Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2001, Side 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. NÓVEMBER 2001 3
E
INHVERNTÍMA var gert grín
að því að reiknað hefði verið
barn í konu. Nú er búið að
reikna járnbraut á Reykjanes-
ið og ég veit satt að segja ekki
hvort er meira grín.
Íslendingar hafa alltaf verið
veikir fyrir járnbrautum. Mest
vegna þess að slík farartæki hafa aldrei verið
til á Íslandi, ef undan er skilin brautin sem
flutti grjótið úr Öskjuhlíð í hafnargarðana á
sínum tíma. Hafnargerðin í Reykjavík var
líklega meiri framkvæmd á kvarða síns tíma
en þær stórvirkjanir sem nú eru til umræðu.
Hugsjónamenn dreymdi um járnbraut
austur yfir fjall og reiknuðu sjálfsagt með því
að meðfram brautinni döfnuðu hvarvetna
þorp og blómleg býli, rétt eins og í Amerík-
unni þegar járnbrautarkerfið teygði sig vest-
ur á bóginn og gerði nýja landshluta byggi-
legri en áður.
Þegar dr. Valtýr Guðmundsson stofnaði
tímarit sem átti að vera boðberi nýrra tíma
gaf hann því nafnið Eimreiðin. Tímaritið átti
að knýja þjóðina inn í nýja öld framfara og
velmegunar.
Við nám vestanhafs fyrir góðum fjórum
áratugum bjó undirritaður skammt frá braut-
arteinum þar sem fóru vöruflutningalestir
með tilheyrandi skrölti. Það var seinna sem
það rann upp fyrir honum að þeir hvítu
blönku bjuggu næst brautarteinunum mín
megin og þeir svörtu bjuggu hinum megin.
Sumar drógu lestirnar upp undir hundrað
vagna. Þá voru líka dísilknúnar eimreiðar
fleiri en ein. Fyrstu næturnar hrökk maður
upp með andfælum, þegar gamla timburhúsið
lék á reiðiskjálfi er lestirnar fóru hjá. Á dag-
inn var það dægradvöl að líta upp úr náms-
bókunum, horfa á þetta nýnæmi rétt utan við
gluggann og telja vagnana. Einn daginn upp-
götvaði ég mér til mikillar undrunar að í hug-
anum var ég farinn að telja á ensku. Það var
fyrsta skrefið til hugsunar á annarri tungu.
Svo hætti maður að heyra í lestunum. Lesta-
skröltið varð hluti af umhverfishljóðunum
sem röskuðu ekki rónni, hvað þá að það stæði
manni fyrir svefni.
En Íslendingar urðu að láta sér nægja mjó-
ar malarbrautir og troðninga. Kölluðu brýr
þar sem gert var hestfært yfir keldur og kíla.
Þegar Íslendingar komu til Vesturheims
þekktu þeir ekki hugtakið að fara yfir götu, –
menn fóru eftir eða um götur, oft fjárgötur. Á
Íslandi voru ekki til neinar götur til að fara
yfir. Kannski var það þess vegna sem Vestur-
Íslendingar töluðu um „að krossa strítuna“,
þegar þeir fóru yfir götu. Þeir þekktu ekki
hugtakið að fara yfir götu.
Draumarnir um járnbrautir rættust eigi,
enda þótt málið kæmist á þann rekspöl að
mælt var fyrir járnbraut austur yfir fjall.
Gott ef brautarstöð var ekki teiknuð og átti
að rísa þar sem nú mætast Flókagata og
Rauðarárstígur, eða þar í grennd. Þá hefði
verið gaman að búa á Skeggjagötunni, eða
hitt þó heldur.
Á nýrri öld eru járnbrautardraumar enn á
ferli. Nú á að huga að því að leggja járnbraut
úr Breiðholti að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Ekki verður annað séð en ráðamenn Reykja-
víkurborgar séu í fúlustu alvöru að gæla við
þá hugmynd að milljarðatugum úr sameig-
inlegum sjóðum landsmanna verði varið til að
kosta járnbraut þar sem „tekjurnar gætu
staðið undir kostnaði af rekstri lestarinnar á
komandi árum, ef spár um fjölgun ferða-
manna ganga eftir, en ekki fjárfestingunni“,
svo vitnað sé til orða borgarstjórans í Reykja-
vík í Fréttablaðinu 18. október síðastliðinn.
Höfundur þessara lína er ekki mikill
reiknimeistari, enda stúdent úr máladeild
MR og stoltur af. Hann þykist þó sjá í hendi
sér að ekki er nokkur grundvöllur fyrir
rekstri járnbrautar milli Reykjavíkur og
Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Alveg sama
hvernig reiknað er.
Áætlað er að stofnkostnaður geti numið 29
milljörðum króna. Slíkar áætlanir hafa oftar
en ekki tilhneigingu til að vera of lágar.
Farþegaumferð um Keflavíkurflugvöll er
nær eingöngu kvölds og morgna ef undan er
skilinn háannatíminn yfir sumarið. Farþega-
straumurinn um völlinn er því aðeins milli
klukkan hálfsex og átta á morgnana og þrjú
og fimm síðdegis. Þannig er það lungann úr
árinu.
Talað er um að ferðatími til Keflavíkur
verði 30 mínútur og lestarstöð verði í Mjódd.
Meðalferðatími úr Reykjavík til Keflavíkur í
bíl er 45–50 mínútur. Úr vesturhluta borg-
arinnar, af Seltjarnarnesi og úr Mosfellsbæ,
tekur 10–20 mínútur að koma sér í Mjóddina.
Þeir ferðamenn spara ekki tíma. Margir
munu eftir sem áður kjósa að koma á eigin bíl
til Keflavíkur. Nota það frelsi sem fylgir því
að aka að flugstöðinni. Þetta mun líka aukast
eftir að byggt hefur verið bílageymsluhús við
flugstöðina.
En ef menn trúa því að hagkvæmt sé að
reka járnbraut milli Reykjavíkur og Kefla-
víkur skulu þeir skoða rekstur járnbrautanna
til Arlanda frá miðborg Stokkhólms og frá
Osló til Gardemoen. Báðar eiga í erfiðleikum.
Samt er íbúafjöldi á markaðssvæðum þeirra
margfaldur á við Reykjanes og Reykjavík og
það sem ekki síður skiptir máli er að þessar
tvær brautir eru hluti af gamalgrónu og víð-
feðmu lestaneti þessara tveggja landa. Hér á
landi er engu slíku fyrir að fara. Enn bætist
við að flug frá Arlanda og Gardemoen er ekki
aðeins meira en frá Keflavík heldur er dreif-
ingin jafnari yfir daginn.
Nú hafa verið gerð göng undir Hvalfjörð.
Umferð um þau hefur farið fram úr öllum
spám, eins og ritari þessa Rabbs raunar sagði
fyrir margt löngu á Alþingi að gerast mundi.
Fjárhagslega standa göngin fyrir sínu. Þeir
sem um þau fara borga ekki bara rekstr-
arkostnað. Þeir greiða líka það sem kostaði
að gera göngin. Hvers vegna eiga þeir sem
ferðast með fyrirhugaðri járnbraut til Kefla-
víkur ekki að greiða kostnaðinn við gerð
brautarinnar? Auðvitað eiga þeir að gera það.
En þá gengur dæmið heldur ekki upp. Það er
nefnilega vitlaust reiknað.
Ef einhverjir fjárfestingaraðilar eða sjóðir
eru reiðubúnir að fjármagna járnbraut milli
Keflavíkur og Reykjavíkur og eiga brautina
og reka þar til þeir hafa endurheimt fjárfest-
inguna, þá gjöri þeir svo vel. Það mætti hafa
nákvæmlega sama háttinn á og um Hval-
fjarðargöngin. Nýtt fyrirtæki um járnbraut
til Keflavíkur gæti kannski heitið Mölur en
ekki Spölur svona í minningu gamla mal-
arvegarins milli Reykjavíkur og Keflavíkur.
Svo hefur Mölur líka aðra merkingu, en það
er önnur saga.
Hér á árum áður, þegar ný og stærri Akra-
borg hóf siglingar milli Akraness og Reykja-
víkur og var mikil samgöngubót, var frammá-
maður á Akranesi spurður hvernig
reksturinn gengi: Alveg ljómandi vel, svaraði
hann – allt nema fjárhagshliðin. Ætli það
verði ekki eitthvað svipað með járnbraut-
ardrauminn á Reykjanesi.
REIKNAÐU
JÁRNBRAUT!
RABB
E I Ð U R G U Ð N A S O N
e i d u r @ h o m e . c o m
JÓNAS HALLGRÍMSSON
ÍSLAND
Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta
frama
lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af
lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héröð og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim.
Það er svo bágt að standa’ í stað, og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á lögbergi
helga
blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
Jónas Hallgrímsson (1807–1845) var helsta skáld rómantísku stefnunnar á Ís-
landi. Í Íslensku alfræðiorðabókinni segir að ættjarðarkvæði Jónasar, meðal
annars Ísland og Gunnarshólmi, hafi verið mikilvægt framlag til þjóðfrelsisbar-
áttu Íslendinga og þau hafi stuðlað að þjóðernisvitund þeirra æ síðan. Dagur
íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur ár hvert á afmælisdegi Jónasar, 16.
nóvember.FORSÍÐUMYNDIN
er af verki eftir Birgi Andrésson myndlistarmann: Fáni. Íslensk ull. 2000.
Prjónari: Steinunn Svavarsdóttir. Ljósmynd: Ásdís Ásgeirsdóttir.
Bókmenntagagnrýni
verður mikið milli tannanna á fólki næstu
vikurnar ef að líkum lætur. Hermann Stef-
ánsson skýrir og skilgreinir sjö hugtök bók-
menntagagnrýni og -umræðu í tveimur
greinum undir yfirskriftinni: Úr orðabók
ríkjandi viðhorfa. Seinni greinin birtist í
næstu Lesbók.
Ísland – Útland
er yfirskrift greinaflokks sem hefur göngu
sína í Lesbók í dag um þjóðernishyggju og
þjóðarímynd Íslendinga á aldamótum. Í
fyrstu greininni fjallar Sigríður Matth-
íasdóttir um hvað er líkt með þjóðarímynd
Íslendinga og Tékka og kemst að þeirri nið-
urstöðu að þjóðernisstefna þeirra tengi þær
saman frekar en að greina þær í sundur.
Philip Roth
er bandarískur rithöfundur sem hefur átt
fáheyrðri velgengni að fagna í bókmennta-
heiminum vestanhafs. Fjögur helstu bók-
menntaverðlaun Bandaríkjanna hafa fallið
honum í skaut á síðustu árum. Björn Þór
Vilhjálmsson fjallar um bækur Roths.
Jón Óskar
rithöfundur hefði orðið áttræður á árinu.
Af því tilefni stendur yfir sýning á hand-
ritum og gögnum hans í Þjóðarbókhlöð-
unni. Dóttir skáldsins, Una Margrét Jóns-
dóttir, leiddi Bergþóru Jónsdóttur um
sýninguna og sagði sögur af skáldinu og
samferðamönnum.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
4 5 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R
EFNI