Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. SEPTEMBER 2001 V IÐ komuna á Hvolsvöll varð blaðamaður þess fljótt áskynja að vissara væri að halla hvergi réttu máli þar sem Brennu-Njáls saga var annars vegar. Enda vart að finna þann þinggest, aðkom- inn eða heimamann, sem ekki þekkti söguna og vettvang hennar eins og lófa sinn. Efnt var til ráðstefnunnar, sem stóð frá laugardagsmorgni til sunnudags, að frumkvæði Stofnunar Sigurðar Nordal í samvinnu við Sögusetrið á Hvolsvelli. Var þingið skipulagt með það í huga að efna til fræðilegrar umræðu um Njálu í nánd við þann lifandi vettvang sagnaarfleifðar og þekkingar sem er að finna í héraði hennar. Á ráðstefnunni fluttu alls tíu fyrirlesarar er- indi fyrir fullum sal þinggesta í félagsheimilinu Hvoli. Úlfar Bragason, forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordal, setti þingið og bauð gesti vel- komna. Hann benti á að Njáluþingið væri fjórða sagnaþingið í héraði sem stofnunin gengist fyrir í samvinnu við heimamenn, fjallað hefði verið um Hrafnkötlu og Fljótsdælasögu á Egilsstöð- um, Borgfirðinga sögur í Borgarnesi, Grettlu á Sauðárkróki. Bætti Úlfar við að sá mikli áhugi sem þingin hafi vakið sýndi glöggt hversu lifandi bók- menntir fornsögurnar eru meðal þjóðarinnar. „Vonandi hafa sagnaþingin glætt enn frekar þennan áhuga,“ sagði Úlfar. Staðfræði Njálu Á laugardeginum héldu þeir Oddgeir Guð- jónsson, fyrrum bóndi í Tungu í Fljótshlíð, Jón Böðvarsson íslenskufræðingur og Arthúr Björgvin Bollason, forstöðumaður Söguseturs- ins, fyrirlestra og beindist athyglin einkum að staðfræði Njálu og söguslóðum hennar í Rang- árvallasýslu. Hóf Oddgeir ráðstefnuna með með því að ræða um Njálu og staðfræði hennar. Vék hann einkum að þeirri kenningu að sagan hefði verið skrifuð af manni sem vel kunnur var staðháttum í Rangárþingi. Leitaðist Oddgeir við að hrekja þau rök sem komið hefðu fram á undanförnum árum um að lýsingar bókarinnar á staðarhátt- um væru of ónákvæmar til að svo gæti verið. Tók hann nokkur slík dæmi og rökstuddi þá full- vissu sína að í ljósi þeirri breytinga sem orðið hafa á landslagi frá söguöld væru frásagnir höf- undar Njálu réttar ef grannt væri skoðað. „Margt fleira mætti tína til, sem sannar ótví- rætt að Njáls saga er rituð af manni, sem þekkir alla staðarhætti í Rangárþingi. Hver sá maður er ætla ég ekki að svara, ég læt aðra um að leysa þá gátu,“ sagði hann að lokum. Jón Böðvarsson tók næstur til máls og hélt umræðunni um staðfræði Njálu áfram í erindi sem hann nefndi „Gunnarshólmi og Gunnars- steinn“. Dró hann í máli sínu upp mynd af því hvernig byggð og landslag í Rangárþingi mun hafa litið út á söguöld og benti á að landslagið hefði að öllum líkindum þegar breyst umtals- vert þegar sagan var rituð. Í fyrirlestri sínum vísaði Jón jafnframt í þá miklu vitneskju sem rannsóknir jarðfræðinga gætu gefið og lét í ljós þá skoðun sína að slíkar rannsóknir væru van- nýtt aðferð til að skera úr um ýmsar ráðgátur varðandi staðfræði og sannleiksgildi Njálu. Vís- aði hann í rannsókn Hreins Haraldssonar jarð- fræðings á breytingum á farvegi Markarfljóts, og varpaði fram þeim möguleika að skera úr um staðsetningu Gunnarshólma með því að leita landnámsjarðlagsins undir þeim stöðum sem orðaðir hafa verið við hólmann. Í umræðum að loknum fyrirlestrum voru þinggestir ófeimnir að viðra skoðanir sínar og kenningar um hina réttu staðsetningu ýmissa sögustaða. Umræddur Hreinn Haraldsson jarð- fræðingur gaf sig jafnframt fram í salnum og sagðist þegar hafa grafið eftir landnámslaginu undir þeim Gunnarshólma sem merktur er á Njáluslóð, en ekkert fundið. „Það þýðir þó ekki að Gunnarshólmi gæti ekki hafa verið á þessum stað, en skolað burt,“ bætti Hreinn þó við til að hughreysta Jón sem brá á leik og þóttist miður sín yfir þessum fregnum. Hið lifandi landslag Með erindinu „Hvað er svona merkilegt við Njálu?“ brá Arthúr Björgvin Bollason skemmti- legu ljósi á undangengna umræðu. Sagði Arthúr að fáir fyndu líklega betur fyrir því en þau sem störfuðu að verkefninu Á Njáluslóð, hversu lif- andi Njála væri í hugum fólks af öllum stéttum á Íslandi, en daglega kæmi fjöldi gesta á Sögu- setrið til að ræða Njálu út frá ýmsum sjónar- hornum og þræða helstu sögustaði bókarinnar. Í vangaveltum um hvað ylli þessum mikla áhuga varpaði Arthúr Björgvin fram þeirri spurningu hvort landið sem við búum í ætti ein- hvern þátt í þeim vinsældum sem fornsögurnar hafa löngum notið með þjóðinni. Því í gegnum kynslóðirnar hefði þjóðin notað landslagið til að upplifa og ímynda sér atburði sögunnar, og end- urskapa þannig söguna og halda henni lifandi. Til marks um þetta væri sú áhersla sem lögð hefði verið á staðfræði Njálu í fræðilegri um- ræðu um söguna allt frá 19. öld. Fátt var ráðstefnugestum meira að skapi eft- ir dagskrá morgunsins en að halda á títtnefnda Njáluslóð og setja sér heim sögunnar fyrir hug- skotssjónir. Fór heimamaðurinn Magnús Finn- bogason, fyrrum bóndi á Lágafelli í Landeyjum, fyrir hópnum og fræddi þinggesti um hverja þúfu sem á veginum varð. Staldrað var við í Odda, að Keldum, á Hlíðarenda og að lokum að Bergþórshvoli þar sem vígbúnir félagar úr Karlakór Rangæinga sátu fyrir þinggestum við Flosalág, og fluttu þeim kafla úr söngleiknum Gunnar á Hlíðarenda eftir Jón Laxdal, undir berum ágústhimni. Að því búnu var haldið til veislu í Söguskálanum á Hvolsvelli. Höfundar Njálu Sunnudagurinn var þétt skipaður fyrirlestr- um, þar sem brugðið var ólíkum sjónarhornum á viðfangsefnið. Jón Karl Helgason bókmennta- fræðingur reið á vaðið með fyrirlestrinum „Sjón er sögu ríkari: Um myndskreytingar Njálu.“ Fjallaði hann þar um þann fjölda mynd- skreytinga sem gerðar hafa verið eftir Njálu í gegnum tíðina, heima og erlendis. Myndskreyt- ingarnar sýndi Jón Karl af margmiðlunardiski sem fylgir bókinni Höfundar Njálu er hann sendi frá sér fyrr á árinu. Leitaðist hann við að sýna fram á hvernig túlkun hinna ólíku mynd- listarmanna á sögunni mótast í senn af sögu- heimi verksins og því umhverfi sem þeir koma úr. En líkt og Jón Karl gerir nánar grein fyrir í bókinni kýs hann að líta á Njálu sem víðfeðma og lifandi menningarhefð, safn margvíslegra texta, táknmynda og hugmynda sem eiga sér óljósa uppsprettu. Helga Kress, prófessor í bókmenntafræði, er líklega sá fræðimaður íslenskur sem lagði grunn að nýjum viðhorfum í garð fornbók- menntanna í rannsóknum á þeim. Hún er m.a. frumkvöðull í þeirri endurskoðun á höfundar- hugtakinu sem greina má meðal fjölmargra fræðimanna af yngri kynslóðinni. Að mati Helgu eiga Íslendingasögurnar sér fyrst og fremst rætur í munnlegri sagnahefð, og er því ekki hægt að kenna söguheim þeirra við rödd eins höfundar. Hefur Helga ekki síst beint sjón- um að þeim viðhorfum kvenna sem finna má í hinum margradda textum sagnanna að hennar mati. Í erindi sínu á þinginu, „Þá gerðist hlátur mikill. Konur og karnival í Njálu“, fjallaði Helga um Njálu sem ádeilu á ríkjandi gildi íslensks samfélags á söguöld, einkum þau karlmennsku- gildi sem lágu samfélagsgildum til grunnvallar. Að mati Helgu er Njála ekki hetjusaga, heldur sver hún sig í karnivalíska hefð miðalda, þar sem gildum samfélagsins er snúið á haus. Kristrún Heimisdóttir beindi einnig sjónum að samfélagsgagnrýni Njálu en út frá allt öðru sjónarhorni, þ.e. lögfræðilegu. Í fyrirlestri sín- um lýsti hún í fyrstu rannsóknum á Njálu sem lögfræðisögu, og þeirri kenningu margra að höfundur Njálu hlyti að hafa verið lögfræðing- ur. Með því að greina þau sex dómsmál sem fyr- ir koma í Njáls sögu á ítarlegan hátt rökstuddi Kristrún jafnframt þá skoðun sína að sagan lýsi hruni og niðurlægingu lagakerfis samfélagsins, sem beið endanlegt skipbrot með brennu Njáls, lögfróðasta manns Íslands og fulltrúa laga og réttlætis. Þannig telur Kristún Njáls sögu fela í sér gagnrýni samfélagsins á sjálft sig. Veglegar Njáluútgáfur Tvær nýjar og merkar útgáfur á Brennu- Njáls sögu voru kynntar af fyrirlesurum þings- ins. Robert Cook prófessor flutti einkar fróðlegt erindi þar sem hann lýsti þýðingarstefnu sinni í nýrri enskri útgáfu á Njálu sem út kemur end- urskoðuð hjá Penguin innan fárra vikna. Í fyrstu reifaði Cook mismunandi þýðingarað- ferðir og tók nokkur dæmi um þann vanda sem þýðandinn stendur iðulega fyrir þegar reynt er að þýða texta úr einum tungumála- og menning- arheimi yfir í annan. Er það einkum valið milli nákvæmrar og frjálslegrar þýðingar, þýðingar frá orði til orðs eða frá merkingu til merkingar, sem mestu skiptir. Sjálfur tók Cook fyrrnefndu stefnuna, og gætti þess að miðla frásagnarstíl Njáls sögu á sem nákvæmastan hátt, en hann einkennist af hliðskipaðri setningagerð, af- mörkuðum orðaforða, klifun og endurtekning- um. „Slíkur stíll minnir á munnlega frásögn og gefur til kynna að bókmenntirnar byggist á slíkri frásögn,“ benti Cook á í erindi sínu. Hann fór jafnframt í gegnum dæmi af þýðingum á köflum úr Njáls sögu, og skýrði með því mál sitt. Sverrir Tómasson íslenskufræðingur kynnti jafnframt stuttlega nýja fræðilega útgáfu af Njálu sem unnið er að á vegum Árnastofnunar og mun m.a. koma út á tölvutæku formi. Í útgáf- unni er gengið út frá því að engin frumgerð er í raun til af Njálu. Hún hefur varðveist í brotum og verður lögð áhersla á að vinna með þá heild, þar á meðal brot á borð við Reykjabókartext- ana, sem ekki hafa verið tekin með í fræðilegar útgáfur hingað til. Vonaðist Sverrir til þess að útgáfan gæti orðið almenningi og fræðimönnum aðgengileg innan fjögurra til fimm ára. Trú og skynsemi Segja má að sú heimspekilega nálgun sem Kristján Jóhann Jónsson menntaskólakennari beitti í túlkun sinni á Njálu hafi að mörgu leyti kallast á við fyrirlestur Péturs Gunnarssonar rithöfundar. Kristján Jóhann nefndi sitt erindi „Abraham, Njáll og Byron“ og fjallaði hann þar um Njálu sem kanónískt verk í íslenskri bókmenntasögu, þ.e.a.s. verk sem hefur óumdeilt vægi í hefðinni, jafnvel umfram nokkurt annað rit. Skýrði Krist- ján þessa tignarstöðu Njálu m.a. með því að greina hana í heimspekilegu ljósi, m.a. með vís- un í skilgreiningu Søren Kierkegaard á valinu milli trúar og skynsemi, og þeirri vissu að eitt- hvað sé manninum æðra. Taldi Kristján slík trúarsjónarmið koma fram við ákvörðun Njáls um að ganga inn í bæinn við komu umsáturs- manna. Bar Kristján kanóníska stöðu Njáls sögu saman við Biblíuna og fleiri kanónísk verk. Það var Pétur Gunnarsson rithöfundur sem lauk dagskrá þingsins með hugleiðingum um Njálu, sem hann flutti undir yfirskriftinni „Sag- an endalausa“. Setti Pétur söguna í heimsbók- menntasögulegt samhengi m.a. með því að benda á hliðstæður milli Njálu og Biblíunnar. Sjálfa Njálsbrennu túlkaði Pétur jafnframt sem táknrænan hreinsunareld. Að lokinni formlegri dagskrá þingsins beið gesta óvænt uppákoma. Steig þá Bergsteinn Gissurarson, fyrrum brunamálastjóri, fram og sýndi þinggestum eftirlíkingu af húnboga þeim er hann telur að Gunnar á Hlíðarenda hafi átt. Boginn hafði verið tvö ár í smíðum í Bretlandi og hafði Bergsteinn komið til landsins með bog- ann þá um morguninn. Lýsti Bergsteinn gerð bogans og benti á að nautshúðir hefðu verið not- aðar í bogastrenginn, þar sem spennan á strengnum væri svo gríðarleg. Vitnaði Berg- steinn að lokum um það að mannshár hefði verið algerlega ónothæfur efniviður í slíkan boga- streng. „Dauði Gunnars verður því ekki hermd- ur upp á Hallgerði greyið,“ sagði Bergsteinn og vakti það almenna kátínu meðal þinggesta. Ákváðu þeir Úlfar Bragason og Arthúr Björg- vin Bollason að láta þau orð verða lokaorð þingsins, þökkuðu þátttakendum og stuðnings- aðilum og slitu Njáluþingi í héraði. Um síðustu helgi komu saman á Hvolsvelli fræði- menn, leikmenn og áhugamenn um Njálu og skegg- ræddu skilning, vægi og túlkun þessarar síkviku sögu. HEIÐA JÓHANNSDÓTTIR hélt á Njáluslóð þar sem hlíðin fagra var skoðuð út frá ólíkum sjónarhornum. Morgunblaðið/Heiða Jóhannsdóttir Vígbúnir meðlimir Karlakórs Rangæinga sátu fyrir gestum Njáluþings við Flosalág að Bergþórshvoli. SÍKVIK SAGNAARFLEIFÐ NJÁLU

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.