Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Page 5

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Page 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. DESEMBER 2001 5 um öxl í kvæðislok – og augljóst hvað hann er að fara. Frost er hefðbundið skáld og vinsælt en sem slíkt hefur hann troðið nýjar slóðir, sungið nýj- an söng. Írska skáldið W.B. Yeats orti kvæðið Stjórnmál með skírskotun í Tómas Mann um mikilvægi þeirra. Þar er einnig minnst á stúlk- una sem skáldið festi hugann við. Og kvæðinu lýkur svona: Ó, að ég væri aftur orðinn ungur og hún í fangi mér! Það er auðvitað augljóst hvað skáldið er að segja með þessu uppgjöri. En hver og einn getur skilið þetta sínum skilningi. Ég hef alltaf haft ánægju af að flytja kvæði og breyta áheyrendum í skáld, bæði hér heima og erlendis. Mér er nær að halda það sé skáld í hverjum manni, ekki síst ljóðskáld. Þó ber markaðurinn því ekki vitni, það skiptir engu. Ljóðið getur orðið langlíft eins og skjaldbak- an. Hún hefur séð um sig hingað til!“ Aðstæður skapa líf –Þetta samband skálds og lesanda hefur verið mörgum frjótt umhugsunarefni, ekki síst póststrúktúralistum síðustu aldar sem vildu gera lesandanum hærra undir höfði en gert hafði verið. Þetta er spurningin um hvar sköp- unin á sér stað. Ertu með svar? „Ég sá fyrir nokkru sjónvarpsmynd um marglyttur og önnur gagnsæ sjávardýr, eða ætti ég kannski að segja: gagnsætt efni. Attenborough, auðvitað! Þessi dýr eru eins og umhverfið, gagnsæ eins og sjórinn. Er hann þá einnig dýr, hann hreyfir sig eins og mar- glyttan? En hann aflar sér ekki fæðu og tímg- ast ekki. Hann hugsar ekki. Hann er umhverfi, aðstæður. Allt efni virðist leita að lífi en það eru aðstæðurnar sem skapa líf. Sérstakar að- stæður. Og efnið leitar lögunar eftir að- stæðum, lifnar og fer að hugsa. Jafnvel gagn- sætt efni hugsar. En hví þá ekki sjórinn? Líklega vegna þess að hann er aðstæður eins og jörðin sjálf, loft og andrúm. Allt efni getur hugsað við réttar aðstæður. Í því er ef til vill fólginn hinn guðlegi innblásni kraftur, þetta veganesti sem efnið hefur fengið frá skapara sínum. En það merkir ekki endilega að Guð búi í efninu, að náttúran sé forsjónin sjálf eins og Spinosa og aðrir algyðistrúarmenn leggja áherslu á, nei, ekki frekar en skáldið lifi í kvæðum sínum þótt þau séu innblástur þess. En kvæðið ber skáldinu vitni eins og efnið ber skapara sínum vitni. Á það lagði Jónas áherslu. Sköpunin er forsenda allra hugmynda hans um líf og tilveru. Ég er farinn að trúa því að „hið dauða“ efni kvikni og hugsi við réttar aðstæður. Þær eru að vísu jafnaugljósar og þær eru flóknar og manninum óskiljanlegar.“ Mín kynslóð þjáðist af sjálfsvitundarleysi –Skáldsagan fjallar öðrum þræði um mann í leit að myndinni af sjálfum sér. Í því tilliti er þriðjupersónufrásögnin athyglisverð, hún ger- ir þennan einstakling fjarlægari og óhöndl- anlegri. Þegar líður á söguna fer bygging hennar líka að verða flóknari, rétt eins og mynd verður óljósari því nær sem þú kemur henni. Þetta flöktandi, óljósa sjálf telja margir að hafi verið einkennandi fyrir tuttugustu öld- ina. „Mér verður hugsað til Kafka. Eysteinn Þorvaldsson, sem hefur þýtt hann ásamt syni sínum Ástráði, segir mér að dagbækur Kafka sýni hve sjálfsmynd hans hafi verið veik. Hann var alltaf að afsaka verk sín. Kannski er það úr föðurhúsunum; fyrirferðarmikill faðir getur dregið úr sjálfsmynd sonar en hann getur líka verið uppörvun. Margt ungt fólk, sem ég tala við nú á dögum, hefur of sterka sjálfsmynd. Það getur verið óþægilegt. Mín kynslóð þjáð- ist af sjálfsvitundarleysi. Ég veit ekki af hverju. Kannski var það kreppan. Kannski einangrunin. Kannski eitthvað annað. En lýð- veldiskynslóðin hefur að öðru jöfnu ekki sterka sjálfsmynd, að minnsta kosti ekki eins og margt ungt fólk í dag, til að mynda stjórn- málamenn og listamenn. Mér finnst sjálfsvit- und þeirra stundum minna á sögu Kafka um manninn sem breyttist í pöddu og stækkaði og stækkaði uns hún fyllti út í allt herbergið. Slík sjálfsvitund er að minnsta kosti ekkert sér- staklega geðfelld en kannski á hún rætur í minnimáttarkennd og einhvers konar löngun til að minna á sig – og þá með öllum ráðum. Ég hefði viljað hitta Kafka, og líka Ágúst- ínus kirkjuföður sem hafði þá einu réttu af- stöðu til umhverfisins sem boðleg er þeim sem ræktar sitt innra þrek og er ekki sínkt og heil- agt til sölu fyrir upphafningu og stundlegt fjöl- miðlaklapp. En leiðir okkar geta víst ekki legið saman, nema í ritum hans. Við nánari kynni af þeim er auðvelt að skilja dálæti Dantes á þess- um viljasterka guðsmanni sem hefur gert upp við sjálfan sig og líf sitt af meira miskunn- arleysi en nokkur annar og gefist Guði ávallt af meiri ást, ástríðu og auðmýkt en nokkur annar. Það er gott að vita af slíkum manni þeg- ar maður þarf að gera upp við sjálfan sig og freistingar sínar; þegar örvæntingin er á næstu grösum og sálin engist eins og ormur á öngli og maður þarf að ná áttum, en þó einkum að sætta sig við sjálfan sig og smæð sína.“ Kafka hlýlegt kompaní –Kafka virðist hafa verið ótrúlega næmur á tímann. „Já, ég held að Kafka hafi skrifað Rétt- arhöldin um það sem var í aðsigi í Evrópu án þess að vita það sjálfur. Andi sögunnar – eða tímans – getur holdgerst í slíkum snillingum, að ég held. Shelley vissi ekkert um dauða sinn, samt orti hann um hann. Og Kafka vissi ekkert um nasismann, samt skrifaði hann bók um hann. Hann var jafnframt upphafsmaður nýrra bókmennta í heiminum. Samt var hann enginn byltingamaður. Hann var harla borg- aralegur lögfræðingur og vann að hversdags- legum störfum hjá tryggingafélagi. Hann minnir á Eliot að þessu leyti: fíngerður maður og hafði ofnæmi fyrir umhverfinu. Skrifaði af ástríðu um ástina en óttaðist hana. Skrifaði ástarbréf og tjáði hug sinn úr fjarlægð. Tákn- gervingur andlegrar byltingar og þó eins borgaralegur og hugsast getur. Einkennilegt þetta mannlíf. Mér finnst ekkert kalt að vera í návist Kafka, þvert á móti. Mér finnst hann hlýlegt kompaní. Það er svo margt í honum sem ég skil harla vel, sumt er eins og lifað út úr tilfinn- ingalífi og ofnæmi sjálfs mín. Ég orti kvæði um Kafka eftir að ég heim- sótti kirkjugarð gyðinga í Prag á sínum tíma. Ljóðið birtist á ensku og í norskri þýðingu Knuts Ødegårds og á íslensku nokkru síðar í ljóðabókinni Vötn þín og vængur. Það var í senn ógnlegt og yfirþyrmandi að koma í þenn- an kirkjugarð, að upplifa æskuumhverfi Kafka. Svo orti ég ljóðið. Í því stendur: „að komast burt ...“. Einkennilegt. Þá hafði ég ekki lesið smásögur Kafka sem feðgarnir, Ey- steinn og Ástráður, þýddu en þar segir Kafka: Stöðugt burt héðan, einungis þannig get ég náð takmarki mínu Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ég hafði án þess að vita ort ljóð um Kafka og kjarninn var hans eigin orð. Ég hef sagt Eysteini frá þessu og held okkur finnist báðum þetta harla dularfull tengsl. Kannski voru þessi orð letruð í umhverfi Kafka – kannski höggvin í andrúm kirkjugarðs gyðinga, hver veit. Þau voru að minnsta kosti rist inn í vitund mína. Og nú standa þau í þessu kvæði eins og Kafka hafi ort það sjálfur!“ Þegar ég hitti á óskastundina –Sagan þín fjallar ekki síður um breytta heimsmynd sem er eitt af lykilhugtökum sam- tímans. Tíminn virðist vera á fleygiferð, allt gerist í einu, viðburðirnir hrannast upp, menn hafa ekki tíma til þess að klóra sér í hausnum – yfirvega, skilja – þeir spóla aðallega í sama farinu. Óttastu þennan tíma? „Ég hlustaði einu sinni á ungan fræðimann, Einar H. Guðmundsson, prófessor í stjarneðl- isfræði held ég, tala um tímann og heiminn. Það var mjög hnýsilegt og ég hef minni áhyggjur af heiminum en áður. Miklihvellur varð fyrir fimmtán milljörðum ára og enginn veit hvað gerðist þar á undan; hví skyldi mað- ur hafa áhyggjur af slíkri sköpunarólgu? Og allt stefnir í eitthvert miklahrun. En það verð- ur víst ekki fyrr en eftir tíu til tuttugu millj- arða ára – eða Guð veit hvað. Ástæðulaust að hafa áhyggjur af því. En hvar ætli maður verði þegar þessar nátt- úruhamfarir, sem eru undanfari miklahruns, setja svip á sköpunarverkið? Það er víst erfitt að svara því. En þetta minnir mig á sögu um Gunnar Huseby. Hann hafði reynt að ná í mig einn daginn. Hann skildi eftir símanúmer. Ég reyndi að hringja í hann en það svaraði aldrei. Þá frétti ég skömmu síðar að Gunnar væri lát- inn. Hann var þá víst hættur að svara því tækniundri sem við köllum síma vegna tengsla okkar við forna tungu og menningu. Ég sagði við símastúlkuna á Morgunblaðinu: Viltu gjöra svo vel að ná í Gunnar Huseby fyrir mig. Hún horfði á mig stórum augum og sagði: Hefurðu ekki heyrt fréttirnar? Hvaða fréttir? spurði ég. Gunnar Huseby er látinn, sagði hún. Ég veit það, sagði ég. Nú, sagði hún. En ert þú ekki símadama hér, spurði ég. Ég sá að hún fékk miklar áhyggjur af ritstjóranum og sagði hikandi, júú-ú, en hvað áttu við? Ekkert, sagði ég. Þegar maður er símadama á maður að ná í þá sem beðið er um. Hefurðu kannski ekkert samband yfirum? Þá brosti hún. Þá sá hún að ég var að leika mér. Kannski var það rétt, kannski ekki. Ég veit það eiginlega ekki sjálf- ur. Hvers vegna gat ég náð í Gunnar Huseby daginn áður án þess að ná í hann? Og hvers vegna get ég með engu móti náð í hann í dag? Jafnvel þótt hann hefði ekkert annað að gera en tala við mig? Ég hef dálitlar áhyggjur af þessu. Og ég hugsa um líf og dauða og þessi landamæri sem eru svo óljós að maður veit ekki af þeim. Og samt eru þau áþreifanlegasta staðreynd lífsins. Hvar ætli Gunnar Huseby verði þegar miklahrun skellur á? Hann, sem hlýtur nú að geta kastað stjörnunum milli vetrarbrauta eins og kúlunni forðum daga. Alltaf þegar talað er um himingeiminn, ver- öldina, sköpunina, upphaf hennar og endalok finnst mér ég vera að upplifa nýtt ljóð; skáld- skap. Og Einar Guðmundsson lýsti nútíma- kenningum um upphaf og endi veraldar eins og skáld, eða góður bókmenntafræðingur. Hann talaði um að sólin yrði fyrst risastór og eldrauður hnöttur þegar hún hæfi að syngja sitt síðasta en skryppi síðan saman og yrði lítil hvít dvergsól áður en hún hyrfi. Það væri gam- an að geta upplifað slíkt náttúruundur. Hann talaði líka um daufa birtu af deyjandi stjörn- um, hann talaði um kaldar stjörnur og hann talaði um stjörnulausan himin áður en mikla- hrun yrði. Ég sá þetta allt fyrir mér eins og flugeldasýningu í ógleymanlegu ljóði sem eng- inn hefur ort ennþá en ég ætla að yrkja sjálfur einhvern tíma þegar ég hitti á óskastundina og hún veitir mér hlutdeild í upplifun guðlegra kraftaverka. En það verður ekki í þessu lífi. Og kannski ekki heldur í því næsta. Ég ætla þangað til að hafa heldur hægt um mig og skipta litum eins og rjúpan. Og refurinn.“ Morgunblaðið/Einar Falur En lýðveldiskynslóðin hefur að öðru jöfnu ekki sterka sjálfs- mynd, að minnsta kosti ekki eins og margt ungt fólk í dag, til að mynda stjórnmálamenn og listamenn. Mér finnst sjálfsvitund þeirra stundum minna á sögu Kafka um manninn sem breyttist í pöddu og stækkaði og stækkaði uns hún fyllti út í allt her- bergið. Slík sjálfsvitund er að minnsta kosti ekkert sér- staklega geðfelld en kannski á hún rætur í minnimátt- arkennd og einhvers konar löngun til að minna á sig – og þá með öllum ráðum. throstur@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.