Lesbók Morgunblaðsins - 12.01.2002, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 12.01.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JANÚAR 2002 7 1. F yrsti fundurinn sem ég átti með ritnefnd Tímarits Máls og menningar líður mér sennilega seint úr minni. Þetta var í sept- ember 1993, ég hafði verið rit- stjóri tímaritsins í rúman mán- uð og var staðráðinn í að fríska ærlega upp á þetta gamla og rótgróna tímarit. Ég var (og er) nokkru yngri en flest ritnefndarfólk og fannst skipta miklu máli að standa mig sæmilega vel á fundinum, ekki síst vegna þess að rit- nefndin var skipuð rithöfundum, skáldum og bókmenntafræðingum sem ég mat (og met enn) afar mikils. Að loknum (að mér fannst...) glæsilegum og gáfulegum inngangsorðum mínum og vin- samlegum umræðum fram og til baka fór ég að kynna fyrirhugaðar breytingartillögur mínar fyrir ritnefndinni. Þau hlustuðu af kostgæfni á mál mitt og ég færðist allur í aukana, sagðist vera með hugmyndir um að skipta um pappír og nota „kremaðri“ pappír eins og það er kallað, skipta um uppsetn- ingu og leturgerð og fleira. Ég útskýrði líka fyrir þeim að ég áformaði að draga úr veru- lega fræðilegri slagsíðu tímaritsins, minnka pólitískt argaþras um keisarans skegg, opna það betur fyrir erlendum menningar- og bókmenntastraumum í samtímanum, vinna meira í því að fá höfunda til að koma efninu skýrt og skilmerkilega frá sér og margt fleira sem síðan var hrint í framkvæmd. En einkum og sér í lagi, og ég lagði alveg sér- staka áherslu á þetta atriði, þá yrðum við snarlega að hætta að birta ritdómana í lok hvers heftis. Ástæðan var sú að þeir voru að mínum dómi oft ekki nógu vel skrifaðir, og ekki nóg með það, heldur voru þeir slík tímaskekkja að það jaðraði við að vera fá- ránlegt. Ég sagði að mér fyndist hreinlega út í hött að birta ritdóm um ljóðabók og skáldsögu einu eða einu og hálfu ári eftir út- komu bókarinnar. Ég hefði því ákveðið í krafti ritstjóravalds míns að leggja þessa ritdóma af. 2. Þögn sló á nefndarfólk um stund. Síðan byrjuðu þau, ósköp hógværlega og elsku- lega, að setja fram mótrök gegn þessum áformum mínum um að leggja bókmennta- gagnrýnina niður. Þau sögðu að nú sem aldrei fyrr væri brýn þörf fyrir að halda úti bókmenntagagnrýni í tímaritinu vegna þess að gagnrýni í dagblöðum og ljósvakamiðlum færi minnkandi og versnandi með hverju ári. Að gagnrýnin væri það fyrsta sem les- endur tímaritsins læsu og þetta væri afar vinsælt efni sem fólk væri vant að ganga að aftast í hverju hefti. Að það væri einmitt mjög gott frá bókmennta- og menningarlegu sjónarmiði að birta gagnrýni nokkrum mán- uðum og jafnvel nokkrum árum eftir út- komu bókar vegna þess að þá væru lesendur tímaritsins búnir að lesa viðkomandi bók og mynda sér sínar eigin skoðanir. Gagnrýni í bókmenntatímariti væri þannig nokkurs konar samtal tveggja vitsmunavera, öfugt við einhliða gagnrýni dagblaða- og ljósvaka- gagnrýnenda sem vildu umfram allt þröngva skoðunum sínum upp á lesendur, segja þeim hvað þeim ætti að finnast. Að öfugt við blaðagagnrýni væri gagnrýni í bókmennta- tímariti oft notuð í kennslu, bæði í mennta- skólum og háskólum. Það benti til þess að hún væri einhvers virði, entist sæmilega og væri gagnleg við að halda bókmenntaum- fjöllun og -kennslu á sómasamlegu plani í landinu. Og að þeim fyndist sem höfundum mjög miður að leggja af einn örfárra staða þar sem birt væri sæmilega metnaðarfull gagnrýni, en ekki afgreiðslupistlar eins og víðast hvar annars staðar. 3. Þar sem ég var nýbyrjaður sem ritstjóri tímaritsins var ég í hálfgerðri varnarstöðu, en fannst þau óneitanlega hafa nokkuð til síns máls. Ég sagði því (eins mynduglega og mér var unnt...) að ég myndi punkta þetta hjá mér og íhuga málið. Síðan íhugaði ég, velti vöngum og bræddi þetta vandlega með mér, og komst auðvitað að þeirri niðurstöðu að þetta var hárrétt hjá þeim. Og það er skemmst frá því að segja, að í þau ár sem ég ritstýrði Tímariti Máls og menningar, frá ágúst 1993 til febrúar 2001, héldum við (fyrir tilstuðlan þeirra) áfram að rækta og reyna að efla þessa ágætu hefð: birta í hverju hefti gagnrýni sem leitaðist í senn við að vera læsileg, vits- munaleg og notalega úr takti við tímann. Og það var ekki fyrr en löngu seinna að ég gerði mér grein fyrir þessu meginatriði: helsti kostur og aðal góðs menningar- og bókmenntatímarits er einmitt það að vera ekki of tímabundið, ekki um of bundið á klafa samtímans, geta séð viðfangsefnin úr vissri fjarlægð og kannað dýpi þeirra. Þetta er það sem réttlætir tilvist þeirra og markar sérstöðu þeirra miðað við dægurmiðlana sem eru eðli málsins samkvæmt tímabundn- ir í orðsins fyllstu merkingu og fullnægja daglegri upplýsingaþörf fólks. Þannig geta þessir ólíku miðlar spilað ágætlega saman. Dægurmiðlarnir geta upplýst og birt við- brögð hér og nú, en menningartímaritin síð- an tekið við og myndað það sem Milan Kun- dera kallaði einu sinni „vitsmunalegt bakland“ bókmenntanna. En það var ekki alltaf auðvelt að halda þessari ritstjórnarstefnu. Við nutum auðvit- að áfram krafta nokkurra ágætra gagnrýn- enda sem höfðu skrifað í tímaritið árum saman, en svo urðum við stöðugt að hafa augun opin fyrir nýjum því sumir gagnrýn- endur missa, eins og gengur, áhugann á þessu heldur illa launaða og vanþakkláta starfi (einkum kunna höfundar sem fá nei- kvæða umfjöllun þeim litlar þakkir...) auk þess sem gagnrýni er mér vitandi ekki að- alstarf nokkurs manns á Íslandi og brauð- stritið við önnur störf tekur óhjákvæmilega yfirhöndina. Samt held ég að við höfum ver- ið svo heppin að fá til liðs við tímaritið fólk sem gerði okkur kleift að halda uppi fram- bærilegri gagnrýni í tímaritinu og stundum gott betur, en auðvitað er það annarra að dæma um það. Þessi vettvangur hvarf hins vegar fyrir ári og því miður hefur ekkert komið í hans stað enn sem komið er þótt það standi vonandi til bóta. 4. „Allir eru einhvers hundar. Ráðherrann er hundur konungs, æðsti embættismaðurinn er hundur ráðherrans, eiginkonan er hundur eiginmannsins eða eiginmaðurinn hundur eiginkonunnar,“ segir franski átjándu aldar æringinn og heimspekingurinn Denis Dider- ot á einum stað í skáldsögunni Jakob forlagasinni og meistari hans. Þar á hann við það að enginn sé alfrjáls og sjálfs sín herra að fullu, ekki einu sinni sjálfur kóng- urinn, jafnvel þótt hann haldi annað. Þetta gildir um gagnrýnendur eins og annað fólk og því er kannski varla við því að búast að nokkur bókmenntagagnrýnandi sé alfrjáls, það er að segja ekki þátttakandi í ref- skákum milli útgefenda og rithöfunda. Auk þess eru gagnrýnendur ekki óskeikulir fremur en annað fólk og því er hálf hjá- rænulegt að sjá og heyra suma þeirra tjá sig um sömu bækur í tveimur eða þremur ólík- um fjölmiðlum. Hvar er eiginlega metnaður- inn og samkeppnisandinn hjá þeim fjölmiðl- um? Eitt af því sem ég hef oft rekið mig á í gegnum tíðina er að sumir gagnrýnendur virðast hreinlega einhverra hluta vegna vera haldnir jákvæðum eða neikvæðum fordóm- um, þeir virðast halda með eða vera á móti tilteknum höfundum, persónulega, og eiga því erfitt með að fjalla faglega um verk höf- undanna óháð persónu þeirra. Slíkt er held- ur vafasamt, ekki einasta gagnvart lesand- anum, heldur kannski fyrst og fremst gagnvart rithöfundinum, listamanninum sem skrifar væntanlega alla jafna ekki bara fyrir núið, heldur vonar að bækur hans eigi sér líf eftir jólabókaflóðið. Enda veit ég til þess að margir hérlendir höfundar taka fremur lítið mark á gagnrýni hér þótt hún hafi hagnýtt gildi í flóðinu, en bíða þess í stað og vona að bækur þeirra komi út erlendis og fái þar faglega og réttmæta umfjöllun. Sem betur fer hefur maður sjaldan rekist á tilfelli þar sem gagnrýnandinn gerir sig hreinlega sekan um vinnusvik. Þó hef ég af og til séð bókmenntagagnrýni sem minnti ískyggilega mikið á fréttatilkynninguna frá útgefandanum eða bakkáputextann á við- komandi bók. Skemmtilegt dæmi um það að gagnrýnandi lesi ekki eða illa þá bók sem hann á fjalla um er ritdómur um Ástina fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur, þar sem ritdómarinn gerði óskaplega mikið úr táknrænu gildi þess að aðalpersónan væri nafnlaus. Hængurinn er hins vegar sá að þetta er fjarri sanni, því hún heitir Samanta eins og unnendur verka Steinunnar vita, enda kem- ur það margoft fram í þeirri merku skáld- sögu. 5. Afsökunin sem bókmenntagagnrýnendur setja fram í svona tilfellum er ævinlega sú sama: tímaskortur. Og raunar er þeim nokk- ur vorkunn, því obbinn af íslenskum skáld- skap kemur kemur út á sex vikum, frá miðjum október til nóvemberloka Bækurnar eru sendar nánast hráblautar úr prent- smiðju (eða jafnvel í próförkum) til gagn- rýnandans sem verður að skipun yfirmanna sinna að skila ritdómi eins fljótt og hægt er, helst í gær. Hvernig í ósköpunum á gagn- rýnandinn að geta lesið bókina ofan í kjöl- inn, vegið og metið bókmenntalegt gildi hennar, sett hana í samhengi við önnur verk höfundarins og annarra höfunda, lífs og lið- inna, og síðan sagt á henni kost og löst að vel athuguðu máli? Gagnrýnandanum er af- ar þröngur stakkur skorinn um tíma og rými í miðlinum, og hann þarf sannarlega að hafa bein í nefinu til að ná að hefja sig upp fyrir flatneskju og viðteknar hugmyndir. Draumur hvers gagnrýnanda er eðlilega sá að í hann sé vitnað sem víðast, að á hann sé hlustað, annars væri hann ekki að þessu brölti. Það er ósköp eðlilegt og mannlegt, því það þýðir að það sem hann eða hún hef- ur skrifað hefur snert lesandann á einhvern hátt, orðið honum minnisstætt, að skrif við- komandi hafi náð markmiði sínu. Undanfarin ár hefur þeirrar tilhneigingar gætt í vaxandi mæli, einkum sjónvarpinu, að markmið gagnrýnandans sé ekki að brjóta tiltekna bók til mergjar og kynna hana á vit- rænan hátt fyrir lesendum, heldur að kom- ast inn í hið allra heilagasta, skrifa sig inn í auglýsingu og vera boðið í útgáfuteitin. Snjöll og knöpp setning sem útgefandinn getur notað í auglýsingu (hið heilaga orð okkar tíma) tryggir gagnrýnandanum það kennivald og þá athygli sem hann þráir svo mjög. Og til að vera nothæf í auglýsingu verður gagnrýnin auðvitað að vera mjög já- kvæð. Því styttri og jákvæðari sem hún er, því meiri líkur eru á því að hún nái mark- miði sínu: hljóti blessun útgefandans og auglýsingastofunnar. 6. En aðalatriðið í þessu öllu er að það er heilmikil gróska í íslenskum samtímabók- menntum, eins og glögglega hefur sést und- anfarnar vikur. Stór hluti almenings fylgist vel með, kaupir og les nýútkomnar bækur og hefur greinilega gaman af því að skiptast á skoðunum um þær. Fólk nýtur þess að lesa bókmenntir og hugsa um þær. Heil- brigð og opin skoðanaskipti byggð á þekk- ingu hljóta að vera til góðs fyrir bókmennt- irnar í landinu. Þess vegna skiptir máli að vandað sé til þeirra, enda eru bókmennt- irnar þrátt fyrir allt enn verulegur hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga. Vitaskuld hafa orðsporið og fiskisagan um góða eða vonda bók mest áhrif á val fólks á lesefni, en ábyrgð gagnrýnenda og fjölmiðla er líka mikil eins og dæmin sanna. Hlutverk gagn- rýnenda er að vera óháðir, upplýstir les- endur, svo upplýstir og faglegir að það sé réttlætanlegt að þeir tjái sig opinberlega um þetta efni. Gagnrýnandinn verður að gæta sín á því að lenda ekki ofan í pytti hags- munapotsins og vinna eins faglega og heið- arlega og unnt er. Annað er ekki einungis óheiðarlegt gagnvart lesendum (hlustend- um, áhorfendum) heldur líka varasamt fyrir rithöfundana sem finnst lofið skiljanlega best, sama hvaðan það kemur. 7. Halldór Laxness orðaði hættuna af því sem hann kallaði „kunníngjalof“ á þennan hátt í ræðu á listamannaþingi árið 1950: „Vér höfum séð þess ýmis átakanleg dæmi, hvernig kunníngjalof hefur orðið góðum mannsefnum að hægum hvíldarfaðmi getu- lausrar sjálfsánægju þar sem allar listgáfur eru dæmdar til að lognast útaf: ekki var úngur efnilegur listamaður fyr búinn að stíga fyrstu virðíngarverðu skrefin á braut sinni en skrif úr áhrifamiklum vinum var orðið honum að unaðslegu andlegu bana- meini.“ Ég held að þessi hálfrar aldar gömlu varnarorð Halldórs Laxness séu, því miður, enn í fullu gildi, þau séu verðugt umhugs- unarefni og að ein leiðin til að heiðra minn- ingu hans nú þegar hundrað ár eru liðin frá því hann fæddist sé að reyna að lyfta bók- menntagagnrýninni á „örlítið hærra plan“ eins og þar var sagt. Það hefði honum senni- lega ekki þótt ónýt afmælisgjöf. En auðvitað kann að vera að mér skjöplist hrapallega, rétt eins og á ritnefndarfund- inum forðum. „UNAÐSLEGT ANDLEGT BANAMEIN“ ÞANKABROT UM GAGNRÝNI VIÐ UPPHAF LAXNESSÁRS „Gagnrýnandinn verður að gæta sín á því að lenda ekki ofan í pytti hagsmunapotsins og vinna eins faglega og heiðarlega og unnt er. Annað er ekki einungis óheiðarlegt gagnvart lesendum (hlustendum, áhorfendum) heldur líka varasamt fyrir rithöfundana sem finnst lofið skiljanlega best, sama hvaðan það kemur.“ E F T I R F R I Ð R I K R A F N S S O N Höfundur er bókmenntafræðingur og þýðandi. mava@mi.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.