Lesbók Morgunblaðsins - 15.12.2001, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 15.12.2001, Blaðsíða 11
nútímalist loksins hefjast skuli þær snúast um þjóðhollustu og þjóðlega list annars vegar og innflutt áhrif hins vegar. En hvar liggur íslenskan í myndlistinni í dag, hvernig lítur hið þjóðlega rými út? Þótt enginn hafi getað sýnt fram á hið nákvæma prósentuhlutfall sem ríkir milli erfða, um- hverfis og áunninna eiginleika við listsköpun er sjálfsagt að gera ráð fyrir því að listaverk nærist á umhverfi og kringumstæðum, að ís- lenskur myndlistarmaður búi þar af leiðandi við sérstök tilvistarskilyrði sem eru hluti af vit- und og sjálfsmynd hans. Í víðustu merkingu eru því öll verk íslenskra myndlistarmanna þjóðleg. Eða eins og ung myndlistarkona orðaði það þegar hún var spurð út í sérkenni verka sinna: „Verkin mín eru íslensk af því að þetta eru mín verk. Þess vegna koma þau kunnuglega fyrir sjónir.“ Áhugi á að skapa sér sérstöðu í fjölmenning- arlegu samfélagi samtímans hefur að auki leitt til þess að margir myndlistarmenn hafa með- vitað lagt sig eftir spurningum um þjóðleg sér- kenni. Fjöldi myndlistarmanna sækir árlega framhaldsnám til útlanda þar sem dvalið er um lengri eða skemmri tíma. Sjónarhorn verk- anna er þess sem hefur farið utan og séð land sitt í nýju, „útlensku“ ljósi og nýrri fjarlægð. Líkt og fjarlægðin í verkum aldamótamálar- anna var tákn fyrir aðskilnað frá Íslandi bera verk aldarlokalistamannanna það oft með sér að þeir hafa tveggja heima sýn á íslenska menningu. Í grein í bandaríska listtímaritinu Art in America í september árið 2000 fjallar mynd- listargagnrýnandinn Gregory Volk um ís- lenska samtímalist. Eitt helsta auðkenni ís- lenskrar myndlistar telur hann vera hversu margir íslenskir myndlistarmenn vinna með Ísland – í einni eða annarri mynd – í verkum sínum. Og skiptir þá litlu hversu alþjóðlegir myndlistarmennirnir eru að öðru leyti í aðferð- um sínum og hugmyndafræði. Ísland sé stöðugt nálægt, innbyggt í mynd- hugsun verkanna, oft á táknrænan hátt sem greining á sérkennum og tilvistarskilyrðum lands og þjóðar, venjum, hefðum, sögu, sjálfs- ímynd og sérvisku og síðast en ekki síst menn- ingarlegum tengslum eyjunnar við útlönd.4) Sjálfsagt má skoða fullyrðingu myndlistar- gagnrýnanda Art in America um auðkenni ís- lenskrar myndlistar að einhverju leyti í ljósi þeirra andstæðu póla sem áberandi eru í list- heiminum í dag; annars vegar þess sem kennt er við alheimsvæðingu („globalisation“) og hins vegar þess afturhvarfs til staðbundinnar menningar („localisation“) sem m.a. getur fal- ist í notkun rótgróins handverks eða annars konar skírskotunar til eigin menningararf- leifðar þar sem gamlar hefðir og siðvenjur eru settar á stall, sbr. nýlegar áherslur í matar- menningu víða um heim. Þannig getur alda- mótaleitin „inn á við“ stundum kennd við ald- arlokarómantík, t.d. falið í sér táknrænt afturhvarf til æskunnar. Afturhvarf til hins sanna og upprunalega getur líka leitt bæði til meðvitaðs naívisma og ýmissa spurninga varð- andi þjóðlega sjálfsímynd.5) Það kann að vera að íslenskir myndlistarmenn séu með Ísland á heilanum, en í samræmi við útþenslu myndlist- arrýmisins inn á nánast öll svið mannlegs lífs sl. áratugi má fullyrða að hugtakið „Ísland“ sem ímynd þjóðlegs rýmis hafi mörg andlit í heimi myndlistarinnar. Lítum á fáein nýliðin dæmi af handahófi úr safni hins séríslenska myndlistarveruleika. Magnús Sigurðarson sendi á dögunum frauðplaststorm inn í nátt- úruljóðrænu og lognkyrru íslensks myndlist- arheims, Landabruggsamstæða var framlag Ásmundar Ásmundssonar á sýningunni Full- veldið í fjórtánda veldi, viðfangsefni Þorvalds Þorsteinssonar með gjörningi sem hófst í land- kynningarbás í útlöndum og endaði í túrista- ferð þýsks pars á Íslandi var ímyndin, draum- urinn og veruleikinn Ísland, fjölmenningarsamfélagið birtist í hnotskurn í vídeóverki Jóníar Jónsdóttur þar sem hún fléttaði saman íslenska þjóðsöngnum og jap- önsku brúðuleikhúsi og ósættanleiki tungu- máls og myndmáls var viðfangsefni verksins Thjodlegt.is eftir Daníel Magnússon sem sýndi stækkaða póstkortaljósmynd frá Þingvöllum með ofangreindum texta. Hallgrímur Helga- son heldur áfram að velta fyrir sér ýmsum myndum íslenska hversdagsdraumsins í Grim- myndum sínum, Anna Líndal vinnur með ósýnilega þræði íslenskrar kvennamenningar og Hulda Hákon spyr í einu verka sinna ein- kennisspurningar fámennisins: Hverra manna ertu? Mörg verkanna, ekki hvað síst eftir karl- menn, vitna um kaldhæðni gagnvart eigin til- vistarskilyrðum og mátulega léttúð gagnvart því sem Íslendingum er viðkvæmt í eigin sjálfsímynd. Við erum ekki bara fá og smá, heldur líka svolítið hallærisleg og útúrboruleg, rífum okkur úr öllum fötum í smásólarglennu og stöndum eftir sjálflýsandi hvít á nærbuxum og í svörtum sokkum í skónum, líkt og bensín- afgreiðslumaðurinn á sjötugsaldri í einum af blaðapistlum myndlistarmannsins og rithöf- undarins Hallgríms Helgasonar. Hið „þjóðlega“ þarf ekki lengur að vera upp- hafið eða háleitt, líkt og í verkum brautryðj- endanna, heldur getur menningarleg sérstaða allt eins skapast af vöntun eða skorti, fátækt og einangrun, ekki síður en af þeim auði sem liggur til grundvallar mörgum helstu menn- ingarverðmætum sögunnar. Með því að vinna með þá myndrænu arfleifð sem býr í alþýðlegri handverkshefð byggða- safnanna; útskurði, prjóni, útsaumi og öðrum verkum sem kenna má við alþýðulist nafn- lausra hagleiksmanna, má segja að margir ís- lenskir samtímalistamenn tengi meðvitað fram hjá landslagsarfleifð listasafnanna. Sem dæmi má taka verk Birgis Andréssonar sem m.a. hefur lagt sig eftir að skoða hvernig þjóðin kýs að tákna sig út á við á ólíkum tímum og vinnur verk sín á grundvelli þess, lágmyndir Huldu Hákon sem minna um margt á útskornar töflur fyrri tíma, prjónaða og heklaða skúlptúra Hildar Bjarnadóttur, m.a. gólfblúnduna Svan- hildi, og fagurlega útskorin tréverk Hannesar Lárussonar, svo sem ausur, bækur, endur, fálka og lóur, svo vísað sé til nokkurra tákn- mynda verka hans í gegnum tíðina. Mörg verka Hannesar fjalla beinlínis um „tilvistar- skilyrði Íslendings“ og „ástand menningarinn- ar“ sem hann segir markaða „af einangrun, blekkingum og goðsögnum sem við þrífumst á“.6) Verk ofangreindra myndlistarmanna byggjast á því að tefla markvisst saman tákn- um íslenskrar alþýðumenningar og alþjóðleg- um samtímalisthugmyndum, skírskotunum í söguna og eigin samtímaveruleika, táknmynd- um lágmenningar og hámenningar, konsepti og handverki og kryfja samstuð þessara tveggja heima. Það má orða það sem svo að myndlistarmennirnir sýni okkur séríslenskan menningararf í nýju ljósi eða nýrri „nálægð“, svo vísað sé til hugtaks sem Birgi Andréssyni er tamt að nota í vinnu sinni, m.a. sem heiti á sýningarskrám og sýningum. Árið 1995 dró Birgir að húni á fánastöng við íslenskan sýningarskála bíennalsins í Feneyj- um verk sitt Þjóðarþel, handprjónaðan lopa- fána í sauðalitunum. Stærð, formi og reita- skiptingu í krossmynstri íslenska fánans var fylgt nákvæmlega eftir í prjónlesinu. Það var þó tæplega hægt að segja að fáninn hafi blakt í feneysku sumarmollunni heldur hékk hann niður, þungur, moldarlitaður og heimaalnings- legur, ekki ósvipað og baðstofuloftið þar sem Íslendingar sátu við handverk sitt um aldir. Brúntónar sauðalitanna hafa í meðförum myndlistarmannsins orðið tákn alls hins þjóð- legasta sem þjóðin hefur alið með sér í gegnum tíðina. Íslendingar hafa hins vegar lítið gert af því að flíka margþættu sambýli sínu við lífs- björgina í gegnum aldirnar og síst af öllu á er- lendum vettvangi. Nægir að minna á ýmis nei- kvæð orð og orðatiltæki tengd sauðkindinni og illa til fundnar samlíkingar við þjóðarlund. Sá sem er „sauður“ er ekki bara utangátta og vit- grannur heldur líka sá sem hefur þröngan sjóndeildarhring, hefur fátt séð og upplifað og er illa að sér í samtímanum, í stuttu máli allt sem Íslendingur vill ekki vera. Þegar horft er til þess að íslensku fánalit- irnir eru jafnframt litir fjölmargra annarra þjóðfána, m.a. þess bandaríska, breska og franska, þá fær bæði banalismi náttúrulitanna og litleysi lopafánanna aðra og stærri merk- ingu. Segja má að við séum þar komin langa vegu frá Þórarni B. Þorlákssyni sem skipaður var í fánanefndina árið 1913 sem sérfræðingur í litgreiningu himins, elds og íss. Það segir sitt um ólíkt þjóðareðli að hjá Frökkum stendur litaþrenna þjóðfánans fyrir hugsjónir bylting- arinnar: frelsi, jafnrétti og bræðralag, sbr. lita- trílógíu kvikmyndaleikstjórans Kieslowskis; Blár, Hvítur og Rauður. Rökrétt framhald fánahugmyndar Birgis var að útfæra fleiri þjóðfána heims á „sauðslegan“ máta. Næstur á eftir íslenska fánanum var sá bandaríski – að öllum stjörnunum meðtöldum, prjónaður í fullri stærð og þannig úr garði gerður að draga megi að húni á fánastöng. Og nú nýlega hefur Birgir Andrésson gengið enn lengra í útþenslu menningarheimsveldis hinnar íslensku bað- stofu og vinnur að því að láta prjóna fána öfl- ugustu hervelda heims, NATO-ríkjanna, í sauðalitunum. Tilvitnanir: 1) Hannes Lárusson myndlistarmaður. Erindi á mál- þingi um myndlist í Gerðubergi 23. mars 1992. Málþing um myndlist. Breytt viðhorf til aðferða og hugsunarháttar í myndlist eftir 1970. Gerðuberg 1992. 2) Þorvaldur Þorsteinsson. Erindi á málþingi um mynd- list í Gerðubergi 23. mars 1992. Málþing um myndlist. Breytt viðhorf til aðferða og hugsunarháttar í myndlist eftir 1970. Gerðuberg 1992. 3) Jónas Jónsson frá Hriflu í Landvörn, 15. tbl. 1949. 4) Art in America. Nr. 9, september 2000. Gregory Volk; „Art on Ice“, bls. 40–45. 5) Nánar er fjallað um þau efni í grein í franska list- tímaritinu Art Nordique, nr. 5 2001/2002. Auður Ólafs- dóttir: A la quête d’une identité insulaire. 6) Sjónþing Hannesar Lárussonar, 31. október 1998. Sérrit Gerðubergs. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. DESEMBER 2001 11 Hver er sagan á bak við aðventu- ljósin, af hverju eru þau sjö og hvað tákna þau? Eru þau ekki gyðingaljós? SVAR: Kaupsýslumaður einn í Reykjavík hét Gunnar Ásgeirsson, ættaður úr Önund- arfirði. Hann átti mikil skipti við sænsk fyr- irtæki og flutti til að mynda bæði inn Volvo og Husquarna. Á einni verslunarferð sinni í Stokkhólmi fyrir jól kringum 1960 rakst hann á einfalda trépíramíta með sjö ljósum og ýmislega í laginu. Hér var um að ræða nýjung í Svíþjóð; lítt þekktir smáframleið- endur voru að reyna að koma föndri sínu á framfæri í jólavertíðinni. Hugmyndin um ljósin sjö er komin úr Gamla testamentinu þar sem sjö arma ljósa- stikan var mikill helgidómur í musterinu. Þar virðist ljósastikan þó hafa verið lárétt og var ekki á almannafæri. En þannig má til sanns vegar færa að þessi ljós tengist Gyð- ingum. Þessi framleiðsla sló ekki í gegn í Svíþjóð og hefur mér vitanlega aldrei gert. Gunnari datt hinsvegar í hug að þetta gæti verið snið- ugt að gefa gömlum frænkum sínum, handa hverjum menn eru oft í vandræðum með að finna gjafir. Hann keypti held ég þrjú lítil ljós og þau gerðu mikla lukku hjá frænk- unum og vinkonum þeirra. Gunnar keypti því fleiri ljós næsta ár til gjafa sem hlutu sömu viðtökur. Þá fyrst fór hann að flytja þetta inn sem verslunarvöru og smám saman þótti það naumast hús með húsi ef ekki væri slíkt glingur í gluggum. Þetta fyrirbæri hefur vakið mikla athygli útlendinga sem hingað koma um jólaleytið, enda mun Reykjavík skera sig nokkuð úr öðrum borgum að þessu leyti. Þjóðminja- safnið eða ég sjálfur fáum oft upphringingar utan úr heimi vegna þessa og margir bibl- íufróðir spyrja hvort gyðingdómur sé mjög rótgróinn á Íslandi. Það þykir sannast sagna heldur snautlegt þegar upplýst er hversu of- ur ung og veraldleg þessi skreyting í raun- inni er. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur. Hafði eyjan sem Sírenurnar í grísku goðafræðinni bjuggu á eitthvert nafn? SVAR: Ekki virðist vera til eitthvað nafn á eyjunni sem Sírenurnar voru sagðar búa á. Þó er minnst á það í frásögnum grísku goða- fræðinnar að þær hafi byggt sér hof við Sorrento sem stendur á nesi við Napólí á Ítalíu. Sírenunum er lýst í grísku goðafræðinni sem verum sem eru til helminga konur og til helminga fuglar. Þær eru oft sýndar á mynd- um sem fuglar með konuhöfuð eða í kvenlík- ama en með fuglsfætur. Sírenur voru alræmdar fyrir að reyna laða menn til sín með undirfögrum söng og bana þeim síðan. Söngur þeirra var sagður svo fagur að sjómenn sem sigldu fyrir eyjuna þeirra köstuðu sér í sjóinn og reyndu að synda til þeirra eða stefndu skipum sínum í átt til eyjunnar. En þó söngurinn væri und- urfagur var mikil hætta á ferðum því að Sír- enurnar átu þá sem þeim tókst að lokka til sín og sagt var að bein fórnalambanna lægju í hrúgum kringum þær. Margar útgáfur eru til af sögunum um Sír- enurnar eins og svo algengt er með þjóðsög- ur. Ein frægasta frásögnin um Sírenurnar er án efa sú sem má lesa í Ódysseifskviðu eftir hið fræga gríska skáld Hómer sem var uppi um 800 fyrir Krist. Ódysseifskviða segir frá hrakningum og ævintýrum sem Ódysseifur lendir í á Miðjarðarhafinu á leið heim til sín til eyjarinnar Íþöku í Adríahafi eftir lok Trójustríðsins um 1200 fyrir Krist. Þegar Ódysseifur sigldi framhjá eyjunni sem Sírenurnar bjuggu á greip hann óseðj- anleg löngun til að heyra söng þeirra. Búið var að vara hann við Sírenunum og til að láta ekki glepjast af ómþýðum söngnum brá Ódysseifur á það ráð að láta áhöfnina setja vax í eyrun á sér en sjálfur batt hann sig fast- an við mastur skipsins. Í annarri frásögn um Sírenurnar segir frá ferðum skipsins Argo sem einnig átti leið framhjá eyjunni. Áhöfnin á Argo taldi fimm- tíu manns en auk hennar var söngvarinn Orfeus um borð en hann þótti hafa yfirnátt- úrlega sönghæfileika. Þegar skipið nálgaðist eyjuna hófst söngur Sírenanna en skipti þá engum togum um að Orfeus hóf einnig upp raust sína. Söngur Orfeusar yfirgnæfði lokk- andi söng Sírenanna og áhöfnin á Argo gat ekki annað en hlustað hugfangin á söng hans. Sagt er að Sírenurnar hafi horfið af eyjunni í kjölfarið. Ein útgáfan af sögunni er sú að Sír- enurnar hafi drekkt sér í sjónum af von- brigðum en samkvæmt annarri útgáfu eiga Sírenurnar að hafa orðið að steini. Í Ódysseifskviðu eru Sírenurnar sagðar vera tvær en ekki eru þær nafngreindar þar. Í seinni tíma sögum hafa þær ekki einungis fengið nafn heldur eru þær orðnar mun fleiri. Moeolpe, Aglao-fónos, Þelxiepia, Parþenope, Ligeia og Lenkosia eru dæmi um nöfn sem Sírenunum hafa verið gefin. Öll nöfnin eru á einhvern hátt lýsandi fyrir sönghæfileika þeirra, til dæmis þýðir Aglaofónos „ljómandi rödd“ og Moeolpe þýðir „söngur“. Móðir Sír- enanna er talin vera sönggyðjan Melpomene en faðernið er nokkuð á reiki og koma árgoðið Achelous og hafgoðið Forcys báðir til greina. Sírenunum fannst þær sjálfar hafa falleg- ustu söngraddir sem um gat. Þær voru svo sjálfsöruggar að þær skoruðu á sönggyðj- urnar í söngkeppni. Það hefðu þær betur látið ógert því að sönggyðjurnar sigruðu og plokk- uðu í kjölfarið vængi Sírenanna af þeim svo þær urðu ófleygar. Skömmin var svo mikil eftir tapið í söngkeppninni að þær fóru í felur. Sumir segja að þær hafi dvalist í klettum við suðurströnd Ítalíu nálægt Napólí og Caprí áður en þær fluttu sig um set til eyjunnar þar sem Ódysseifur heyrði í þeim. Enn aðrir segja að Sírenurnar hafi dvalist á eyju nálægt suðvesturströnd Sikileyjar eða á norðurhluta Sikileyjar við Messína. Sagan um Sírenurnar virðist hafa þróast úr gamalli austurlenskri mýtu eða goðsögn um konu sem var hálfur fugl og hálf manneskja og táknaði sálir hinna dauðu. „Fuglskonan“ var nokkurs konar vængjaður draugur sem hrifsaði til sín lifandi fólk og færði það dauð- anum. Ódysseifskviðu má nálgast í íslenskri þýð- ingu Sveinbjarnar Egilssonar í Kviðum Hóm- ers sem Menningarsjóður gaf út árið 1973. Helga Sverrisdóttir og Ulrika Andersson. HVER ER SAGAN Á BAK VIÐ AÐ- VENTULJÓSIN? Í vikunni sem er að líða fjallaði Vísindavefurinn meðal annars um vetni sem framtíðarorkugjafa á Íslandi, hvort kettir eða hundar séu gáfaðri, hver sé hæsti aldur sem fyrirfinnst í dýraríkinu, hvers vegna rökfræði sé svona erfið og hver hafi verið hugsun George Orwells á bak við söguna Dýrabæ svo fátt eitt sé nefnt. VÍSINDI Höfundur er listfræðingur og kennari við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.