1.999. Dreifing: Japis. JOHN CAGE Valdemar Pálsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.