Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Side 5

Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Side 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. FEBRÚAR 2002 5 nefndi Samhljóm ósamhljóma lagagreina – verk sem var í senn safn og summa. Concordia Grati- ans eða Decretum eins og tekið var að kalla það, orsakaði byltingu í kirkjurétti og grundvallaði hann sem vísindagrein með höfuðstöðvar í ítölsku borginni Bologna þar sem norrænir mið- aldamenn sóttu til náms, m.a. Jón Halldórsson biskup á 13. öld. Svo og París þar sem Þorlákur Þórhallsson nam, síðar ábóti á Njáluslóðum, nánar tiltekið í Þykkvabæjarklaustri og enn síð- ar Skálholtsbiskup og dýrlingur. Decretum Gratians varð fljótlega að ómiss- andi kennslubók í kirkjurétti og sannkölluð metsölubók á evrópskum miðöldum og varla til svo klaustur eða sæmilega búin kirkja að þetta verk lægi ekki á hillu. Samkvæmt Gratian er stofnun hjónabands tvíþætt ferli: annars vegar þegar hjónin komast að samkomulagi um að eiga hvort annað og hins vegar þegar samningurinn er uppfylltur með samförum hjónanna. Það er annars vegar and- legt fyrir tilverknað samkomulagsins og líkam- legt fyrir tilverknað samfaranna. Samfarir án fyrirheits um að ganga að eigast er ekki hjóna- band og ekki heldur fyrirheit án samkomulags líkamanna. Þetta er athyglisvert með hliðsjón af dæmi Hrúts og Unnar, formálinn sem veislusveinninn fer með í veislunni á Lundi og verður til þess að Höskuldur tekur upp þykkjuna fyrir bróður sinn og lýstur hann: „Ég skal þér Mörður vera og stefna þér af konunni og finna það til foráttu, að þú hafir eigi sorðið hana“ er kórrétt upp úr Gratian. Árið 1206 bætti Innocent páfi III við ákvæði þar sem fjallað er um tilfelli þar sem hjónin gátu ekki notist vegna stærðarmunar kynfæranna. Innocent úrskurðaði að hjónabandinu mætti slíta og aðilar gætu stofnað ný. Hér er engu líkara en við séum tekin að lesa yfir öxlina á höfundi Njálu, sem reyndar virðist hafa vera öldungis ófeiminn að skrifa nokkuð beint upp úr handbókum, þarf ekki annað en minna á þrenn hjónabönd Hallgerðar sem eru eins og skýringardæmi í handbók, að ekki sé minnst á heilu og hálfu kaflana sem fljúga gæsalappalausir upp úr lögbókum inn í mála- ferlin á alþingi. *** En úr því að við erum farin að lesa yfir öxlina á höfundi Njálu má spyrja hvort þess megi ein- hvern tímann vænta að við munum fá að sjá framan í hann. Lokasetning verksins: „Ok lýk ek þar Brennu-Njáls sögu“ glottir framan í lesandann eins og áskorun. Hver er þessi „ég“? Áhuga- og atvinnumenn hafa lagt sig fram í þessari leit. Elstu handritabrot Njálu eru frá því um 1300, nánast samtíma höfundinum, en Njála er talin samin um 1280. Það gefur auga leið að afrit- arinn hefur þekkt nafn og heimilisfang þessa eftirlýstasta höfundar norrænna bókmennta. Skildi hann áreiðanlega ekki eftir sig neinar vísbendingar, oft krota skrifarar athugasemdir á spássíur handritanna, athugasemdir um veðr- ið, þeim er kalt, þeir eru svangir, stúlkan sem þeir elska er þeim afhuga. Stundum bregða þeir fyrir sig dulmáli. Var virkilega enga vísbend- ingu að finna á neinum skinnbleðli? Var tilviljun að Einar Ólafur Sveinsson sem gaf út vísindalega útgáfu Njálu á sjötta ára- tugnum, þakkaði lögreglustjóranum í Reykja- vík í formála fyrir lán á sérstökum lampa, senni- lega þeim sama og var notaður til að upplýsa sakamál. Ugglaust halda Íslendingar lengi enn áfram að leita að höfundi Njálu og félögum hans í Nafnlausa félaginu. En með nokkrum hætti mætti líka kalla þá höfunda okkar. Með því að lesa og hugleiða og afrita Njálu og systur henn- ar höfum við í leiðinni eignast þann samnefnara sem gerir okkur að þjóð. Það er enda við hæfi að við skulum ævinlega við móttöku á erlendum þjóðhöfðingjum aka með þá rakleiðis niður á Árnastofnun í stað þess að leiða þá fyrir vopnaðan heiðursvörð eins og tíðkast með öðrum þjóðum. Það væri fróðlegt að vita hvað stórmenninu finnst innst inni um þann gjörning. Íslensk mið- aldahandrit eru frábrugðin ættingjum sínum á meginlandinu sem hafa verið geymd fjarri kám- ugum höndum í rammgerðum klaustrum og dómkirkjum og höllum. Íslensk handrit eru mörg hver komin til okkar í gegnum ólýsanlega eymd um aldir þar sem þau urðu að deila kjör- um og híbýlum með íbúunum, köldum og sagga- fullum. Mér kemur í hug handrit að Njálu frá 14. öld, eitt það heillegasta sem hefur varðveist, bundið í selskinn. Ásýnd þess er skorpin og blökk eins og það hafi verið geymt nálægt hlóðum eða í reykhúsi. Manni kemur í hug eitthvert smádýr, moldvarpa eða broddgöltur, sem liggja dauð á hraðbrautinni eftir að umferðin hefur straujað yfir þau. Og samt, þessi rúst hefur að geyma þetta djásn: Brennu-Njáls sögu. Höfundur er rithöfundur. Í FYRRA endurútgaf Bókaútgáfan Salka í einni bók fyrstu tvö bindin af sögu Þóru frá Hvammi eftir Ragn- heiði Jónsdóttur: Ég á gull að gjalda (1954) og Aðgát skal höfð (1955). Núna hefur Salka sent frá sér aðra bók sem inniheldur síðari bækurnar tvær: Sárt brenna gómarnir (1958) og Og enn spretta laukar (1964). Þessi skáld- sagnakvartett Ragnheiðar Jónsdóttur er merkilegur fyrir margra hluta sakir, ekki síst þá staðreynd að í honum er sögð þroska- saga konu allt frá því hún er barn í sveita- samfélagi þriðja og fjórða áratugarins og þar til hún er menntuð skipstjórafrú í Reykjavík árið 1960. Í íslenskum bókmennt- um eru Þórubækur Ragnheiðar eitt af fáum skáldverkum þar sem hægt er að segja að um sé að ræða þroskasögu konu; reyndar er hún líklega eina dæmið um viðamikla þroskasögu þar sem kona er í hlutverki að- alsöguhetju. Hversu vel saga Þóru fellur undir skilgreininguna þroskasögu verður þó rætt nánar hér á eftir. Hvað er þroskasaga? Hugtakið þroskasaga (þýska: Bildungs- roman) var fyrst notað sem skilgreining- arheiti yfir ákveðna tegund af skáldsögum sem áttu sitt blómaskeið á síðari hluta nítjándu aldar og í upphafi tuttugustu aldar í evrópskum bókmenntum, ekki síst þýskum og breskum. Fyrirmyndin er hins vegar rak- in til átjándu aldar skáldsögu Goethes um Wilhelm Meister (1795–96). Af frægum verk- um frá blómaskeiði þroskasögunnar mætti nefna sögu Charles Dickens af Davíð Copp- erfield (1849–50) og sögu Romain Rollands um Jóhann Kristófer (Jean Christophe, 1905–12). Eins og segir í uppsláttarritinu Hugtök og heiti í bókmenntafræði eru þroskasögur „skáldsögur sem framar öðru lýsa þroska- braut söguhetjunnar frá æsku og óstýrilæti til fullrar sjálfsvitundar og aðlögunar að ytri veruleika; sú braut er mörkuð ólíkum fé- lagslegum og sálrænum áhrifaþáttum og stundum lýkur baráttu hetjunnar við sjálfa sig og umheiminn með fullum ósigri henn- ar“. Eða sigri, mætti bæta við, og á það ekki síst við eina fyrirferðarmikla undirgrein þroskasögunnar sem kalla mætti þroskasögu listamannsins (þýska: Künstlerroman). Slík- ar sögur snúast fyrst og fremst um það að lýsa því hvernig „listamaður verður til“. Frægasta dæmið hér er að öllum líkindum saga James Joyce Æskumynd listamanns (A Portrait of the Artist as a Young Man, 1914– 15) sem kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar A. Magnússonar í fyrra. Af íslenskum verk- um er Fjallkirkjan (1923–28 á dönsku, 1941– 43 á íslensku) eftir Gunnar Gunnarsson helsta dæmið um slíka þroskasögu lista- manns. Þórubækurnar falla að ýmsu leyti undir ofangreinda skilgreiningu á þroskasögu og ef marka má undirtitil allra bókanna: „Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi“, er nær- tækt að álykta að í bókunum sé lýst þroska- ferli listamanns, þ.e.a.s. rithöfundar sem hef- ur a.m.k. látið eftir sig þau minnisblöð sem mynda hið fjögurra binda skáldverk. Hvort Þóra Gunnarsdóttir frá Hvammi skrifaði fleiri bækur vitum við hins vegar ekki. Og það er ljóst í sögulok að staða hennar sem rithöfundar er ekki opinber, þvert á móti virðist hún skrifa í laumi og ef ekki væri þessi undirtitill („Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi“) hefðum við enga sönnun fyrir því að hún sé í raun og veru rithöfundur. Dagný Kristjánsdóttir sem skrifaði dokt- orsritgerð um fullorðinsbækur Ragnheiðar Jónsdóttur bendir á að allar skilgreiningar á þroskasögunni eigi sérstaklega við um sögur þar sem karlmenn eru í aðalhlutverki og að erfitt geti verið að nota þessar skilgrein- ingar á bækur kvenna. Sérstaklega á þetta við þá valkosti sem söguhetjurnar standa frammi fyrir. Dagný spyr: „[H]vaða valkosti áttu konur á nítjándu öld og framan af þeirri tuttugustu? Hvernig verður ferlið í þroska- sögum kvenna? Hvaða áhrif hefur kyn höf- undar og söguhetju á bókmenntagreinina?“1 Dagný bendir á að saga Þóru fylgi líkani þroskasögunnar á meðan hún er barn og unglingur en eftir að hún kemst á fullorð- insár tekur líkanið að brotna niður vegna þeirrar einföldu staðreyndar að valkostir kvenna voru allt aðrir og takmarkaðri en valkostir jafnaldra þeirra af karlkyni á þeim tíma sem sagan gerist á. Frásagnarmunstri hefðbundinnar þroska- sögu hefur verið lýst á eftirfarandi hátt: „Fyrst er lýsing á bernskuárum, síðar kem- ur menntun, oft háð einhverjum afarkostum, því næst fer söguhetjan út í heim og lendir í minnst tveimur ástarævintýrum, öðru nið- urlægjandi, hinu upplífgandi, og sögunni lýkur á að söguhetjan tekur sér stöðu í sam- félagi sínu, oft eftir umtalsvert sálarstríð.“2 Að mörgu leyti falla Þórubækur Ragnheiðar vel að þessari lýsingu: þær hefjast á frásögn af bernskuárunum; síðan kemur menntun sem vissulega er háð miklum afarkostum; Þóru býðst að fara út í heim en af því getur ekki orðið enda hún orðin einstæð móðir; í lífi hennar eru tveir menn, sambandið við annan er vissulega niðurlægjandi (og leiðir til barnsfæðingar) en sambandinu við hinn er varla hægt að lýsa sem upplífgandi. Reyndar einkennast samböndin við mennina tvo af mikilli togstreitu og minna þau ekki svo lítið á annan frægan þríhyrning íslenskra bókmennta, Sölku Völku, Steinþór og Arnald. Þórubókunum lýkur síðan á því að Þóra „tekur sér stöðu í samfélagi sínu, … eftir umtalsvert sálarstríð“ – en sú staða er ekki staða hins þroskaða listamanns, heldur þvert á móti staða eiginkonu og móður sem hefur þurft að bæla drauma sína og fórna þeim fyrir aðra. Þóra Gunnarsdóttir og Uggi Greipsson Athyglisvert er að bera saman Þóru- bækurnar og Fjallkirkju Gunnars Gunnars- sonar. Verkin eru um margt sambærileg: annað merkasta þroskasaga konu skrifuð af íslenskum kvenhöfundi, hitt merkasta þroskasaga karlmanns skrifuð af íslenskum höfundi (verkið reyndar frumsamið á dönsku eins og kunnugt er). Samanburðurinn sýnir einnig svo ekki verður um villst mismunandi stöðu og aðstöðu kynjanna í íslensku samfélagi á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Fjallkirkjan fellur að flestu leyti alveg að því frásagnarmunstri sem lýst er hér að framan – og Uggi stendur uppi sem sigurvegari í lokin: Hann er fjölskyldufaðir og viðurkenndur rithöfundur. Báðar þessar þroskasögur eru skrifaðar í fyrstu persónu, aðalpersónurnar eru sögumenn sinnar eigin frásagnar frá barnsaldri, gegnum þroskaárin og fram á fullorðinsár. Saga Þóru Gunnarsdóttur nær reyndar yfir lengra tímabil en á hinn bóginn er saga Ugga ítarlegri og lengri að blaðsíðutali. Uppruni þeirra Þóru og Ugga er svipaður og þau eru um margt lík. Bæði eru fædd og uppaldin í íslenskri sveit og fjölskyldur þeirra tilheyra sömu stétt. Tími verkanna er ekki alveg sá sami en skarast að miklu leyti. Uggi er fæddur um aldamótin en Þóra í byrjun þriðja áratugarins. Skapgerð þeirra er að mörgu leyti lík og eitt líkamlegt einkenni er þeim sameiginlegt: þau eru bæði rauðhærð – sem gerir þau sérstök og dálítið utangarðs (eins og títt er um rauðhærða í skáldskap!). Bæði heillast þau Uggi og Þóra af bókum, af skáldskapnum, á unga aldri. Bæði þrá þau að menntast og bera þann draum í brjósti að verða rithöfundar. Hins vegar ber mikið á milli hvað varðar afstöðu þeirra til þessa draums síns og vilja til að láta hann verða að veruleika. Samband Ugga og Þóru við mæður sínar skiptir miklu máli fyrir skapgerð og persónulýsingu þeirra beggja, en þetta samband er hins vegar gjörólíkt hjá Ugga annars vegar og Þóru hins vegar. Uggi dýrkar móður sína, enda er hún honum ætíð blíð og góð. Þegar hann missir hana á unga aldri sver hann þess eið að reisa henni verðugt minnismerki, kirkju á Fjalli, Fjallkirkjuna sem verður í óeiginlegri merkingu tákn fyrir ritverk hans: Hann verður rithöfundur fyrir móður sína. Þóru og móður hennar semur hins vegar alls ekki. Allt frá barnsaldri eiga þær í erfiðleikum sín á milli sem markast meðal annars af því að hugur Þóru stendur til annars en hefðbundins kvenhlutverks: hún er ekki sú „búkona“ sem móðirin vill að hún sé, vilji hennar og óskir ganga ætíð þvert á það sem móðirin ætlast til af henni. Þær mæðgurnar eru í raun að berjast fyrir og gegn hefðbundnu kvenhlutverki og eflaust er það tímanna tákn að þrátt fyrir mikla baráttu Þóru gegn því hlutverki kemst hún ekki undan því nema að litlu leyti. Hún hafnar hlutverki hinnar útþrælkuðu sveitakonu en lendir í hlutverki borgaralegrar húsmóður áður en yfir lýkur. Það er líka móðir Þóru sem er hennar helsti þröskuldur þegar kemur að draumi hennar um menntun og skáldskap. Móðirin hefur engan skilning á því hvað dóttir hennar hafi við menntun að gera og skilur síst af öllu heim bókanna. Afstaða Þóru sjálfrar er einnig merkilega blendin: Einum þræði þráir hún heim skáldskaparins og bókanna af einlægi en öðrum þræði ber hún óttablandna virðingu fyrir skáldskapnum og finnst hún óverðug til hlutdeildar í heimi hans: „Mig dreymir stundum um að reyna einhverntíma að skrifa bók, en ég veit ekki, hvort ég dirfist nokkurntíma að gera tilraunina. Er það ekki eins og að brjótast óverðug inn í helgidóm skáldskaparins.“ Það er kannski ekki síst þessi afstaða sem hefur verið þeim konum sem bera með sér drauminn um að skrifa fjötur um fót á sviði ritlistarinnar. Með því að lesa sögu Þóru frá Hvammi og bera hana saman við Fjallkirkjuna (eða aðrar þroskasögur karlmanna frá svipuðum tíma) fær lesandinn góða innsýn í þær mismunandi aðstæður sem körlum og konum voru búnar í íslensku samfélagi á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Það er ánægjuefni að ráðist hefur verið í að endurútgefa þennan merka skáldsagnabálk Ragnheiðar Jóns- dóttur og gera hann aðgengilegan nýjum lesendum. Heimildir: 1 Sjá Dagný Kristjánsdóttir. Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna. Háskólaútgáfan 1996, bls. 89. 2 Sama stað. Lýsingin á við nítjándu aldar þroskasögur og er tekin frá Jerome Buckley. ÞÓRA FRÁ HVAMMI OG HIN ÍSLENSKA ÞROSKASAGA E F T I R S O F F Í U A U Ð I B I R G I S D Ó T T U R Í TILEFNI AF ENDURÚTGÁFU Á MINNISBLÖÐUM ÞÓRU FRÁ HVAMMI EFTIR RAGNHEIÐI JÓNSDÓTTUR Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.