Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2001, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. SEPTEMBER 2001 A ÐALTÓNLEIKASALUR Edinborgar nefnist Usher Hall og stendur við Loth- ian Road, ekki alls fjarri vesturenda Princes Street. Þessi salur tekur 2.780 manns í sæti og var nýlega gerður upp og málaður hátt og lágt. Það var góð tilfinning að sitja á nýjum og þægilegum sætum í byrjun hátíð- arinnar og hlusta á hinn stórkostlega söngvara Matthias Goerne og Alfred Brendel flytja ljóðaflokkana An die Ferne Geliebte eftir Beethoven og Schwanengesang eftir Schubert. Matthias Goerne hefur á undanförnum árum vakið mikla athygli fyrir óviðjafnanlegan flutn- ing sinn á sönglögum og ljóðaflokkum Schu- berts, Beethovens og Schumanns í félagsskap margra frægra píanóleikara en samstarf hans við Alfred Brendel hefur sett öllum þeim sem flytja sönglög þessara meistara takmark sem fáir geta náð. Þótt Matthias Goerne sé tiltölu- lega ungur (hann er fæddur 1967) kemur hann fram á óvenju yfirvegaðan og öruggan hátt, líkt og þaulreyndur og sviðsvanur söngvari. Söngur hans er mettaður af söngmenningu, djúpum skilningi og karlmannlegri raddfeg- urð. Samruni þessara tveggja listamanna við tónlistina skeður átakalaust og tónlistin blómstrar. Hjá þessum listamönnum er djúp virðing fyrir sköpun tónskáldsins og tónlistin ekki notuð sem fley fyrir eigin persónuleika, eins og allt of oft skeður, sérstaklega hjá söngvurum. Það er utan þeirra marka sem ég hef sett mér í þessari grein að fjalla í smáatriðum um ljóðaflokkana tvo sem fluttir voru en ég kemst ekki hjá því að lofsyngja enn og aftur Svana- söng Schuberts, þetta samsafn sönglaga við ljóð þriggja ólíkra tónskálda. Í rauninni er hér ekki um eiginlegan ljóðaflokk að ræða, í þeirri merkingu sem við leggjum í Die Schöne Müll- erin og Winterreise, því hér liggur ekki til grunna söguþráður eins skálds. Náið samstarf afar brýnt Seinna þetta sama kvöld í sama sal (kl. 10.30) hóf Andras Schiff, píanóleikarinn frægi, leik sinn á hljómborðskonsert no. 3 í d, BWV 1054 etir J.S. Bach, ásamt strengjaleikurum úr hljómsveitinni Fílharmóníu frá London. Á tvennum tónleikum mun hann leika sex hljóm- borðskonserta eftir Bach, sem í flestum tilfell- um eru hans eigin innskrif á einleikskonsertum fyrir fiðlu, óbó og enskt horn. Með flygilinn loklausan og umkringdur strengjasveit af stærðinni 6 6 4 4 2 snýr einleikarinn baki í hlustendur og hefur þar með dágott útsýni yfir hljómsveitina, enda náið samstarf afar brýnt. Ýtt var úr vör með upptakti svo snöggum, að ég, fyrrverandi sellóleikari í mörgum kamm- ersveitum, tók viðbragð og sá stax í hendi mér að nú yrði hratt leikið og það reyndist svo. Það er alltaf mikil freisting að leika Bach hratt, sér- staklega fyrir hljómborðsleikara því að í hröðu köflunum er slík lífsgleði og þróttur að „gang- verk“ heilans fer að „syngja“ og vill sem mest af þessari óvæntu upplifun, sem ekkert jafnast á við. Að leika Bach einn er svolítið annað en að leika með strengjasveit úr sinfóníuhljómsveit sem vön er allt annarri tónmyndun og leikmáta en við á í Bach enda fór svo að Schiff, eins og vel smurt og nákvæmt gangverk, lék af skerpu og hraða en hljómsveitin steig þennan hraða dans eins og virðulegur eldri maður í mjúkum slopp og inniskóm, nokkurn veginn á réttum hraða en „loðmælt“. Það lá við að ég blandaði mér í málið þar sem ég sat á þriðja bekk og kallaði: „Meiri snerpu, félagar, meiri snerpu,“ en ég sat á mér. Það er eftirtektarvert hve vel tónlist Bachs þolir að skipta um búning. Boðskapur hennar er svo skýr og sannfærandi, gjöfin sjálf svo heillandi, að umbúðirnar þótt nýjar séu trufla ekki, svo lengi sem umskrifin eru innan skyn- samlegra marka. Gömul minningamunstur fóru að vísu á kreik og kvörtuðu um að þessi og hinn konsertinn væri jú alltaf leikinn á fiðlu eða fiðlu og óbó og hljómaði betur þannig, sérstak- lega hægu kaflarnir, en allir sex hljómborðs- konsertarnir – sem fluttir voru þrír í senn á tveimur kvöldum – tóku á sig sannfærandi blæ í þessum umskrifum Bachs, fóru jafnvel að virka sem samstæð verk, líkt og Brandenborg- arkonsertarnir. Andras Schiff hefur verið fastur gestur á undanförnum hátíðum og leikið ótrúlegt magn af tónlist fyrir píanó og allt eftir minni, að frá- talinni kammertónlist. Hlé til að hósta og ræskja sig Hann hefur á undanförnum hátíðum leikið allar prelúdíur og fúgur Bachs, svo og partít- urnar, ensku og frönsku svíturnar, þar að auki hefur hann leikið píanókonserta með hljóm- sveitum, leikið kammertónlist og nú á þessari hátíð, fyrir utan alla hljómborðskonserta Bachs, stjórnaði hann Cosi Fan Tutte eftir Mozart, lék og stjórnaði Emperorkonsert Beethovens og kórónaði svo allt þetta með ein- leikstónleikum þar sem hann lék eingöngu verk eftir Mozart. Á þessum einleikstónleikum skeði það óvænta að Schiff stóð upp eftir að hafa leikið nokkra stund og lagði til að hlust- endur fengju sér hlé til að hósta og ræskja sig. Honum ofbauð sem sagt óþarfa ræskingar og óbæld hóstaköst, svo ekki sé talað um vélræn- an fuglasöng farsímanna. Eftir stutta stund mætti Schiff – smávaxinn, prúður og prestleg- ur – aftur til leiks og verð ég að játa að þessi mótmæli hans höfðu þau áhrif að varla hefur heyrst stuna né hósti á öllum þeim tónleikum sem ég hef sótt síðan á hátíðinni. Í miðri annarri viku hátíðarinnar sótti ég tónleika Gustav Mahler Jugendorchester í Usher Hall. Þessi hljómsveit skipuð ungu tón- listarfólki víðsvegar úr Evrópu er í einu orði sagt töfrandi og sé henni stjórnað af reyndum og hástemmdum hljómsveitarstjóra, eins og t.d. Claudio Abbado í Gurrelieder eftir Schoen- berg fyrir tveimur árum hér á hátíðinni, þá er krafturinn og einbeitingin einstök. Það var mál margra að tónleikar hljómsveitarinnar á síð- ustu hátíð hefðu verið með því stórkostlegasta sem heyrst hefði á undanförnum hátíðum. Gott ef P. Boulez var ekki stjórnandi þá. Aldrei hefði Mahler fengist til að trúa því, þegar hann barðist við vanafasta og þrjóska hljóðfæraleikara í lítilfjörlegum og fjársveltum óperuhúsum í Austurríki og víðar, að u.þ.b. hundrað árum seinna yrði stofnuð hljómsveit skipuð ungmennum víða úr Evrópu, sem bæri hans nafn. Mahler sagði jú: „Minn tími mun koma,“ en þvílík bið. Ég er viss um að ef Mahl- er hefði getað heyrt hvernig þessi hljómsveit leikur tónlist hans, á þeim mörgu örvænting- arstundum sem hann varð að þola, þá hefði það gefið honum margfaldan styrk og jafnvel lengt líf hans. Hvað ég gæti ekki gefið til að sjá Mahler stjórna þessari hljómsveit, og heyra árangur- inn. Klemperer sagði m.a. þetta um Mahler sem stjórnanda: „Það sem var eftirminnilegast við flutning hans á tónlist var hve eðlileg öll tempo voru, og þarmeð sannfærandi, hversu látlausar voru allar hans hreyfingar og hve laus hann var við hégóma. Það var ekkert sem gat spillt honum.“ Ungverski hljómsveitarstjórinn Ivan Fisch- er, sem er mér vel kunnur frá því ég lék í Skosku kammersveitinni, stjórnaði G.M.J. að þessu sinni, í Don Juan eftir R. Strauss og valsasyrpu úr Der Rosenkavalier eftir sama höfund. Eftir hlé, eins og vera ber, var fjórða sinfónía Mahlers flutt með Amanda Roocroft sem einsöngvara í lokaþættinum. Í þessum ofantöldu verkum verður sá sem stendur fyrir framan risastóra sinfóníuhljóm- sveit að gerast „hjarta“ hennar, sem slær í „eðlilegu“ tempói, og leikur með hreyfingum sínum öll hin fíngerðu blæbrigði sem aðeins mannshjartað er fært um og aðeins þaulreynd- ir, gáfaðir og hégómalausir hljómsveitar- stjórar eru færir um. Hjá flestum er freistingin að hreykja sér og nota tækifærið til að „teikna“ skrautlega með sprotanum of mikil. Eftir því sem Mahler varð eldri urðu allar hreyfingar hans einfaldari og eðlilegri og af því hann skapaði með sinni óspilltu persónu vissa stemmningu þar að auki varð árangurinn fyrir þá sem til heyrðu ógleymanlegur. Ivan Fischer er frægur og þaulreyndur hljómsveitarstjóri og sýndi strax hin skraut- legustu tilþrif sem hljómsveitir þurfa ekkert á að halda en áhorfendur flokka undir dularfulla og óskiljanlega töfra sem aðeins þeir útvöldu hafa fengið í vöggugjöf. Þetta endaði uppi með að vera gamall, en glæsilegur, Don Juan, sem ekki stóð lengur í ströngu, en sagði vel frá hvernig þetta gerðist allt saman. Einhver sundrung lá í loftinu, þótt glæsilega væri leikið og hljómsveitarstjórinn væri nótnalaus, stjórn- aði „eftir minni“, sem er rangnefni því að ef hver og einn hljóðfæraleikari í hljómsveit ætti hlutverk sitt undir minni hljómsveitarstjórans færi allt úr böndunum eftir nokkra takta. Valsasyrpan úr Der Rosenkavalier var líka vel leikin, og full af blæbrigðum sem aðeins næst að laða fram ef um nægan æfingatíma er að ræða en það er oft kosturinn við unglinga- hljómsveitir að þær hafa oft meiri tíma til æf- inga og viljinn til að vinna er miklu meiri. R. Strauss var frægur fyrir að stjórna tónlist sinni á svo einfaldan máta að það var eins og ekkert væri að ske, vinstri höndin sást sjaldan, nema mikið lægi við, og tónsprotinn bærðist varla, svo fíngerðar voru hreyfingar hans, en blæbrigðarík tempó urðu til við þessar kring- umstæður eins og sjálfsagður hlutur. Að benda á litbrigði Undir stjórn Ivan Fischer var ekki slíku láni að fagna, valsarnir voru þvingaðir og án un- aðar. Eftir hlé var 4. sinfónía Mahlers flutt og verð ég að játa að sjaldan eða aldrei hef ég heyrt jafnlitríkan flutning og heyrt jafnljós- lega hve stórkostlega vel Mahler notar hljóm- sveitina en þessi spurning vaknaði aftur og aft- ur: Er það hlutverk hljómsveitarstjóra að gerast „leiðsögumaður“, sem sífellt er að benda á litbrigði í landslaginu? Þegar við tök- um næstu beygju vil ég benda sérstaklega á lit- ríkan mosa í hlíðum fjallsins til hægri o.s.frv. o.s.frv., allar óþarfa ýkjur hefna sín í lokin. Nú vaknar sífellt sú spurning, hvað er sannur og réttur flutningur á þessari sinfóníu? Slíkur flutningur getur vart átt sér stoð, en eftir ára- langa hlustun veit ég sjálfur hvað mér fellur í geð. Amanda Roocroft söng hið krefjandi sópr- anhlutverk í síðasta þættinum af öryggi og óneitanlega hefur hún fallaga rödd, en hratt tempó hljómsveitarstjórans olli áhyggjum og kom í veg fyrir þá barnslegu einfeldni sem tón- skáldið er að reyna að skapa. Hvert sæti var setið í þessum stóra sal og hrifning áheyrenda mikil. Strax eftir þessa tónleika lagði ég á brattann uppmeð kastalanum, í átt að kirkju við gamla Aðalstrætið í gömlu Edinborg, en þessi kirkja er nú orðin að aðalstöðvum Ed- inborgarhátíðarinnar, og þar fara fram tón- leikar seint á kvöldin, þ.e.a.s. 10.30, og mun ég í næstu grein segja m.a. frá tónleikum Miklós Perényi, hins frábæra sellóleikara frá Ung- verjalandi. Matthias Goerne, Andras Schiff og Gustav Mahler Jugendorchester eru meðal þeirra sem koma við sögu þeg- ar HAFLIÐI HALLGRÍMSSON fjallar um tónlist á Edinborgarhátíðinni í þriðju grein sinni. Aldrei hefði Mahler fengist til að trúa því, þegar hann barðist við vanafasta og þrjóska hljóðfæra- leikara í lítilfjörlegum og fjársveltum óperuhúsum í Austurríki og víðar, að u.þ.b. hundrað árum seinna yrði stofnuð hljómsveit skipuð ungmennum víða úr Evrópu, sem bæri hans nafn. Höfundur er tónskáld. „MEIRI SNERPU, FÉLAGAR, MEIRI SNERPU“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.