Lesbók Morgunblaðsins - 13.10.2001, Page 3

Lesbók Morgunblaðsins - 13.10.2001, Page 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. OKTÓBER 2001 3 Í HEIMSPEKILEGUM rökræðum um lög og rétt takast á tvenns konar sjónarmið. Annars vegar eru kenn- ingar sem kenndar eru við vildarrétt (og kallast „pósitífismi“ á útlendum málum). Hins vegar eru hugmyndir um náttúrurétt. Réttarspekingar sem aðhyllast vildarrétt segja að lögin séu fyrirmæli sem hafa verið ákveðin af þar til bærum valda- stofnunum. Andstæðingar þeirra, sem halda fram náttúrurétti, neita því að vald- hafar geti ákveðið að vild hvað sé lög og hvað ekki. Að þeirra mati eru lög nátengd réttlæti og siðferði sem yfirvöld geta litlu eða engu um breytt. Deila heimspekinga um hvor þessara kenninga sé réttari er líf- seig vegna þess að báðir hafa töluvert til síns máls. Lög eru af ólíku tagi. Sum falla að viðhorfum í anda náttúruréttar. Önnur eru af sauðahúsi vildarréttarins. Á miðöldum, áður en miðstýrð þjóðríki urðu til í Evrópu, litu lærðir menn á kenn- inguna um náttúrurétt sem sjálfsögð sann- indi. Lög eins og þau sem skráð voru í Grá- gás og aðrar miðaldaskruddur voru venjur og hefðir sem höfðu mótast á löngum tíma og dómarar og þing höfðu lagað að þörfum og siðum samfélagsins. Þegar ekki var hægt að styðjast við lögbók eða augljós for- dæmi reyndu dómstólar að miðla málum og finna sanngjarna lausn. Ef hún reyndist vel og var í samræmi við almennt siðferði þá varð hún hluti af réttarhefðinni. Annars varð hún víti til varnaðar. Þannig mótuðust lögin smám saman án þess þau væru bein- línis búin til. Þau voru hluti af menningar- arfinum eins og tungumálið og trúar- brögðin. Trúlega voru þau lítt eða ekki aðgreind frá almennri réttlætiskennd og líklega þótti flestum næsta augljóst að ranglátar reglur gætu ekki haft fullkomið lagagildi. Á 16. og 17. öld efldist miðstýring í Vest- ur-Evrópu. Kóngar sögðu sig úr lögum við páfann og tóku sér óskorað vald yfir heilum löndum. Þá urðu til fullvalda ríki og rík- isvald í nútímaskilningi. Samt héldu hefð- bundin lög áfram að gilda í samskiptum venjulegs fólks. En til viðbótar við þau komu fleiri og fleiri reglur og tilskipanir frá krúnunni. Að nokkru fetuðu veraldleg yf- irvöld hér í fótspor kirkjuvaldsins sem hafði sett reglur um helgidaga, kirkjustarf, tíund og fleira sem ekki varðar beinlínis réttlæti í samskiptum einstaklinga. Með út- þenslu ríkisvaldsins hefur fjölgað mjög lagabálkum sem varða stjórnsýslu og rekstur ríkisfyrirtækja og opinberra stofn- ana fremur en samskipti Péturs og Páls. Núna er langmestur hluti allra laga stjórn- valdsákvarðanir um opinberan rekstur sem hafa óljós tengsl við réttlætið. Undanfarin 350 ár eða þar um bil hafa kenningar í anda vildarréttar líka sótt á. Um miðja tutt- ugustu öld dustuðu menn þó rykið af nátt- úruréttinum þegar leiðtogar þjóðernisjafn- aðarmanna voru dæmdir í Nürnberg. Þeir voru ekki sakfelldir fyrir að óhlýðnast ráða- mönnum heldur fyrir athæfi sem góður dómari hlýtur að úrskurða saknæmt hvað sem líður valdsorðaskaki og skipunum stjórnvalda. Í ljósi þessa ágrips af réttarsögu getum við gert greinarmun á tvenns konar lögum. Annars vegar eru lög sem greiða götu fólks og tryggja réttlæti í samskiptum þess. Það kostar að jafnaði ekkert að hlýða þeim en séu þau brotin fylgir því kostnaður eða tjón. Hins vegar eru lög um rekstur op- inberra stofnana eins og skóla, velferð- arkerfis eða vegagerðar. Slíkum lögum er yfirleitt ekki unnt að fara eftir án þess að einhver kostnaður hljótist af. Það voru lög af fyrrnefndu gerðinni sem John Locke hafði í huga þegar hann sagði: „… tilgangur laganna er ekki að afnema eða takmarka, heldur að vernda og auka frelsið;“ (Ritgerð um ríkisvald §57) Lög af þessu tagi setja mönnum ekki aðrar skorð- ur en þær að banna ofbeldi, rán og illvirki. Þau styðja einstaklinga í að ná rétti sínum og auka á ýmsan hátt svigrúm þeirra til að fara sínu fram. Samningsréttur gerir mönnum t.d. mögulegt að hafa samstarf við ókunnuga án þess að afla sér fyrst áreið- anlegrar vitneskju um hvort þeim sé treystandi til að standa við orð sín. Eign- arréttur gerir þeim mögulegt að framleiða vöru, reka fyrirtæki og skipta með sér verkum með hagkvæmum hætti. Lög af þessu tagi eru að stofni til miklu eldri en löggjafarvaldið og sé einkum höfð hliðsjón af þeim er eðlilegt að taka undir kenningar í anda náttúruréttar. Sá sem fremur rán eða ofbeldisverk eða svíkur loforð breytir rangt hvað sem líður yfirlýsingum stjórn- valda. Kenning vildarréttarins er miklu trú- legri þegar höfð er hliðsjón af lögum sem fjalla um rekstur ríkisstofnana. Í lögum um framhaldsskóla segir t.d. að kennsludagar skuli ekki vera færri en 145 á ári. Þessi regla kemur réttlæti ekkert við. Hún er hliðstæð reglum sem stórfyrirtæki setja um starfsemi einstakra deilda. Reglur af þessu tagi geta verið vel eða illa rök- studdar, skynsamlegar eða óskynsamlegar. Þótt þær séu ekki eins mikilvægar og rétt- læti í samskiptum fólks eru þær nauðsyn- legar, a.m.k. í samfélagi þar sem ríkið sér um jafnstóra málaflokka og menntun og al- mannatryggingar. En þær eru af allt öðru tagi en lögin sem Locke sagði að væru til að vernda og auka frelsi fólks. Í stjórnmálum nútímans virðist þessi greinarmunur á réttlæti og reglum um op- inberan rekstur fara fyrir ofan garð og neð- an. Mestallur tími Alþingis fer í að rökræða og ákvarða reglur um ríkisrekstur og starf- semi hins opinbera. Um þessi mál verður þingið að hafa nána samvinnu við stjórn- arráðið og oftast samþykkir meirihluti þingmanna frumvörp sem ráðherrar leggja fram og samin eru af embættismönnum eða sérfræðingum. Þetta getur svo sem verið gott og blessað ef ráðherrarnir leggja að- eins fram skynsamlegar tillögur um rekst- ur ríkisstofnana. En því miður færist sífellt í vöxt að framkvæmdavaldið panti reglur og lög sem varða líka hegðun og samskipti almennra borgara. Þetta rennur gegnum þingið því menn gera ekki neinn grein- armun á þeim tvenns konar lögum sem hér hafa verið til umfjöllunar. Einhvern veginn er eins og það hafi gleymst að í lýðræðisríki eiga engir aðrir en kjörnir fulltrúar al- mennings neitt með að leiðrétta og lagfæra reglur um hvað fólk má og hvað ekki og ákvarðanir þeirra um slík efni eiga að taka mið af réttlæti og almannahag fremur en þörfum og sjónarmiðum embættismanna, sérfræðinga og stjórnvalda. Afleiðing þessa er að með hverju árinu sem líður fjölgar alls konar lagafyrirmælum sem eru fólki bara til trafala. Mér skilst að í Evrópusam- bandinu hafi þessi öfugþróun gengið enn lengra en hér á landi og þar séu framleiddir heilir hillumetrar af fyrirmælum sem al- menningi er ætlað að fara eftir en hafa samt ekkert með réttlæti að gera. Ef menn hugsa sem svo að öll lög séu af sama tagi og reglur um starfsemi rík- isstofnana þá fara þeir að líta á samfélagið sem einhvers konar fyrirtæki þar sem for- stjórarnir setja allri starfseminni markmið og reglur um hvernig þeim skuli náð. En samfélag frjálsra manna er ekki fyrirtæki þar sem allir eiga að þjóna markmiðum yf- irstjórnarinnar. Það er þvert á móti vett- vangur þar sem hver og einn setur sín eigin markmið og velur sjálfur leiðir að þeim. Lög sem stuðla að réttlæti í samskiptum al- mennra borgara eru forsenda þess að slíkt samfélag frjálsra manna fái þrifist. Þess háttar lög geta engir valdhafar sett alger- lega að vild því þeir ráða ekki hvað er rétt- látt og hvað ekki. Ef lögin sem almenningur á að hlýða eru ákveðin í anda vildarréttar eins og þegar forstjórar taka ákvarðanir um rekstur fyr- irtækja þá er hætt við að þau þjóni ekki réttlætinu. Þá er líka hætt við að þau auki ekki svigrúm fólks og möguleika til að fara sínar eigin leiðir heldur beini öllum á ein- hverja braut, sem stjórnvöld eða embætt- ismenn hafa kosið. Þegar svo er komið þá er valdið hætt að þjóna almenningi og heimtar þess í stað að almenningur þjóni sér. RÉTTLÆTI OG RÍKISVALD RABB A T L I H A R Ð A R S O N HANNES SIGFÚSSON ENGIN TÍÐINDI SPYRJAST Allt er fjarverandi Engin tíðindi spyrjast Tómir speglarnir horfast í augu og hörfa hver fyrir öðrum Dyr eftir dyr eftir dyr inn í endalausa röð af auðum speglasölum Sólin rennur upp en hún leiðir ekki neitt í ljós Tré laufgast en þau leiða ekki hugann að neinu sérstöku Hið eina sem vekur athygli þína er að þú fellir skugga (sem bendir til að þú sért viðstaddur þó að þú vitir ekki hvað) Þetta ljóð Hannesar Sigfússonar (1922–1997) birtist í bók hans Jarteikn sem kom út árið 1966 en það skírskotar ekki síður til ríkjandi ástands nú í byrjun 21. aldar. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 4 0 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R EFNI Erik Magnussen er einn virtasti hönnuður Dana. Hann hefur nú gefið Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ úrval verka sinna. Er það yfirgripsmeira og betra úrval hluta eftir Erik Magnussen en fyrirfinnst í nokkru öðru safni á Vest- urlöndum. Aðalsteinn Ingólfsson fjallar um hönnun Magnussens. Kristnihald undir Jökli, mikil dæmalaus bók, segir Pét- ur Gunnarsson í hugleiðingu um þessa skáldsögu Halldórs Laxness í tilefni af upp- færslu Leikfélags Reykjavíkur á henni í Borgarleikhúsinu. Pétur segir meðal ann- ars: „Kristnihald undir jökli er eitthvert rót- tækasta verk höfundarins og þar af leiðandi heimsbókmenntanna. Þessi meistari orðsins lýsir frati á orðin – og orðar það óaðfinn- anlega.“ Náttúrusýn íslenskra myndlistarmanna á tuttugustu öld er meginþema sýningar sem opnuð var á miðvikudaginn í Corcoran-safninu í Washington. Auður Ólafsdóttir fjallar um efnið í grein sem hún nefnir Hið upphafna norður en þar segir hún að vegur nátt- úruljóðrænu í íslenskri myndlist hafi frem- ur aukist síðustu ár, landslagsarfleifðin sé sú sögulega viðmiðun sem yngri myndlist- armenn hafi óspart vísað í. Marcel Reich-Ranicki er einn kunnasti bókmenntagagnrýnandi Þýskalands. Sjaldnast hefur hann notið mikilla vinsælda meðal rithöfunda, enda ekki sparað stóru orðin þegar bækur þeirra hafa verið annars vegar, en nú þegar hann hyggst hætta að stjórna sjónvarpsþætti sín- um, Bókmenntafereykinu, virðist annað hljóð vera komið í strokkinn. Auðunn Arn- órsson segir frá viðburðaríkri ævi Reich- Ranickis en nýlega kom út sjálfsævisaga gagnrýnandans í Þýskalandi. FORSÍÐUMYNDIN er eftir Margréti H. Blöndal, birt að ósk Lesbókar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.