Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Síða 24
24 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. DESEMBER 2001
„HANN bendir í vestur. Risavax-
inn fingurinn. Með hvítan jökul í
stað naglar. Bendir ákveðinn í
vestur. Ef litið er upp frá amstri
daganna nema augun þessa mynd.
Fólk sofnar og vaknar við þessa
áskorun: Haltu í vestur! Og karlar
og konur verða friðlaus. Vakna
upp um miðjar nætur og rýna í
myndir svefnsins. Þar sem fingur
vísaði veginn. Út á hafið. Og karl-
ar og konur taka sig upp og sigla.
Sigla í vestur. Sigla inn á spjöld
sögunnar. Brattahlíð, Eystri-
byggð, Helluland, Markland og
Vínland! Var þetta seiðmagn hvíts
Jökuls fyrir um tíu öldum?“
Með þessum orðum Harðar Daníelssonar
hefst ferðin inn í myndheim Snæfellsness sem
hann hefur fangað á breiðlinsu sína og birtir í
bók er ber heitið Snæfellsnes og er eitt binda í
röð er hann nefnir Seiður Íslands. Önnur bók í
sömu röð sem einnig er komin út ber heitið
Þingvellir.
Þessar tvær bækur láta kannski ekki mikið
yfir sér þar sem brot þeirra er látlaust en sér-
stakt. Raunar svo sérstakt að vekur fyrstu
spurninguna til þeirra hjóna Harðar Daníels-
sonar og Kristínar Þorkelsdóttur, myndlistar-
manns og hönnuðar, sem á veg og vanda af útliti
bókanna og frágangi þeirra.
„Þetta brot hentar myndunum mjög vel og
bækurnar fara einnig mjög vel í hendi, gott að
fletta þeim. Þetta er þó einstakt form og olli því
að stilla þurfti bókbandsvélar prentsmiðjunnar
Odda sérstaklega. Það varð svo aftur til þess að
bækurnar töfðust í framleiðslu. Við erum hins
vegar sannfærð um að það hafi verið þess virði,“
segir Kristín.
Af samtali við þau hjón kemur í ljós hversu
gífurlega mikla áherslu þau hafa lagt á vandaða
vinnslu bókanna. „Hver einasta mynd hefur
fengið þá meðhöndlun að hún njóti sín fullkom-
lega í bókinni, hvað lit og myndgæði varðar. Ég
lít þannig á að galli í myndvinnslu jafnist á við
prentvillu í texta. Hvort tveggja
á að leiðrétta af sömu vand-
virkni,“ segir Kristín.
Þau Hörður hafa unnið að
bókagerðinni samfleytt í rúmt
ár en greinilegt er af myndun-
um að þær ná yfir lengra tíma-
bil, umhverfi Þingvalla og Snæ-
fellsjökuls birtist í öllum
hugsanlegum búningum, birta
og skýjafar, árstíðir og veðra-
brigði njóta sín til fullnustu og
hefur vafalaust reynt á þolin-
mæðina að bíða rétta augna-
bliksins.
„Komdu til Þingvalla – í ljós
árstíðanna: Sjáðu ljós haustsins sem þrátt fyrir
þrá okkar eftir eilífu sumri er boðið velkomið.
Sjáðu logalitskrúð himinblárra haustdaga. Og
eldlauf falla til jarðar. Eftir verða laufléttar
dökkar greinar sem anda léttara. Haustvindar
eiga greiða leið um svört loftnet þeirra. Sjáðu
haust kólna: Hrollköld slydda sveipar hæðir og
fjöll grárri slæðu. Hlémegin er köld jörð. Dökk
og rök. En snjógráminn hverfur næsta sólar-
dag. Langir skuggar hraunkletta teygja úr sér á
dökkum söndum. Lengjast með degi hverjum.“
Hver árstíð á sér sitt aðdráttarafl, ein er ekki
tekin fram yfir aðra, heldur gengið að henni með
opnum hug og hjarta. Þingvallabókinni er skipt í
kafla sem eru tileinkaðir árstíðunum og er und-
irtitill bókarinnar Í ljósi árstíðanna.
Önnur leið er farin að myndheimi Snæfells-
jökuls og er undirtitill bókarinnar Í ljósi hafs og
jökuls. Síðan skiptast kaflarnir eftir heitunum:
Sefur eldkeila, Vakir hraunmóðir, Skartar jök-
ull strönd, Við flóa Faxa, Við breiðan fjörð.
Kaflaheitin gefa vísbendingu um viðfangsefni
myndanna og hvaðan myndhöfundurinn hefur
valið sér sjónarhorn.
Framleiðandi Seiðs Íslands er Nýjar víddir
fyrir útgefandann Eddu/Iceland Review. Bæk-
urnar eru gefnar út á þremur tungumálum auk
íslensku, ensku, frönsku og þýsku en allar út-
gáfurnar eru einnig með íslenskum texta.
Þingvellir: Hvíld undir hvítri voð.
ÞRÁ AUGANS
Snæfellsjökull úr suðri.
Hörður Daníelsson ljósmyndari hefur gefið út
tvær ljósmyndabækur, aðra um Snæfellsjökul og
umhverfi hans og hina um Þingvelli.
Hörður Daníelsson