Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. SEPTEMBER 2001 S ÆNSKI ritsnillingurinn August Strindberg (1849–1912), eitt fremsta leikskáld heimsbók- menntanna, sagði einhverju sinni við vin sinn málarann Edvard Munch: Ég er mesti málari Norð- urlanda. Munch svaraði að bragði: Þá er ég mesta skáld Norður- landa! Mörg hnútan flaug á milli snillinganna, og ekki ólíklegt að atvikið hafi átt sér stað á veitingastofu G. Türkes á horni Neue Wilhelmstraße og Unter den Linden í Berlín, sem Strindberg hafði upp- götvað og gefið viðurnefnið Svarti grísinn, Zum Schwarzen Ferkel. Þar höfðu áður setið menn eins og Heine, Schumann, E.T.A. Hoffmann og fleiri andans risar, og hér þjóruðu þeir félagar í góðum hópi annarra listamanna. Fengu sér einn gráan og annan bláan af þeim 900 tegundum áfengis sem eigandinn gortaði af að væru þar á boðstólum. Gerðu um leið, ásamt pólska skáldinu og tónlistar- manninum Stanislaus Przybyzewski, gjarnan hos- ur sínar grænar fyrir Dagny Juell, róðunni ást- þrungnu, sem að sögn gat drukkið absint í lítravís án þess að sæi á henni, og þá alla undir borðið. Hún var í Berlín vegna Munchs, hafði komið á eftir honum frá Osló, bæði aðhylltust frjálsar ástir en hún giftist á endanum pólska skáldinu. Hvað á milli hennar og Strindbergs fór liggur ekki alveg ljóst fyrir, en svipmikil uppákoma hlýtur það að hafa verið, jafn napurt háð, glósur og aðdróttanir hún varð jafnaðarlega að þola frá skáldinu eftir það. Jafnvel sagt að hún hefði hafnað honum á þeim forsendum að hann væri of gamall og digur. Gæti verið sannleikskorn í getspekinni, vegna þess að Munch rissaði upp af Strindberg fræga andlitsmynd á kalkstein í skrautlegum ramma. Þar sér í nakta konu hægra megin en neðst í horn- inu til vinstri hefur hann ritað „A. Stindberg“, sem kann að vísa á meðvitaða kárínu þar sem „stind“ merkir digur, uppblásinn á norsku og ekki úti- lokað að riddari róðunnar hafi verið að hefna hins grófa orðavaðals skáldsins. Gerði Strindberg að vonum bálillan, en myndin er heimsþekkt sem eins konar persónugerð, íkon, skáldsins. En hvar sem mergjaðar kersknihnúturnar flugu annars á milli ber hinn stórláti framsláttur í sér sannleikskorn, því Strindberg var drjúgur málari og Munch snjall penni, skrifaðist á við and- ans menn í Frakklandi og Þýskalandi eins og t.d. skáldið Mallarmé og lögfræðinginn Gustav Shief- ler í Hamborg, sem var ástríðufullur safnari graf- ískra verka og fyrstur mun hafa tekið að skrásetja grafísk blöð Munchs. Bréfasambandið stóð allar götur frá 1902–1943 og hefur komið út á bók sem samanstendur af tveim bindum upp á meira en 800 síður (!), allt meðtalið. Margur málarinn þannig verið pennalipur, og skáld og rithöfundar hafa get- að brugðið fyrir sig málaragræjunum. Má hér nefna til sögu Victor Hugo, Scott Fitzgerald, Hol- ger Drachmann, sem var framúrskarandi sjávar- myndamálari, Karen Blixen og hér á heimaslóðum Snorra Hjartarson og Thor Vilhjálmsson. Allt þetta fólk gætt ríkum myndlistargáfum þótt það nálgaðist miðlana á ólíkan hátt, helst til að víkka út skynsvið sitt og veita skapandi sjónræn- um kenndum útrás. Hér var Strindberg sér á báti, þótt hvortveggja samlíkingin eigi við hann, en leit- aði helst fróunar í málverkinu þegar geðflækjur þyrmdu yfir og honum var ekki unnt að koma frá sér óbrenglaðri málsgrein. Fullkomlega rúinn allri andagift á ritvellinum, málverkið þá öryggisventill gegn listrænum yfirþrýstingi eins og það hefur verið orðað. Yfirþrýstingi sem sótti á skáldið þeg- ar hann var í sálarkreppu, ekki síst eftir hjóna- skilnaði sem urðu þrír áður en yfir lauk og allir enduðu svardagarnir með skelfingu, gerðu skáldið magnlaust og komu hrikalegu róti á sálarlíf hans svo á stundum lá við sturlun. Málverkið var líkast endurhæfingu mikils og órólegs anda, skref í átt til eðlilegra bylgjusveiflna og jafnvægis þar sem stórsjóir risu áður. Þannig upphófst hávaðabrim í kolli Strindbergs þegar fyrsta konan, Siri von Es- sen, yfirgaf hann, en var um leið helstur hvati þess að skáldið sneri sér að málverkinu, rúið allri anda- gift til að koma heilli og vitrænni setningu á blað. Og þurfti mikinn rosa til að gera þennan stóra anda óvirkan ef marka má orð Knuts Hamsuns; að Strindberg búi yfir ofurkrafti í heilabúinu, „en hjerne til hest“ eins og hann orðaði það, – brokk- andi eigin leiðir skiljandi flesta aðra langt að baki. Fas og yfirbragð Siri von Essen minnti Strind- berg á veiðigyðjuna Díönu og var fyrirmyndin að konunum sem skáldið átti eftir að elska og skrifa um. Veiðigyðjan var líka viðstödd, í öllu falli í næsta nágrenni, þegar hann skóp frægustu kvenpersónu sína; Fröken Júlíu. Upphafið að kynnum þeirra Siri einkenndist af feimni og stimamýkt, má líkja þeim við skýstrók sem nálg- ast heitur, blíður og rakur, en hrifsar allt með sér þegar hann stormar yfir og fer. Andi Strindbergs var sem skýstrókur, en það var hins vegar Siri sem tók allt þegar hún fór, börnin fjögur og rit- gáfuna, skildi skáldið eftir sem rjúkandi rúst. Áhrifin af fyrstu kynnum þeirra lifðu þó alla tíð í heilahveli Strindbergs, hann mundi hvert smáat- riði og í skáldskap sínum sneri hann æ aftur að þessari opinberun, einkum var atvikið ljóslifandi þá hann sá blátt slör svífa yfir ljósu hári: „Det var paa Dronninggatan/ en brændende junidag/ et fortov í gatevrimlen/ vi mödtes du og jeg.“ Þjóðsagan segir að Strindberg hafi hatað kon- ur, jafnvel að hatur væri of vægt orð, en þjóðsög- ur eru með sanni ekki alltaf sannleikanum sam- kvæmar. Bæði Strindberg og Munch eiga að hafa hatað konur og samt hötuðu þeir þær ekki, þráðu þær og girntust, og hvernig eiga menn að geta hatað uppsprettu andagiftar sinnar, allar sínar þrár og músur, heitir það kannski að myrða glæpinn, ást sína? Aftur á móti má vera klárt að þeir óttuðust konur, báðir líktu þeim við blóðsug- ur sem drægju úr listamönnum mátt til svipmik- illa andlegra athafna. En konan var einmitt stóra hreyfiaflið í list- sköpun snillinganna, sá ás sem allar listrænar at- hafnir þeirra hverfðust um. Allt annað mál er að þeir voru hræddir við konur, skelfingu lostnir; óttuðust að þær tækju of mikið af tíma þeirra og sviptu þá einbeitingu til skapandi athafna. En fá- ir hafa málað konur af jafn mikilli viðkvæmni og tilfinningu og Munch eða kafað jafn djúpt í sálar- líf þeirra og Strindberg. Skáldið var svo ekki jafnaðarlega samkvæmt sjálfu sér eða kenning- um sínum, sem er til marks um hve andstæð- urnar voru miklar í einkalífi hans. Þannig var önnur spúsan, hin austurríska Frida Uhl, ríku- lega prýdd öllum þeim eiginleikum sem hann hataði mest í fari kvenna! Heimurinn kynnist alveg nýrri hlið á athafna- semi skáldsins á þessari yfirgripsmiklu farand- sýningu og hún mun koma mörgum í opna skjöldu. Enn deila menn um hvort Strindberg hafi verið mikill málari, sumir segja hann stórum ofmetinn, jafnvel viðvaning, dilettant, sem voru raunar dómarnir sem hann fékk í Berlín er hann og Munch tóku þátt í sýningu málara sem hafnað hafði verið á úrval ársins. Halda því fram að sviðsljósið beinist einungis að málverkunum fyrir frægð Strindbergs sem leikskálds og geri þau svo verðmæt. Ekki úr vegi að nefna hér, að lítið málverk eftir hann var slegið á sem svarar sirka 230 milljónum ísl. króna á uppboði 1990! Slíku tali hygg ég að þessi framkvæmd eigi eftir að eyða að mestu þótt sannleikskorn leynist í því, en for- vitnilegast verður að vita hvernig sýningunni verður tekið í París. Og vel að merkja, þegar sett var upp sýning á verkum Munchs á Orsay-safn- inu fyrir nokkrum árum vildu þeir í Frans að megináherslan yrði lögð á hrif sem Munch sótti til Parísar á þroskaárum sínum, síður að það op- inberaðist að bæði Matisse og Picasso sóttu til norræna meistarans. Umsvif Strindbergs sem málara og ljósmynd- ara voru ekki mikil og málverk hans flest smá, aðallega sökum þess að vinnuferlið mátti ekki vara of lengi, helst ekki meira en 3–4 tíma, var jafn óþolinmóður við trönurnar og hann var þol- inmóður við skriftir. Af þeim 120 málverkum sem eftir Strindberg liggja er um helmingur á sýning- unni, en fylla þó út allt sýningarrými vesturálmu FÁRVIÐRI SKYNSVIÐSINS Í sumar hefur yfirgripsmesta sýning á þeirri hlið skáldjöfursins Augusts Strind- bergs, sem veit að sjónlistum, staðið yfir í Ríkislistasafninu í Kaupmannahöfn. Kemur frá Þjóðlistasafninu í Stokkhólmi, heldur áfram til Parísar og verður sett upp í Orsay-safninu þar í borg. BRAGI ÁSGEIRSSON var á vettvangi og fjallar sitthvað um jöfurinn í tilefni hins einstæða viðburðar. Strindberg: Borgin, 1890, olía á léreft. Þjóðlistasafnið í Stokkhólmi. Hið fræga steinþrykk Edvards Munchs af Strind- berg, útfært í París 1896.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.