Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. APRÍL 2002 Þ AÐ hefur verið kunngjört á op- inberum vettvangi að „einn mesti viðburður á Listahátíð í vor“ verði „án efa flutningur hljómsveitarinnar Sigur Rósar, Hilmars Arnar Hilmarssonar og Steindórs Andersens kvæða- manns á Hrafnagaldri Óðins. Strax við undirbúning uppfærslu verksins hef- ur það vakið gríðarmikla eftirtekt og forvitni um allan heim, og víst er að augu heimsins munu beinast að Íslandi þegar það verður flutt hér“. (Morgunbl. 19. mars sl.) Í framhaldinu segir meðal annars: „Árið 1867 fullyrti norski fræðimaðurinn Sophus Bugge að kvæðið væri tilbúningur frá 17. öld, en kvæðið er til í papp- írshandriti frá þeim tíma. Ís- lenskir fræðimenn með doktor Jónas Kristjánsson í farar- broddi hafa hins vegar hrakið aldursgreiningu Bugges með textafræðilegum og málfræði- legum rannsóknum á kvæðinu, og hefur Jónas jafnvel talað um að hér sé á ferðinni nýtt Eddu- kvæði.“ Satt að segja hef ég undirrit- aður ekki kafað giska djúpt í rannsóknir á þessu gamla kvæði og farið mjög varlega í allar fullyrðingar um það. Ástæðan til varfærni minnar er einkum sú að kvæðið er ákaf- lega torskilið, líklega vegna þess að það mun vera mjög svo afbakað í öllum uppskriftum. En með því að ég hef nú verið kallaður til ábyrgðar fyrir end- urreisn kvæðisins og væntan- legri heimsfrægð, þá má ég ekki við bindast að reyna að varpa nokkurri ljóstýru yfir það. Í umræddri Morgunblaðs- grein segir tónskáldið góða sem hefur tekist á hendur það hlut- verk að skapa tónlist við kvæð- ið, að sennilega viti enginn „hvað það nákvæmlega þýðir“ en bætir síðan við: „Það er kannski ekkert verra fyrir okk- ur, því við getum þá farið þá leið að því sem okkur sýnist.“ Ef Hilmar Örn skyldi lesa þessar línur þá bið ég hann að skelfast hvergi; ég heiti honum því að mér mun ekki takast að finna í kvæðinu neina svo vitræna merkingu að ógnað geti tón- smíðum hans. Safn Eddukvæða verður til Áður en ég legg til atlögu við kvæðið sjálft verð ég að gera stutta grein fyrir því hversu það er til okkar komið. Hrafnagaldur var áður talinn eiga heima í þeim flokki fornra kvæða sem kölluð eru Eddu- kvæði, og eftir að hafa verið út- skúfaður um skeið virðist hann nú vera aftur á leið í sinn forna félagsskap. Eddukvæði eru fyrst og fremst þau kvæði sem varðveitt eru í svokallaðri Konungsbók, því fræga íslenska ljóðasafni sem nafn dregur af langri vist í bókasafni Danakonungs, en var skilað heim til Íslands ásamt sagnahandritinu Flateyjarbók vorið 1971. Konungsbók var rit- uð seint á þrettándu öld, segjum kringum 1270; það er að segja skömmu eftir að Íslend- ingar gengu Noregskonungi á hönd, eða um þær mundir sem Gissur Þorvaldsson, jarl kon- ungsins, var að gefa upp öndina saddur lífdaga. Fátt er kunnugt með vissu um feril Kon- ungsbókar fyrstu aldirnar, en árið 1643 komst hún í eigu Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, og hefur hann skrifað ártalið og fangamark sitt á fyrstu blaðsíðu bókarinnar. Brynjólfur biskup og samtíðarmenn hans héldu að kvæði þessi væru eftir Sæmund fróða Sigfússon, þann fræga galdramann sem prest- ur var í Odda á Rangárvöllum um og eftir 1100 (dáinn 1133). Þess vegna var kvæðasafnið kall- að Sæmundar-Edda, og loðir sú nafngift við enn í dag, þótt mönnum sé nú löngu ljóst orðið að Sæmundur prestur á engan þátt í kvæðum þessum; flest eru þau eldri en frá hans dögum og hafa lifað í munnmælum uns þau voru færð í letur af ókunnum skrifurum á 12. og 13. öld. Sjálf er Konungsbók eftirrit eldri kvæðaupp- skrifta sem síðan hafa glatast. Þótt Brynjólfi biskupi skjátlaðist um höfund kvæðanna þá skildi hann réttilega að hér hafði hann öðlast dýrmætan fjársjóð fornra fræða. Kvæði Konungsbókar voru skrifuð upp hvað eftir annað – á pappír sem þá var kominn til sögunnar, og menn reyndu eftir megni að skilja þau og kryfja til mergjar. Í uppskrift- irnar var jafnframt aukið nokkrum kvæðum sem menn töldu að væru skyldrar ættar. Sum þessara viðbótarkvæða voru tekin úr fornum handritum sem enn eru kunn, en önnur eru af óvissum uppruna vegna þess að heimildirnar eða forritin sem eftir var skrifað hafa glatast. Þannig varð til í stórum dráttum það heild- arsafn sem á vorum dögum er birt í prentuðum útgáfum undir nafninu Eddukvæði. Sam- kvæmt uppruna skiptist kvæðasafnið sem hér segir: Úr Konungsbók eru 29 kvæði: Völuspá, Hávamál, Vafþrúðnismál, Grímnismál o.s.frv. Úr öðrum fornum handritum eru 4 eða 5 kvæði: Baldursdraumar (öðru nafni Vegtams- kviða), Rígsþula, Hyndluljóð (með Völuspá hinni skömmu) og Gróttasöngur. Úr glötuðum handritum eru einnig 4 eða 5 kvæði: Gróugaldur, Fjölsvinnsmál, Sólarljóð, Hrafnagaldur Óðins og loks Getspeki Heið- reks konungs. Gróugaldur og Fjölsvinnsmál eru samstæð kvæði og kallast í útgáfum stundum Svipdags- mál. Hrafnagaldur Óðins kallast öðru nafni For- spjallsljóð, og eru venjulega hafðar báðar fyr- irsagnirnar í handritunum. Getspeki Heiðreks konungs eru Gátur Gest- umblinda sem svo kallast í útgáfu Jóns Árna- sonar (Íslenzkar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur I). Gáturnar eru að stofni til úr hinni fornu Heiðrekssögu, en hér er svörum Heiðreks kon- ungs snúið í bundið mál. Eins og vænta mátti reyndi Árni Magnússon að draga að sér þessar uppskriftir Eddukvæð- anna þegar hann tók að safna handritum seint á 17. öld. Í minnisgreinum um Eddu talar hann um „Sæmundar Eddur geysi margar“ sem verið hafa í hans eigu. Þær fórust allar í brunanum mikla 1728 – nema ein, en í henni er ekki Hrafnagaldur Óðins. En nokkr- ar af Edduuppskriftunum höfðu borist til Stokkhólms áð- ur en Árni fór að safna hand- ritum, og svo eru yngri upp- skriftir í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Lands- bókasafninu í Reykjavík. Nokkuð er misjafnt hver af viðbótarkvæðum handritanna eru tekin gild í nútíma útgáfum. Til að mynda er Sólarljóðum stundum sleppt, en stundum eru þau prentuð sem „viðauki“ eða „bókarauki“. Þau þykja eiga illa heima í flokki með hin- um heiðnu Eddukvæðum af því að þau eru kristið helgikvæði; en hátturinn, sem er ljóðahátt- ur, tengir þau við Eddukvæðin, og heilræðin minna á Hávamál. – Hrafnagaldur hefur mátt búa við mjög misjafnt atlæti. Stund- um hefur hann verið tekinn full- gildur sem Eddukvæði, en stundum lokaður úti. Hefðargripur eða hornreka Í fyrsta sinn var Hrafnagald- ur gefinn út á prent í 1. bindi hinnar miklu Edduútgáfu Árnanefndar í Kaupmannahöfn 1787, og annaðist þá útgáfu Guðmundur Magnússon forn- ritafræðingur (1741–98). Guð- mundur studdist við skýringar eftir séra Gunnar Pálsson í Hjarðarholti (1714–91). Hann kveðst hafa glímt við kvæðið í fulla fjóra mánuði, en með litlum árangri. En honum er kunnugt um að fleiri hafi átt í slíku basli; hann segir að Eirík- ur Hallsson í Höfða, íslenskt góðskáld á 17. öld, hafi rann- sakað kvæði þetta í áratug og fleygt því frá sér með þeim um- mælum að hann skildi lítið eða ekkert í því. Engu að síður neyðist Guð- mundur til að fjalla nokkuð um kvæðið í útgáfu sinni og birtir þýðingu þess (að sjálfsögðu á latínu) ásamt lærðum skýring- um. Og margt í skilningi og skýringum Guðmundar lifir síð- an áfram í skrifum yngri fræði- manna og þýðingum kvæðisins á ýmsar nútímatungur. En Hrafnagaldur var ekki eina Eddukvæðið sem reyndist fyrri mönnum seigt undir tönn – enda raunar margt sem vefst fyrir skýrendum kvæða þessara enn í dag. Því var að vonum að menn legðu hinn torráðna Hrafnagaldur að jöfnu við önnur Eddukvæði til útgáfu og rann- sókna; allt var þetta ærið strembið hvort sem var. Hrafnagaldur var tekinn sem fullgilt forn- aldarkvæði allt fram til 1867 þegar norski fræðimaðurinn Sophus Bugge gerði úr garði hina fyrstu nútímalegu textaútgáfu Eddu- kvæða sem fyrr getur. Þetta er enn í dag helsta handritaútgáfa kvæðanna; en þótt hún væri vönduð og fróðleg á sínum tíma þá stendur hún nú til bóta á ýms- an hátt. Eitt af því sem sýnist þurfa endurskoðunar við er dómur Sophusar Bugge um aldur Hrafnagaldurs. Eins og fram kemur í marg- HRAFNAGALDUR ÓÐINS – FORSPJALLSLJÓÐ FORNKVÆÐI REIST ÚR ÖSKU Sigurrós frumflutti tónverkið Hrafnagaldur Óðins við samnefnt kvæði um síðustu helgi í Barbican Center í London. Verkið verður síðan flutt á Listahátíð í Reykja- vík 24. maí næstkomandi. Hér er fjallað um kvæðið sem talið er tilheyra Eddukvæðum en það þykir með allra torræðasta skáldskap af því kyni. E F T I R J Ó N A S K R I S T J Á N S S O N Elsta handrit Hrafnagaldurs, skrifað um 1670 af ókunnum skrifara. Konungsbókhlaða í Stokkhólmi, Stock. papp. octavo nr. 15. SJÁ SÍÐU 6.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.