Lesbók Morgunblaðsins - 12.01.2002, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 12.01.2002, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JANÚAR 2002 Á SÝNINGU Bernds Koberl- ings í Hafnarhúsinu eru mörg lykilverk hans frá árinu 1988 og til dagsins í dag en á þessum tíma hefur list hans tekið umtals- verðum breytingum. Verkin sem fylla tvo sali eru mörg hver gríðarstór, tveir og þrír metrar á kant, og í neðri salnum eru eldri verkin. Þar er röð svartra fleka, með bláum tónum og litum sem brjótast út úr skuggunum – bláber kemur fram á titl- unum; móskulegir sjóndeildarhringir í gulu og gráu og í sumum verkanna eru kviðpokaseiði – vitnisburður um áhugamál listamanns sem hef- ur hingað til ef til vill verið kunnari meðal margra Íslendinga sem snjall og ástríðufullur fluguveiðimaður. Í efri salnum kveður við annan tón; í stað dramatískra olíuverkanna getur að líta tærari og bjartari verk, unnin með akrýl á álplötur, og þar er náttúran önnur en ekki síður greinanleg í meðförum málarans. Innst í salnum hanga loks 39 vatnslitamyndir; svíta sem Koberling vann út frá smásagnasafni Gyrðis Elíassonar, Trega- horninu, og gefin var út á veglegan hátt í ritröð Kleinheinrich-útgáfunnar þýsku. Áður hafði Koberling málað út frá ljóðum Snorra Hjart- arsonar og Baldurs Óskarssonar. Íslensk útgáfa þessarar samvinnu Gyrðis og Koberlings kemur út hjá Máli og menningu í dag. Bernd Koberling er önnum kafinn við að stilla stórum verkunum inn í neðri salinn þegar ég hitti hann, hefur sér til aðstoðar hóp manna og málverkin eru færð fram og aftur þar til rétta staðsetningin er fundin. Við göngum síðan upp á loftið og þar er rórra meðal bjartra verkanna. Hann sýnir mér vatnslitamyndirnar sem hann gerði við bók Gyrðis Elíassonar, Tregahornið, og segist vera að skipuleggja fleiri bækur með myndskreytingum við verk íslenskra skálda; lík- lega verði ljóð eftir Sjón næst fyrir valinu. Hann vill að þetta verði allnokkur bindi í allt. Koberl- ing segist njóta þess að lesa íslenskar bók- menntir, nú síðast hafi hann lesið þýska þýðingu á bókum Jóns Kalmans Stefánssonar Skurðir í rigningu og Sumarið bakvið brekkuna og þær hafi hrifið hann mjög; það birtist heillandi sam- spil hefðar og óreiðu nútímans. Tíð vatnslitanna runnin upp Málarinn er löngu kunnur fyrir fluguveiðar hér á landi og hafa sjónvarpsmenn gert þætti um veiðiskap hans en nú segir Koberling að veiðin skipti sig sífellt minna máli; hann sé nefnilega farinn að vatnslita í staðinn. „Synir mínir, tíu og tólf ára gamlir, eru orðnir mjög spenntir fyrir veiðunum; ég sit bara á bakk- anum og mála,“ segir Bernd. „Þetta tók að breytast fyrir sex, sjö árum. Allt fram að því hafði ég verið á móti því að vinna með liti á Ís- landi. Ég sagði að liturinn væri fyrir veturinn og stúdíóið í Berlín, hér gerði ég því bara blýants- teikningar, vandi mig á að fylla eina bók af teikningum sem ég gaf konunni minni. Síðan notaði ég eina og eina teikningu fyrir tilfallandi útgáfur. Loks var tími vatnslitanna runninn upp. Þannig var að ég hafði lofað Sigga Hall að gefa honum tvær vatnslitamyndir, en hann verkaði alltaf fiskinn sem ég veiddi. Ég var að fara til Ís- lands og var ekki enn búinn að gera myndirnar en lét innrammarann minn útbúa tvo ramma, ég skar niður fimmtán arkir af vatnslitapappír og tók með mér ásamt litlum kassa af vatnslitum. Ég ætlaði að gera þessar myndir fyrir Sigga í Loðmundarfirði en það var samt ekki fyrr en undir lok dvalarinnar sem ég hófst handa við að mála, nokkrar myndanna tókust vel og það var mér hvatning til að gera meira. Árið eftir fór ég því með þrjátíu arkir og stærra vatnslitabox og byrjaði að vinna í þessu af einhverju viti. Mér þótti þetta spennandi en ég vissi samt ekkert hvað ég ætti að gera við myndirnar. Þær voru mikilvægar fyrir mig en ég vissi ekki hvort ég gæti sýnt þær.“ – Hafðirðu ekki notað vatnsliti áður? „Nei, vatnslitir hentuðu mér ekki því ég var olíumálari, myndirnar mínar voru þykkar og miklar. En raunin er sú að vatnslitir þurfa ákveðinn þroska og skaplyndi; þeir eru svo and- legur miðill, hafa ekki þennan þunga olíulitanna. Skömmu síðar sýndi ég í Springer-galleríinu í Berlín röð svartra málverka og í tengslum við sýninguna var gefin út lítil bók. Ég vissi að mál- verkin myndu ekki skila sér í prentuninni þann- ig að í staðinn setti ég í hana röð af þessum vatnslitamyndum ásamt ljósmynd af Loðmund- arfirði og annarri af konunni minni. Þetta er lítil ljóðræn bók. Útgefandinn Kleinheinrich sá hana, hafði samband við mig og sagði: „Bernd, ég vil gera bók með vatnslitamyndunum þínum og íslenskum skáldskap.“ Dag nokkurn fékk ég síðan frá honum stórt umslag með ljóðum Snorra Hjartarsonar. Snorri var uppgötvun Kleinheinrichs en ég stakk upp á bókunum með Baldri Óskarssyni og Gyrði. Hvert sumar síðan hef ég gert fjölda vatnslitamynda í ferðum mín- um hingað. Þegar ég hef komið í Loðmundarfjörð síðustu sumur hef ég byrjað á að fara að ánni, athuga hyljina og hvernig bleikjan hefur það en ég er svotil hættur að veiða. Síðasta sumar, þegar ég var að vinna að myndunum í Tregahornið, fékk ég meira að segja boð um að veiða í Hofsá en fór ekki. Ég fékk líka freistandi boð um að vera í hollinu sem opnaði Blöndu; gamall veiðifélagi var búinn að borga fyrir tvær stengur þannig að ég gat ekki annað en mætt á staðinn.“ Klæðist lérefti, málar á ál „Ég hef breyst mikið, veiðin á ekki hug minn eins og áður. Ég eyði ekki lengur vetrinum í að hugsa um hvaða flugu ég eigi að leggja fyrir lax- inn í tilteknum hyljum. Ég hef lokið þeim kafla. Ég tel að lífi mannsins megi skipta í þrjá hluta. Fyrst er æskan, þá er maður sjálfhverfur og gerir sér ekki grein fyrir gæðum lífsins. Þá kemur tímabil athafna og loks það stig þegar dauðans er beðið, og ekki í neikvæðri merkingu. Nú finnst mér ég þurfa að ljúka lífsverkinu og sinna myndlistinni meðan ég hef kraft til.“ Vinnan við vatnslitamyndirnar skilaði sér í breyttum vinnubrögðum en lykilatriði í þeirri breytingu sem hefur orðið á list Koberlings var árið 1999 þegar hann vann samkeppni um að myndskreyta 30 metra langan sveigðan vegg í þýska dómsmálaráðuneytinu. „Vegna sveigj- unnar í veggnum komu hefðbundin olíumálverk á léreft ekki til greina og ég sannfærði sjálfan mig um að ég ætti að vinna á hvítar álplötur björt verk með þunnum gagnsæjum litum. Ég varð svo hrifinn af álinu sem grunnefni að ég sagðist í framtíðinni myndu klæðast lérefti en mála á ál. Undirbúninginn fyrir þetta veggverk vann ég á Íslandi; margar vatnslitamyndir. Þetta var mjög spennandi ferli og líka framhaldið, þegar ég fór að vinna beint á álið.“ Án fegurðar er ekkert – Er erfitt að breyta svona um vinnubrögð? „Ég hef gert það allt mitt líf, hef alltaf verið að breyta um stefnu. Ég var þrítugur þegar ég fór fyrst að selja myndir, málverk sem ég strekkti dúk yfir og hélt svo áfram að vinna í. Þau urðu vinsæl en eftir fimm ár söðlaði ég um og hætti með þann stíl og þá urðu margir hneykslaðir. En þannig er ég, þarf alltaf að brjótast undan vananum, nota ný efni. Þegar ég horfi yfir þessi fjörutíu ár sem ég hef verið að mála finnst mér þetta vera ein rökrétt hreyfing. Vitaskuld veit fólk ekki við hverju það á að búast þegar maður sýnir verk sem eru gjörólík því sem áður var. Einhverjir verða pirraðir en þessi þörf fyrir breytingu er mér eðlileg og kemur að innan. Maður getur haldið áfram með sömu stíl- brögðin endalaust, gert gullfallegar myndir sem skipta engan máli lengur. Það er eins og hylur fullur af laxi en lítið vatn; þá þarf ferskan straum um hylinn til að fiskurinn taki að rísa.“ – Nú eru þessar nýju myndir þínar óneit- anlega mjög fallegar. „Schiller sagði fegurð vera fagurfræðilegt markmið. En án fegurðar er ekkert. Ég á í eng- um vandræðum með fegurð eða að eitthvað sé of fallegt; fyrir mér er fegurðin nauðsynleg sama hvernig ég er að vinna.“ – Eldri myndirnar eru oft þyngri, alvarlegri, í þeim er dramatík, en það er léttara yfir þessum nýju verkum; mikil birta. „Mér þótti sífellt erfiðara að vinna olíu- málverkin. Ég hélt áfram og áfram að vinna á sömu strigana, að reyna að ná fram hug- myndum sem voru mótaðar en efnin dugðu ekki lengur til að skila. Það var mikil áreynsla. Ég bar á lit, skóf hann aftur burtu, bar aftur á lit, eyddi honum jafnvel með sýruefni; var að leita eftir meiri tærleika. Allt voru þetta skref inn í nýja myndheiminn en þessi eins árs vinna við ráðuneytisvegginn var sem endurlausn, kaþars- is; nýju hugmyndirnar fundu sér leið. Vatnslitamyndirnar höfðu þá þegar sterk NÁTTÚRAN BJAR Náttúran í myndunum er iðulega af íslensku bergi brotin en skynjunin þýsk. Á sýningu myndlistarmannsins Bernd Koberling sem opnuð verður í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, í dag eru sýnd mikilfengleg olíumálverk, akrýl- og vatnslitamyndir þessa kunna þýska listamanns sem eytt hefur öllum sumrum frá 1977 í Loðmundarfirði. Náttúra landsins hefur haft ómæld áhrif á verk Koberl- ings, eins og hann sagði EINARI FAL INGÓLFSSYNI, og nú síðustu árin einnig verk íslenskra skálda. Sólsteinar, 2001. 150 x 150 sm. Hrygning I. 1988. 225 x 272 sm.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.