Lesbók Morgunblaðsins - 19.01.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 19.01.2002, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 19. JANÚAR 2002 A LLT í lagi, prumphænsn! Við hertökum ykkar fúla leiguskáldskap.“ (So right, yer buggers, then! We’ll occupy your lousy lease- hold Poetry!) Þannig orti skáldið frá Leeds, Tony Harrison, í þekktu ljóði Them & uz frá sjöunda áratugn- um, þar sem hann lýsti yfir stríði á hendur hinu hefðbundna enska ljóðformi þar sem mál- notkun og framburður miðast við miðstétt Suður-Englands. Kveikjan að þessu ljóði var reynsla Harr- isons sjálfs úr barnaskóla, þar sem kennarinn hæddist að honum fyrir að lesa ljóð Keats með þykkum Jórvíkurframburði. Þett’er arfgengt Hvílík furða hvernig þú varðst skáld! Hvar fékkst náðargáfa’ í kollinn þinn? Tvo frændur, Joe og Harry átti’ ég að; annar stamaði’ en mállaus var hinn. (Þýðing: Árni Ibsen.) Heredity How you became a poet’s a mystery! Wherever did you get your talent from? I say: I had two uncles, Joe and Harry one was a stammerer, the other dumb. Ævilöng kraumandi hefnd „Ég ólst upp í verkamannafjölskyldu sem las ekki bækur og öllum þótti mjög merkilegt að ég skyldi hafa þessa löngun til að lesa. Mamma sagði: „Hvað er þetta með þig, Tony minn. Af hverju ertu alltaf að lesa?“ Þeg- ar ég var 7 ára voru sett ný lög um styrki til náms fyrir börn úr fátækum fjölskyldum (The Education Act 1944). Ég stóð mig nægilega vel til að fá þennan styrk 11 ára og fjölskyldan mín sat því uppi með þennan dreng sem lærði latínu og grísku auk annars. Menntunin fjar- lægði mig frá upprunanum í vissum skilningi.“ Tony tekur þannig til orða um skáldskap sinn að hann sé ævilöng kraumandi hefnd fyrir niðurlæginguna sem hann hafi orðið fyrir sem drengur í skóla. „Við sem komum inn í bók- námsskólana með þennan bakgrunn vorum álitnir aðskotahlutir. Sumir kennaranna gerðu lítið úr okkur. Aðrir reyndust okkur vel eins og gengur.“ Tony Harrison er fæddur 1937 í Leeds í Jór- víkurskíri á Norðaustur-Englandi og hefur verið með fremstu ljóð- og leikskáldum Bret- lands um áratugaskeið. Hann var staddur hér á landi í byrjun nóvember í boði breska sendi- herrans og flutti fyrirlestur í Hátíðarsal Há- skóla Íslands og einnig ræddi hann um leik- skáldskap sinn á opnum fyrirlestri á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Undirrit- aður átti samtal við Harrison og hlýddi á fyr- irlestur hans í Þjóðleikhúsinu og er þessi við- talsgrein byggð á hvoru tveggja. „Ég hafði þá hugmynd mjög fljótlega á skáldferli mínum að ég vildi yrkja fyrir leik- hús. Verða leikskáld. Ég vildi ekki skrifa leik- rit heldur yrkja þau. Sennilega varð leið mín inn í leikhúsið langsóttari og erfiðari vegna þess. Þegar ég byrjaði að skrifa fyrir leikhúsið átti allt annars konar leikritun upp á pall- borðið.“ Harrison er af kynslóð þeirra Johns Osborne, Harolds Pinters, Edwards Bonds, Johns Ardens o.fl. sem byrjuðu að skrifa á 6. áratugnum og brutu lágstéttinni bresku leið inn í leikhúsið á 6. og 7. áratugnum. Málfar og hreimur hinna ýmsu stétta og svæða varð ríkjandi og átti Harrison samleið að því leyti en um leið varð hversdagslegt málsnið að- alsmerki höfunda hinna vinnandi stétta. „ Ég vildi yrkja leiktextann. Binda textann í stuðla og rím. Það bætti ekki úr skák að höfundar eins og T.S. Eliot og Christopher Fry höfðu nær gengið af ljóðinu dauðu í leikhúsinu á 5. og 6. áratugnum með því að reyna að leggja per- sónum í smáborgaralegu umhverfi ljóð í munn í leikritum sínum. Þetta var ekki bara yf- irgengilega leiðinlegt heldur fáránlegt og til marks um uppdráttarsýki ljóðsins í borg- aralegu leikhúsi. Vandinn var auðvitað sá að ljóðformið hentaði alls ekki því leikrit- unarformi sem þeir reyndu að troða því inn í. Ljóðið þarf mun stærra og frjálsara rými en þarna bauðst og ég var fljótlega staðráðinn í því að finna ljóðinu leið inn í leikhúsið að nýju. Ef við lítum lengra aftur þá er nærtækast að benda á Pétur Gaut og Brand eftir Ibsen sem vel heppnuð ljóðleikrit.“ Harrison fór til Austur-Afríku á 7. áratugn- um og kenndi ensku í Nígeríu í 4 ár. Þar kynntist hann leikskáldinu Wole Soyinka, sem síðar hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, og þeir áttu samstarf saman. „Í Nígeríu upp- götvaði ég hversu beint samband ljóð getur átt við áhorfendur. Ég sviðsetti „nígeríska“ leik- gerð mína af Lýsiströtu eftir Aristófanes sem vakti svo mikla athygli að hún var á endanum gefin út í Bretlandi. Merkilegt, finnst þér ekki?“ Gerir fólk úr goðsagnaverum „Tony Harrison er orðsnillingurinn á bakvið þrjá af merkustu viðburðunum í (breska) leik- húslífinu á undanförnum þremur áratugum (1970–2000),“ segir leikstjórinn Dominic Droomgoole. Viðburðirnir þrír eru Óresteian, Helgileikirnir og Fylgendur Oxyrynsus. Droomgoole segir ennfremur: „Ljóðtexti Harrisons hefur kraft, alþýðleika og grófleika sem hentar leikhúsinu frábærlega. Aðalvandi ljóðsins í leikhúsinu er hversu upptekið það er af eigin verðleikum og hversu fjarlægt það verður fyrir vikið. Það lyktar af fræðum og snobbi og hrekur burt samkenndina. Þetta er ekki vandamál fyrir Harrison. „Sjáið mig ég er í bundnu máli,“ hrópar ljóð hans á áhorfand- ann, „og ég ríma líka.“ Þunginn og krafturinn hentar fullkomlega þeim viðamiklu sögum sem hann tekst á hendur að flytja. Ljóðformið stuðlar að lýðræði og færir Guð, Jesús, Agam- emmnon, Órestes og alla hina niður á jörðina til okkar, í okkar eigið umhverfi. Þetta er hátt- ur Harrisons, að gera fólk úr goðsagnaver- um.“ (The Full Room. D. Dromgoole Methuen 2001.) Harrison brosir góðlátlega þegar ég rifja upp fyrir honum þessa lofsamlegu umsögn. „Já, umboðsmanninum mínum þótti þetta svo bitastætt að hann setti tilvitnun í kynning- artexta um verkin mín. En þessi bók vakti talsverða athygli og það er alltaf gagnlegt þeg- ar starfandi leikhúsmenn segja skoðun sína á því sem er að gerast.“ Harrison náði endanlegri fótfestu í bresku leikhúsi með nýrri leikgerð af Misanthrope eftir Moliére 1972. „Ég orti leikritið upp og færði það fram til okkar tíma og sviðsetti það í Frakklandi á valdatíma DeGaulles. Í kjölfarið fylgdi leikgerð á Fedru eftir Racine sem ég staðsetti í Indlandi á nýlendutímanum.“ Báðar þessar sýningar staðfesta sannfæringu Harri- sons á því að sígild leikrit eigi sér sterkastan hljómgrunn á hverjum tíma ef þeim er fundið skiljanlegt samhengi þannig að efni þeirra nái augum og eyrum nútímaáhorfenda. „Þetta var aðdragandinn að því að ég fékk tækifæri til að snúa mér að miðaldaleikjunum. Ég var kominn í þá aðstöðu að mér var boðið að velja mér verkefni. „Hvað langar þig næst til að gera Tony?“ spurði Peter Hall eftir Fedru. Ég svaraði: „Miðaldaleikina.“ Miðaldaleikirnir – helgileikjakeðjurnar – sem Harrison samdi að nýju og voru frum- sýndir á 7 ára tímabili af breska Þjóðleikhús- inu (1977–1984) í leikstjórn Bill Brydens mörkuðu tímamót í mörgum skilningi í bresku leikhúsi. Menningarleg örtröð síðustu áratuga 20. aldarinnar varð kannski til þess að drepa mikilvægi þessara sýninga á dreif en þó voru fjölmargir sem gerðu sér grein fyrir sérstöðu þeirra. „York-helgileikjakeðjan var sviðsett á úti- leiksviði við dómkirkjuna í York þegar ég var ungur maður (1957). Þetta var sviðsetning sem gerði verkunum nokkuð rangt til. Þau voru sýnd sem safngripir fremur en að mögu- leikar þeirra til lifandi nútímaleikhúss væru nýttir. Ég ákvað þá strax að einhvern tímann skyldi ég gera þetta efni aðgengilegt fyrir nú- tímaáhorfendur á svipaðan hátt og það var fyr- ir áhorfendur á 14. 15. og 16. öld,“ segir Harr- ison og tækifærið gafst sem áður sagði tuttugu árum síðar er Peter Hall þjóðleikhússtjórinn breski féll fyrir hugmyndinni. Horft fram hjá leiklist í 5 aldir Þó hér sé ekki svigrúm til að gera ítarlega grein fyrir sögu bresku miðaldahelgileikjanna er nauðsynlegt að nefna fáein atriði. Hið fyrsta er að allt fram á 20. öld var það nánast viðtekin skoðun breskra bókmennta- og leiklistarfræð- inga að gullöld breskrar leikritunar sem hófst á seinni hluta 16. aldar og lauk með valdatöku Cromwells 1640 hafi orðið til nánast af sjálfu sér og í mörg hundruð ár þar á undan hafi ekk- ert verið samið af leiktexta sem markvert mátti teljast. Þegar nánar var að gáð reyndist þetta fjarri öllum sanni. Í nær 5 aldir þróaðist alþýðuleiklist í Bretlandi sem sprottin var undan handarjaðri kirkjulegra yfirvalda og byggði mestan part á helgisögum biblíunnar og blandaðist með tíð og tíma í framsetningu og leikmáta við skemmtiatriði markaðs- torganna í mörgum helstu borgum landsins. Uppruna þessara helgileikjasýninga má rekja Morgunblaðið/Jim Smart „Ég þyki víst ekki mjög góð söluvara.“ „HVÍLÍK FURÐA HVERNIG ÞÚ VARÐST SKÁLD!“ Ljóðleikskáldið Tony Harrison var statt hér á landi í haust í boði breska sendiherrans á Íslandi. HÁVAR SIGURJÓNSSON ræddi við Harrison um skáldskap hans og rifjaði upp kynni sín af breskri miðaldaleiklist.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.