Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. SEPTEMBER 2001 9 Rikislistasafnsins, ásamt með teikningum, káp- um á eigin handrit, bókarkápum sem hann hann- aði í tilefni útgáfu verka sinna, og hugmyndum um slíkar sem hann lagði í hendur annarra lista- manna, t.d. vinar síns málarans Carls Larsons, – höggmyndum, ljósmyndum og skýringartextum. Tímabilin er Strindberg var helst virkur í mál- verkinu urðu þrjú, hið fyrsta 1872–74 og telst ótvírætt hið frjóasta, málar þá til að rannsaka miðilinn en ekki til að skipa sér í sæti mesta mál- ara Norðurlanda, eins og hann skaut að Munch, hin tímabilin voru 1892–94 og 1901–05, í öll skipt- in myrkvaði andlegt fárviðri skynsvið skáldsins eins og margar myndirnar mega vera til vitnis um. Ekki var málverkunum tekið af tiltakanlegri hrifningu er hann sýndi þau fyrst í Stokkhólmi (frekar en Munchs í Kristjaníu, seinna Osló), samlandar hans fordæmdu þau og gagnrýnendur tóku þeim ómjúkum tökum. Einn líkti málverk- um Strindbergs við matardisk með sulli af storknuðum smjörlíkisleifum eða fat af grilluðum kálfafótum í heilasósu! Skilirí Strindbergs voru líka máluð á eins óhefðbundinn hátt og hugsast gat, pensillinn kom þar lítið nálægt ef þá nokkuð, skafan þeim mun meira, og á stundum virðist ger- andinn hafa kreist litina beint úr túbunni og úðað þeim svo yfir myndflötinn. Þetta var vinnulag sem menn fóru ekki að iðka að ráði fyrr en löngu seinna er þeir tóku að þrengja sálinni á úthverf- una og mála á óformlegan hátt, skilgreint á fag- máli sem expressjónismi og art informel. Slá má föstu, að í sumum málverkum sínum sé Strind- berg 80 árum á undan þróuninni, þótt hann sé um leið með báða fæturna í samtíðinni. Er vitaskuld meginástæða þess að þau hafa orðið svo verðmæt í tímans rás, þótt ekki saki að þau eru eftir Aug- ust Strindberg. Og þótt menn væru sér alla tíð vel vitandi um sjónmenntalega athafnasemi skáldsins hefur birtingarmynd hennar fyrst farið að skýrast fyrir alvöru á seinni tímum og aldrei betur en á þessari sýningu. Á síðustu þrjátíu árum hefur áhuginn jafnt og þétt færst í vöxt sem má vera eðlilegt í ljósi breyttra viðhorfa og útvíkkunar landamæra málaralistarinnar, dilettantismi orðinn að gildri list, viðurkenndum stílbrögðum kenndum í æðri listaskólum. Krafan um aga, hefðbundin og óað- finnanleg vinnubrögð hefur verið á hröðu und- anhaldi á tímabilinu, en inntakið og sjálf hug- myndin að baki að sama skapi sótt á, ásamt heimspekilegum kennisetningum og samræðu- leikfimi, hvað sem annars verður sagt um þá um- deilanlegu þróun. Trauðla með öllu ómeðvitað að Strindberg var forspár á framtíðina, og hér var örugglega lán hans og gæfa að hann tileinkaði sér ekki hefðbundin vinnubrögð. Þó ekki laust við að hann sæki áhrif í verk annarra málara, til að mynda eitt og annað í list Caspars Davids Fried- richs og Turners, en vel að merkja er talið öruggt að hann hafi ekki séð mynd eftir Turner fyrr en 1883. Strindberg umgekkst mikið nýskapendur í málaralist, ekki aðeins Munch heldur kynntist hann einnig Gauguin í París, en þangað fluttist hann í ágúst 1894, sökkti sér niður í dultrú, efna- fræðikukl og gullgerð. Á tímabili snæddu þeir á sama litla þrönga matsölustaðnum, crémiere, í París, skáhallt á móti gistiheimilinu þar sem hann bjó um þær mundir, að 12 rue de la Grande Chaumiére, rétt við Lúxemborgargarðinn. Var á því tímaskeiði er Gauguin undirbjó síðari og end- anlega brottför sína til Tahiti 1894, en hún dróst raunar ýmissa hluta vegna um eitt ár og allan tímann voru þeir borðfélagar á staðnum. Má álykta að þar hafi klingt í glösum, hráar og and- ríkar hnútur ekki síður flogið á milli en á Svarta grísnum í Berlín, fara þó af því minni sögur. Skáldið skrifaði meira að segja listrýni á tímabili og var þar langt á undan öðrum um framsýni, hyllti til að mynda Gauguin í frægum pistli, sagði að í list sinni hefði hann skapað nýja jörð og nýjan himin. Væri jötunn, Titan, sem af öfund til skap- ara alheimsins hefði búið sér til sitt eigið persónu- lega sköpunarverk. Á þessu tímabili vingaðist hann einnig við enska tónskáldið Frederik Del- ius, sem einnig var mikill aðdáandi og vinur Munchs og mun hafa komið út bók um þau kynni (Edvard Munch og Frederik Delius), svo og tékk- neska veggspjaldamálarann Alphonse Mucha. Tilraunir Strindbergs á sviði ljósmyndatækni- nnar eru ekki síður merkilegar, og þar reyndist hann samur við sig um trú á kraft innsæisins og vægi þess að sprengja öll landamæri. Var hér einnig nýskapari og gerði hluti sem atvinnumenn urðu frægir fyrir á fyrstu tugum síðustu aldar, á einkum við ýmsar efnafræðilegar tilraunir en einnig innsetningar, ekki með öllu frábrugðnar því sem hin sjálfhverfa Cindy Sherman varð fræg fyrir 100 árum seinna. Hvort hann hafi jafnaðar- lega notast við sjálftakara eða látið Siri von Ess- en taka myndirnar frægu frá Gersö veit ég ekki fullkomlega og skiptir litlu máli. Hitt er vitað að þótt skáldið sjáist með gítar á einni, sem í hlut- verki stórtrúbadors, eða úti í garði með skóflu í hendi á annarri sem hinn þaulreyndi garðyrkju- maður, kunni hann trauðla að spila á gítar og stórlega má draga í efa áhuga hans á garð- yrkju … Heimildir: Bók Olofs Lagerkrantz um Strindberg í danskri þýðingu sem út kom 1996/ Málverk Strindbergs, ritstýrt af Torsten Måtte Schmidt, Malmö 1972, og ýmsar blaðagreinar. August Strindberg: Undralandið 1890, olía á léreft. Lars Palmquist, Stokkhólmi. Strindberg og tvær dætur hans með Siri von Essen, Karin og Gréta, í garð- inum í Gers- au, Sviss 1886. Sjálfs- mynd tekin með sjálftak- ara. Veitingastaðurinn Zum Schwarzen Ferkel 1892. Teikning eftir Holger Paul.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.