Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. NÓVEMBER 2001 9 deilum á sínum tíma, en raska nú ekki lengur ró manna. Af útsýnisplani við veginn er fallegt að horfa yfir skóg og vatn. Ekki sá ég marga leggja leið sína eftir göngustígunum niður að vatninu. Þar má því næsta víst vera einn með sjálfum sér, sem er, ef út í það er farið, hrein og bein nauðsyn, þegar komið er úr ferðamanna- mergðinni í Keswick eða Windermere. Það var einmitt við suðurenda Thirlmere, sem Woodworths-systkinin og Coleridge hitt- ust títt, en staðurinn er nokkurn veginn miðja vegu milli Keswick og Grasmere þar sem Will- iam og Dorothy bjuggu. Sögur eru af fundum þeirra þar sem þeir skáldbræður lásu ljóð en Dorothy hressti sig á koníaki með vatnstári. Coleridge hjó upphafsstafi þeirra í stein þarna hjá og síðan bættust við upphafsstafir bróður þeirra, John Wordsworth, og þeirra Hutchin- sonsystra, Mary og Söru. Þegar dalurinn var stíflaður lenti nafnasteinninn í veginum fyrir nýjum vegi. Þrátt fyrir tilraunir manns að nafni Canon Rawnsley til þess að bjarga steininum, var hann á endanum sprengdur. Rawnsley hirti brotin með stöfunum á og hlóð þeim í vörðu ofan við veginn. Þar voru þau til 1984, að þau voru flutt til heimilis Wordsworth í Gras- mere og sett saman. Suður úr Thirlmeredal til Grasmere er farið um Dunmail Raise. Þar er varða sem segir nafnið dregið af orrustu sem þarna var háð 945, en hún varð ósigur Dunmail, síðasta konungs Kumbaralands, fyrir Játvarði Norðymbra- landskonungi. Í andrúmi liðinnar tíðar Grasmere og umhverfi skipuðu öndvegið í hjarta Williams Wordworths; „yndislegasti staður sem nokkur maður hefur gist“. Reyndar rignir þar ekki síður en í Keswick. E. M. Fost- er, sem dvaldi í Grasmere sumarið 1907, var sammála Wordsworth um fegurðina, en bætti við: „það rignir nótt sem dag, en þó ekki alltaf allan daginn“. William og Dorothy Wordsworth fluttu inn í Dove Cottage í Grasmere 1799 og bjuggu þar til 1808. Stundum bjó John, bróðir þeirra, hjá þeim og eftir 1802 var þarna líka heimili Mary Huchinson, eiginkonu skáldsins. Þarna skrifaði Dorothy sínar hugmyndaríku hversdags- og náttúrulýsingar sem höfðu áhrif á bæði William bróður hennar og Samuel Coleridge og halda nú skáldnafni hennar á lofti. Og þarna orti William mörg af sínum beztu ljóðum. Árið 1890 eignaðist Wordsworth-sjóðurinn húsið og það hefur síðan verið opið almenningi, sem og safn í hlöðunni norður af. Þar í milli er svo nafnasteinninn góði. Í annarri hlöðu er Wordsworth-bókasafnið, þar sem fræðimenn og aðrir geta grúskað í handritum systkinanna og einnig handritum Coleridge og fleiri. Því fylgir alltaf sérstök tilfinning að ganga um hús sem Dove Cottage. Það er eins og and- rúm löngu liðins tíma hafi tekið sér þar bólfesti til eilífðar og í hugann koma alls kyns myndir af þeim sem þarna bjuggu. Það er auðvelt að sjá Dorothy fyrir sér þar sem hún lýsir viðburðum daganna af frábærri elju og skáldlegu innsæi. Og William bróðir hennar gengur um gólf, hvarflar út í garðinn og yrkir sín ódauðlegu ljóð. Það er svo heldur betur kátt í kotinu þegar Coleridge kemur í heimsókn og skáldin láta gamminn geisa. Þetta var hvorki staðurinn né stundin, sem þeir félagar unnu saman lýrísku ballöðurnar (Lyrical Ballads 1798), sem mörkuðu upphaf rómantísku stefnunnar í enskum bókmenntum. Þær orktu þeir fyrr, áður en þeir fluttu í Vatna- héraðið, á árum þeirra í Somerset. Hin náttúrulega þrenning Þegar fjölskyldan stækkaði varð þröngt um hana í Dove Cottage, svo hún flutti sig um set. 1813 flutti svo fjölskyldan frá Grasmere, en þó ekki langt, aðeins steinsnar í næsta þorp við næsta vatn. Þar, í Rydal Mount sat William Wordsworth í skáldaöndvegi. En skáldið gat notað hendurnar til fleiri hluta en að skrifa ljóð. Hann var líka með græna fingur og á sínum efri árum lagði hann gjörva hönd að garðinum við húsið. Hann sagði oftar en einu sinni að hefði hann ekki orðið skáld hefði hugur hans staðið til þess að vera götusali eða garðyrkjumaður. William Wordsworth lézt 1850. Hann og Mary eiginkona hans og Dorothy Wordsworth hvíla öll í kirkjugarðinum í Grasmere sem og Dóra, dóttir Williams og Mary og tvö börn önn- ur, sem þau misstu í Grasmere. Sunnan við Grasmere og Rydal er þorpið Ambleside sem er enn einn staður þessarar náttúrulegu þrenningar Vatnahéraðsins; þar sem tré, vatn og land falla hvert að öðru svo enginn listamaður fær slegið þeim við. Mað- urinn getur aðeins reynt að líkja eftir nátt- úrunni af veikum mætti. Hér í Ambleside hafði William Wordsworth skrifstofu þau árin sem hann gegndi embætti innheimtustjóra stimpilgjalda, 1813 til 1843, en það ár var hann útnefndur lárviðarskáld. En hann sótti fleira til Ambleside en skrifstofu- vinnu því staðurinn gaf skáldgáfu hans byr undir báða vængi. Eflaust hefur hann stundum horft suður um Windermere-vatn og látið hugann reika til framhaldsskólaáranna í Hawkshead. Staðurinn sá og Esthwaite-dalurinn og Esthwaite-vatn voru honum alla tíð hugstæð og hann geymdi í hjarta sínu náttúruna, fólkið og hina einföldu gleði, sem allt var honum lífsnauðsyn og veitti honum líka skáldlegan innblástur. Það var svo frá Hawkshead, sem hann í fyllingu tímans fór burt úr Vatnahéraðinu og út í hinn stóra heim. Frægasta hús í Ambleside er þó ekki kontór skáldsins, heldur Brúarhúsið. Það er tveggja hæða bygging sem skemmtilegasta sagan segir að Skoti einn hafi byggt yfir lækinn til að kom- ast hjá því að greiða lóðargjald! Náttúrunnar fegurst form Windermere/Bowness var eitt sólskinsbros í framan daginn þann, sem ég var þar. Þetta er ferðamannabær innst sem yzt og fjörugt á bryggjunum í Bowness þar sem vatnabátarnir koma og fara. Nyrðri hlutinn, Windermere, er endapunkt- ur járnbrautarinnar. Þangað kom hún í smá- þorpið Birthwaite 1844 en ráðamenn járnbraut- anna kusu heldur að kenna stöðina við vatnið og það nafn færðist svo yfir á byggðina sem reis umhverfis járnbrautarstöðina. Mikil andstaða reis upp gegn frekari járnbrautarlagningu og var William Wordsworth þar fremstur í flokki. Hann gat ekki hugsað sér að járnbrautin myndi rista sig norður um hans ástkæra Grasmere og fara flautandi áfram um Vatnahéraðið. Hann skar upp herör gegn járnbrautinni og kvaddi til liðs við sig vinda, ár og landið sjálft og lagði fjöllunum í munn, hversu mjög þeim var brugð- ið, þegar lestarflautan rauf kyrrð þeirra. Ham- ingjan varð Wordsworth hliðholl í þessu máli því menn gáfu lengri járnbraut upp á bátinn. Windermere er vatna stærst í Vatnahéraðinu og fátt er eins friðsælt og að sigla um sléttan vatnsflötinn, láta lágvært duggu duggið vagga sálinni og landið líða hjá. Satt að segja varð mér þó friðurinn lítill fyrir linnulausum túristasjó- gangi og hugsaði ég með mér að ég hefði betur borið mig eftir siglingu á Ullswater. Orrest Head er útsýnisstaður norðofan við Windermere. Þar horfði William Wordsworth út yfir vatnið, sem lá sem stórfljót strekkt í sól- arljóma, með grænar eyjar, nes og geislavoga, náttúrunnar fegurst form í einum heimi. ...í blund við rökkur-skóg Bowness er eldri bæjarhlutinn. Þar eru mörg falleg og forn hús og auðvitað er kirkja í þeim hópi. Bowness er gamall ferjustaður. Þarna er vatnið mjóst og eina ferjan, sem enn gengur þvert á vatnið, fer þarna yfir á vír upp á gamla mátan. Hún tekur aðeins um tug bíla í ferð, sem tekur stundarfjórðung, svo þegar margir eru á ferli myndast jafnan biðraðir báðum megin. Í Windermere/Bowness er bátasafn þar sem skoða má alls kyns fley; m.a. gömul gufuskip, og þarna er Dolly, sem talin er elzti vélbátur í heimi. Annað safn í bænum skal nefnt hér. Það er sýning á söguheimi Beatrix Potter (1866– 1943), sem samdi dýrasögur fyrir börn og myndskreytti sjálf. Meðal bóka hennar eru sög- urnar um Pétur kanínu og Tuma kettling. Það kom að leiðarlokum mínum í Vatnahér- aðinu undir kvöld. Sem ég tók strikið upp úr Bowness og leit um öxl til Windermere-vatns, lifnuðu mér ljóðlínur Wordsworth, sem Helgi Hálfdanarson hefur gefið okkur á gullbakka: Kvöldið er fagurt, hjúpað helgri ró; hæglát er stundin líkt og nunna blíð sem drúpir höfði hljóð á bænatíð, er hnígur sól í blund við rökkur-skóg. m nokkur maður hefur gist.“ H UM VATNAHÉRAÐIÐ m Wordsworth Markaðs- torgið í Keswick. Stillfagur dagur við Derwent Water. ge – heimili Words- í Grasmere.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.