Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. APRÍL 2002 11 Hvaða yfirráðarétt hefur Ísrael á hernumdum svæðum Palestínu? SVAR: Ísraelsmenn hafa engan rétt til yfirráða á hernámssvæðunum í Palestínu. Til þess að skilja það betur er hins vegar nauðsynlegt að líta aftur í tímann. Ísraelsmenn lögðu svæðin undir sig í stríði sem þeir hófu gegn nágrannaríkjum sínum árið 1967. Þótt þeir hafi verið árás- araðilar í því er rétt að hafa í huga að ná- grannaríki Ísraels höfðu haft í hótunum um langt skeið. Herseta Ísraelsmanna á her- teknu svæðunum brýtur hins vegar í bága við alþjóðalög. Hún er einnig í trássi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eins og síðar verður vikið að. En fyrst skulum við líta enn lengra aftur í tímann. Ísraelsríki varð til eftir að Sam- einuðu þjóðirnar (SÞ) undir forustu Banda- ríkjanna, Sovétríkjanna og Breta skiptu Palestínu til helminga milli gyðinga og Pal- estínumanna árið 1947, en landið hafið áður verið undir stjórn Breta. Palestínumenn sættu sig ekki við þetta enda voru þeir í miklum meirihluta í land- inu og höfðu búið þar um aldir og árþús- undir. Fáum áratugum áður höfðu gyðingar verið örlítill minnihluti í landinu en með of- sóknum og fjöldamorðum nasista fluttu stórir hópar gyðinga frá Evrópu, einkum til Bandaríkjanna og Ísraels. Land í eigu gyð- inga í Palestínu var á þessum tíma um það bil 7% alls lands. Ríki Palestínumanna var ekki stofnað um leið og Ísrael þar sem þeir sættu sig ekki við að halda aðeins helmingi lands síns. Í stríði sem braust út náðu gyðingar hins vegar undir sig helmingi þess lands sem Palestínumönnum hafði verið úthlutað og réðu eftir það 78% af Palestínu. Það sem á vantaði var Vesturbakki Jórdanárinnar og Gazaströndin. Þau svæði lögðu Ísraelsmenn síðan undir sig árið 1967 og réðu þá allri Palestínu. Það eru einungis þessi síðast herteknu 22% af Palestínu sem nú eru nefnd herteknu svæðin, þótt stór hluti Ísr- aelsríkis sé á svæði sem hertekið var árið 1948. Vandi flóttamanna er einn erfiðasti hluti þessarar deilu og snýr beint að þessari fyrri stækkun Ísraels. Nær ein milljón manna flúði heimili sín við fæðingu og stækkun Ísraelsríkis 1947-1948. Fólkið var ýmist flutt burt með nauðungarflutningum ísraelskra hersins eða hrakið á brott með ógnunum. Þar áttu ekki síst í hlut hryðju- verkasamtök gyðinga undir stjórn Begins, síðar forsætisráðherra Ísraels, en þau frömdu fjöldamorð í byggðum Palest- ínumanna og hótuðu fólki að halda því áfram ef það kæmi sér ekki á brott. Þetta fólk og afkomendur þess búa nú í flótta- mannabúðum. Annars vegar eru þessar flóttamannabúð- ir á herteknu svæðunum, sem komust mjög í fréttir á vordögum 2002, og hins vegar í löndunum í kring. Palestínumenn eru alls tæplega 8 milljónir talsins en þar af eru um það bil 5 milljónir flóttamenn. Samkvæmt alþjóðalögum og -sam- þykktum hafa flóttamenn fullan rétt til þess að snúa aftur til heimkynna sinna. Ákvæði þessa efnis eru m.a. í Mannréttinda- yfirlýsingu SÞ, í alþjóðasáttmálanum um borgaraleg og pólitísk réttindi, í Genf- arsáttmálanum og í ítrekuðum ályktunum allsherjarþings SÞ. Einnig halda sumir því fram að sú stefna Ísraelsmanna að banna arabískum flóttamönnum að snúa til heimila sinna á sama tíma og gyðingar frá öðrum heimsálfum eru hvattir til að flytja til landsins og setjast að á herteknum svæðum sé brot á alþjóðasáttmála um bann við kyn- þáttamisrétti. Fyrsta ályktun öryggisráðsins um að Ísr- aelsmenn skuli hverfa af öllum herteknu svæðunum frá 1967, ályktun 242, var gerð árið 1967, en ályktanir öryggisráðsins eiga að vera bindandi fyrir ríki heims. Að auki brýtur stefna og framferði Ísraelsmanna á herteknu svæðunum í bága við fjölda al- þjóðalaga og alþjóðlegra samþykkta. Þar má nefna Genfarsáttmálann en í 49. grein hans er bannað með skýrum hætti að þegnar hernámsveldis setjist að á hertekn- um svæðum. Um það bil 400 þúsund Ísra- elsmenn hafa sest að í svokölluðum land- nemabyggðum á herteknu svæðunum, um helmingur þeirra í kringum Jerúsalem en þá borg hafa Ísraelsmenn þanið út yfir her- tekin landsvæði í trássi við ákvæði Genf- arsáttmálans. Flestar þessara ólöglegu byggða eru á Vesturbakkanum en þær eru þó einnig á Gazaströndinni þar sem 360 fer- kílómetrum lands er skipt þannig að á ein- um þriðja búa fimm þúsund Ísraelsmenn en á tveimur þriðju ein milljón Palest- ínumanna. Í 46. grein Haag-sáttmálans er eignaupp- taka hernámsveldis á landi og öðru í einka- eign á hernumdum svæðum með öllu bönn- uð. Landnemabyggðirnar, eða byggðir landtökumanna eins og þær eru líka stund- um kallaðar, eru þó margar reistar á landi sem Ísraelsmenn hafa beitt valdi til að gera upptækt. Á hernámssvæðunum á Vest- urbakkanum hafa Ísraelsmenn einnig lagt vegi á milli landnemabyggða á landi sem Ísraelsmenn hafa gert upptækt úr einka- eign Palestínumanna. Vegirnir kljúfa byggðir Palestínumanna í sundur en Palest- ínumönnum er bannað að nota þá. Vegirnir eru beinlínis lagðir með það í huga að skipta landi Palestínumanna niður í tugi eða jafnvel hundruð einangraða skika eins og augljóst verður af athugunum á kortum að þessum svæðum, en bæði byggðirnar og framkvæmdir við vegina eru augljós brot á alþjóðasamþykktum. Í ályktun öryggisráðsins númer 465 segir líka að flutningur Ísraelsmanna á eigin þegnum til hernámssvæðanna sé „alvarleg hindrun“ í vegi friðar og í ályktuninni er þess krafist að Ísraelar hverfi frá land- nemabyggðum á herteknu svæðunum. Vatn er af skornum skammti í Palestínu og notk- un Ísraelsmanna á vatni af svæðum Palest- ínumanna brýtur einnig í bága við alþjóða- samþykktir, enda er þarna um að ræða eignaupptöku á langmikilvægustu auðlind landsins. Landtökumönnum mun vera út- hlutað 1.450 kúbikmetrum af vatni á mann á ári en Palestínumenn hafa einungis 83 kúbikmetra á mann til sinna umráða á ári hverju. Allt athafnalíf og daglegt líf á svæð- um Palestínumanna líður því mjög fyrir vatnsskort. Jón Ormur Halldórsson, stjórnmálafræðingur. HVAÐA YFIRRÁÐA- RÉTT HEFUR ÍSRAEL Á HERNUMDUM SVÆÐUM PALESTÍNU? Á Vísindavef Háskóla Íslands hefur að undan- förnu verið fjallað um kosti og galla klónunar, hvort til séu sérstakir íslenskir steinar, hvort böðull Jóns Arasonar var ís- lenskur glæpamaður eða danskur embættismaður, hvort galdrar séu til og hvers vegna fyrsta síðan í bókum er kölluð saurblað. VÍSINDI alltént ljóst að hún er mun skyldari hefðbundn- um hugtökum um eðli og tilgang lífsins í anda hinnar forngrísku frumspeki en viljalögmál hinnar nietzscheísku heimspeki er. Viljalögmálið ber vott um hrátt raunsæi um líf mannsins sem viljaveru og um baráttu vilja um völd. Nietzsche átti sér þá ósk að þetta raunsæi myndi hleypa eldmóði í nútímamann- inn sem tækist á við líf sítt af meiri festu en áð- ur enda tæki hann það nú fyrst í eigin hendur. Ákall Nietzsches er drifið áfram af lífstilfinn- ingu sem skynjar á ofsafenginn hátt tómhyggj- una og þá tilvistarkvöð að taka ákvörðun um eigið líf sem hún kyndir undir. Guð og guðleysi Það er álitamál hvort nútímamaðurinn skynji jafn nöturlega tómarúmið sem Guð skildi eftir sig, eins og Nietzsche hélt að hann myndi gera eða tómið þar sem hin fjarverandi vera minnir á sig samkvæmt Heidegger. Ef svo er ekki kunna í fljótu bragði að vera tvær skýringar á því. Í fyrsta lagi er hugsanlegt að guðleysi valdi ekki sálarangist í sama mæli og spámenn tómhyggj- unar töldu að myndi gerast. Það á alla vega við um hinn afblekkta nútímamann sem finnur ekki hjá sér þörf fyrir að fara út yfir mörk hins endanlega í hugsun sinni (og þá væru aðrar megin skýringar á sálarkreppum nútímafólks en guðleysið). Hin skýringin væri sú að hug- myndir okkar um Guð hafa breyst á síðari hluta 20. aldar. Sá Guð sem Nietzsche tilkynnti að við mennirnir hefðum gengið af dauðum samræm- ist ekki nema að litlu leyti þeim hugmyndum sem fólk gerir sér um guðlega veru eða guð- legan kraft nú á dögum. Útbreiðsla guðleysis á 20. öld hefur haldist í hendur við margvíslega viðleitni til að viðhalda yfirskilvitlegri, guðlegri vídd í lífi okkar. Sagt hefur verið skilið við margt í mynd þess Guðs sem Nietzsche barðist við og var í ætt við verndandi og refsandi föður. Við tekur mun óræðari hugmynd um Guð, sem jafnvel minnir á veruhugmynd Heideggers. Slíkur Guð er hins vegar ekki viðfangsefni heimspekinnar, heldur guðfræði, trúarbragða- fræði, sálfræði, lista, jafnvel þeirrar háfleygu tegundar fræðilegrar eðlisfræði sem leitast við að ráða í samhengi alheimsins. Heimspekin hefur losað sig við slíkar spurn- ingar, enda sagði Heidegger sjálfur að sín hugsun um veruna færi út yfir mörk heimspek- innar. Í frægu viðtali sem tímaritið Der Spiegel tók við Heidegger (með því skilyrði að það yrði ekki birt fyrr en að honum látnum) var hann bölsýnn á möguleika mannsins og fullyrti „að- eins annar Guð getur bjargað okkur.“ Hinn ungi Wittgenstein sem vísaði allri frumspeki á bug með þeim fleygu orðum að um það sem maður geti ekki talað eigi maður að þegja, sagði engu að síður að verk sitt Tractatus logico- philosophicus væri skrifað Guði til dýrðar. Þeir heimspekingar sem hafa haldið í trú á Guð hafa ekki allir haldið sig við hreinleikaboð Wittgen- steins um að halda hinu guðlega utan heim- spekilegrar rökræðu. Þeir streitast við að halda lífi í eldi guðfræðilegrar frumspeki sem raunar er varla meira en glæðurnar nú á dögum. Hin fyrsta og síðasta heimspeki Jafnvel þótt Kant teldi að svör við frum- spekilegum spurningum, eins og t.d. um ódauð- lega sál, geti ekki verið á færi mannlegrar skynsemi var hann engu síður þeirrar bjarg- föstu skoðunar að það væri manninum „nátt- úrulegt“ að spyrja slíkra spurninga. Hann gæti ekki annað en spurt þeirra jafnvel þótt hann fengi aldrei fullnægjandi svör við þeim. Arthur Schopenhauer tók í sama streng þegar hann staðhæfði að maðurinn væri í eðli sínu haldinn „frumspekilegri þörf“ fyrir að spyrjast fyrir um hinstu rök lífsins. Ef aftur er litið til þeirrar manngerðar sem telur sig afblekkta, lætur sig engu varða slíkar spurningar og gerir sig ánægða með raunvís- indalega heimssýn hverju sinni, blasir við að skoðun þeirra Kants og Schopenhauers á ekki við um alla menn. Ef við hugsum þessa mann- gerð áfram þá er ugglaust hægt að segja að hún aðhyllist leynt eða ljóst kenningu Nietzsches um lífið sem baráttu vilja um völd. Lífið snýst um að halda velli, komast af og reyna að lifa vel, helst án sálarháskans sem hetja Nietzsches getur ratað í. Að lifa vel miðast því iðulega við að reyna að halda dauðanum fjarri okkur, leiða ekki hugann að endanleika eigin lífs að nauð- synjalausu. Slíkt lífsviðhorf líkist þeirri útvötnuðu sæld- arhyggju í anda Epíkúrosar sem þýski heim- spekingurinn Herbert Schnädelbach segir vera lífsspeki okkar samtíma, alla vega í okkar heimshluta. Við reynum að lifa góðu lífi, búum um okkur í garði okkar, eins og Epíkúros gerði, höldum okkur utan við pólitískan og félagsleg- an skarkala. Við brjótum ekki heilann allt of mikið, alla vega ekki meira en góðu hófi gegnir. Þau okkar sem sækja í andlega iðju gera það til að bæta líðan sína, allt miðist við að auka ánægju og forðast vanlíðan. „Vörurnar“ á hin- um frumspekilega og trúarlega markaði fal- bjóði leiðir til sálrænnar vellíðunar sem maður lifi samt ekki eftir. En hvað um það, maður leit- ast við að rækta garðinn sinn og það gildir líka um heimspekina sem fæst við vandamál sem hún ræður við, sem eru í mörgum tilfellum „smáatriðavandamál“. Ber þessi lýsing Schnädelbachs ekki vott um menningarbölsýni? Jú, vissulega, enda gefur ástand mála í heiminum ekki tilefni til annars. Að því leyti tekur Schnädelbach ekki á smámáli með þessum skrifum sínum um ríkjandi ástand. En það er verkefni fleiri en heimspekinga að gagnrýna samtímann. Það er verkefni sem við stöndum ævinlega frammi fyrir, óháð því hvort við erum heimspekingar eða ekki. Heimspekin hefur sínu hlutverki að gegna í þeirri gagnrýni, og hún sinnir því m.a. með því að fást við sín „smáatriðavandamál.“ Frumspeki samtímans er þess vegna öllu hæverskari en hin hefð- bundna frumspeki vegna þess að hún leyfir sér ekki þá vil að vera stóryrt um hinstu rök lífsins. Líkast til er það er af hinu góða þótt okkur kunni að finnast það heldur lítið á stundum. Heimspekin myndi þróast út í frumspeki af síð- ustu sort ef hún færi að boða heildarlausnir á andlegri og samfélagslegri kreppu samtímans. Djúpstæður efi fer henni betur. Aðalsmerki heimspekinnar á 20. öld hefur nefnilega verið gagnrýnin afstaða til heildar- lausna og alræðishyggju af öllu tagi. Hlutverk hennar hefur því verið að greina og skýra vand- ann fremur en að leggja til lausnir á honum. Verk hennar getur falist í að grafast fyrir um og gagnrýna þau hugmyndakerfi sem ráða mestu í samfélögum okkar hverju sinni eins og efnishyggju samtímans, en einnig í því að fást við afar venjuleg vandamál sem koma upp í daglegu lífi okkar og snerta sjálfs- og verald- arskilning okkar. Hún gerir það t.d. með því að skýra hugmyndir hinnar svokölluðu heilbrigðu skynsemi sem gerir sér oftar en hana grunar rangar hugmyndir um heiminn. Hún gerir það með því að varpa gagnrýnu ljósi á skýringartil- gátur vísindanna sem telja sig helsta upplýs- anda hinnar heilbrigðu skynsemi, en eru oft fangin í ýmis konar óígrunduðum hugmyndum. Sú staðreynd að vísindin geta ekki svarað mörgum spurningum nema takmarkað lætur heimspekinni einnig í té verkefni. Rannsóknir taugalífeðlisfræðinnar geta til að mynda upp- lýst okkur um lífeðlisfræði vitundarstarfsemi okkar. En það breytir ekki því að öllum okkar athöfnum fylgir það innsæi að við séum höf- undar þeirra og berum ábyrgð á þeim, án þess að vísindin geti útskýrt þá staðreynd. Þess vegna eru frumspekilegar hugleiðingar um frelsi viljans, hvað það merki að vera sjálf, enn jafn áleitnar nú á dögum og þær hafa alltaf ver- ið. Sama gildir um samband sálar og líkama sem raunvísindaleg hugsun ræður ekki við. Heimspekileg greining slíkra vandamála leiðir ekki nauðsynlega til endanlegra lausna. Hin fyrrum „fyrsta heimspeki“ er í raun orðin hin „síðasta heimspeki“. Það má þess vegna lýsa frumspekinni sem nokkurs konar hæli fyrir hinar óleysanlegu spurningar heimspekinnar. Samkvæmt boði rökgreiningarheimspekinn- ar hefur þessi hælisvist læknandi hlutverki að gegna. Jürgen Habermas hefur sagt að hin læknandi aðferð heimspekinnar ein og sér dugi ekki til að heimspekin standi undir nafni. Heim- spekin þurf einnig að vera frelsandi, þ.e.a.s. að miðla þekkingu sem hafi frelsandi áhrif á manninn og samfélagið. Habermas hefur fyrst og fremst í huga þá heimspeki sem vinnur að því að greina skilyrði fyrir réttlátari heimi þar sem maðurinn fær notið frelsis síns. Þær ráð- gátur sem frumspeki samtímans reynir að kryfja hafa ekki beint með samfélagslegan og stjórnmálalegan veruleika mannsins að gera. Til þess eru þær of sértækar. Frumspekileg iðja er tjáning á annars konar frelsi sem engin samfélagsleg höft geta hamið. Frelsi mannsins til að eiga sér umhugsunarefni sem eru handan hins áþreifanlega. Sem er jafnframt frelsið til að hugsa um það sem er „óhugsandi“ og getur þess vegna verið andóf af æðra tagi gegn van- köntum veruleikans sem við búum við. Eða, svo Nietzsche hafi síðasta orðið, óður til lífsins. Heimildir: Sigmund Freud, Blekking trúarinnar, í þýðingu Sigur- jóns Björnssonar, Hið íslenska bókmenntafélag, 1993. Jürgen Habermas, Nachmetaphysisches Denken, Frankfurt M.: Suhrkamp, 1988. Jürgen Habermas, „Heimspekin sem staðgengill og túlk- andi“, í Robert Jack og Ármann Halldórsson (ritstj.), Hvað er heimspeki?, Háskólaútgáfan, 2001. Martin Heidegger, Hvað er frumspeki? , óbirt þýðing Magnúsar D. Baldurssonar. Martin Heidegger, Nietzsche, Pfullingen: Neske, 1961. Martin Heidegger, „Aðeins annar guð getur bjargað okkur“, óbirt þýðing Kristjáns G. Arngrímssonar á við- tali við Heidegger, „Nur noch ein Gott kann uns retten“, Spiegel, 31. maí, 1976. Friedrich Nietzsche, Svo mælti Zaraþústra, í þýðingu Jóns Árna Jónssonar, inngangur eftir Sigríði Þorgeirs- dóttur, Háskólaútgáfan, 1996. Herbert Schnädelbach, „Nietzsche und die Metaphysik des 20. Jahrhunderts“, í Deutsche Zeitschrift für Philo- sophie 1/2001. Sigríður Þorgeirsdóttir, „Metaphysik“, í Henning Ott- mann (ritstj.), Nietzsche Handbuch, Stuttgart: Metzler, 2000. Ludwig Wittgenstein, Bláa bókin, í þýðingu Þorbergs Þórssonar, inngangur eftir Þorstein Gylfason, Hið ís- lenska bókmenntafélag, 1998. Höfundur er dósent í heimspeki við Háskóla Ís- lands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.