Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2001, Page 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. NÓVEMBER 2001
U
NG bergði hún á brunninum
– og fær aldrei nóg. Æsku-
heimili Guðrúnar Jóhönnu
Jónsdóttur var baðað tón-
um. Og sönglagið? Það var í
öndvegi. Hvers vegna að
sækja vatnið yfir lækinn,
þegar faðir manns heitir Jón
Ásgeirsson?
Út er sem sagt komin geislaplata, Svartálfa-
dans, þar sem Guðrún syngur ein-
göngu lög eftir föður sinn. Með
henni leikur William Hancox á pí-
anó. Jón Ásgeirsson hefur átt ótal
lög á plötum en Svartálfadans er
sú fyrsta sem alfarið er helguð
lögum hans. Útgefandi er The
Classical Recording Company í
Englandi.
„Kveikjan að þessari plötu voru
fyrstu einsöngstónleikar mínir
heima á Íslandi haustið 1998. Það
var þá sem þeir kynntust, pabbi
og William Hancox. Pabbi hafði
oft talað um að ég tæki upp eitt-
hvað af lögunum hans en eftir að
hann heyrði í Will færðist hann
allur í aukana. Ekki að undra, Will
er alveg frábær píanisti,“ segir Guðrún um til-
urðina.
Völdu minna þekkt lög
Í kjölfar tónleikanna sendi tónskáldið Guð-
rúnu og Will fjöldann allan af nótum út til Bret-
lands, sem þau lögðust yfir. „Það var úr vöndu
að ráða enda á pabbi gríðarlegt magn af söng-
lögum. Sum hver eru mjög þekkt. Við tókum
hins vegar þá ákvörðun að einbeita okkur frek-
ar að minna þekktum lögum. Ég var strax
ákveðin í að taka upp lagaflokkinn Svartálfa-
dans, sem saminn er við samnefndan ljóðaflokk
eftir Stefán Hörð Grímsson, en ég söng einmitt
nokkur lög úr honum á tónleikunum um árið.
Ég hef líka lengi verið hrifin af þremur lögum
sem pabbi samdi við ljóð eftir Matthías Johann-
essen í tilefni af sextugsafmæli hans, sérstak-
lega laginu Litli þröstur. Pabbi hafði líka samið
lag sem hann gaf mömmu í afmælisgjöf, Júlí-
kvöld við Skerjafjörð, líka við kvæði eftir
Matthías, og það var auðvitað ómissandi.“
Faðir þinn og móðir hafa þegar verið nefnd.
Koma fleiri ættmenni við sögu?
„Já, móðurbróðir minn, Þorgeir Þorgeirson,
á eitt kvæði á plötunni, Tileinkun. Þessi lög
standa mér því nærri. Þá má ekki gleyma því að
grafísk hönnun plötunnar var í
höndum elsta bróður míns, Þor-
geirs Jónssonar.“
Hafa sum af þessum lögum
aldrei verið flutt opinberlega?
„Já, sum lögin hafa aldrei verið
flutt, þar á meðal hluti Svartálfa-
dans. Önnur hafa sjaldan heyrst.
Það má eiginlega segja að þetta sé
hlið á pabba sem færri þekkja.
Hann er þekktari fyrir léttari lög
eins og Maístjörnuna og ýmis
leikhúslög. Þetta er alvarlegri hlið
á honum en samt stór hluti af hans
starfi sem tónskáld. Það er því
gaman að geta gert þessu skil.“
Þú kveðst strax hafa verið stað-
ráðin í að taka upp Svartálfadans.
Hvað er svona heillandi við hann?
„Tónlistin, textinn. Allt. Ég hef heyrt þessi
lög gegnum árin og fylgst með pabba semja þau
og ganga frá þeim. Þetta er yndislegur ljóða-
flokkur. Fyrstu fjögur lögin voru samin fyrir
nokkuð mörgum árum, tekin upp og flutt gríð-
arlega vel í útvarpi af Jóni Þorsteinssyni ten-
órsöngvara. Ég held einmitt að pabbi hafi haft
Jón í huga þegar hann byrjaði að semja Svart-
álfadans. Síðan lagði hann verkefnið frá sér um
tíma og lauk ekki við það fyrr en fyrir svona
fimm til sex árum. Lögin hafa því lifað með mér
og ég gengið lengi með það í maganum að taka
þau upp. Það má heldur ekki gleyma því að
þetta er alveg frábær texti hjá Stefáni Herði.“
Stóð alltaf til að hljóðrita plötuna ytra?
„Ekkert frekar. Það kom vel til greina að
taka hana upp heima. Will hafði hins vegar unn-
ið með The Classical Recording Company áður
og mælti með því. Ég hafði því samband við þá
og leist strax vel á það sem þeir höfðu verið að
gera. Þetta er lítið fyrirtæki en hefur unnið með
mörgum mjög fínum listamönnum. Ég ákvað
því að slá til. Ég sé ekki eftir því, maður fann
undir eins að þarna er fagfólk á ferðinni. Upp-
tökustjórinn, Simon Weir, er alveg frábær.“
Upptökur fóru fram í St. Silas-kirkju í Kent-
ish Town í Lundúnum. Hvers vegna varð hún
fyrir valinu?
„Aðallega vegna skemmtilegs hljómburðar.
Þessi kirkja er mikið notuð til upptöku. Við
höfðum hana í þrjá daga en leist ekkert á blik-
una í upphafi – það sveimaði þyrla stöðugt yfir
þakinu allan fyrsta morguninn. Lítið varð því úr
verki og við vorum aðeins farin að naga negl-
urnar. Síðan fór hún um hádegisbil og við vor-
um ekki trufluð meira.“
Hvernig er svo að handleika plötuna?
„Það er voða gaman,“ segir Guðrún en skellir
svo uppúr: „Helst myndi ég samt vilja taka
þetta allt upp aftur.“
Nú?
„Það er alltaf þannig. Þetta er tónlist sem
þroskast og breytist með manni og ef ég væri að
syngja hana á tónleikum í dag myndi ég gera
ýmislegt öðruvísi. En svona er þetta. Allt partur
af hringnum. Ég get því ekki annað en verið
ánægð með útkomuna. Ég er stolt af þessari
plötu.“
Kannski á leið heim
Hvað er annars af þér að frétta? Þú ert alltaf
búsett í Englandi?
„Já, ég bý í litlum bæ, Woking, sem er suður
af Lundúnum. Ég var raunar á leiðinni heim
fyrir tveimur árum þegar ég kynntist kærast-
anum mínum. Hann er Dani, Stig Rasmussen,
og er verkfræðingur. Það varð því lítið úr heim-
komunni það árið. Nú erum við hins vegar al-
varlega að íhuga að flytja heim á næsta ári.
Sjáum hvað setur.“
Ertu að syngja mikið um þessar mundir?
„Nei, frekar lítið. Ég er aðallega að kenna.
Ég var reyndar að æfa tónlist eftir konur með
tríói hérna úti og höfðu verið samin verk fyrir
okkur sérstaklega. Þegar píanistinn okkar
veiktist í sumar var því hins vegar slegið á frest
og ég veit ekki hvenær við tökum upp þráðinn.
Ég hef því einbeitt mér að kennslunni. Er með
38 nemendur í Woking og Lundúnum, aðallega
unga krakka. Það er mjög gefandi og skemmti-
leg vinna sem ég hef haft yndi af að prófa. En ég
er ekki hætt að syngja. Því fer fjarri.“
ÚR FÖÐURGARÐI
Svartálfadans nefnist ný geislaplata, þar sem Guðrún
Jóhanna Jónsdóttir sópransöngkona syngur lög eftir
föður sinn, Jón Ásgeirsson tónskáld. ORRI PÁLL
ORMARSSON hringdi í söngkonuna, sem búsett er í
bænum Woking í Suður-Englandi, en þetta er í fyrsta
sinn sem gefin er út heil plata með lögum eftir Jón.
Morgunblaðið/Þorkell
Guðrún Jóhanna Jónsdóttir sópransöngkona og William Hancox píanóleikari.
orri@mbl.is
Jón Ásgeirsson
LJÓS heimsins, ný kvikmynd
um Vigdísi Finnbogadóttur
eftir Ragnar Halldórsson,
verður frumsýnd 15. desem-
ber í Smárabíói.
Að sögn Ragnars hefur
vinna við myndina staðið í
nær þrjú ár en Vigdísi var
fylgt á ferðum hennar um
fimm lönd og á heimili henn-
ar í Kaupmannahöfn og á Ís-
landi.
„Þetta er listræn heimild-
armynd, þar sem áhorfand-
inn upplifir raunveruleikann
þar sem aðalpersónunni,
Vigdísi, er fylgt um allt.
Myndin fylgir ekki handriti, heldur upplifir
áhorfandinn hina raunverulegu sögu eins og
um leikna kvikmynd væri að ræða. Nýlegt
dæmi um mynd sem unnin var á þennan hátt
er myndin um Lalla Johns,“ segir Ragnar.
„Við erum að skoða líf konunnar sem í sex-
tán ár var sameiningartákn íslensku þjóð-
arinnar; hún hafði allt til alls, bílstjóra, ráðs-
konur og aðstoðarfólk en síðan allt í einu var
hún orðin ein og þurfti sjálf að takast á við
alla hluti en hélt jafnframt áfram starfi sínu
af hugsjón fyrir þjóðina og segist sjálf vera
að bjarga heiminum. Þetta erum við að
skoða og sýna. Þessa sterku konu. Dugn-
aðarforkinn, Íslendinginn sem læt-
ur ekkert stoppa sig og gerir hlut-
ina sjálf þótt hún hafi ekki lengur
aðstoðina eða forréttindin.“
Nú er unnið að frágangi mynd-
arinnar en að sögn Ragnars lágu
fyrir um sjötíu klukkustundir af
efni. Endanleg lengd myndarinnar
verður um sjötíu mínútur. „Með
þessari aðferð nást ómetanleg
augnablik í lífi aðalpersónunnar
þótt eftirvinnslan sé tímafrekari.“
Sigvaldi Kárason klippir mynd-
ina, Hilmar Örn Hilmarsson semur
tónlist, Sigurður Hrellir og Pétur
Einarsson sjá um hljóðvinnslu og
Ragnar Halldórsson annaðist kvik-
myndatöku. Ljósmyndari Vigdísar á vegg-
spjaldi, sem fylgir fréttinni, er Ari Magg.
Íslenska kvikmyndastofan framleiðir og
fékkst styrkur frá Kvikmyndasjóði til að
ljúka gerð hennar en að sögn Ragnars fékkst
lítið fjármagn til framleiðslunnar hér á landi
á fyrri stigum. „Ljós heimsins er afrakstur
mikillar vinnu og þrautseigju þrátt fyrir erf-
ið framleiðsluskilyrði. Þannig er kvikmynda-
gerðin. Maður gefst aldrei upp. Með óbilandi
trú á verkefnið tekst að keyra það áfram allt
til loka,“ segir Ragnar Halldórsson höfundar
kvikmyndarinnar um Vigdísi Finnbogadótt-
ur.
KVIKMYND UM VIGDÍSI
FINNBOGADÓTTUR
Í JANÚAR árið 2003 verður opnuð samsýning
íslenskra hönnuða í sýningarsölum samnor-
ræna hússins í Berlín. Þátttakendur þurfa að
hafa starfað sem hönnuðir eða að hafa verið í
hönnunarnámi. Þeir sem hófu nám í hönnun á
haustmisseri 2001 geta einnig sótt um þátttöku.
„Markmiðið með þátttökunni er að kynna ís-
lenska hönnuði á erlendum vettvangi og halda
því starfi gangandi sem unnið hefur verið síð-
ustu misseri, t.a.m. með sýningunni Mót á
Kjarvalsstöðum,“ segir Hrafnkell Birgisson
hönnuður. Hann hefur umsjón hefur með sýn-
ingunni ásamt Sólveigu Sveinbjörnsdóttur í
samstarfi við Form Ísland. „Sérstaða íslenskra
hönnuða felst m.a. í hinum alþjóðlega bak-
grunni, fjölbreytni námslanda og starfsvett-
vangi bæði hérlendis og erlendis. Valdir verða
úr hópi umsækjenda reyndir hönnuðir sem náð
hafa góðum árangri, hver á sínu sviði, svo og úr-
val upprennandi hönnuða með góðar, framsýn-
ar hugmyndir. Ætlunin er að koma á beinum
tengslum milli þátttakenda með því að úthluta
sameiginlegu þema en jafnframt að veita inn-
sýn í dagleg viðfangsefni ólíkra hönnuða. Að
loknum sýningartímanum í Berlín er stefnt að
uppsetningu sýningarinnar í fleiri Evrópuborg-
um. Það kemur til greina, ef tími leyfir, að halda
nokkurs konar forsýningu hér á landi haustið
2002 áður en sýningin verður send utan,“ segir
Hrafnkell.
Umsóknir sendist:
–Kynjahlutir – Form Ísland.
Pósthólf 1548,
Reykjavík
Þær skulu innihalda upplýsingar um um-
sækjanda, ljósmyndir eða útprentanir af nýleg-
um verkum, hámarksstærð A4.
LEITAÐ ÞÁTTTAKENDA Á
HÖNNUNARSÝNINGU
BÓKIN Draumar á jörðu eftir Einar Má
Guðmundsson fær lofsamlega dóma í
Weekendavisen en hún kom út í Dan-
mörku fyrir skemmstu í þýðingu Eriks
Skyum-Nielsen. Liselotte Wiemer, sem
skrifar í Weekendavisen, segir Einar Má
kunna að stinga niður penna í rýmið milli
veraldarinnar og skáldskaparins, þar
sem tilgangur lífsins ýmist hverfi í sárs-
auka eða sé sveipaður ljósi. Raunveru-
leikinn og skáldskapurinn renni saman.
Til þess að ná valdi á þessum svífandi stíl
og djúpu innsæi sæki hann hvorki í sósíal-
realisma né sagnfræði heldur þurfi að
fara aftur í verk Halldórs Laxness og
Heinesens til þess að finna hliðstæðu.
DRAUMUM Á
JÖRÐU HÆLT